Fara beint í efnið

Prentað þann 20. jan. 2022

Brottfallin reglugerð felld brott 1. júní 2021

1060/2013

Reglugerð um vöktun og skýrslugjöf starfsstöðva sem hafa verið undanskildar gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir skv. 14. gr. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að afla heildstæðra, áreiðanlegra og gagnsærra upplýsinga um losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsstöðvum sem undanskildar hafa verið gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir í samræmi við 14. gr. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál. Slíkar upplýsingar eru nauðsynlegar til að meta hvort viðkomandi starfsstöð uppfylli skilyrði þess að vera undanskilin gildissviði viðskiptakerfisins og til að ákvarða losunargjald viðkomandi starfsstöðvar.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um vöktun og skýrslugjöf rekstraraðila vegna losunar gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi starfsstöðva sem undanskildar hafa verið gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir skv. 14. gr. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari skulu orð og orðasambönd hafa eftirfarandi merkingu:

Gróðurhúsalofttegundir: Lofttegundir sem tilgreindar eru í III. viðauka laga nr. 70/2012 um loftslagsmál.

Losun gróðurhúsalofttegunda: Útstreymi gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið af mannavöldum.

Rekstraraðili: Aðili sem hefur starfsleyfi skv. 5. gr. a. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998 og starfrækir eða stjórnar starfsstöð eða ber fjárhagslega ábyrgð á tæknilegri virkni starfsstöðvar þar sem fram fer starfsemi sem getið er í I. viðauka laga nr. 70/2012 um loftslagsmál.

Starfsstöð: Staðbundin tæknileg eining þar sem fram fer ein eða fleiri tegundir starfsemi sem getið er í I. viðauka laga nr. 70/2012 um loftslagsmál og öll önnur starfsemi sem gæti haft áhrif á losun og mengun og tengist með beinum og tæknilegum hætti þeirri starfsemi sem fram fer á staðnum.

Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir: Kerfi sem starfrækt er á Evrópska efnahagssvæðinu samkvæmt tilskipun 2003/87/EB, með síðari breytingum, sbr. samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

4. gr. Ákvarðanir Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun tekur ákvarðanir er varða vöktun og skýrslugjöf eftir því sem kveðið er á um í reglugerð þessari.

Ákvarðanir Umhverfisstofnunar skv. reglugerð þessari eru kæranlegar til ráðherra.

5. gr. Skylda til að vakta losun gróðurhúsalofttegunda.

Rekstraraðilum ber skylda til að vakta losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi starfsstöðva sem undanskildar hafa verið gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir skv. 14. gr. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál. Vöktunin skal byggjast á samþykktri vöktunaráætlun skv. 6. gr. reglugerðar þessarar.

6. gr. Vöktunaráætlun rekstraraðila vegna losunar gróðurhúsalofttegunda.

Rekstraraðilar skulu senda Umhverfisstofnun vöktunaráætlun vegna losunar gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi sem hefur verið undanskilin gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir skv. 14. gr. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál.

Form og efni vöktunaráætlunar skal, eftir því sem við á, uppfylla kröfur sem kveðið er á um í samræmdum reglum um vöktun og skýrslugjöf í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 72/2013 um vöktun og skýrslugjöf í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

Umhverfisstofnun skal fara yfir vöktunaráætlun og taka afstöðu til þess hvort hún skuli samþykkt innan fjögurra vikna frá því að hún berst stofnuninni. Umhverfisstofnun skal því aðeins samþykkja vöktunaráætlun ef stofnunin telur áætlunina sýna fram á að rekstraraðili sé fær um að vakta losun frá starfsstöð sinni og gefa árlega skýrslu um losun sína í samræmi við reglugerð þessa. Ef Umhverfisstofnun telur vöktunaráætlun ófullnægjandi skal rekstraraðila tilkynnt afstaða stofnunarinnar og honum veittur tveggja vikna frestur til að gera nauðsynlegar úrbætur. Ef Umhverfisstofnun telur vöktunaráætlun enn ófullnægjandi að frestinum liðnum skal stofnunin hafna vöktunaráætlun og áætla losun rekstraraðila, sbr. 9. gr. reglugerðar þessarar. Kærufrestur vegna ákvörðunar Umhverfisstofnunar um að hafna vöktunaráætlun skal vera tvær vikur. Ráðherra skal kveða upp úrskurð sinn eins fljótt og hægt er og eigi síðar en innan fjögurra vikna frá því að gagnaöflun er lokið.

Ef breytingar verða á starfsemi, eldsneytisnotkun, hráefnanotkun eða vöktunaraðferðum rekstraraðila sem og ef breytingar verða á þeim reglum sem um vöktunaráætlun gilda eða ef vöktunaráætlun uppfyllir af öðrum ástæðum ekki lengur skilyrði reglugerðar þessarar skal rekstraraðili, að eigin frumkvæði eða að kröfu Umhverfisstofnunar, gera viðeigandi breytingar á áætluninni. Tilkynna skal Umhverfisstofnun um hvers konar breytingar á vöktunaráætlun og skulu verulegar breytingar á áætluninni háðar samþykki stofnunarinnar.

7. gr. Skýrslugjöf um losun gróðurhúsalofttegunda.

Rekstraraðilar starfsstöðva sem undanskildar hafa verið gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir skv. 14. gr. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál skulu árlega skila til Umhverfisstofnunar skýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi starfsstöðvarinnar á undangengnu almanaksári skv. 2. mgr. sömu greinar.

Skýrslan skal berast Umhverfisstofnun í síðasta lagi 31. mars ár hvert. Umhverfisstofnun er þó heimilt að krefjast þess að skýrslunni sé skilað fyrr, þó ekki fyrr en 28. febrúar ár hvert. Umhverfisstofnun skal í slíkum tilvikum tilkynna rekstraraðila um kröfu sína í síðasta lagi 30. nóvember árið á undan og tilgreina ástæður þess að heimildin skal nýtt. Ákvörðun um breyttan skilafrest skal ná til allra rekstraraðila sem senda Umhverfisstofnun skýrslu á viðkomandi ári.

Form og efni skýrslunnar skal, eftir því sem við á, uppfylla kröfur sem kveðið er á um í samræmdum reglum um vöktun og skýrslugjöf í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 72/2013 um vöktun og skýrslugjöf í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

Skýrslan skal vottuð af óháðum vottunaraðila í samræmi við ákvæði reglugerðar um vottun og viðurkenningu í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Það gildir þó ekki um starfsstöðvar þar sem árleg meðaltalslosun á tímabilinu 2008-2010 var minni en 5.000 tonn koldíoxíðsígilda. Skýrslur vegna slíkra starfsstöðva skulu endurskoðaðar í samræmi við 8. gr. reglugerðar þessarar.

Umhverfisstofnun er heimilt að krefjast þess að skýrslunni í heild eða einstökum gögnum sé skilað á því rafræna formi sem stofnunin ákveður.

8. gr. Endurskoðun skýrslu starfsstöðva með litla losun.

Skýrsla vegna starfsstöðvar þar sem árleg meðaltalslosun á tímabilinu 2008-2010 var minni en 5.000 tonn koldíoxíðsígilda, sbr. 4. mgr. 7. gr. reglugerðar þessarar, skal endurskoðuð af hlutlausum og óháðum endurskoðanda á sambærilegan hátt og fjárhagsbókhald fyrirtækja.

Endurskoðandi skal hafa yfir að ráða þekkingu á sviði framleiðslu- og umhverfismála viðkomandi rekstraraðila. Endurskoðun skýrslu skal fela í sér staðfestingu á því að þær tölur sem gefnar eru upp séu réttar og í samræmi við fjárhagsbókhald rekstraraðila sem og þær tölur sem sendar eru aðila sem hefur eftirlit með starfsleyfi vegna mengunarmælinga. Endurskoðandi skal gera grein fyrir því hvernig endurskoðun skýrslunnar fór fram og staðfesta endurskoðunina með áritun sinni.

9. gr. Heimild Umverfisstofnunar til að áætla losun gróðurhúsalofttegunda.

Ef skýrsla um losun gróðurhúsalofttegunda hefur ekki borist frá rekstraraðila fyrir þann frest sem tilgreindur er í 2. mgr. 7. gr. reglugerðar þessarar, ef skýrsla er ófullnægjandi t.d. vegna þess að fullnægjandi vöktunaráætlun skv. 3. mgr. 6. gr. hefur ekki borist, eða skýrsla hefur ekki verið vottuð eða endurskoðuð, skal Umhverfisstofnun áætla losun viðkomandi rekstraraðila á undangengnu almanaksári miðað við mestu mögulegu losun í viðkomandi starfsemi.

Umhverfisstofnun skal tilkynna rekstraraðila um fyrirhugaða áætlun með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara og gefa honum kost á að bæta úr annmörkum eða koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en ákvörðun um áætlun er tekin. Kærufrestur vegna ákvörðunar um áætlun er tvær vikur frá því að hún er tekin. Ráðherra skal kveða upp úrskurð sinn eins fljótt og hægt er og eigi síðar en innan fjögurra vikna frá því að gagnaöflun er lokið.

10. gr. Yfirferð og staðfesting Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun fer yfir hvort skýrsla skv. 7. gr. reglugerðar þessarar samræmist þeim lögum og reglugerðum sem um hana gilda og hvort viðkomandi starfsstöð uppfylli skilyrði þess að vera undanskilin gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir.

Skýrsla sem Umhverfisstofnun metur fullnægjandi skal staðfest af stofnuninni eins fljótt og verða má eftir að skýrslan berst. Hið sama á við í tilvikum eftir að losun hefur verið áætluð í samræmi við 9. gr. reglugerðar þessarar.

Ef Umhverfisstofnun telur skýrslu rekstraraðila eða áætlun á losun gróðurhúsalofttegunda leiða í ljós að starfsstöð uppfylli ekki lengur skilyrði þess að vera undanskilin gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir skal stofnunin tilkynna rekstraraðila um afstöðu sína og upplýsa um ástæður hennar. Rekstraraðila skal veittur tveggja vikna frestur til að tjá sig um afstöðu Umhverfisstofnunar eða gera viðeigandi úrbætur. Ef Umhverfisstofnun telur að ekki hafi komið fram upplýsingar að frestinum liðnum sem breyta afstöðu stofnunarinnar skal hún staðfesta skýrsluna með þeirri athugasemd að viðkomandi starfsstöð teljist ekki lengur undanskilin gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir. Skal þá litið svo á að starfsstöðin falli undir gildissvið viðskiptakerfisins frá þeim degi sem skýrslan er staðfest. Rekstraraðili viðkomandi starfsstöðvar skal þá eiga rétt á úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda skv. 10. gr. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál frá því ári sem starfsstöð heyrir undir gildissvið viðskiptakerfisins, eins og ef hún hefði ekki verið undanskilin gildissviði þess. Starfsstöð sem þetta á við um skal heyra undir gildissvið viðskiptakerfisins það sem eftir lifir yfirstandandi viðskiptatímabils.

11. gr. Magn gjaldskyldrar losunar.

Að lokinni yfirferð og staðfestingu skýrslu í samræmi við 10. gr. reglugerðar þessarar sendir Umhverfisstofnun skýrslu um magn gjaldskyldrar losunar til innheimtumanns ríkissjóðs í umdæmi viðkomandi starfsstöðvar. Skýrslan skal send fyrir 31. maí ár hvert. Um fjárhæð, álagningu og innheimtu losunargjalds gilda 3.-5. mgr. 14. gr. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál.

12. gr. Almenn upplýsingaskylda.

Umhverfisstofnun er heimilt að krefja rekstraraðila um allar upplýsingar sem stofnunin þarf á að halda til að meta hvort skyldur laga nr. 70/2012 um loftslagsmál og reglugerðar þessarar hafi verið efndar á fullnægjandi hátt.

Umhverfisstofnun skal veita rekstraraðila hæfilegan frest til að afhenda upplýsingar skv. 1. mgr. og skal tilgreina ástæður þess að upplýsinganna er krafist.

13. gr. Þagnarskylda starfsmanna.

Starfsfólk Umhverfisstofnunar sem sinnir verkefnum skv. reglugerð þessari er bundið trúnaði um allar trúnaðarupplýsingar sem það verður áskynja í starfi sínu og leynt skulu fara. Undir trúnaðarupplýsingar heyra m.a. upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni rekstraraðila. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

Rekstraraðilar geta óskað eftir því að litið verði á tilteknar upplýsingar sem sendar eru Umhverfisstofnun skv. reglugerð þessari sem trúnaðarupplýsingar. Ef ósk berst um afhendingu slíkra upplýsinga er Umhverfisstofnun óheimilt að afhenda þær nema rekstraraðila hafi verið veittur a.m.k. sjö daga frestur til að tjá sig um framkomna beiðni.

14. gr. Þvingunarúrræði og viðurlög.

Um þvingunarúrræði og viðurlög vegna brota samkvæmt reglugerð þessari fer samkvæmt XIII. kafla laga nr. 70/2012 um loftslagsmál.

15. gr. Innleiðing EES-gerða.

Reglugerðin er sett til innleiðingar á 27. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB frá 13. október 2003 um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan bandalagsins og um breytingu á tilskipun ráðsins 96/61/EB, eins og henni var breytt með tilskipun 2009/29/EB, sbr. tölulið 21al í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2007, frá 27. október 2007 og nr. 152/2012, frá 26. júlí 2012, með þeim breytingum og viðbótum sem leiða af reglugerð þessari, XX. viðauka samningsins, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans.

16. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 8. mgr. 14. gr. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Skýrslu skv. 7. gr. reglugerðar þessarar skal skilað í fyrsta skipti 31. mars 2014.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 27. nóvember 2013.

F. h. r.

Stefán Thors.

Hugi Ólafsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.