Prentað þann 22. des. 2024
1145/2015
Reglugerð um túlkun á upplýsingum um heilsufar og meðferð fyrir sjúklinga.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um túlkun á upplýsingum um heilsufar og meðferð fyrir sjúklinga sem ekki tala íslensku eða sem nota táknmál hjá heilbrigðisstarfsmönnum.
2. gr. Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja sjúklingum sem ekki tala íslensku eða sem nota táknmál viðeigandi aðstoð til að fá upplýsingar um heilsufar sitt og meðferð hjá heilbrigðisstarfsmönnum.
3. gr. Sjúkratryggðir.
Sjúkratryggður er sá sem búsettur er á Íslandi og hefur verið það a.m.k. síðustu sex mánuði áður en bóta er óskað úr sjúkratryggingum að uppfylltum öðrum skilyrðum laga um sjúkratryggingar, nema annað leiði af milliríkjasamningum, sbr. 10. gr. laga um sjúkratryggingar. Með búsetu er átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga. Börn yngri en 18 ára sem búsett eru hér á landi eru sjúkratryggð með foreldrum sínum. Sama á við um stjúpbörn og fósturbörn. Að öðru leyti gilda ákvæði 10.-16. gr. laga um sjúkratryggingar um það hverjir teljast sjúkratryggðir hér á landi.
Sjúkratryggingastofnunin ákvarðar hvort einstaklingur telst sjúkratryggður.
4. gr. Réttur sjúklings til túlkunar.
Telji heilbrigðisstarfsmaður að sjúklingur sem ekki talar íslensku eða notar táknmál þurfi aðstoð túlks til þess að meðtaka og skilja upplýsingar um heilsufar og meðferð, sbr. 5. gr. laga um réttindi sjúklinga, skal heilbrigðisstarfsmaður kveðja til túlk.
Heilbrigðisstarfsmaður skal eftir fremsta megni skipuleggja notkun túlkaþjónustu á sem hagkvæmastan hátt, svo sem með því að nota túlkun í gegnum símtæki eða fjarfundabúnað ef kostur er og með því að beina málum í þann farveg, eftir því sem unnt er, að sjúklingar sem þarfnast aðstoðar túlks á sama tungumál eða táknmál komi sama daginn. Stefnt skal að því að notkun túlkaþjónustu valdi sjúklingi sem minnstum óþægindum, t.d. með því að panta túlk fyrirfram ef ljóst er þegar sjúklingur pantar tíma að viðkomandi skilur ekki íslensku eða notar táknmál.
Túlkun áminningar vegna tímapantana fellur ekki undir reglugerð þessa.
5. gr. Greiðsla kostnaðar vegna túlkaþjónustu.
Sjúkratryggingastofnunin annast greiðslur fyrir túlkaþjónustu samkvæmt reglugerð þessari í samræmi við samning Ríkiskaupa við þjónustuaðila um túlkaþjónustu þegar sjúklingur er sjúkratryggðra og um heilbrigðisstarfsmenn er að ræða sem starfa utan stofnana sem tilgreindar eru í viðauka.
Túlkar sem hafa túlkað fyrir sjúkratryggðan samkvæmt reglugerð þessari skulu senda reikning vegna veittrar þjónustu til sjúkratryggingastofnunarinnar ásamt staðfestingu frá viðkomandi heilbrigðisstarfsmanni um að nauðsyn hafi verið á aðstoð túlks fyrir sjúkling.
Sé þörf fyrir túlkaþjónustu á stofnun sem tilgreind er í viðauka fellur kostnaður við þjónustuna á viðkomandi stofnun.
Sé þörf fyrir túlkaþjónustu þegar í hlut á ósjúkratryggður sjúklingur fellur kostnaður við þjónustuna á hlutaðeigandi sjúkling, sbr. reglugerð um heilbrigðisþjónustu við þá sem ekki eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og greiðslur þeirra fyrir heilbrigðisþjónustuna.
6. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 29. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga og 6. tölul. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, öðlast gildi 1. janúar 2016.
Velferðarráðuneytinu, 17. desember 2015.
Kristján Þór Júlíusson
heilbrigðisráðherra.
Sveinn Magnússon.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.