Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 21. des. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 19. apríl 2023

1037/2018

Reglugerð um starfsemi og aðbúnað á skammtímadvalarstöðum.

I. KAFLI Gildissvið og markmið.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til starfsemi og aðbúnaðar á skammtímadvalarstöðum fyrir börn og ungmenni sem vegna mikillar umönnunarþarfar umfram jafnaldra samkvæmt lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, þurfa á skammtímadvöl að halda.

Heimilt er einnig að veita fullorðnu fötluðu fólki með langvarandi stuðningsþarfir, sem býr í foreldrahúsum, skammtímadvöl meðan beðið er eftir annarri þjónustu.

2. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja að starfsemi og aðbúnaður á skammtímadvalarstöðum fyrir fötluð börn og ungmenni taki mið af aldri þeirra, aðstæðum og stuðningsþörf.

Starfsemi og aðbúnaður á skammtímadvalarstöðum fyrir fullorðið fatlað fólk skal taka mið af aðstæðum og stuðningsþörf fólksins.

II. KAFLI Framkvæmd þjónustu í skammtímadvöl.

3. gr. Gæði þjónustunnar.

Þjónustu- og rekstraraðili sem ber faglega og fjárhagslega ábyrgð á þjónustu skammtímadvalar skal tryggja að aðstæður miðist við aldur þeirra sem þar dvelja á hverjum tíma. Starfsemi og aðbúnaður skal ætíð taka mið af þörfum notandans þannig að þjónustan sé valdeflandi og þjónustuferli skýr og auðskiljanleg notendum og fjölskyldum þeirra. Hver og einn notandi fær tengilið sem er starfsmaður skammtímadvalarinnar og hefur það hlutverk að samræma þjónustu með gerð einstaklingsbundinnar þjónustuáætlunar ef við á. Skal það gert í samráði við notandann og/eða forsjáraðila eða nákomna aðila sem og skóla, leikskóla eða aðra þjónustuaðila eftir þörfum og aðstæðum hvers og eins notanda. Óski foreldrar eftir því að fá stuðning heim í stað dvalar á skammtímadvalarstað skal það metið sérstaklega.

Þjónustu- og rekstraraðili skal að minnsta kosti á 12 mánaða fresti framkvæma mat á gæðum þjónustunnar og ráðast í gerð umbótaáætlunar sé þess talin þörf. Slíkt mat skal vera aðgengilegt almenningi.

4. gr. Umgjörð og aðbúnaður þjónustunnar.

Húsnæði skammtímadvalar skal uppfylla kröfur um algilda hönnun og gildandi lagaákvæði um mannvirki hverju sinni. Sama gildir um aðgengi utandyra á lóðinni þar sem boðið er upp á skammtímadvöl. Húsnæði, aðkoma og útisvæði skal einnig vera þannig búið að það geti komið til móts við fjölbreyttar þarfir þeirra sem dveljast þar hverju sinni. Skammtímadvölin skal vera þannig búin að þar séu aðstæður sem hæfa aldri og getu notenda sem þar dvelja á hverjum tíma.

5. gr. Þjónustutími.

Þjónustutími skammtímadvalar getur verið allt frá hluta úr degi og upp í 15 sólarhringa á mánuði.

Sé talin þörf fyrir þjónustu í meira en 15 sólarhringa á mánuði í sex mánuði samfleytt skal unnin einstaklingsbundin þjónustuáætlun um aukna aðstoð á heimili notandans. Þurfi barn annars konar og meiri þjónustu en unnt er að veita á heimili fjölskyldu þess samhliða skammtímavistun skal vísa málefni þess til sérfræðingateymis skv. 20. gr. laga nr. 38/2018. Dvelji notandi í skammtímadvöl í samtals 90 sólarhringa á ári eða lengur skal gert ráð fyrir að dvölin verði hluti af einstaklingsbundinni þjónustuáætlun viðkomandi svo unnt sé að tryggja gæði þjónustunnar og samráð við fjölskyldu og aðra þjónustuaðila.

6. gr. Hámarksfjöldi notenda á skammtímadvalarstað.

Fjöldi notenda á hverjum skammtímadvalarstað skal, alla jafna, ekki vera fleiri en sex samtímis. Við mat á hámarksfjölda notenda á hverjum tíma skal tekið mið af einstaklingsbundnum þörfum hvers og eins og aðstæðum á skammtímadvalarstað hverju sinni.

7. gr. Kostnaðarþátttaka.

Þjónusta í skammtímadvöl er notendum að kostnaðarlausu. Þeir skulu þó standa straum af kostnaði vegna frístunda og ferða á meðan á skammtímadvöl stendur. Notendur skammtímadvalar skulu ekki bera kostnað sem fellur til við starfsmannahald vegna þátttöku þeirra í frístundastarfi utan skammtímadvalar.

Notendur eldri en 18 ára skulu standa straum af kostnaði vegna fæðis meðan á dvöl stendur.

8. gr. Starfsmannahald.

Forstöðumaður skammtímadvalar skal hafa háskólapróf á sviði félags-, heilbrigðis- eða menntavísinda og reynslu sem nýtist í starfi. Jafnframt skal að minnsta kosti einn annar starfsmaður með fagmenntun vera til staðar á vökutíma. Starfsmenn skulu hafa grunnþekkingu á uppeldi og umönnun barna og hafa færni til að veita þjónustu á grundvelli leiðbeininga sérfræðinga. Við ráðningu í starf á skammtímadvalarstað samkvæmt reglugerð þessari ber meðal annars að fara að ákvæðum VI. kafla laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

III. KAFLI Ábyrgð og eftirlit.

9. gr. Ábyrgð.

Sveitarfélag ber ábyrgð á að aðbúnaður og þjónusta á skammtímadvalarstað sé í samræmi við gildandi lög og reglugerðir. Sú ábyrgð nær jafnt til þeirrar þjónustu sem veitt er á vegum sveitarfélags og annarra aðila sem veita þjónustu á grundvelli samninga við sveitarfélagið.

Sveitarfélag skal tilkynna Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála og Barna- og fjölskyldustofu um samninga sem það gerir við einkaaðila um þjónustu sem veitt er á grundvelli laga nr. 38/2018 og fjallað er um í ákvæðum reglugerðar þessarar.

9. gr. a Rekstrarleyfisskylda.

Einkaaðilum, sem hyggjast veita þjónustu á grundvelli laga nr. 38/2018 og reglugerðar þessarar er skylt að afla rekstrarleyfis Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála áður en byrjað er að veita þjónustuna.

Um málsmeðferð leyfisveitinga fer samkvæmt ákvæðum laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021.

10. gr. Eftirlit.

Sveitarfélög sem veita þjónustu á grundvelli reglugerðar þessarar skulu hafa virkt innra eftirlit með starfsemi skammtímadvalarstaða á sínum vegum, svo sem í formi úttekta á gæðum sem byggjast á kröfulýsingum, þar sem aðstæður eru skoðaðar, og með viðræðum við aðila sem tengjast úrræðinu, svo sem barn, forsjáraðila, aðra nákomna eftir því sem við á, starfsfólk og forstöðumann.

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála hefur eftirlit með gæðum þjónustu sem veitt er á grundvelli reglugerðar þessarar, sbr. lög um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021.

11. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem er sett með stoð í 17. og 40. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, öðlast gildi 7. nóvember 2018.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.