Fara beint í efnið

Prentað þann 21. des. 2024

Stofnreglugerð

1160/2021

Reglugerð um veiðar á kröbbum.

1. gr. Almennt.

Allar veiðar á kröbbum í gildrur í fiskveiðilandhelgi Íslands eru óheimilar nema að fengnu sérstöku leyfi Fiskistofu. Undir þessa reglugerð falla allar krabbategundir, svo sem trjónukrabbi, grjótkrabbi og gaddakrabbi.

2. gr. Krabbaveiðileyfi.

Leyfi til veiða á kröbbum skulu gefin út fyrir hvert fiskveiðiár. Ráðherra er heimilt að fela Fiskistofu að fella úr gildi öll leyfi til krabbaveiða sé talin ástæða til að takmarka veiðarnar eða endurskipuleggja stjórnun þeirra.

Aðeins þeir bátar, sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni eiga kost á leyfi til krabbaveiða í gildrur.

Heimilt er að binda útgáfu leyfa til veiða ákveðnum skilyrðum, m.a. skýrsluskilum um veiðarnar, hámarksstærð báta, stærð og gerð veiðarfæris, veiðitímabil o.s.frv.

Í umsókn skal meðal annars koma fram hvar veiðar eru fyrirhugaðar og gerð gildra.

Krókaaflamarksbátum sem fá leyfi til veiða á kröbbum samkvæmt reglugerð þessari er heimilt að veiða krabba með gildrum, sbr. 7. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

Leyfi til veiða á kröbbum er óheimilt að framselja.

3. gr. Veiðarfæri, vitjun og merking lagna.

Óheimilt er að nota önnur veiðarfæri við krabbaveiðar en þar til gerðar gildrur sem uppfylla skilyrði sem fram koma í reglugerð þessari. Hámarksfjöldi gildra fyrir hvert skip eru 2000 gildrur í sjó.

Merkja skal gildrur og trossur með númeri og skal leggja gildrur og trossur í númeraröð.

Gildra skal vitja eigi síðar en 10 sólarhringum eftir að þær eru lagðar í sjó. Frá þessu má aðeins víkja ef veður hamlar sjósókn með þeim hætti að ekki reynist unnt að vitja gildra og skal skipstjóri tilkynna Fiskistofu liggi gildrur viðkomandi skips lengur en 20 sólarhringa án þess að hafa verið vitjað. Framangreint á einnig við um óbeittar gildrur.

Gildrubaujur skulu vera á báðum endum gildrulínu og allar merktar með flaggi sem komið er fyrir efst á baujustönginni. Gildrur, niðurstöður, gildrubaujur, gildrubelgir og baujuflögg skulu, með varanlegri merkingu, vera greinilega merktar umdæmisnúmeri eða skipaskrárnúmeri þess skips sem notar þær. Stafir á baujuflöggum og belgjum skulu vera stórir og skýrir.

Leggi skip gildrur sínar á svæði þar sem togveiðar eru heimilar, er skylt að auðkenna vestari enda gildrulagnar með hvítu blikkljósi og radarspegli.

Frá og með 1. september 2023 skulu allar gildrur vera þannig útbúnar að þær opnist innan árs hafi þær glatast í sjó.

4. gr. Veiðibann.

Ekki er heimilt að koma með að landi karlkyns trjónukrabba sem eru undir 60 mm skjaldarbreidd, karlkyns grjótkrabba undir 100 mm skjaldarbreidd eða karlkyns gaddakrabba undir 90 mm skjaldarbreidd.

Ekki er heimilt að koma með að landi lifandi kvenkynskrabba af öllum tegundum (sjá skýringarmyndir í fylgiskjali).

Allar veiðar á kröbbum í gildrur og/eða gildrulagnir eru bannaðar á skilgreindum humarsvæðum, sbr. reglugerð um veiðar á humri.

5. gr. Refsingar og viðurlög.

Fiskistofu er heimilt að svipta skip leyfi til krabbaveiða vegna brota á ákvæðum leyfisbréfa og ákvæðum laga og reglugerða, sem lúta að stjórn veiða og nýtingu nytjastofna. Missi skip leyfi til veiða í atvinnuskyni fellur jafnframt úr gildi leyfi til veiða þessara tegunda.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

6. gr. Gildistaka og lagastoð.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 2. mgr. 6. gr., 2. mgr. 7. gr., 9. gr. og 14. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og 1. og 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

Reglugerðin öðlast þegar gildi. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 671/2018 um veiðar á kröbbum.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 30. september 2021.

Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Áslaug Eir Hólmgeirsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.