Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 27. jan. 2022

Reglugerð með breytingum síðast breytt 24. des. 2021

1040/2021

Reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna sýnatöku til greiningar á SARS-CoV-2 veirunni með hraðprófum.

1. gr. Gildissvið.

Í reglugerð þessari er kveðið á um þátttöku sjúkratrygginga almannatrygginga í kostnaði við töku hraðprófa hjá aðilum sem sinna sýnatöku til greiningar á SARS-CoV-2 veirunni með hraðprófum hér á landi og starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands, sbr. 2. mgr. 17. gr. laga um sjúkratryggingar nr. 112/2008, með síðari breytingum.

Reglugerðin tekur til sýnatöku til greiningar á SARS-CoV-2 veirunni með hraðprófi sem uppfyllir skilyrði 1. mgr. 3. gr. a í reglugerð nr. 415/2004, um starfsemi rannsóknarstofa sem stunda greiningu á sjúkdómum sem sóttvarnalög taka til.

Þátttaka sjúkratrygginga í kostnaði við töku hraðprófa tekur til þeirra verka sem tilgreind eru í gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands. Sjúkratryggingar Íslands annast framkvæmd reglugerðar þessarar.

2. gr. Gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands.

Sjúkratryggingum Íslands er heimilt að endurgreiða kostnað við töku hraðprófa hjá aðilum, sbr. 1. gr., samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar, á grundvelli gjaldskrár sem stofnunin gefur út, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um sjúkratryggingar. Heimildin gildir frá 20. september 2021 til og með 31. mars 2022 og er háð því að rekstur aðila uppfylli faglegar kröfur og önnur skilyrði í lögum, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu, lög um sjúkratryggingar, lög um landlækni og lýðheilsu og sóttvarnalög.

Sjúkratryggingar Íslands, eða eftir atvikum embætti landlæknis, ákvarða hvort aðili uppfylli kröfur og skilyrði 1. mgr.

3. gr. Skilyrði fyrir endurgreiðslu.

Sjúkratryggingar Íslands endurgreiða kostnað við töku hraðprófa að fullu skv. gjaldskrá sem stofnunin gefur út, sbr. 2. gr., að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

  1. Hraðpróf er tekið af heilbrigðisstarfsmanni sem hlotið hefur þjálfun, eða sérþjálfuðum starfsmanni sem fengið hefur sérstaka þjálfun frá heilbrigðisstarfsmanni, samkvæmt leiðbeiningum sóttvarnalæknis.
  2. Sýnataka er framkvæmd í samræmi við ætluð not og leiðbeiningar framleiðanda hraðprófsins.
  3. Hraðprófið sem notað er hefur fengið leyfi ráðherra á grundvelli reglugerðar nr. 415/2004 og uppfylli þannig skilyrði ákvæðis 1. mgr. 3. gr. a reglugerðarinnar um næmi og sértæki.
  4. Aðili, sbr. 1. gr., gefi út vottorð sé niðurstaða hraðprófs neikvæð. Vottorð skal hafa QR-kóða í samræmi við reglugerð nr. 777/2021. Sé niðurstaða jákvæð er aðila skylt að upplýsa sóttvarnalækni um þá niðurstöðu, eftir þeim leiðum sem sóttvarnalæknir ákveður, í þeim tilgangi að einstaklingur fái boð um að mæta í PCR-próf til að staðfesta smit.
  5. Aðili, sbr. 1. gr., upplýsi einstakling um skyldu sína samkvæmt 7. gr. sóttvarnalaga að fara í RT-PCR-próf sé niðurstaða hraðprófs jákvæð.

4. gr. Rafræn skil.

Aðilar skulu senda með rafrænum hætti reikninga til Sjúkratrygginga Íslands fyrir töku hraðprófa. Greiðslur skulu miðast við heildarverð samkvæmt gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands.

Við sendingu rafrænna reikninga ber að fara eftir færslulýsingu sem Sjúkratryggingar Íslands hafa samþykkt.

Reikningar skulu berast Sjúkratryggingum Íslands í síðasta lagi 15. næsta mánaðar eftir að þjónusta er veitt.

6. gr. Eftirlit.

Aðilum er skylt að veita læknum, eða eftir atvikum hlutaðeigandi heilbrigðisstarfsmönnum Sjúkratrygginga Íslands, þær upplýsingar og gögn sem stofnuninni eru nauðsynleg vegna eftirlitshlutverks hennar, sbr. 45. gr. laga um sjúkratryggingar.

Þá skulu aðilar hafa sérstakan gjaldlið í bókhaldi sínu þar sem fram komi útlagður efniskostnaður og einnig greiðslur frá Sjúkratryggingum Íslands.

7. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 2. mgr. 38. gr. og 55. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum og 12. og 18. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi og tekur til kostnaðar vegna sýnatöku til greiningar á SARS-CoV-2 veirunni með hraðprófum á tímabilinu 20. september 2021 til og með 31. mars 2022.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.