Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

1072/2019

Reglugerð um upplýsingagjöf um farþega og áhöfn.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um afhendingu upplýsinga um farþega og áhöfn fara í millilandaferðum, þ.e. fara sem fara frá landinu til útlanda og fara sem koma til landsins frá útlöndum.

Með upplýsingum um farþega og áhöfn í reglugerðinni er í meginatriðum átt við upplýsingar sem finna má í farþegabókunargögnum (PNR) og upplýsingar úr ferðaskilríki farþega (API). Upplýsingarnar eru nánar skilgreindar í viðauka við reglugerðina.

2. gr. Afhendingarskylda.

Skylda til afhendingar upplýsinga samkvæmt reglugerðinni hvílir á eftirfarandi aðilum:

  1. Fyrirtækjum sem annast flutning farþega og/eða vöru til og frá landinu,
  2. stjórnendum fara sem ferðast til og frá landinu,
  3. eigendum fara sem ferðast til og frá landinu og
  4. umráðamönnum fara sem ferðast til og frá landinu.

Afhendingarskyldan er óháð gerð þess fars sem nýtt er í millilandaferðum og nær m.a. til einkaflugvéla og seglskipa.

3. gr. Afhending PNR-upplýsinga.

PNR-upplýsingar skulu afhentar tollstjóra.

Afhenda ber upplýsingarnar með rafrænum hætti í rafrænt móttökukerfi tollstjóra á því formi og sniði sem tollstjóri ákveður.

Í sérstökum tilvikum, með samþykki tollstjóra, skal afhenda upplýsingarnar rafrænt með öðrum hætti en í rafrænt móttökukerfi tollstjóra eða skriflega.

Skylt er að veita upplýsingar fyrir hverja ferð til eða frá tollsvæði ríkisins í öllum eftirfarandi tilvikum:

  1. 24-48 klukkustundum fyrir áætlaða brottför.
  2. Strax eftir að dyr fars hafa lokast (það er eftir að farþegar hafa stigið um borð í þeim tilgangi að ferðast og ekki er lengur mögulegt fyrir farþega að fara um borð eða frá borði).
  3. Samkvæmt beiðni.

Afhendingarskyldir aðilar skv. 2. gr. geta, í stað þess að afhenda upplýsingar í samræmi við 2. tölul. 4. mgr., afhent upplýsingar skv. viðauka við reglugerð þessa jafnóðum, þannig að afhentar upplýsingar í samræmi við 1. tölul. 4. mgr. uppfærast í hvert skipti sem breyting verður á þeim.

4. gr. Afhending API-upplýsinga.

API-upplýsingar skulu afhentar tollstjóra.

Afhenda ber upplýsingarnar með rafrænum hætti í rafrænt móttökukerfi tollstjóra á því formi og sniði sem tollstjóri ákveður.

Í sérstökum tilvikum, með samþykki tollstjóra, skal afhenda upplýsingarnar rafrænt með öðrum hætti en í rafrænt móttökukerfi tollstjóra eða skriflega.

Skylt er að veita upplýsingar fyrir hverja ferð til eða frá tollsvæði ríkisins, þar sem far mun fara yfir ytri landamæri Schengen-svæðisins í öllum eftirfarandi tilvikum:

  1. Strax eftir að dyr fars hafa lokast (það er eftir að farþegar hafa stigið um borð í þeim tilgangi að ferðast og ekki er lengur mögulegt fyrir farþega að fara um borð eða frá borði).
  2. Samkvæmt beiðni.

Með API-upplýsingum er átt við upplýsingar fengnar úr ferðaskilríki farþega.

Afhendingarskyldar API-upplýsingar eru eftirfarandi:

  1. Tegund, auðkennisnúmer, útgáfuland eða útgáfuaðili og gildistími ferðaskilríkis.
  2. Þjóðerni, fullt nafn, kyn og fæðingardagur farþega.
  3. Brottfarar- og komutími fars ásamt flutningskóða.

5. gr. Meðferð og varðveisla upplýsinga.

Upplýsingar skv. viðauka skulu geymdar í rafrænu móttökukerfi tollstjóra. Upplýsingarnar má geyma í allt að fimm ár frá móttöku þeirra. Eftir tvö ár frá móttöku upplýsinganna skulu þeir hlutar þeirra sem varpað geta ljósi á persónuauðkenni dulkóðaðir. Eftir að tveggja ára tímabilinu lýkur er aðeins heimilt að fá aðgang að öllum upplýsingunum í viðauka þegar það er talið nauðsynlegt vegna gruns um tiltekið alvarlegt brot, í því skyni að koma í veg fyrir það brot, koma upp um það og til rannsóknar og saksóknar þess. Einnig er heimilt að fá aðgang að öllum upplýsingum í viðauka skv. úrskurði dómara, eftir að tveggja ára tímabilinu lýkur. Eftir fimm ár frá móttöku upplýsinganna skal þeim eytt. Framangreindir frestir eiga ekki við um upplýsingar sem notaðar eru við meðferð sakamáls.

Upplýsingar skv. 4. gr. skulu geymdar í rafrænu móttökukerfi tollstjóra. Upplýsingarnar má geyma í allt að 24 tíma frá móttöku þeirra, nema þær verði unnar áfram í löggæslutilgangi og fer þá um vinnsluna eftir lögum um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, nr. 75/2019.

6. gr. Upplýsingaskipti.

Tollstjóra, lögreglu og öðrum handhöfum lögregluvalds, er heimilt að skiptast á upplýsingum um farþega og áhöfn í þágu eftirlits, greiningarstarfs eða vegna rannsókna á ætluðum brotum gegn ákvæðum tollalaga og ákvæðum annarra laga. Framangreindum aðilum er í sama tilgangi heimilt að skiptast á upplýsingum um farþega og áhöfn við erlenda handhafa tollgæslu- og lögregluvalds.

Miðlun farþegaupplýsinga á milli tollstjóra, lögreglu og annarra handhafa lögregluvalds skal fara fram í gegnum það rafræna kerfi sem móttekur farþegaupplýsingar eða með öðrum öruggum hætti. Miðlun farþegaupplýsinga á milli framangreindra aðila og erlendra handhafa lögregluvalds skal fara fram með öruggum hætti, t.d. í gegnum þá gagnagrunna sem alþjóðlegar löggæslustofnanir hafa sett á stofn í þeim tilgangi að miðla upplýsingum með öruggum hætti.

7. gr. Viðurlög.

Tollstjóri getur lagt stjórnvaldssektir á afhendingarskylda aðila sem brjóta gegn skyldu til að afhenda upplýsingar, í samræmi við ákvæði 1. mgr. 51. gr. a. tollalaga og reglugerðar þessarar.

Við ákvörðun sektar, allt að 2.000.000 kr., vegna brota gegn afhendingarskyldu 1. mgr. 51. gr. a. tollalaga, skal taka tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot sé að ræða.

Við fyrsta brot skal sekt vera 10.000 kr. ef um einstakling er að ræða, en 400.000 kr. ef um fyrirtæki er að ræða.

Ef um ítrekuð brot er að ræða skal sekt vera að hámarki 100.000 kr. fyrir hvert flug þar sem upplýsingar berast ekki og sá brotlegi er einstaklingur, en að hámarki 2.000.000 kr. fyrir hvert flug ef um fyrirtæki er að ræða.

8. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem er sett samkvæmt heimild 3. mgr. 51. gr. a. og 2. mgr. 180. gr. a. tollalaga, nr. 88/2005, öðlast þegar gildi.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 18. nóvember 2019.

F. h. r.

Helga Jónsdóttir.

Rakel Jensdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.