Fara beint í efnið

Prentað þann 18. jan. 2022

Breytingareglugerð

1018/2021

Reglugerð um (1.) breytingu á reglugerð nr. 500/2017, um gæðamat, flokkun og merkingu sláturafurða.

1. gr.

1. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Allar sláturafurðir, aðrar en af alifuglum, sem eru settar á markað eða til dreifingar og neyslu innanlands skal flokka og merkja eftir tegundum og gæðum samkvæmt reglum í viðaukum I til VI við reglugerð þessa, nema kveðið sé á um annað í reglugerð þessari.

2. gr.

Við 1. mgr. 5. gr. bætist nýr málsliður:

Ákvæði III. og IV. kafla reglugerðarinnar sem og viðauka I og VI gilda ekki um framleiðslu í litlum sauðfjár- og geitasláturhúsum.

3. gr.

Á eftir IV. kafla reglugerðarinnar kemur nýr V. kafli með fyrirsögninni Sérkröfur vegna slátrunar í litlum sauðfjár- og geitasláturhúsum og uppfærast kafla- og greinanúmer reglugerðarinnar í samræmi við það. Nýr V. kafli verður svohljóðandi:

V. KAFLI
Sérkröfur í litlum sauðfjár- og geitasláturhúsum.

12. gr.
Snyrting og frágangur skrokka.

Áður en vigtun fer fram skal gengið frá skrokkum, þeir snyrtir og af skrokkunum skal fjarlægja:

 1. Hálsæðar.
 2. Kirtla og tægjur úr brjóstholsinngangi (hósti).
 3. Mör og fituklepra úr grindar-, kviðar- og brjóstholi og skal þess sérstaklega gætt að hreinsa í burt nýrnamör og fituhellu af magál.
 4. Getnaðarlim að rótum aftan við lífbein.
 5. Júgur af kvendýrum.
 6. Náraband sauðfjárskrokka með eitli og fitu.
 7. Dindil við rót.
 8. Þind.
 9. Fætur við framhné og hækil.

Snyrta skal verkunargalla, óhreinindi mar o.fl. Ef hár eða önnur óhreinindi sjást á kjötinu á þessu verkunarstigi skal það hreinsað vandlega með afskurði áður en vigtun fer fram. Skrokkar mega ekki snertast fyrr en eftir heilbrigðisskoðun.

Matvælastofnun gefur út verklýsingar um snyrtingu og sundurhlutun sem ábyrgðaraðilar slátrunar bera ábyrgð á að sé fylgt.

13. gr.
Flokkun afurða.

Þrátt fyrir ákvæði í viðauka I og V er heimilt að meta kinda- og geitakjöt eingöngu í eftirfarandi flokka í litlum sauðfjár- og geitasláturhúsum:

1. Lambakjöt.

Skrokkar af gimbrarlömbum að tólf mánaða aldri og skrokkar af hrútlömbum sem slátrað er fyrir 1. nóvember, svo og skrokkar af geltum hrútlömbum, að 12 mánaða aldri, enda hafi þau verið gelt í síðasta lagi tveimur mánuðum (8 vikum) fyrir slátrun samkvæmt upplýsingum frá eftirlitsdýralækni sláturhússins. Þeir skulu auðkenndir með bókstafnum L.

2. Kjöt af veturgömlu sauðfé.

Skrokkar af veturgömlum gimbrum og geldingum 12-18 mánaða skulu auðkenndir með bókstafnum V og skrokkar af veturgömlum hrútum sem slátrað er fyrir 11. október skulu auðkenndir með bókstöfunum VH.

3. Kjöt af fullorðnu sauðfé.

Skrokkar af fullorðnum ám og sauðum, eldri en 18 mánaða skulu auðkenndir með bókstafnum F.

Skrokkar af fullorðnum hrútum og veturgömlum hrútum sem slátrað er eftir 10. október og lambhrútum sem slátrað er eftir 31. október skulu auðkenndir með bókstafnum H.

4. Kjöt af kiðlingum.

Skrokkar af huðnum sem slátrað er fyrir 1. mars árið eftir burð skulu auðkenndir með bókstöfunum KIÐ. Sama gildir um hafra sem geltir hafa verið eigi síðar en við 6 mánaða aldur.

5. Kjöt af fullorðnum geitum.

Skrokkar af báðum kynjum eins árs eða eldri, slátrað eftir 1. mars árið eftir burð, skulu auðkenndir með bókstöfunum GEIT. Sama gildir um ógelta hafra sem eru 6-12 mánaða við slátrun.

6. Til viðbótar skal í litlum sauðfjár- og geitasláturhúsum meta sérstaklega þá skrokka sem vegna verkunargalla, marbletta eða annarra áverka teljast gölluð vara. Slíkir skrokkar skulu merktir með X eða XX eins og að neðan greinir:

X Skrokkar með minniháttar mar eða verkunargalla.
XX Skrokkar mikið marðir, limhöggnir eða með meiri háttar verkunargalla.

14. gr.
Vogir og búnaður.

Vogir til vigtunar á kjöti og öðrum sláturafurðum sem falla til við slátrun í litlum sauðfjár- og geitasláturhúsum skulu geta vigtað með nákvæmni upp á 100 g eða minna. Hæklajárn, brautarkrókar og rúllur skulu vera úr efni sem ekki gefur frá sér ryð og af staðlaðri stærð og þyngd í hverju litlu sauðfjár- og geitasláturhúsi.

15. gr.
Framkvæmd og innvigtun.

Vigtun skal fara fram eftir hreinsun og snyrtingu að lokinni kælingu (þurrvigt). Vigtun skal fara fram innan 24 klst. frá slátrun, enda hafi heilbrigðisskoðun farið fram. Óheimilt er að flytja sláturafurðir úr litlu sauðfjár- og geitasláturhúsi án vigtunar. Skylt er að vigta hvern einstakan skrokk sér. Ábyrgðaraðili slátrunar ber ábyrgð á vigtun og að vigtunarbúnaður sé fullnægjandi, sbr. 12. gr.

16. gr.
Skráningar.

Ábyrgðaraðili slátrunar ber ábyrgð á því að skrá framleiðslu hins litla sauðfjár- og geitasláturhúss í tölvukerfið Afurð og skal skráningu vera lokið innan sjö daga frá slátrun. Skráning tekur til einstaka gripa, sláturdagsetninga, einstaklingsnúmers, fallþunga og hvort um sé að ræða lamb, sauðfé á aldrinum 12-18 mánaða, sauðfé eldra en 18 mánaða, kið eða fullorðna geit.

17. gr.
Merkingar afurða.

Festa skal merkimiða tryggilega á hvern skrokk eða hluta úr skrokk. Á miða skal skráð skýrum stöfum nafn eða skammstöfun sláturhúss þar sem slátrað er, og sporöskjulaga auðkennismerki þess sbr. ákvæði 1. töluliðar viðauka VI. Á merkimiða skal einnig tilgreina sláturdag og -ár, raðnúmer skrokks og tegund kjöts. Heimilt er að prenta viðbótarupplýsingar á merkimiðann.

Sama merking gildir einnig um aðrar sláturafurðir en kjöt, eftir því sem við á.

Afurðum lítilla sláturhúsa sem pakkað er til sölumeðferðar á almennum markaði skulu fylgja þær upplýsingar sem krafist er samkvæmt öðrum lögum og reglugerðum eftir því sem við á.

4. gr.

Á eftir IV. viðauka kemur nýr V. viðauki með fyrirsögninni Geitakjöt og uppfærast kafla- og greinanúmer reglugerðarinnar í samræmi við það. Nýr V. viðaukiverður svohljóðandi:

VIÐAUKI V

Geitakjöt.

 1. Geitaskrokkum er skipt í eftirfarandi grunnflokka eftir aldri:

  1. Skrokkar af huðnum sem slátrað er fyrir 1. mars árið eftir burð skulu auðkenndir með bókstöfunum KIÐ. Sama gildir um hafra sem geltir hafa verið eigi síðar en við 6 mánaða aldur.
  2. Skrokkar af báðum kynjum eins árs eða eldri, slátrað eftir 1. mars árið eftir burð skulu auðkenndir með bókstöfunum GEIT. Sama gildir um ógelta hafra sem eru 6-12 mánaða við slátrun.
 2. Geitakjöt skal flokkað eftir vaxtarlagi og holdfyllingu annars vegar og eftir fitustigi hins vegar. Heimilt er að skipta hverjum flokki í mesta lagi í þrjá undirflokka. Matvælastofnun ákveður fjölda undirflokka í samráði við hagsmunaaðila. Í töflum I og II í viðaukanum eru lýsingar á holdfyllingar- og fituflokkum geitaskrokka. Við fituflokkun er stuðst við sjónmat.
 3. Til viðbótar skal meta sérstaklega þá skrokka sem vegna verkunargalla, marbletta eða annarra áverka teljast gölluð vara. Slíkir skrokkar skulu merktir með X eða XX eins og að neðan greinir:
  X Skrokkar með minniháttar mar eða verkunargalla.
  XX Skrokkar mikið marðir, limhöggnir eða með meiri háttar verkunargalla.

TAFLA I

Holdfyllingarflokkar.

Holdfylling Stafur Lýsing
E Ágæt E Allar útlínur mjög kúptar.
Læri: Ágætlega fyllt.
Hryggur: Ágætlega breiður og fylltur.
Frampartur: Ágætlega fylltur.
U Mjög góð U Útlínur að mestu kúptar.
Læri: Vel fyllt.
Hryggur: Vel fylltur.
Frampartur: Vel fylltur.
R Góð R Útlínur að mestu beinar.
Læri: Jafnfyllt eða góð.
Hryggur: Jafnfylltur.
Frampartur: Jafnfylltur.
O Sæmileg O+
O
O-
Útlínur nokkuð íhvolfar.
Læri: Lítillega innfallin.
Hryggur: Skortir breidd og fyllingu.
Frampartur: Smár, skortir fyllingu.
P Rýr P+
P
P-
Útlínur allar íhvolfar eða mjög íhvolfar.
Læri: Innfallin eða mjög innfallin.
Hryggur: Smár, innfallinn með útistandandi beinum.
Frampartur: Smár, flatur og innfallinn með útistandandi beinum.

Hver aðalflokkur skiptist í þrjá undirflokka með plús og mínus (efri, miðju, neðri). Matvælastofnun ákveður fjölda undirflokka í samráði við hagsmunaaðila. Við gildistöku reglugerðarinnar verða þessir 9 flokkar í notkun: E, U, R, O+, O, O-, P+, P, P-.

TAFLA II

Fituflokkar.

Fituhula utan á skrokk.

1 Örlítil fita Engin eða örlítil fita.
2 Lítil fita Þunnt fitulag þekur hluta skrokksins.
3 Eðlileg fita Skrokkur allur eða að hluta þakinn fituhulu.
4 Mikil fita Skrokkur að mestu leyti með þykka fituhulu.
5 Mjög mikil fita Mjög þykk fituhula á öllum skrokk. Greinileg fitusöfnun.

Hver aðalflokkur skiptist í þrjá undirflokka með plús og mínus (efri, miðju, neðri). Matvælastofnun ákveður fjölda undirflokka í samráði við hagsmunaaðila. Við gildistöku reglugerðarinnar verða eingöngu aðalflokkarnir 1, 2, 3, 4 og 5 í notkun.

5. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 93/1995, um matvæli, með síðari breytingum. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 25. ágúst 2021.

Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Linda Fanney Valgeirsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.