Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

1010/2012

Reglugerð um viðbrögð við bráðamengun hafs og stranda.

Birta efnisyfirlit

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að draga úr tjóni eða koma í veg fyrir tjón vegna bráðamengunar eftir því sem kostur er. Einnig er markmiðið að samræma þær aðgerðir sem beita þarf þegar haf og strendur mengast skyndilega af olíu eða öðrum mengandi efnum eða þegar slíkt er yfirvofandi.

Markmið reglugerðarinnar er einnig að skilgreina ábyrgð og verksvið þeirra sem eiga að bregðast við bráðamengun hafs og stranda, í samræmi við IV. kafla laga um varnir gegn mengun hafs og stranda.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerðin gildir um óhöpp og atvik á sjó og landi sem leiða til hvers konar bráðamengunar hafs og stranda, viðbúnað og viðbrögð við þeim hér á landi, í lofthelgi og í mengunarlögsögu Íslands. Um mengunaróhöpp á landi gilda lög um brunavarnir. Komi til þess að almannavarnaástand skapist gilda lög um almannavarnir.

Undanþegnar reglugerð þessari eru aðgerðir sem nauðsynlegar eru til þess að vernda mannslíf eða tryggja öryggi, svo og aðgerðir sem kunna að vera nauðsynlegar vegna óviðráðanlegra ytri atvika, sbr. og ákvæði reglugerðar um leit og björgun vegna sjófarenda og loftfara nr. 71/2011.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking hugtaka sem hér segir:

Bráðamengun: Mengun hafs og stranda sem verður skyndilega og krefst tafarlausra aðgerða.

Hafnarsvæði: Umráðasvæði á sjó og landi sem hafnaryfirvöld á hverjum stað annast og skilgreint er í hafnalögum og hafnarreglugerðum og sá hluti strandar sem skilgreindur er sem hafnarsvæði samkvæmt aðalskipulagi á hverjum stað.

Kaupmannahafnarsamkomulagið: Samningur, dags. 29. mars 1993, milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um samvinnu í baráttu gegn mengun sjávar af völdum olíu eða annarra skaðlegra efna. Ísland staðfesti samninginn 3. júlí 1995 og öðlaðist hann gildi 16. janúar 1998, sbr. C-deild Stjórnartíðinda nr. 27/1995 og nr. 1/1998.

Mengun: Þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.

Mengunarvarnabúnaður: Búnaður til að bregðast við bráðamengun, einkum af völdum olíu. Hann samanstendur yfirleitt af flotgirðingum, olíuupptökutækjum, ísogsefnum, dreifiefnum og öðrum skyldum búnaði.

Mengunaróhapp: Þegar eiturefni eða önnur efni berast, eða kunna að berast, í umhverfið og tafarlaus upphreinsun eða önnur tafarlaus úrræði eru nauðsynleg vegna hættu á tjóni á heilsu fólks, umhverfi eða eignum.

Neyðarhöfn: Höfn eða hluti hafnar sem Siglingastofnun Íslands auðkennir til að taka á móti nauðstöddum skipum í samræmi við ákvæði hafnalaga og laga um vaktstöð siglinga.

Olía: Vökvakennd olíuefni í hvaða formi sem er, þ.m.t. hráolía, svartolía, smurolía, jurtaolía, olíuúrgangur og unnin olía.

Óhapp: Atburður, eða röð atburða sem leiða af sama atburði, sem hefur eða getur haft í för með sér losun mengandi efna og sem veldur eða getur valdið hættu fyrir haf og/eða strendur eða skaðað hagsmuni tengda þeim og sem krefst neyðarráðstafana eða annarra tafarlausra úrræða.

Ráðgjafaraðilar: Þeir aðilar sem geta verið Umhverfisstofnun til ráðgjafar um það hvort grípa eigi til aðgerða vegna bráðamengunar svo sem Náttúrufræðistofnun Íslands, Hafrannsóknastofnunin, landlæknisembættið, Siglingastofnun Íslands, heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna, Landhelgisgæsla Íslands, hafnarstjórnir, ríkislögreglustjóri og Geislavarnir ríkisins.

SÁBF skipulag (Stjórnun, Áætlun, Bjargir, Framkvæmd): Samhæft verkþáttaskipurit með upptalningu á málaflokkum og verkefnum sem sinna þarf við hvers konar aðgerðir, þ.m.t. viðbrögð við bráðamengun, sett fram á skipulegan hátt þannig að líkir verkþættir eru flokkaðir saman.

Strönd: Svæði milli hæstu og lægstu sjávarstöðu.

Vettvangsstjóri: Fer með yfirstjórn aðgerða á vettvangi bráðamengunar.

Viðbragðsáætlun: Skriflegt skjal sem lýsir skipulagðri aðgerð eða röð aðgerða sem sett skal í gang ef bráðamengun á sér stað.

4. gr. Tilkynningar um bráðamengun.

Hver sá sem er valdur að eða verður var við bráðamengun innan hafnarsvæðis skal tafarlaust tilkynna um bráðamengunina til viðkomandi hafnarstjóra sem grípur til viðeigandi ráðstafana í samræmi við ákvæði laga og reglugerð þessa.

Hver sá sem er valdur að eða verður var við bráðamengun á sjó utan hafnasvæða skal tafarlaust tilkynna um bráðamengunina til vaktstöðvar siglinga sem virkjar viðeigandi viðbrögð Landhelgisgæslu Íslands eftir atvikum og í samræmi við ákvæði laga og reglugerðar þessarar. Vaktstöð siglinga kallar til vakthafandi aðila innan Umhverfisstofnunar sem gerir viðeigandi ráðstafanir í samræmi við viðbragðsáætlanir og ákvæði 20. gr.

Hver sá sem er valdur að eða verður var við mengunaróhöpp eða atvik á landi skal tilkynna það tafarlaust til viðkomandi slökkviliðs í samræmi við lög um brunavarnir.

Sé talið að mönnum geti stafað hætta af menguninni ber að tilkynna landlækni það tafarlaust.

Sé mengunin þess eðlis að hún geti valdið hættu fyrir íbúa eða eignir skulu aðgerðir framkvæmdar í samráði við viðkomandi lögreglustjóra. Ef umfang eða eðli mengunar er slíkt að ætla megi að almenningi stafi hætta af skal nota neyðarskipulag almannavarna.

Um framkvæmd og stjórn aðgerða á vettvangi í kjölfar bráðamengunar vísast til IV. og V. kafla reglugerðar þessarar.

II. KAFLI Mengunarvarnabúnaður og notkun hans.

5. gr. Flokkun hafna.

Höfnum er skipt í þrjá flokka hvað varðar viðbrögð og mengunarvarnabúnað vegna bráðamengunar samkvæmt reglugerð þessari.

Flokkun hafna er eftirfarandi:

Flokkur I: Stórar olíuhafnir, iðnaðarhafnir og stærri flutningahafnir. Til þessara hafna koma olíuskip sem geta borið meira en 3.000 tonn af olíu og/eða skip stærri en 5.000 brúttótonn. Við höfnina er olíubirgðastöð og/eða margvísleg mengandi starfsemi.
Flokkur II: Meðalstórar fiskihafnir og vöruflutningahafnir þar sem skip allt að 5.000 brúttótonn eða allt að 100 m löng koma alla jafna að bryggju.
Flokkur III: Smábáta- og skemmtibátahafnir þar sem bátar styttri en 25 m leggjast yfirleitt að bryggju.

Upptalningu og flokkun hafna er að finna í fylgiskjali með reglugerð þessari.

6. gr. Mengunarvarnabúnaður innan hafna.

Hver höfn skal að lágmarki eiga og reka mengunarvarnabúnað í samræmi við flokkun hafnar og áhættumat hennar og eins og nánar er kveðið á um í reglugerð þessari. Lágmarksmengunarvarnabúnaður innan hafna eftir flokkum hafna, skv. 5. gr., skal vera eftirfarandi:

Flokkur I: 150-300 m af flotgirðingu, 1 olíuupptökutæki, ísogsefni, dreifiefni.
Flokkur II: 100-200 m af flotgirðingu, ísogsefni, dreifiefni.
Flokkur III: ísogsefni.

7. gr. Neyðarhafnir.

Ef skipi er vísað til neyðarhafnar ber Umhverfisstofnun ábyrgð á viðbúnaði og viðbrögðum við bráðamengun, í samræmi við 21. gr., meðan mengunarástand varir eða hætta er á mengun.

Í neyðarhöfnum skal, auk mengunarvarnabúnaðar í samræmi við flokkun viðkomandi hafnar, vera til staðar viðbótarmengunarvarnabúnaður sem er miðaður við hlutverk hafnarinnar sem neyðarhöfn í samræmi við viðbragðsáætlun, stærð skipa sem þangað geta komið og aðstæður. Umhverfisstofnun ber ábyrgð á uppbyggingu og viðhaldi mengunarvarnabúnaðar neyðarhafna í samræmi við fjárveitingar þar að lútandi.

8. gr. Rekstur og viðhald mengunarvarnabúnaðar hafna.

Hver höfn skal eiga og reka mengunarvarnabúnað í samræmi við 6. gr. Hver höfn ber ábyrgð á viðhaldi búnaðarins og endurnýjun hans. Þó er heimilt að hafnir á tilteknu svæði eigi og reki saman mengunarvarnabúnað. Leita skal samþykkis Umhverfisstofnunar fyrir slíkri tilhögun áður en hafnir gera samning um það sín á milli. Hafnir sem uppfylla skilyrði um ríkisstyrktar framkvæmdir skv. hafnalögum geta sótt um styrk til kaupa eða heildarendurnýjunar mengunarvarnabúnaðar í samræmi við reglur þar að lútandi sem ráðherra staðfestir.

Umhverfisstofnun ákveður í samráði við mengunarvarnaráð hafna, sbr. 31. gr., og eftir því sem fé fæst til á fjárlögum, uppbyggingu og endurnýjun á nauðsynlegum mengunarvarnabúnaði í styrkhæfum höfnum.

Hafnarstjóri skal sjá til þess að starfsmenn hafnarinnar séu þjálfaðir til notkunar búnaðarins og reglulega séu haldnar æfingar í viðbrögðum við bráðamengun innan viðkomandi hafnarsvæðis.

Mengunarvarnabúnaðurinn skal þannig geymdur að honum verði með skjótum hætti komið í notkun við bráðamengun.

Sé mengunarvarnabúnaður lánaður til annarra hafna skulu fylgja honum sérþjálfaðir umsjónarmenn hans og skulu þeir hafa umsjón með notkun hans allan tímann sem hún stendur yfir.

Heimilt er að fela slökkviliðsstjóra umsjón með mengunarvarnabúnaði og stjórn á vettvangi í samræmi við ákvæði laga um varnir gegn mengun hafs og stranda.

9. gr. Mengunarvarnabúnaður í eigu Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun skal hafa yfir að ráða færanlegum mengunarvarnabúnaði til að takast á við bráðamengun utan sem innan hafnarsvæða eftir því sem þörf er á. Stofnunin sér um rekstur, endurnýjun og uppbyggingu mengunarvarnabúnaðarins í samræmi við fjárveitingar á fjárlögum.

Umhverfisstofnun á og sér um rekstur og viðhald mengunarvarnabúnaðar til notkunar við bráðamengun samkvæmt reglugerð þessari sem að mati stofnunarinnar telst fullnægjandi á hverjum tíma. Jafnframt ber stofnunin ábyrgð á öruggri geymslu búnaðarins og að hann sé tiltækur ef á þarf að halda.

Þegar búnaður í eigu Umhverfisstofnunar er notaður skulu fylgja með honum sérþjálfaðir umsjónarmenn og skulu þeir hafa umsjón með búnaðinum allan tímann sem hann er á staðnum þar sem bráðamengun hefur orðið. Óheimilt er að nýta búnað stofnunarinnar nema með samþykki hennar.

Hafnir og aðrir aðilar geta óskað eftir því að nota mengunarvarnabúnað í eigu Umhverfisstofnunar. Ákvörðun um notkun búnaðarins skal tekin af Umhverfisstofnun.

10. gr. Mengunarvarnabúnaður í varðskipum Landhelgisgæslu Íslands.

Um borð í varðskipum Landhelgisgæslu Íslands skal vera staðsettur mengunarvarnabúnaður til að takast á við bráðamengun á hafi, innan sem utan hafnarsvæða eftir atvikum.

Umhverfisstofnun metur, að höfðu samráði við mengunarvarnaráð hafna, þörf á uppbyggingu og endurnýjun á mengunarvarnabúnaðinum. Landhelgisgæslan sér um rekstur, endurnýjun og uppbyggingu búnaðarins í samræmi við fjárveitingar á fjárlögum.

Landhelgisgæslan ber ábyrgð á öruggri geymslu búnaðarins um borð í varðskipum stofnunarinnar og að hann sé tiltækur ef á þarf að halda.

Hafnir og aðrir aðilar geta óskað eftir því að nota mengunarvarnabúnað sem er um borð í skipum Landhelgisgæslunnar og óskað eftir aðstoð gæslunnar. Ákvörðun um notkun búnaðarins skal tekin af Landhelgisgæslunni að höfðu samráði við Umhverfisstofnun eftir atvikum.

III. KAFLI Viðbragðsáætlanir.

11. gr. Viðbragðsáætlun hafnar.

Eigandi hafnar skal gera viðbragðsáætlun vegna bráðamengunar innan hafnarsvæðis fyrir hverja höfn sem tekur mið af aðstæðum á hverjum stað. Viðbragðsáætlun skal send Umhverfisstofnun til samþykktar og ef við á að fenginni umsögn ríkislögreglustjóra og hlutaðeigandi slökkviliðsstjóra. Viðbragðsáætlun skal birt á heimasíðu hlutaðeigandi hafnar. Áætlanirnar skulu m.a. tilgreina hvað er í húfi og hvað eigi að verja. Þær skulu greina frá tiltækum mengunarvarnabúnaði og hugsanlegum aðgerðum. Þær skulu ennfremur innihalda nöfn og símanúmer tengiliða, þ.m.t. hafnarstjóra sem hafa þarf samband við komi til bráðamengunar. Nöfn og símanúmer tengiliða skulu uppfærð a.m.k. árlega.

Fyrir 1. mars ár hvert skulu hafnir skila til Umhverfisstofnunar, með afriti til mengunarvarnaráðs, uppfærðri viðbragðsáætlun og skýrslu um mengunarvarnaæfingar árið á undan, notkun mengunarvarnabúnaðar, mat á ástandi hans og þörf á endurnýjun, ásamt upplýsingum um bráðamengun sem orðið hefur í höfninni og hvernig við henni var brugðist. Skýrslu skal skilað rafrænt á eyðublaði sem Umhverfisstofnun leggur til.

12. gr. Viðbragðsáætlanir utan hafnarsvæða.

Umhverfisstofnun skal sjá um gerð viðbragðsáætlana utan hafnarsvæða í samstarfi við Landhelgisgæslu Íslands og Siglingamálastofnun Íslands að höfðu samráði við ráðgjafaraðila í samræmi við ákvæði laga um varnir gegn mengun hafs og stranda.

Áætlanirnar skulu m.a. tilgreina hvað er í húfi og hvað eigi að verja. Þær skulu greina frá tiltækum mengunarvarnabúnaði og hugsanlegum aðgerðum. Þær skulu ennfremur innihalda nöfn og símanúmer tengiliða sem hafa þarf samband við komi til bráðamengunar. Nöfn og símanúmer tengiliða skulu uppfærð a.m.k. árlega.

IV. KAFLI Framkvæmd og stjórn aðgerða á vettvangi í kjölfar bráðamengunar innan hafnarsvæða.

13. gr. Ábyrgð hafnarstjóra.

Hafnarstjóri ber ábyrgð á að gripið sé til viðeigandi bráðaaðgerða í samræmi við viðbragðsáætlun til að hefta útbreiðslu og koma í veg fyrir frekara tjón vegna bráðamengunar.

Hafnarstjóri skal tilkynna Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefnd um bráðamengun strax og hennar verður vart.

Telji hafnarstjóri ástæðu til viðbragða vegna bráðamengunar skal hann tilnefna vettvangsstjóra sem fer með stjórn á vettvangi.

Eftir að bráðaaðgerðum lýkur getur hafnarstjóri óskað eftir því að heilbrigðisnefnd hafi umsjón með frekari hreinsun umhverfis.

Hafnarstjóri getur kallað eftir aðstoð Umhverfisstofnunar telji hann ástæðu til. Telji Umhverfisstofnun nauðsyn á frekari aðgerðum er stofnuninni heimilt að hlutast til um þær.

14. gr. Ábyrgð vettvangsstjóra.

Vettvangsstjóri skal að kröfu hafnarstjóra hefja hreinsunaraðgerðir vegna bráðamengunar og ber ábyrgð á allri stjórn á vettvangi þar sem bráðamengun hefur átt sér stað.

Ef óskað er eftir búnaði frá öðrum höfnum eða Umhverfisstofnun vegna hreinsunaraðgerða hefur umsjónarmaður mengunarvarnabúnaðarins umsjón með búnaðinum og gefur vettvangsstjóra ráð um heppilegustu notkun hans. Komi til ágreinings milli vettvangsstjóra og umsjónarmanns mengunarvarnabúnaðar um notkun búnaðarins skal ákvörðun vettvangsstjóra gilda, enda ber viðkomandi höfn ábyrgð á greiðslu fyrir notkun búnaðarins og skemmdum sem á honum verða.

Berist mengun út fyrir hafnarsvæði eða ef líkur eru á því að mati vettvangsstjóra skal hann halda áfram aðgerðum þar til Umhverfisstofnun hefur ákveðið annað. Vettvangsstjóri skal jafnframt tilkynna Umhverfisstofnun um stöðu mála.

15. gr. Ábyrgð heilbrigðisnefndar.

Heilbrigðisnefnd hefur eftirlit með bráðaaðgerðum og ákveður hvenær árangur af hreinsun er nægilegur.

Hafi hafnarstjóri óskað eftir því við heilbrigðisnefnd að hún hafi umsjón með frekari hreinsun umhverfis eftir að bráðaaðgerðum lýkur skal hún sjá til þess að hreinsun fari fram.

16. gr. Ábyrgð Umhverfisstofnunar.

Telji Umhverfisstofnun nauðsyn á frekari aðgerðum er stofnuninni heimilt að hlutast til um þær.

17. gr. Heimild mengunarvalds til hreinsunar.

Hafnarstjóra er heimilt að fela mengunarvaldinum sjálfum framkvæmd hreinsunar. Í slíkum tilvikum skal mengunarvaldurinn leggja fram áætlun um hvernig hann muni standa að hreinsuninni til samþykktar hafnarstjóra.

18. gr. Viðbótarmengunarvarnabúnaður.

Sérhver höfn getur óskað eftir viðbótarmengunarvarnabúnaði frá Umhverfisstofnun, Landhelgisgæslu Íslands, neyðarhöfn eða öðrum höfnum ef ástæða þykir til.

Ef notaður er mengunarvarnabúnaður Umhverfisstofnunar eða Landhelgisgæslu Íslands fer um notkun hans skv. 9. og 10. gr.

19. gr. Ágreiningur um valdmörk og framkvæmd.

Komi upp ágreiningur um valdmörk og framkvæmd milli hafnarstjóra og heilbrigðisnefndar sker ráðherra úr í samræmi við ákvæði laga um varnir gegn mengun hafs og stranda.

V. KAFLI Framkvæmd og stjórn aðgerða á vettvangi í kjölfar bráðmengunar utan hafnarsvæða.

20. gr. Viðbrögð Umhverfisstofnunar vegna bráðamengunar.

Komi til bráðamengunar hafs eða stranda utan hafnarsvæða skal Umhverfisstofnun gera viðeigandi ráðstafanir í samræmi við viðbragðsáætlanir. Umhverfisstofnun ber ábyrgð á að aðgerðir gegn bráðamengun hefjist og annast stjórn á vettvangi.

Umhverfisstofnun getur farið fram á að heilbrigðisnefnd fari á vettvang og meti umfang mengunar og nauðsynlegar aðgerðir. Umhverfisstofnun er heimilt að fela heilbrigðisnefnd eða öðrum aðilum í umboði stofnunarinnar umsjón með aðgerðum á kostnað stofnunarinnar.

Umhverfisstofnun skipar vettvangsstjóra til að fara með stjórn á aðgerðum á vettvangi bráðamengunar utan hafnarsvæðis.

Telji Umhverfisstofnun ástæðu til að hefja aðgerðir vegna bráðamengunar utan hafnarsvæða getur hún óskað eftir aðstoð Landhelgisgæslu Íslands eða annars bærs aðila vegna hreinsunaraðgerða.

21. gr. Stjórn á vettvangi.

Vettvangsstjóri ákveður hvenær hefja skuli aðgerðir gegn bráðamengun utan hafnarsvæða og segir til um hvenær þeim er lokið. Umhverfisstofnun ber að upplýsa viðkomandi heilbrigðisnefnd um aðgerðir og hvenær þeim telst lokið. Vísa má ákvörðunum vettvangsstjóra til úrskurðar ráðherra. Kæra frestar þó ekki framkvæmd ákvarðana.

Vettvangsaðgerðir skulu eftir því sem kostur er taka mið af fyrirliggjandi viðbragðsáætlunum og SÁBF skipulagi. Þannig skal neyðarskipulag almannavarna ávallt notað þegar ætla má að almenningi stafi bráð hætta af menguninni, sbr. lög um almannavarnir. Tryggja skal þó að tæknileg stjórnun á takmörkun útbreiðslu og hreinsunar bráðamengunar sé áfram í höndum vettvangsstjóra skipuðum af Umhverfisstofnun.

Umhverfisstofnun er heimilt að fela mengunarvaldinum sjálfum framkvæmd hreinsunar. Í slíkum tilvikum verður mengunarvaldurinn að leggja fram áætlun samþykkta af Umhverfisstofnun um hvernig hann muni standa að hreinsuninni. Umhverfisstofnun hefur eftirlit með hreinsiaðgerðum og ákveður hvenær árangur af þeim er nægur.

Þegar líkur eru á að mengun berist á hafnarsvæði skal Umhverfisstofnun tilkynna viðkomandi hafnarstjóra það tafarlaust. Þessir aðilar skulu samræma aðgerðir þar sem valdsvið skarast.

22. gr. Aðkoma Landhelgisgæslu Íslands.

Nú telur Umhverfisstofnun nauðsynlegt að óska aðstoðar Landhelgisgæslu Íslands vegna bráðamengunar utan hafnarsvæða og skal Landhelgisgæslan þá bregðast við beiðni Umhverfisstofnunar um aðstoð, þegar í stað, sé þess kostur, svo sem vegna staðsetningar varðskips.

Skipherra varðskips ber ábyrgð á að búnaður varðskips sé notaður í samræmi við tilmæli vettvangsstjóra þegar bráðamengun verður utan hafnarsvæða.

Vettvangsstjóri ber ábyrgð á því að notkun búnaðarins sé rétt. Skipherra varðskips ber ábyrgð á því að öryggi skipsins sé ekki stefnt í hættu við notkun búnaðarins. Telji skipherra ekki öruggt að nota búnaðinn við þær aðstæður sem uppi eru, skal vettvangsstjóri hlýta þeirri ákvörðun.

VI. KAFLI Samvinna stofnana.

23. gr. Ábyrgð og hlutverk.

Umhverfisstofnun hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar. Stofnunin hefur yfirumsjón með viðbúnaði og viðbrögðum við bráðamengun hafs og stranda og ber ábyrgð á viðbúnaði og viðbrögðum við bráðamengun utan hafnarsvæða.

Landhelgisgæsla Íslands annast eftirlit með hafsvæðum umhverfis Ísland, jafnt úr lofti sem af sjó. Landhelgisgæsla Íslands tilkynnir Umhverfisstofnun og lögregluyfirvöldum um ef hún verður vör við mengun eða grunur leikur á mengun hafs eða stranda. Stofnunin er Umhverfisstofnun til aðstoðar vegna viðbragða við bráðamengun innan og utan hafnarsvæða í samræmi við aðgerðaáætlun þar að lútandi.

Siglingastofnun Íslands annast eftirlit með búnaði skipa vegna mengunarvarna, sbr. lög um eftirlit með skipum. Stofnunin er Umhverfisstofnun til aðstoðar vegna viðbragða við bráðamengun utan hafnarsvæða í samræmi við aðgerðaáætlun þar að lútandi.

24. gr. Aðgerðaáætlun.

Umhverfisstofnun, Landhelgisgæsla Íslands og Siglingastofnun Íslands skulu gera með sér skriflega aðgerðaáætlun um aðkomu stofnananna að viðbrögðum við bráðamengun samkvæmt reglugerð þessari og um framkvæmd einstakra atriða hvað varðar framkvæmd og stjórn á vettvangi í samræmi við ákvæði laga um varnir gegn mengun hafs og stranda.

25. gr. Efni aðgerðaáætlunar.

Í aðgerðaáætlun stofnananna skv. 24. gr. skal m.a. fjalla um gildissvið, ábyrgð og verkefni þeirra í eftirtöldum tilvikum:

  1. þegar atvik verður þar sem er engin merkjanleg mengun eða hætta á bráðamengun;
  2. þegar atvik verður með sýnilegri mengun eða ef hætta er talin á bráðamengun;
  3. þegar skipi er siglt til neyðarhafnar eða neyðarafdreps í var eða til viðgerða eftir að atvik hefur orðið.

Aðgerðaáætlunin skal ennfremur ná yfir eftirfarandi:

  1. gerð sameiginlegra viðbragðsáætlana utan hafnarsvæða. Slíkar viðbragðsáætlanir skulu unnar í samráði við ríkislögreglustjóra, Hafrannsóknastofnunina, Náttúrufræðistofnun Íslands, Geislavarnir ríkisins og aðra sambærilega aðila;
  2. æfingar og þjálfun vettvangsstjóra og annarra viðbragðsaðila;
  3. samráðsfundi aðila þar sem farið er yfir atburðarás eftir atvik á sjó til að meta árangur og gera tillögur um það sem betur má fara.

26. gr. Hlutverk Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun hefur það hlutverk að sjá um:

  1. gerð viðbragðsáætlana utan hafnarsvæða í samráði við Landhelgisgæslu Íslands og Siglingastofnun Íslands, sbr. 12. gr. Nöfn og símanúmer tengiliða vegna áætlananna skulu uppfærð eigi sjaldnar en árlega;
  2. æfingar á tiltækum búnaði utan hafnarsvæða. Æfingar skal halda a.m.k. árlega;
  3. rekstur mengunarvarnabúnaðar Umhverfisstofnunar, sbr. 9. gr.;
  4. umsjón með æfingum og þjálfun vettvangsstjóra vegna bráðamengunar utan hafnarsvæða;
  5. samræmingu, með mengunarvarnaráði hafna, á fyrirkomulagi, tilhögun og framkvæmd æfinga á viðbrögðum við bráðamengun innan hafnarsvæða,
  6. samráð við aðra aðila sem kunna að koma að málum.

Umhverfisstofnun og viðkomandi stofnanir, svo sem Náttúrufræðistofnun Íslands, Veðurstofa Íslands, Hafrannsóknastofnunin og Geislavarnir ríkisins skulu gera með sér skriflegt samkomulag um hvernig þessar stofnanir koma að málum.

Þá skal Umhverfisstofnun vinna leiðbeiningar um gerð viðbragðsáætlana innan hafna í samráði við mengunarvarnaráð hafna. Umhverfisstofnun skal yfirfara og samþykkja viðbragðsáætlanir hafna.

Umhverfisstofnun skal fyrir 15. september ár hvert taka saman og birta opinberlega upplýsingar um bráðamengun næstliðins árs. Í samantektinni skal einnig greint frá eftirliti, æfingum og samstarfi við mengunarvarnaráð hafna, hafnir og stofnanir.

27. gr. Hlutverk vaktstöðvar siglinga.

Vaktstöð siglinga tekur á móti og miðlar tilkynningum frá skipum sem flytja hættulegan og/eða mengandi varning skv. lögum og reglugerð um vaktstöð siglinga. Þá móttekur vaktstöðin tilkynningar um óhöpp á sjó utan hafnarsvæða og kallar til vakthafandi aðila innan Umhverfisstofnunar sem gerir viðeigandi ráðstafanir í samræmi við viðbragðsáætlanir.

Vaktstöð siglinga miðlar tilkynningum skv.1. mgr. til Landhelgisgæslu Íslands.

28. gr. Hlutverk Landhelgisgæslu Íslands.

Landhelgisgæslan ásamt fleiri stofnunum er ráðherra til ráðgjafar um varnir gegn mengun hafs og stranda.

Tilkynningar um alla losun, varp og mengun skv. lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda sem eigendur skipa eða skipstjórnarmenn og eigendur eða rekstraraðilar vinnu- og borpalla á hafi úti og fyrirtækja í landi tilkynna stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands, sbr ákvæði 4. gr. reglugerðar þessarar, skal Landhelgisgæslan framsenda, svo fljótt sem auðið er, til Umhverfisstofnunar.

Landhelgisgæslu Íslands er heimilt að grípa til íhlutunar og gera þær ráðstafanir sem taldar eru nauðsynlegar á hafsvæðinu innan mengunarlögsögu Íslands til að koma í veg fyrir eða draga úr hættu sem hafi eða ströndum stafar af bráðamengun í samræmi við ákvæði laga um mengun hafs og stranda. Eftir því sem unnt er og þörf krefur skal Landhelgisgæsla Íslands hafa samráð við Umhverfisstofnun og hafnarstjóra þegar gripið er til íhlutunar.

Landhelgisgæslan aðstoðar Umhverfisstofnun eins og unnt er þegar grípa þarf til aðgerða vegna ítrekaðra mengunarbrota eða bráðamengunar á hafinu og við athuganir á skipum og vinnu- og borpöllum.

VII. KAFLI Eftirlit.

29. gr. Eftirlit úr lofti og af sjó.

Landhelgisgæsla Íslands annast eftirlit með hafsvæðum umhverfis Ísland, jafnt úr lofti sem af sjó, þ.m.t. vegna hugsanlegrar bráðamengunar. Landhelgisgæsla Íslands tilkynnir Umhverfisstofnun ef hún verður vör við mengun eða grunur leikur á mengun hafs eða stranda. Umhverfisstofnun og Landhelgisgæsla Íslands skulu gera með sér samning um samvinnu við eftirlit með mengun sjávar innan íslenskrar mengunarlögsögu, þ.m.t. um notkun gervitungla við eftirlitið.

Landhelgisgæsla Íslands skal halda skrá yfir eftirlitsferðir vegna mengunareftirlits þar sem fram kemur tími flugs og flugferlar. Ef mengun greinist skal Landhelgisgæslan fylla út eftirlitsblað samkvæmt tilmælum Kaupmannahafnarsamkomulagsins.

Landhelgisgæsla Íslands skal fyrir 1. júní ár hvert taka saman tölfræðiupplýsingar um flugtíma næstliðins árs og annað sem Kaupmannahafnarsamkomulagið krefst og senda Umhverfisstofnun. Samantektin skal lögð fram á árlegum fundum samningsaðila Kaupmannahafnarsamkomulagsins.

VIII. KAFLI Ýmis ákvæði.

30. gr. Gjaldtaka.

Allur kostnaður við flutninga og notkun á mengunarvarnabúnaði greiðist af þeim aðila sem óskað hefur eftir búnaðinum og notað hann. Viðkomandi aðili skal síðan krefja mengunarvaldinn um greiðslu í samræmi við gildandi lög.

Um gjald fyrir notkun mengunarvarnabúnaðar hafna fer samkvæmt gjaldskrá viðkomandi hafnar í samræmi við ákvæði hafnalaga. Við gerð gjaldskrárinnar skal m.a. miðað við notkun á tækjum og útselda vinnu umsjónarmanna mengunarvarnabúnaðarins. Gjöld skulu tryggð með lögveðsrétti í eitt ár í viðkomandi skipi eða fasteign.

Um gjald fyrir notkun mengunarvarnabúnaðar Umhverfisstofnunar fer samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar sem skal hafa hlotið samþykki ráðherra. Við gerð gjaldskrárinnar skal m.a. miðað við notkun á tækjum og útselda vinnu umsjónarmanna mengunarvarnabúnaðarins. Gjöld skulu tryggð með lögveðsrétti í eitt ár í viðkomandi skipi eða fasteign.

31. gr. Mengunarvarnaráð hafna.

Að afloknum hverjum sveitarstjórnarkosningum skal ráðherra skipa sjö fulltrúa í mengunarvarnaráð hafna til fjögurra ára í senn. Umhverfisstofnun tilnefnir tvo fulltrúa og er annar þeirra formaður ráðsins. Hafnasamband Íslands tilnefnir þrjá fulltrúa, Samband íslenskra sveitarfélaga einn fulltrúa og skal hann vera starfandi heilbrigðisfulltrúi og Siglingastofnun Íslands einn fulltrúa. Þeir sem tilnefna fulltrúa í mengunarvarnaráð skulu bera kostnað vegna fulltrúa sinna í ráðinu.

Mengunarvarnaráð hafna skal funda a.m.k. tvisvar á ári. Formaður ráðsins skal boða til funda.

32. gr. Hlutverk mengunarvarnaráðs hafna.

Hlutverk mengunarvarnaráðs hafna samkvæmt 31. gr. er:

  1. að vera formlegur samstarfsvettvangur Umhverfisstofnunar og hafna um málefni sem varða viðbúnað og viðbrögð við bráðamengun innan hafnarsvæða,
  2. að stuðla að samstarfi og samhæfingu milli hafna um viðbúnað, samræmingu viðbragðsáætlana og viðbragða við bráðamengun,
  3. að gera tillögu til Umhverfisstofnunar um uppbyggingu og endurnýjun á mengunarvarnabúnaði í höfnum landsins og
  4. að koma með ábendingar og tillögur um innihald viðbragðsáætlana.

33. gr. Kæruheimild.

Rísi ágreiningur um framkvæmd reglugerðar þessarar er heimilt að vísa honum til ráðherra til úrskurðar. Ráðherra skal kveða upp úrskurð svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en átta vikum eftir að honum berst mál í hendur.

Rísi ágreiningur um það hvort um bráðamengun samkvæmt reglugerð þessari sé að ræða er heimilt að vísa málinu til ráðherra til úrskurðar, sbr. ákvæði laga um varnir gegn mengun hafs og stranda. Skal ráðherra úrskurða í málinu eins fljótt og við verður komið og eigi síðar en viku eftir að honum berst mál í hendur.

34. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í t-lið 6. gr. laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, og innanríkisráðuneytið um þátt Landhelgisgæslu Íslands, vaktstöðvar siglinga og Siglingastofnunar Íslands.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 465/1998, um viðbrögð við bráðamengun sjávar.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 27. nóvember 2012.

Svandís Svavarsdóttir.

Magnús Jóhannesson.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.