Fara beint í efnið

Prentað þann 23. jan. 2022

Stofnreglugerð

1123/2015

Reglugerð um stofnverndarsjóð íslenska hestakynsins.

1. gr.

Stofnverndarsjóður íslenska hestakynsins er deild í stofnverndarsjóði sem starfar samkvæmt 15. gr. búnaðarlaga nr. 70/1998. Fagráð í hrossarækt annast stjórn sjóðsins.

Sjóðurinn er í vörslu Bændasamtaka Íslands sem annast reikningshald sjóðsins og ávöxtun í samráði við fagráðið. Reikningar stofnverndarsjóðs skulu endurskoðaðir af ríkisendurskoðun.

2. gr.

Verkefni sjóðsins eru að veita styrki til þróunar- og rannsóknaverkefna í hrossarækt. Verkefnin skulu stuðla að viðhaldi verðmætra eiginleika í íslenska hrossastofninum, verndun erfðafjölbreytileika stofnsins og/eða auka þekkingu á stofninum og útbreiðslu hans. Fagráð í hrossarækt auglýsir eftir umsóknum ár hvert og tekur ákvörðun um styrkveitingar.

Stjórn Bændasamtaka Íslands skal staðfesta úthlutun styrkja eftir tillögum fagráðs samkvæmt viðauka I.

3. gr.

Óheimilt er að skerða höfuðstól stofnverndarsjóðs að raungildi frá því sem var 1. janúar 1998.

4. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 19. gr. búnaðarlaga nr. 70/1998, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Jafnframt er úr gildi felld reglugerð nr. 470/1999 um stofnverndarsjóð íslenska hestsins.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir 3. gr. er heimilt á árunum 2015-2020, að úthluta árlega allt að 12.000.000 kr. af höfuðstól sjóðsins að meðtöldum árlegum vaxtatekjum á næstliðnu ári og öllum tekjum sjóðsins samkvæmt 6. gr. laga nr. 27/2011, um útflutning hrossa, á næstliðnu ári. Fjárhæðin skal taka breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Miða skal við grunnvísitölu fyrir októbermánuð 2015.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 4. desember 2015.

Sigurður Ingi Jóhannsson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Rebekka Hilmarsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.