Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 25. jan. 2022

Reglugerð með breytingum síðast breytt 1. jan. 2021

1066/2019

Reglugerð um flúoraðar gróðurhúsalofttegundir.

1. gr. Markmið.

Markmið þessarar reglugerðar er að draga úr losun tiltekinna flúoraðra gróðurhúsalofttegunda og stuðla að öruggri meðhöndlun þeirra með tilliti til verndunar umhverfisins.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerðin gildir um takmörkun á losun, notkun og meðhöndlun flúoraðra gróðurhúsalofttegunda ásamt lekaleit, skráningu, setningu þeirra á markað og merkingar. Reglugerðin gildir einnig um menntun og hæfni starfsmanna sem meðhöndla flúoraðar gróðurhúsalofttegundir ásamt kröfum um þjálfun og vottun starfsmanna og fyrirtækja.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

 1. Innflutningur: Innflutningur í skilningi 9. gr., 10. gr. og 11. gr. er innflutningur til Íslands frá öðru ríki hvort sem útflutningsríkið er innan Evrópska efnahagssvæðisins eða utan þess.
 2. Flúoraðar gróðurhúsalofttegundir: Vetnisflúorkolefni, perflúorkolefni, brennisteinshexaflúoríð og aðrar gróðurhúsalofttegundir sem innihalda flúor og eru skráðar í I. viðauka við reglugerð (ESB) nr. 517/2014 eða blöndur sem innihalda einhver þessara efna.
 3. Vetnisflúorkolefni: Efnin, sem eru skráð í 1. þætti I. viðauka við reglugerð (ESB) nr. 517/2014, eða blöndur sem innihalda einhver þessara efna.
 4. Hnatthlýnunarmáttur: Geta gróðurhúsalofttegundar til að valda loftslagshlýnun samanborið við mátt koldíoxíðs, reiknað sem hlýnunarmáttur tiltekins massa af gróðurhúsalofttegund í 100 ár sem hlutfall af hlýnunarmætti sama massa af koldíoxíði, eins og fram kemur í I., II. og IV. viðauka við reglugerð (ESB) nr. 517/2014 eða, ef um blöndur er að ræða, reiknað í samræmi við IV. viðauka sömu reglugerðar.
 5. Koldíoxíðjafngildi: Magn gróðurhúsalofttegunda, gefið upp sem margfeldið af massa gróðurhúsalofttegundanna og hnatthlýnunarmáttar þeirra. Mælieining koldíoxíðjafngildis er háð mælieiningu massa gróðurhúsalofttegundanna sem notuð er við útreikninginn.

4. gr. Skráning á innflutningi og sölu - innra eftirlit.

Innflytjendur og söluaðilar skulu halda skrá yfir allan innflutning og sölu flúoraðra gróðurhúsalofttegunda og vara sem innihalda slíkar lofttegundir hér á landi. Innflytjendur og söluaðilar skulu senda upplýsingar um innflutning og sölu hér á landi fyrir undangengið almanaksár til Umhverfisstofnunar fyrir 1. mars ár hvert.

5. gr. Skilyrði fyrir afhendingu.

Óheimilt er að afhenda rekstraraðilum flúoraðar gróðurhúsalofttegundir nema viðkomandi starfsmenn þeirra hafi hlotið vottun, sbr. 7. gr.

6. gr. Merkingar vara og búnaðar.

Óheimilt er að flytja, setja á markað eða afhenda vöru og búnað sem inniheldur flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, nema á vörunni og búnaðinum sé merkiskilti með viðurkenndum iðnaðarheitum, innihaldslýsingu og varnaðarorðum.

7. gr. Menntun og vottun starfsmanna.

Starfsmönnum er eingöngu heimilt að annast lekaeftirlit með búnaði sem inniheldur 3 kg eða meira af flúoruðum gróðurhúsalofttegundum og með búnaði sem inniheldur 6 kg eða meira af flúoruðum gróðurhúsalofttegundum með loftþéttum kerfum sem merkt eru sem slík, endurheimt, uppsetningu, úreldingu, viðgerðir, viðhald eða þjónustu vegna fastra kæli-, loftræsti- og varmadælubúnaðar, og kælieininga í kælibifreiðum og kælivögnum sem innihalda flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, hafi þeir hlotið vottun um að þeir uppfylli viðeigandi lágmarkskröfur samkvæmt reglugerð (ESB) 2015/2067, sbr. i-lið 1. mgr. 15. gr.

Starfsmönnum er eingöngu heimilt að annast lekaeftirlit með búnaði sem inniheldur 3 kg eða meira af flúoruðum gróðurhúsalofttegundum, endurheimt, uppsetningu, viðhald eða þjónustu vegna staðbundinna brunavarnakerfa og endurheimt vegna slökkvitækja hafi þeir hlotið vottun um að þeir uppfylli viðeigandi lágmarkskröfur samkvæmt reglugerð (EB) nr. 304/2008, sbr. d-lið 1. mgr. 15. gr.

Starfsmönnum er eingöngu heimilt að annast uppsetningu, þjónustu, viðhald, viðgerðir eða úreldingu rafknúins rofbúnaðar sem inniheldur flúoraðar gróðurhúsalofttegundir eða að endurheimta flúoraðar gróðurhúsalofttegundir úr föstum rafknúnum rofbúnaði, hafi þeir hlotið vottun um að þeir uppfylli viðeigandi lágmarkskröfur samkvæmt reglugerð (ESB) 2015/2066, sbr. h-lið 1. mgr. 15. gr.

Starfsmönnum er eingöngu heimilt að endurheimta tiltekna leysa, sem í eru flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, úr búnaði hafi þeir hlotið vottun um að þeir uppfylli viðeigandi lágmarkskröfur samkvæmt reglugerð (EB) nr. 306/2008, sbr. e-lið 1. mgr. 15. gr.

Starfsmönnum er eingöngu heimilt að endurheimta flúoraðar gróðurhúsalofttegundir úr loftræstibúnaði í vélknúnum ökutækjum hafi þeir hlotið vottun um að þeir uppfylli viðeigandi lágmarkskröfur samkvæmt reglugerð (EB) nr. 307/2008, sbr. f-lið 1. mgr. 15. gr.

Vottun samkvæmt þessari grein er veitt af vottunarstofu, sem hefur verið faggilt af faggildingarsviði Hugverkastofu í samræmi við lög nr. 24/2006 um faggildingu o.fl., eða sem hlotið hefur tilnefningu yfirvalda sem slík. Umhverfisstofnun er tilnefnd vottunarstofa.

Til að hljóta vottun samkvæmt þessari grein þarf starfsmaður að hafa staðist þekkingar- og færnimat í samræmi við viðeigandi kröfur, sbr. ofangreindar vísanir í fylgiskjöl. Matið er framkvæmt af matsaðila sem hlotið hefur tilnefningu yfirvalda sem matsaðili einstaklinga eða verið faggiltur af faggildingarsviði Hugverkastofu. Matsaðili skilar niðurstöðum mats til vottunarstofu. Starfsmaður skal sækja um vottun hjá vottunarstofu innan tveggja ára frá því að hafa staðist mat. Hafi starfsmaður ekki sótt um vottun innan tveggja ára skal hann gangast undir mat að nýju til að hljóta vottun.

Vottunarstofa gefur út skírteini um vottun til handa þeim sem um það sækja og staðist hafa viðeigandi mat. Vottunin skal gilda í fimm ár. Óski starfsmaður þess að fá vottun sína endurnýjaða skal hann gangast undir endurmat hjá matsaðila. Sé gildistími fyrri vottunar ekki liðinn, eða ekki lengra liðið en eitt ár frá því að vottun starfsmanns féll úr gildi þegar hann sækir um endurvottun þarf hann einungis að undirgangast bóklegan hluta matsins. Standist hann það mat má framlengja gildistímann um fimm ár án þess að meta verklega þætti. Sé lengra liðið en ár frá því að vottun starfsmanns féll úr gildi skal hann undirgangast fullt mat.

Skírteini sem staðfestir vottun starfsmanns skal gefið út á íslensku og ensku. Í skírteini skal koma fram með skýrum hætti að starfsmaður fullnægi kröfum viðeigandi reglugerðar Evrópusambandsins, sbr. 15. gr. Vottunarstofa skal halda skrá yfir vottaða einstaklinga. Komi til þess að aðili, annar en Umhverfisstofnun, gegni hlutverki vottunarstofu skal viðkomandi senda upplýsingar um útgefin skírteini til Umhverfisstofnunar fyrir undangengið almanaksár eigi síðar en 1. mars ár hvert. Umhverfisstofnun heldur skrá yfir alla starfsmenn sem hlotið hafa vottun. Skrár skulu varðveittar í a.m.k. fimm ár.

Vottun sem veitt hefur verið í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins vegna starfsmanna sem annast verkefni sem getið er um í 1.-5. mgr. skal teljast jafngild vottun skv. 6. mgr. Umhverfisstofnun getur þó gert að skilyrði að viðkomandi skili inn afriti af skírteini, ásamt þýðingum unnum af löggiltum skjalaþýðendum eða öðrum aðilum sem stjórnvöld viðurkenna. Þýðingar mega vera á ensku eða Norðurlandamáli, öðru en finnsku.

8. gr. Vottun fyrirtækja.

Fyrirtækjum er eingöngu heimilt að annast uppsetningu, úreldingu, viðgerðir, viðhald eða þjónustu í tengslum við fastan kæli-, loftræsti- og varmadælubúnað sem inniheldur flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, hafi þau hlotið vottun um að þau uppfylli viðeigandi kröfur samkvæmt reglugerð (EB) 2015/2067, sbr. i-lið 1. mgr. 15. gr. Kröfur þessar eru útfærðar nánar af matsaðila í samvinnu við Umhverfisstofnun.

Fyrirtækjum er eingöngu heimilt að annast uppsetningu, viðhald eða þjónustu í tengslum við staðbundin brunavarnakerfi sem innihalda flúoraðar gróðurhúsalofttegundir hafi þau hlotið vottun um að þau uppfylli viðeigandi kröfur samkvæmt reglugerð (EB) nr. 304/2008, sbr. d-lið 1. mgr. 15. gr. Kröfur þessar eru útfærðar nánar af matsaðila í samvinnu við Umhverfisstofnun.

Vottun samkvæmt þessari grein er veitt af vottunarstofu sem hefur verið faggilt af faggildingarsviði Hugverkastofu í samræmi við lög nr. 24/2006 um faggildingu o.fl., eða sem hlotið hefur tilnefningu yfirvalda sem slík. Umhverfisstofnun er tilnefnd vottunarstofa.

Til að hljóta vottun samkvæmt þessari grein þarf fyrirtæki að hafa staðist mat varðandi aðstöðu og tækjabúnað, sbr. viðeigandi kröfur reglugerða Evrópusambandsins, sbr. 15. gr., auk þess sem fjöldi vottaðra starfsmanna fyrirtækisins þarf að vera í samræmi við ætlað umfang verkefna sem krefjast vottaðra starfsmanna. Mat á fyrirtækjum er framkvæmt af matsaðila sem hlotið hefur tilnefningu yfirvalda sem matsaðili fyrirtækja eða verið faggiltur af faggildingarsviði Hugverkastofu.

Vottunarstofa gefur út skírteini um vottun til handa þeim fyrirtækjum sem um það sækja og staðist hafa viðeigandi mat. Vottunin skal gilda í fimm ár. Sækist fyrirtækið eftir endurnýjun vottunar að þeim tíma liðnum skal það gangast undir mat að nýju. Skírteini skal gefið út á íslensku og ensku. Í skírteini skal koma fram með skýrum hætti að fyrirtæki fullnægi kröfum viðeigandi reglugerðar Evrópusambandsins, sbr. 15. gr. Vottunarstofa skal halda skrá yfir fyrirtæki sem hlotið hafa vottun. Komi til þess að aðili, annar en Umhverfisstofnun, gegni hlutverki vottunarstofu skal viðkomandi senda upplýsingar um útgefin skírteini til Umhverfisstofnunar fyrir undangengið almanaksár eigi síðar en 1. mars ár hvert. Umhverfisstofnun heldur skrá yfir öll fyrirtæki sem hlotið hafa vottun. Skrár skulu varðveittar í a.m.k. fimm ár.

Vottun sem framkvæmd hefur verið undir lögsögu annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins vegna fyrirtækja sem annast verkefni sem getið er í 1. og 2. mgr. skal teljast jafngild vottun skv. 3. mgr. Umhverfisstofnun getur þó gert að skilyrði að viðkomandi skili inn afriti af skírteini, ásamt þýðingum unnum af löggiltum skjalaþýðendum eða öðrum aðilum sem stjórnvöld viðurkenna. Þýðingar mega vera á ensku eða Norðurlandamáli, öðru en finnsku.

9. gr. Skerðing á magni vetnisflúorkolefna sem sett er á markað.

Innflutningur vetnisflúorkolefna ár hvert skal ekki vera meiri en hámarksmagnið fyrir umrætt ár, í samræmi við I. viðauka.

Innflytjendur skulu sjá til þess að innflutningur þeirra á vetnisflúorkolefnum ár hvert falli innan þeirra innflutningsheimilda sem þeim hefur verið úthlutað skv. 10. gr. og/eða framseldar hafa verið til þeirra skv. 11. gr. Hafi innflytjandi flutt inn vetnisflúorkolefni umfram heimildir má einungis úthluta honum minnkuðum innflutningsheimildum fyrir úthlutunartímabilið eftir að umframmagnið uppgötvast.

Minnkunin skal reiknuð sem 200% af því magni sem hann flutti inn umfram úthlutaðar heimildir. Ef minnkaða magnið er meira en þær heimildir sem úthluta á viðkomandi skv. 10. gr. fyrir úthlutunartímabilið eftir að umframmagnið uppgötvast, skal ekki úthluta honum neinum heimildum fyrir það úthlutunartímabil og einnig skal minnka úthlutaðar heimildir fyrir næstu úthlutunartímabil þar til búið er að draga frá allt magnið.

10. gr. Úthlutun innflutningsheimilda vegna setningar vetnisflúorkolefna á markað.

Umhverfisstofnun skal fyrir 1. september ár hvert ákvarða viðmiðunargildi fyrir hvern innflytjanda sem tilkynnt hefur um, í samræmi við 4. gr., og fært sönnur á löglegan innflutning vetnisflúorkolefna. Viðmiðunargildin skulu reiknuð samkvæmt reglum þar um í II. viðauka og lögð til grundvallar við úthlutun innflutningsheimilda árið eftir, sbr. 4. mgr.

Innflytjendur sem ekki hafa verið reiknuð viðmiðunargildi fyrir skv. 1. mgr. geta sótt um heimild til innflutnings vetnisflúorkolefna árið eftir. Umsóknin skal vera skrifleg og skilað til Umhverfisstofnunar fyrir 1. september árið áður en innflutningurinn á að eiga sér stað. Í umsókninni skal tiltaka tegundir vetnisflúorkolefna og hversu mikið magn af hverri þeirra er vilji til að flytja inn.

Innflytjendur sem reiknuð hafa verið viðmiðunargildi fyrir skv. 1. mgr. geta, í samræmi við 2. mgr., sótt um heimild til innflutnings vetnisflúorkolefna umfram þær innflutningsheimildir sem þeim er úthlutað á forsendum viðmiðunargildanna.

Umhverfisstofnun skal ár hvert úthluta til hvers innflytjanda, sem getið er um í 1. og 2. mgr., innflutningsheimildum vegna setningar vetnisflúorkolefna á markað og beita við það úthlutunarfyrirkomulaginu sem mælt er fyrir um í III. viðauka.

Útreikningur viðmiðunargilda og úthlutun innflutningsheimilda samkvæmt þessari grein eru bundin við kennitölu þess einstaklings eða lögaðila sem við á.

11. gr. Framsal innflutningsheimilda.

Innflytjendur, sem úthlutað hefur verið innflutningsheimildum skv. 4. mgr. 10. gr., geta framselt heimildir fyrir allt magnið eða hluta þess til annars innflytjanda. Framsalið skal gert með skriflegri tilkynningu til Umhverfisstofnunar. Tilkynningin skal vera dagsett og vottuð og greina með skýrum hætti frá því hvaða magn heimilda er framselt. Innflutningur á forsendum framseldra heimilda mun teljast til reiknings viðmiðunargildis skv. 1. mgr. 10. gr. fyrir það fyrirtæki sem heimildirnar voru framseldar til.

12. gr. Framleiðendur vetnisflúorkolefna.

Í ljósi þess að vetnisflúorkolefni eru ekki framleidd hér á landi lýsa ákvæði 9. gr., 10. gr. og 11. gr. einungis réttindum og skyldum innflytjenda. Ákvæði greinanna skulu þó einnig gilda um framleiðendur komi til þess að vetnisflúorkolefni verði framleidd hér á landi. Í slíku tilfelli skal lesa heimild til innflutnings sem heimild til framleiðslu.

Framleiðsla vetnisflúorkolefna er þannig aðeins heimil hér á landi að því skilyrði uppfylltu að framleiðandanum hafi verið úthlutað heimildum skv. 10. gr. Þær heimildir sem nýttar eru til framleiðslu er ekki hægt að nýta aftur til innflutnings.

13. gr. Eftirlit.

Um eftirlit með reglugerð þessari fer samkvæmt 48. gr. efnalaga nr. 61/2013.

14. gr. Viðurlög.

Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt XIV. kafla efnalaga nr. 61/2013.

15. gr. Gildistaka tiltekinna EES-gerða.

Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi eftirtaldar gerðir Evrópusambandsins með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af II. og XX. viðauka samningsins, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans:

 1. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 517/2014 frá 16. apríl 2014 um flúoraðar gróðurhúsalofttegundir og um niðurfellingu reglugerðar (EB) nr. 842/2006, sem vísað er til í tölulið 9b, XVII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og tölulið 21aq, III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 160/2019, þann 14. júní 2019. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 49 frá 20. júní 2019, bls. 222-257. Þrátt fyrir 1. málsl. öðlast framangreind reglugerð hér á landi gildi hér á landi með eftirfarandi breytingum:

  1. Í stað orðanna "fram til 31. desember 2016" í 2. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) koma, að því er EFTA-ríkin varðar, orðin: ári eftir upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn.
  2. Í stað textans "1. janúar 2017" í 2. mgr. 5. gr. reglugerðar (ESB) kemur textinn: ári eftir upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn.
  3. Í stað textans: "1. janúar 2017" í staflið c í 3. mgr. 12. gr. reglugerðar (ESB) kemur textinn: ári eftir upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn.
  4. 14. gr. til 19. gr. og 2. mgr. 25. gr. reglugerðar (ESB) gilda ekki hér á landi.
 2. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1497/2007 frá 18. desember 2007 um staðlaðar kröfur um eftirlit með leka, í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 842/2006, að því er varðar föst brunavarnarkerfi sem innihalda tilteknar flúraðar gróðurhúsalofttegundir, sem vísað er til í tölulið 9bb, XVII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og tölulið 21aqb, III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 30/2009, þann 17. mars 2009. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 6 frá 5. febrúar 2010, bls. 288-289.
 3. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1516/2007 frá 19. desember 2007 um staðlaðar kröfur um eftirlit með leka, í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 842/2006, að því er varðar fastan kæli-, loftræsti- og varmadælubúnað sem inniheldur tilteknar flúraðar gróðurhúsalofttegundir, sem vísað er til í tölulið 9bc, XVII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og tölulið 21aqc, III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 30/2009, þann 17. mars 2009. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 6 frá 5. febrúar 2010, bls. 290-292.
 4. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 304/2008 frá 2. apríl 2008 um að setja, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 842/2006, lágmarkskröfur og skilyrði fyrir gagnkvæmri viðurkenningu á vottun fyrirtækja og starfsfólks að því er varðar föst bruna-varnarkerfi og slökkvitæki sem innihalda tilteknar flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, sem vísað er til í tölulið 9be, XVII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og tölulið 21aqe, III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 27/2010, þann 12. mars 2010. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 7 frá 2. febrúar 2012, bls. 15-19.
 5. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 306/2008 frá 2. apríl 2008 um að setja, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 842/2006, lágmarkskröfur og skilyrði fyrir gagnkvæmri viðurkenningu á vottun starfsfólks sem endurheimtir tiltekna leysa, sem í eru flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, úr búnaði, sem vísað er til í tölulið 9bg, XVII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og tölulið 21aqg, III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 27/2010, þann 12. mars 2010. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 7 frá 2. febrúar 2012, bls. 24-27.
 6. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 307/2008 frá 2. apríl 2008 um að setja, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 842/2006, lágmarkskröfur um menntunaráætlanir og skilyrði fyrir gagnkvæmri viðurkenningu á námsvottorðum fyrir starfsfólk að því er varðar loftræstikerfi í tilteknum vélknúnum ökutækjum sem innihalda tilteknar flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, sem vísað er til í tölulið 9bh, XVII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og tölulið 21aqh, III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 27/2010, þann 12. mars 2010. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 7 frá 2. febrúar 2012, bls. 28-30.
 7. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/2065 frá 17. nóvember 2015 um ákvörðun, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 517/2014, á sniði fyrir tilkynningar um menntunar- og vottunaráætlanir aðildarríkjanna, sem vísað er til í tölulið 9bi, XVII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og tölulið 21aqi, III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 161/2019, þann 14. júní 2019. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 49 frá 20. júní 2019, bls. 258-265.
 8. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/2066 frá 17. nóvember 2015 um að setja, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 517/2014, lágmarkskröfur og skilyrði fyrir gagnkvæmri viðurkenningu á vottun einstaklinga sem annast uppsetningu, þjónustu, viðhald, viðgerðir eða úreldingu rafknúins rofbúnaðar sem inniheldur flúoraðar gróðurhúsalofttegundir eða sem endurheimta flúoraðar gróðurhúsalofttegundir úr föstum rafknúnum rofbúnaði, sem vísað er til í tölulið 9bf, XVII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og tölulið 21aqf, III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 161/2019, þann 14. júní 2019. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 49 frá 20. júní 2019, bls. 266-271.
 9. Framkvæmdareglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/2067 frá 17. nóvember 2015 um að setja, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 517/2014, lágmarkskröfur og skilyrði fyrir gagnkvæmri viðurkenningu á vottun einstaklinga að því er varðar fastan kæli-, loftræsti- og varmadælubúnað, og kælieiningar í kælibifreiðum og kælivögnum sem innihalda flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, og á vottun fyrirtækja að því er varðar fastan kæli-, loftræsti- og varmadælubúnað sem inniheldur flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, sem vísað er til í tölulið 9bd, XVII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og tölulið 21aqd, III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 161/2019, þann 14. júní 2019. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 49 frá 20. júní 2019, bls. 272-282.
 10. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/2068 frá 17. nóvember 2015 um ákvörðun, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 517/2014, á sniði fyrir merkimiða fyrir vörur og búnað sem innihalda flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, sem vísað er til í tölulið 9ba, XVII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og tölulið 21aqa, III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 161/2019, þann 14. júní 2019. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 49 frá 20. júní 2019, bls. 283-285.

16. gr. EES-innleiðing.

Reglugerðin er sett til innleiðingar á eftirtöldum EES-gerðum:

 1. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 517/2014 frá 16. apríl 2014 um flúoraðar gróðurhúsalofttegundir og um niðurfellingu reglugerðar (EB) nr. 842/2006.
 2. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1497/2007 frá 18. desember 2007 um staðlaðar kröfur um eftirlit með leka, í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 842/2006, að því er varðar föst brunavarnarkerfi sem innihalda tilteknar flúraðar gróðurhúsalofttegundir.
 3. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1516/2007 frá 19. desember 2007 um staðlaðar kröfur um eftirlit með leka, í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 842/2006, að því er varðar fastan kæli-, loftræsti- og varmadælubúnað sem inniheldur tilteknar flúraðar gróðurhúsalofttegundir.
 4. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 304/2008 frá 2. apríl 2008 um að setja, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 842/2006, lágmarkskröfur og skilyrði fyrir gagnkvæmri viðurkenningu á vottun fyrirtækja og starfsfólks að því er varðar föst brunavarnarkerfi og slökkvitæki sem innihalda tilteknar flúoraðar gróðurhúsalofttegundir.
 5. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 306/2008 frá 2. apríl 2008 um að setja, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 842/2006, lágmarkskröfur og skilyrði fyrir gagnkvæmri viðurkenningu á vottun starfsfólks sem endurheimtir tiltekna leysa, sem í eru flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, úr búnaði.
 6. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 307/2008 frá 2. apríl 2008 um að setja, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 842/2006, lágmarkskröfur um menntunaráætlanir og skilyrði fyrir gagnkvæmri viðurkenningu á námsvottorðum fyrir starfsfólk að því er varðar loftræstikerfi í tilteknum vélknúnum ökutækjum sem innihalda tilteknar flúoraðar gróðurhúsalofttegundir.
 7. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/2065 frá 17. nóvember 2015 um ákvörðun, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 517/2014, á sniði fyrir tilkynningar um menntunar- og vottunaráætlanir aðildarríkjanna.
 8. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/2066 frá 17. nóvember 2015 um að setja, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 517/2014, lágmarkskröfur og skilyrði fyrir gagnkvæmri viðurkenningu á vottun einstaklinga sem annast uppsetningu, þjónustu, viðhald, viðgerðir eða úreldingu rafknúins rofbúnaðar sem inniheldur flúoraðar gróðurhúsalofttegundir eða sem endurheimta flúoraðar gróðurhúsalofttegundir úr föstum rafknúnum rofbúnaði.
 9. Framkvæmdareglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/2067 frá 17. nóvember 2015 um að setja, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 517/2014, lágmarkskröfur og skilyrði fyrir gagnkvæmri viðurkenningu á vottun einstaklinga að því er varðar fastan kæli-, loftræsti- og varmadælubúnað, og kælieiningar í kælibifreiðum og kælivögnum sem innihalda flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, og á vottun fyrirtækja að því er varðar fastan kæli-, loftræsti- og varmadælubúnað sem inniheldur flúoraðar gróðurhúsalofttegundir.
 10. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/2068 frá 17. nóvember 2015 um ákvörðun, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 517/2014, á sniði fyrir merkimiða fyrir vörur og búnað sem innihalda flúoraðar gróðurhúsalofttegundir.

17. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 10. tölul. 1. mgr. 11. gr. efnalaga nr. 61/2013.

Reglugerðin öðlast þegar gildi. Við gildistöku þessarar reglugerðar fellur úr gildi reglugerð nr. 834/2010 um flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, með síðari breytingum.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.