Fara beint í efnið

Prentað þann 15. jan. 2025

Breytingareglugerð

1084/2019

Reglugerð um (3.) breytingu á reglugerð nr. 124/2015 um brennisteinsinnihald í tilteknu fljótandi eldsneyti.

1. gr.

Nýr töluliður bætist við 3. gr. reglugerðarinnar sem orðast svo:

Landhelgi Íslands: Svæði sem er 12 sjómílur frá grunnlínu sem er dregin milli nánar tiltekinna staða á Íslandi, sbr. 1. gr. laga um landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsögu og landgrunn.

Innsævi: Hafsvæði sem er innan við grunnlínu landhelginnar.

2. gr.

4. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti, þ.m.t. svartolíu sem er notuð eða er ætluð til nota í skipum eða bátum hér á landi innan landhelgi Íslands og innsævis skal að hámarki vera 0,1% (m/m) að undanskildu eldsneyti til skipa sem nota viðurkenndar aðferðir til að draga úr losun, sbr. 12. gr.

Brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti, þ.m.t. svartolíu sem er notuð eða er ætluð til nota í skipum eða bátum í mengunarlögsögu utan innsævis og landhelgi Íslands skal að hámarki vera 0,5% (m/m) að undanskildu eldsneyti til skipa sem nota viðurkenndar aðferðir til að draga úr losun, sbr. 12. gr.

Brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti skipa sem fara um SOx-svæði, skal ekki fara yfir 0,1% (m/m).

Ákvæði þessarar greinar gilda um öll skip án tillits til þess undir hvaða fána þau sigla, þar með talið skip sem hefja ferð sína utan Evrópska efnahagssvæðisins.

3. gr.

Við 12. gr. bætist ein málsgrein, svohljóðandi:

Í þeim tilfellum þegar notast er við skipaeldsneyti með hærra brennisteinsinnihaldi en 3,5% (m/m) skal nota viðurkenndar aðferðir til að draga úr losun í lokuðu kerfi.

4. gr.

Við reglugerðina bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:

Heimilt er að nýta birgðir af skipaeldsneyti með brennisteinsinnihald umfram 0,1% sem eru í brennsluolíutönkum við gildistöku reglugerðar þessarar til 1. september 2020.

Útgerð skips skal fyrir 1. janúar 2020 tilkynna til Umhverfisstofnunar um hvert skip er nýta skal heimild skv. 1. mgr. fyrir og hvert magn skipaeldsneytis er á brennsluolíutönkum.

Tilkynna skal til Umhverfisstofnunar þegar brennslu skipaeldsneytis sem er á brennsluolíutönkum skipa, sbr. 1. mgr., er lokið.

5. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 11. gr. efnalaga nr. 61/2013 og v. lið 1. mgr. 6. gr. laga um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004.

Ákvæði reglugerðar þessarar koma til framkvæmda 1. janúar 2020.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 5. desember 2019.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Sigríður Auður Arnardóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.