Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 19. jan. 2022

Reglugerð með breytingum síðast breytt 16. júlí 2021

1066/2014

Reglugerð um velferð sauðfjár og geitfjár.

I. KAFLI Markmið, gildissvið og skilgreiningar.

1. gr. Tilgangur og gildissvið.

Tilgangur reglugerðarinnar er að tryggja velferð og heilbrigði alls sauðfjár og geitfjár með góðri meðferð, umsjá og aðbúnaði. Leitast skal við að sauðfé og geitur geti lifað í samræmi við eðlilegt atferli sitt eins og framast er kostur. Í reglugerðinni koma fram lágmarkskröfur um einstök atriði.

2. gr. Orðskýringar.

Í reglugerð þessari hafa eftirtalin orð þá merkingu sem hér segir:

  1. Fé: Sauðfé og geitfé af öllu tagi.
  2. Geit: Dýr af geitfjárkyni.
  3. Gemlingur: Kynþroska kind, 12 mánaða og yngri.
  4. Huðna: Kvenkyns kynþroska fullorðin geit.
  5. Kið: Ókynþroska geit.
  6. Kind: Dýr af sauðfjárkyni.
  7. Lamb: Ókynþroska kind.
  8. Umráðamaður: Eigandi eða annar sem er ábyrgur fyrir umsjón með sauðfé og geitfé.
  9. Vanmetafé: Dýr sem eru sjúk eða þrífast ekki og grunur getur verið um að haldin séu smitandi sjúkdómi.
  10. Ær: Kvenkyns kynþroska kind, 12 mánaða og eldri.

II. KAFLI Eftirlit, úttekt, meðferð og umsjá.

3. gr. Opinbert eftirlit.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt reglugerð þessari. Matvælastofnun annast eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar.

Hver sem ætlar að eignast sauðfé eða geitfé skal tilkynna það til Matvælastofnunar svo tryggt sé að lögbundnar skráningar, merkingar og eftirlit geti hafist.

Umráðamanni sauðfjár eða geitfjár ber að tryggja gott aðgengi eftirlitsaðila að öllum dýrum og öllum þeim stöðum þar sem þau er haldin.

4. gr. Geta, hæfni og ábyrgð.

Umráðamaður sauðfjár eða geitfjár skal sjá til þess að hver sá sem ber ábyrgð á umönnun kinda eða geita í hans eigu, hafi hæfni til þess, þekkingu á umönnun og þörfum dýranna og á lögum og reglum um sauðfjár- og geitfjárhald og hafi líkamlega og andlega getu til þess að annast dýrin.

5. gr. Almenn meðferð og eigið eftirlit.

Bannað er að beita sauðfé og geitfé illri meðferð.

Umráðamanni sauðfjár og geitfjár er skylt að venja það við umgengni við menn bæði utan- og innandyra.

Tryggja skal velferð allra dýra með því að líta reglulega til með þeim og bæta úr því sem ábótavant er.

Daglegt eftirlit skal haft með sauðfé og geitfé á húsi. Sérstakt og tíðara eftirlit skal haft með nýfæddu, sjúku og slösuðu fé. Sama á við um ær og huðnur nálægt burði. Fé sem haldið er úti yfir vetur skal haft í fjárheldum girðingum þannig að eftirlit sé framkvæmanlegt fram yfir sauðburð.

Gætt skal að heilsufari, hreinlæti, fóðrun, fóðri, vatni og öðrum umhverfisþáttum og tækjabúnaði sem geta haft áhrif á líðan fjárins.

Sjúk og slösuð dýr skal færa í sérstaka sjúkrastíu með þurru, hreinu og mjúku undirlagi. Sýni einstök dýr grunsamleg sjúkdómseinkenni eða vanþrif skal haft samband við dýralækni varðandi meðferð og meðhöndlun eða frekari rannsóknir. Aflífa skal dýr ef þau þjást vegna meiðsla eða sjúkdóma sem ekki er unnt að lækna.

Gæta skal að vexti horna svo að þau valdi ekki meiðslum og klaufir skulu vera vel hirtar.

Kindur eða geitur skulu ekki tjóðraðar að staðaldri, hvorki úti né inni.

Fénu skal haldið hreinu og það rúið a.m.k. einu sinni á ári. Þegar fé er rúið að vetri til skal það hýst í skjólgóðri byggingu, þess gætt að það ofkælist ekki og skal einnig tryggt að fóðrun þess sé góð.

Rúningstækjum skal haldið í góðu ástandi, þau sótthreinsuð eftir þörfum og ávallt ef farið er með þau á milli fjárbúa.

6. gr. Fóðrun og brynning.

Fóður skal að magni, gæðum og efnainnihaldi fullnægja þörfum fjárins til eðlilegs vaxtar, viðhalds og framleiðslu. Á húsi skal skilja ásetningslömb og gemlinga frá öðru fé.

Allt sauðfé og geitfé skal ávallt hafa nægan aðgang að hreinu og ómenguðu drykkjarvatni. Fóður- og brynningarbúnaður skal þannig útbúinn, uppsettur og viðhaldið að hætta á mengun sé í lágmarki. Sauðfé og geitum skal tryggður aðgangur að nægu vatni í húsum á meðan þau eru á innistöðu.

Við gjafagrindur til sjálffóðrunar skal vera rými í einu fyrir a.m.k. þriðjung þess fjár sem hefur aðgang að þeim. Þær skulu fylltar jafnóðum og þær tæmast og tryggt skal að sauðfé og geitfé hafi stöðugan aðgang að góðu fóðri.

Um lágmarks jöturými gilda skilyrði í A. lið viðauka I.

Mat á holdum skal fara eftir viðauka II um holdastig.

7. gr. Aðferðir, þjálfun og keppni.

Kindur og geitur sem hafðar eru til sýnis á sérstökum dýrasýningum skulu vera vandar við umgengni manna. Við þjálfun kinda og geita skal einungis nota þjálfunaraðferðir sem byggjast á jákvæðri styrkingu. Óheimilt er að nota þjálfunaraðferðir þar sem þvingunum og refsingum er beitt.

Umráðamanni sauðfjár og geitfjár sem nota á við gerð auglýsinga, kvikmynda, leiksýninga eða við aðrar aðstæður og/eða í umhverfi sem sauðfé og geitfé er ekki eðlilegt, ber að tilkynna Matvælastofnun um fyrirhugaða notkun eigi síðar en 10 dögum áður en áætluð notkun fer fram. Óheimilt er að hefja notkun fyrr en skilyrði varðandi húsnæði, búnað, notkun og þekkingu eru uppfyllt og hafa verið staðfest af Matvælastofnun að lokinni úttekt.

8. gr. Aðgerðir.

Dýralæknum er einum heimilt að afhorna kindur og geitur þannig að fari inn í sló og gelda karldýr. Skylt er að nota deyfingu við þær aðgerðir og nota skal langverkandi verkjalyf þar sem það á við. Matvælastofnun getur krafist upplýsinga um allar aðgerðir sem hafa verið gerðar á sauðfé eða geitfé sem eru á búinu eða koma til slátrunar, þar með talið hornatöku og geldingar.

9. gr. Ræktun og æxlun.

Við pörun skal varast að æxla saman dýrum sem vitað er að gefa afkvæmi sem valda verulegum burðarerfiðleikum.

10. gr. Merkingar.

Um merkingar sauðfjár og geitfjár gilda ákvæði reglugerðar um merkingar búfjár.

11. gr. Flutningar, rekstur og handsömun.

Ávallt skal gæta fyllstu nærgætni við smölun og rekstur sauðfjár og geitfjár, forðast að þreyta það umfram nauðsyn og tryggja því nægan aðgang að vatni.

Um flutning sauðfjár og geitfjár gilda ákvæði reglugerðar um flutning búfjár.

12. gr. Smitvarnir.

Umhverfi og næsta nágrenni fjárhúss skal vera þrifalegt þannig að smitefni berist ekki auðveldlega inn í þau enda séu meindýravarnir viðhafðar.

Við inngang í fjárhús eða geitahús skal vera aðstaða til handþvottar eða sótthreinsunar á höndum og hreinsunar á skófatnaði. Verði því ekki við komið, skulu þjónustuaðilar og gestir fara í hlífðarfatnað og skófatnað búsins eða einnota búnað. Við móttöku og afhendingu gripa, fóðurs og annarra aðfanga skal gæta smitvarna.

Jafnan skal stefnt að því að koma í veg fyrir sjúkdóma með fyrirbyggjandi aðgerðum svo sem góðum aðbúnaði og alhliða fóðrun.

Komi upp alvarlegur smitsjúkdómur á sauðfjár- eða geitfjárbúi eða grunur er um slíkan sjúkdóm skal umráðamaður fjárins eða dýralæknir búsins þegar í stað tilkynna það viðkomandi héraðsdýralækni.

Skilja skal vanmetafé og fé sem grunur er um að sé með smitsjúkdóm, frá öðru fé.

Flutningamenn skulu alla jafna ekki koma inn í rými þar sem sauðfé og geitfé er haldið þegar afhending fjár fer fram. Í fjárhúsum byggðum eftir gildistöku reglugerðar þessarar skulu aðstæður vera þannig að við afhendingu fjár þurfi flutningamenn ekki að koma inn í rými þar sem sauðfé og geitfé er haldið. Flutningatæki sem koma með fóður og önnur aðföng og flytja afurðir, fé eða aðrar vörur, að og frá búinu, skulu geta farið um á malarbornu eða öðru föstu undirlagi.

Óheimilt er að halda annað búfé með sauðfé og geitfé á húsi, þannig að bein snerting á milli þeirra eða saurmengun geti átt sér stað.

13. gr. Aflífun utan sláturhúss.

Heimilt er að aflífa kindur og geitur utan sláturhúss með þar til gerðri boltabyssu eða byssu með kúlu. Skotið skal í hnakka og dýrið blóðgað tafarlaust með skurði í gegnum báðar hálsslagæðar.

Þá er heimilt að skjóta kindur eða geitur á færi í brjóstið ef ekki tekst að ná til dýranna með öðru móti. Við aflífun skal þess gætt að fé sé svipt meðvitund og blóðgað skv. 1. mgr.

Heimilt er að aflífa lömb og kið yngri en 14 daga með banvænu höggi í hnakkann og blóðgun tafarlaust á eftir.

Skylt er að aflífa alvarlega veikt og/eða slasað sauðfé og geitfé eins fljótt og auðið er ef viðeigandi læknismeðferð er ekki möguleg.

Við val á vopni til aflífunar skal taka mið af aldri og ástandi dýrsins.

Um aflífun sauðfjár og geitfjár gildir að öðru leyti reglugerð um vernd dýra við aflífun.

III. KAFLI Aðbúnaður.

14. gr. Aðbúnaður og húsakostur.

Öllu sauðfé og geitfé skal tryggt nægilegt húsaskjól að vetrarlagi. Um rýmisþörf í húsi fer samkvæmt A-lið viðauka I og skal á hverjum tíma vera hægt að sýna fram á að slíkt rými sé til staðar í aðgengilegri fjarlægð fyrir vetrarfóðraðar kindur og geitur. Eigandi þarf að geta sýnt fram á að hann geti hýst allt sitt sauðfé og geitfé með skömmum fyrirvara ef válynd veður verða.

Svæði fyrir framan dyr skal vera malarborið eða með varanlegu slitlagi til þess að fé óhreinkist ekki.

Gólf skulu vera þannig gerð að tryggt sé að fé festi ekki fætur eða skaði sig að öðru leyti. Óheimilt er að nota gólfefni með skörpum köntum eða bryggjum sem getur skaðað klaufir eða fótleggi sauðfjár og geitfjár. Gólf skulu ekki vera hál. Þar sem tað er á gólfi skal því haldið þurru. Um gólfgerð gilda skilyrði í B. lið viðauka I.

Þar sem málmristar eða málmgrindur eru á stíugólfum skal 40% af gólffletinum, hið minnsta, vera með legusvæði úr timbri eða öðru efni með samsvarandi eða minni varmaleiðni en timbur.

Innréttingar skulu vera þannig úr garði gerðar að þær hefti ekki eðlilegar hreyfingar dýranna. Í húsum skulu vera garðar, jötur eða gjafagrindur til fóðrunar sbr. A. lið viðauka I.

15. gr. Lýsing, loftgæði og hljóðvist.

Á öllum húsum skulu vera gluggar sem tryggi að þar gæti dagsbirtu. Þar skal einnig vera önnur lýsing svo að ávallt sé hægt að fylgjast með öllu fé í húsinu. Ljós skulu þannig staðsett að þau valdi fénu ekki óþægindum eða hættu. Að öllu jöfnu skal birta í fjárhúsum fylgja dægrum og árstíma. Þó er heimilt að hafa sólarhringslýsingu á burðartíma og daufa næturlýsingu á öðrum tímum.

Loftræsting í fjár- eða geitahúsi skal tryggja viðeigandi loftskipti og loftgæði í samræmi við C. lið viðauka I. Ekki skal nýta loft sem getur dregist inn í gegnum hauggeymslur. Gæta skal sérstaklega að lofthita þegar fé er nýrúið.

Óheimilt er að hafa sauðfé og geitfé í stöðugum hávaða eða reglubundnum hvell- eða högghljóðum og skal hávaði ekki vera meiri en 65dB á legusvæði.

16. gr. Slysavarnir.

Ganga skal þannig frá opum í taðgeymslur að ekki sé hætta á að skepnur geti fallið þar inn í. Ganga skal þannig frá fóðri og öðrum efnum í geymslum að skepnur komist ekki í það.

Skemmdir og slit á innréttingum og gólfum sem geta valdið slysum skal laga strax.

17. gr. Útivist og skjól.

Öllu sauðfé og geitfé skal tryggður aðgangur að beit í 12 vikur hið minnsta á tímabilinu frá 1. maí til 30. september.

Við beit sauðfjár og geitfjár skal þess ætíð gætt að næringarþörf sé fullnægt og ekki sé of þröngt í högum.

Óheimilt er að hafa fé á útigangi á vetrum þar sem ekki verður komið við fóðrun og eðlilegu, reglubundnu eftirliti.

Tryggja skal að fé á beit hafi ávallt nægan aðgang að hreinu og ómenguðu drykkjarvatni.

Á burðartíma skal vitja um ær og huðnur á útigangi daglega.

Geitur skulu geta leitað skjóls fyrir úrkomu.

IV. KAFLI Önnur ákvæði.

18. gr. Undanþága varðandi húsakost og útigang.

Matvælastofnun er heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum 1. mgr. 14. gr. og 3. mgr. 17. gr. Undanþágan er bundin við sauðfé, einstakar óbyggðar eyjar og takmarkaðan fjárfjölda þar sem tryggt er að féð komist í skjól og hafi aðgang að nægilegri beit og vatni. Sækja þarf um undanþáguna til Matvælastofnunar, með rökstuddri umsókn með lýsingu á staðháttum og fjárfjölda.

19. gr. Viðurlög.

Brot gegn reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 55/2013 um velferð dýra. Meðferð mála út af brotum á reglugerðinni fer samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

20. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 55/2013 um velferð dýra og lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, ásamt síðari breytingum. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Við gildistöku þessarar reglugerðar fellur úr gildi reglugerð nr. 60/2000 um eftirlit með aðbúnaði og heilbrigði sauðfjár og geitfjár og eftirlit með framleiðslu kjöts og annarra afurða þeirra.

Bráðabirgðaákvæði.

Fjárhús og geithús sem byggð eru fyrir gildistöku reglugerðar þessarar skulu uppfylla skilyrði 4. mgr. 14. gr. fyrir 31. desember 2022.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.