Prentað þann 26. des. 2024
1044/2021
Reglugerð um safnskip.
1. gr. Safnskip.
Safnskip er skip sem er 50 ára eða eldra sem rekið er í menningarlegum tilgangi og hefur fengið skráningu sem slíkt. Menningarlegur tilgangur skips nær eingöngu til menningarlegs gildis skipsins sjálfs en ekki starfsemi um borð, svo sem tónleikahalds eða annarra menningarviðburða.
Að öðru leyti en greinir í þessari reglugerð gilda almennar reglur og lög um safnskip eins og þau væru hefðbundin skip.
2. gr. Skráning sem safnskip.
Eigandi eða útgerð skips sem óskar skráningar þess sem safnskips skal sækja um það til Samgöngustofu. Í skráningarbeiðni skal koma fram:
- Upplýsingar um menningarsögulegt gildi skipsins og tengsl við Ísland.
- Fyrirhugaður rekstur skipsins, þ.m.t. hvort fyrirhugað sé að flytja farþega, sýna skipið við bryggju eða akkerislægi, takmarka rekstur þess við tiltekinn hluta árs eða hvaðeina annað sem kann að hafa þýðingu við ákvörðun um búnað skipsins.
- Hvaða farsviði starfsemi skipsins er ætluð.
- Við hvaða reglur fyrirhugað er að miða rekstur skipsins, sbr. 4. gr.
- Upplýsingar um forsvarsmenn útgerðar skipsins eða aðra tilnefnda einstaklinga og hæfni þeirra ef óskað er heimildar til að annast milliskoðanir skipsins skv. 2. mgr. 3. gr.
3. gr. Skoðanir safnskips.
Safnskip skal skoðað líkt og greinir í reglugerð um skoðanir á skipum og búnaði þeirra nr. 1017/2003 með áorðnum breytingum.
Heimilt er að fela útgerð safnskips framkvæmd milliskoðana skv. reglugerð nr. 1017/2003 að því leyti sem það stangast ekki á við ákvæði alþjóðasamninga sem Ísland á aðild að sýni útgerð fram á að einstaklingar á hennar vegum hafi hæfni til að sinna þeim skoðunum. Við mat á hæfni skal litið til krafna sem gerðar eru til skoðunarmanna skv. 10. gr. reglugerðar nr. 94/2004 um starfshætti faggiltra skoðunarstofa skips og búnaðar.
Útgerð safnskips er heimilt að gera þjónustusamning við aðila sem uppfylla skilyrði 2. mgr. um framkvæmd milliskoðana skv. 2. mgr.
Annist útgerð skips milliskoðanir á eigin vegum með heimild skv. 2. mgr. skal fylla út skoðunarskýrslu þess efnis á formi sem Samgöngustofa ákveður. Tilkynna skal Samgöngustofu þegar skoðun hefur farið fram og skal unnt að framvísa skoðunarskýrslu til Samgöngustofu eða starfsmanns á hennar vegum sé þess óskað.
Á grundvelli umsóknar útgerðar skips skv. 2. gr. og í samræmi við þær reglur sem um það safnskip gilda skv. 4. gr. skal Samgöngustofa útbúa skoðunarhandbók fyrir skipið.
4. gr. Undanþágur frá búnaðarkröfum.
Heimilt er að safnskip sé búið líkt og lög mæltu þegar skipið var smíðað og tekið til rekstrar með þeim takmörkunum sem greinir í þessari grein. Hafi meiriháttar breytingar verið gerðar á skipi í skilningi 27. gr. skipalaga nr. 66/2021 skulu kröfur taka mið af þeim tímapunkti er þeim breytingum lauk í skilningi þessarar greinar að því leyti sem breytingar voru gerðar. Undanþágur skv. þessari grein eiga eingöngu við búnað og smíði skipsins.
Þrátt fyrir 1. mgr. er ekki heimilt að veita undanþágur gagnvart gildandi kröfum er lýtur að:
- Kröfum til björgunarbúnaðar.
- Kröfum til lyfja og læknisáhalda um borð.
- Ófrávíkjanlegum kröfum sem stafa af alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að og gilda um skipið.
- Ófrávíkjanlegum kröfum sem stafa frá innleiddum gerðum í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og gilda um skipið.
5. gr. Refsiákvæði.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 47. gr. skipalaga nr. 66/2021.
6. gr. Þjónustugjöld.
Gjöld fyrir þjónustu skv. reglugerð þessari fara eftir gjaldskrá Samgöngustofu hverju sinni, sbr. 44. gr. skipalaga nr. 66/2021, sbr. 13. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012.
7. gr. Stjórnvaldssektir.
Sé safnskip ekki búið í samræmi við reglur þær sem um skipið gilda skv. ákvörðun Samgöngustofu og þá skoðunarhandbók sem útbúin er fyrir skipið skv. 3. mgr. 4. gr. gilda sektarheimildir 45. gr. skipalaga nr. 66/2021 eftir því sem við getur átt.
8. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 2. og 3. mgr. 24. gr. og 2. mgr. 39. gr. skipalaga nr. 66/2021 og öðlast þegar gildi.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 3. september 2021.
Sigurður Ingi Jóhannsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.