Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 21. júní 2018

1150/2008

Reglugerð um innritun nemenda í framhaldsskóla.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til innritunar nemenda í framhaldsskóla, fyrirkomulags hennar og málsmeðferð.

2. gr. Innritun, réttur til náms.

Þeir sem lokið hafa grunnskólanámi, hafa hlotið jafngilda undirstöðumenntun eða hafa náð 16 ára aldri, eiga rétt á að hefja nám í framhaldsskóla og að stunda nám í framhaldsskóla til 18 ára aldurs enda haldi þeir almennar skólareglur, sbr. 33. gr. a og 33. gr. b. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla.

Framhaldsskóla er heimilt að gera sérstakar kröfur um undirbúning og námsárangur vegna innritunar á einstakar námsbrautir framhaldsskóla enda miði þær að því að bjóða nemendum upp á nám sem hæfir undirbúningi þeirra, sbr. 2. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla.

Framhaldsskóla er heimilt að veita nemendum sem eiga lögheimili í nágrenni skólans forgang að skólavist á öðrum námsbrautum en þeim er fela í sér sérhæft nám.

Í þeim tilvikum þegar velja þarf úr stórum hópi umsækjanda er framhaldsskóla einnig heimilt að taka mið af viðbótargögnum sem nemandi kýs að senda með umsókn sinni, eins og staðfestar upplýsingar um þátttöku og árangur í félagsstarfi, öðru námi, keppnum af ýmsu tagi, svo sem íþróttum, listum, tungumálum og raungreinum og niðurstöður samræmdra könnunarprófa.

3. gr. Kröfur um undirbúning.

Nemendur, sem lokið hafa skyldunámi í samræmi við ákvæði aðalnámskrár grunnskóla, geta innritast á námsbrautir framhaldsskóla. Kröfur um undirbúning og önnur skilyrði innritunar skulu miðast við skólaeinkunnir við lok grunnskóla og aðra þætti sem miða að því að nemendur hafi nægan undirbúning til að takast á við nám á viðkomandi námsbraut.

Kröfur um sérstakan undirbúning vegna náms á tilgreindum námsbrautum, svo sem á verknáms- og listnámsbrautum, skulu byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og taka m.a. mið af:

  1. frammistöðu nemenda í námsgreinum í grunnskóla,
  2. því hvort nemandi hafi lagt stund á samsvarandi nám í grunnskóla eða sérskóla með fullnægjandi árangri eða geti með öðrum hætti fært rök fyrir því að námið henti honum,
  3. öðrum þáttum, s.s. raunfærnimati, sem varpað geta ljósi á getu nemenda til þess að fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru til náms á viðkomandi námsbraut,
  4. sérkennum skóla sem fram koma í áherslum og stefnumörkun hans og nánar er lýst í skólanámskrá.

Skólameistari getur heimilað nemendum, sem ekki uppfylla skilyrði til innritunar að fullu, að hefja nám á viðkomandi námsbraut ef telja má líklegt að þeir standist þær kröfur sem gerðar eru um námsárangur.

4. gr. Skólasamningar.

Í samningi skóla og menntamálaráðuneytis, sbr. 44. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla, skal kveðið sérstaklega á um skyldur einstakra framhaldsskóla við innritun nemenda og þær forsendur og kröfur sem skóli leggur til grundvallar innritun nemenda.

5. gr. Skólanámskrá.

Framhaldsskóli gerir í almennum hluta skólanámskrár grein fyrir starfsemi skólans, helstu áherslum og stefnumörkun, námsframboði og skipulagi náms, námsmati, ráðgjöf og þjónustu við nemendur, sbr. 22. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla. Í skólanámskrá skal jafnframt birta þær forsendur sem lagðar er til grundvallar við mat á umsókn um innritun og þær kröfur sem skóli gerir til undirbúnings náms á einstökum námsbrautum.

6. gr. Auglýsing um innritun, umsóknir.

Menntamálaráðuneyti ákveður fyrirkomulag innritunar í framhaldsskóla og gefur út leiðbeiningar til umsækjenda um frágang umsókna. Landið er eitt innritunarsvæði.

Ráðuneytið auglýsir umsóknarfrest um skólavist í framhaldsskólum. Til að umsóknir um skólavist teljist gildar verður að skila þeim áður en umsóknarfrestur rennur út.

7. gr. Innritun og málsmeðferð.

Innritun nemenda er á ábyrgð skólameistara. Skólameistari tilkynnir umsækjendum um afgreiðslu umsókna þeirra. Nemendur sem fengið hafa skólavist skulu staðfesta veitta skólavist með greiðslu innritunargjalds. Synji skólameistari umsókn á umsækjandi rétt á rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun.

Við mat á umsóknum ber skólameistara að taka mið af kröfum skólans um undirbúning, sbr. 2. mgr. 2. gr., 3. gr., almennum viðmiðum í skólanámskrá, ákvæðum 4. gr. um skólasamninga og gæta að öðru leyti samræmis og jafnræðis við mat á sambærilegum umsóknum.

Eftirfarandi forgangsröðun umsókna skal lögð til grundvallar við innritun tilgreindra nemendahópa:

  1. nemendur sem flytjast milli anna eða skólaára í núverandi skóla, að meðtöldum nemendum yngri en 18 ára með ófullnægjandi námsárangur sem hafa haldið skólareglur að öðru leyti,
  2. nemendur á starfsbrautum fatlaðra,
  3. nýnemar sem útskrifast úr grunnskóla á næstliðnu vori fyrir upphaf skólaárs,
  4. umsækjendur yngri en 18 ára sem eru að sækja um í fyrsta sinn,
  5. umsækjendur yngri en 18 ára sem eru að sækja um eftir hlé á námi,
  6. umsækjendur yngri en 18 ára sem flytjast milli framhaldsskóla,
  7. aðrir umsækjendur um dagskóla og
  8. umsækjendur um fjarnám eða kvöldskóla.

Ef hluti fjárframlags til skóla er bundinn við sérstakt menntunarátak meðal nemenda sem falla utan forgangsröðunar skv. 3. mgr., er skóla heimilt að leggja önnur sjónarmið til grundvallar við innritun þeirra, enda teljist ekki um að ræða almennt framhaldsskólanám.

Synjun skólameistara um skólavist sætir kæru til menntamálaráðuneytisins, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

8. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 32. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla, öðlast þegar gildi. Um leið fellur úr gildi reglugerð nr. 98/2000, um innritun nemenda í framhaldsskóla, með síðari breytingum.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.