Fara beint í efnið

Prentað þann 17. jan. 2022

Stofnreglugerð

1133/2013

Reglugerð um eftirlitsstaði erlendra skipa vegna veiða og siglinga í íslenskri fiskveiðilögsögu.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um öll erlend skip sem stunda veiðar innan íslenskrar fiskveiðilögsögu með leyfi íslenskra stjórnvalda.

2. gr. Eftirlitsstaðir.

Erlend skip á leið til veiðisvæðis, skulu áður en veiðar í fiskveiðilögsögu Íslands hefjast og á leið út úr fiskveiðilögsögu Íslands, sigla um einn af neðangreindum eftirlitsstöðum:

  1. 69°15′N - 013°00′V
  2. 68°30′N - 011°00′V
  3. 67°30′N - 010°00′V
  4. 66°15′N - 009°00′V
  5. 65°00′N - 010°00′V
  6. 64°00′N - 012°00′V
  7. 63°30′N - 016°00′V
  8. 63°00′N - 020°00′V
  9. 63°30′N - 025°00′V
  10. 65°00′N - 027°00′V

Landhelgisgæslu Íslands er heimilt að ákveða hvaða eftirlitsstað veiðiskip skal sigla um. Heimilt er með samþykki Landhelgisgæslunnar að halda til annarra eftirlitsstaða. Einnig er Landhelgisgæslunni heimilt að ákveða aðra eftirlitsstaði en þá sem tilgreindir eru í 1. mgr., t.d. vegna staðsetningar veiðisvæðis. Óheimilt er að yfirgefa eftirlitsstað nema með samþykki Landhelgisgæslu Íslands.

3. gr. Sjálfvirkur fjarskiptabúnaður - fjareftirlit.

Öll erlend skip sem stunda veiðar innan íslenskrar fiskveiðilögsögu, skulu búin fjarskiptabúnaði sem sendir upplýsingar um staðsetningu skips, stefnu og hraða með sjálfvirkum hætti á klukkustundar fresti til sameiginlegrar eftirlitsstöðvar Landhelgisgæslu og Fiskistofu.

4. gr. Undanþáguheimildir.

Heimilt er að veita undanþágu frá ákvæðum 2. gr. hafi aðilar gert samkomulag þar um.

5. gr. Viðurlög.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 22, 8. apríl 1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilögsögu Íslands, með síðari breytingum.

6. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett skv. 9. gr. laga nr. 22, 8. apríl 1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum, til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 18. desember 2013.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Kristján Freyr Helgason.

Ásta Einarsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.