Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 21. nóv. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 1. ágúst 2020

1005/2010

Reglugerð um frístundafiskiskip og öryggi þeirra.

1. gr. Gildissvið og markmið.

Reglugerð þessi gildir um skip sem skráð eru í íslenskri skipaskrá sem frístundafiskiskip.

Markmið reglugerðarinnar er að setja skilyrði fyrir skráningu skipa sem frístundafiskiskipa á skipaskrá og kveða á um þær reglur sem gilda skulu um öryggi þeirra.

2. gr. Skilgreiningar.

Frístundafiskiskip er hvert það skip, skrásett sem frístundafiskiskip samkvæmt lögum um skráningu skipa, sem í atvinnuskyni er leigt út til frístundaveiða.

Strandsigling er sigling innan 50 sjómílna frá strönd.

Bátaleiga er lögaðili sem er handhafi viðeigandi starfsleyfis, skráður fyrir og ábyrgur fyrir rekstri frístundafiskiskips.

3. gr. Stærð, gerð og vélarafl frístundafiskiskipa.

Frístundafiskiskip skulu vera skráningarskyld samkvæmt ákvæðum laga nr. 115/1985 um skráningu skipa, en skulu þó ekki vera lengri en 8,00 metrar að skráningarlengd. Þau skulu lúta ákvæðum laga nr. 47/2003 um eftirlit með skipum og ákvæðum reglugerðar nr. 1017/2003 um skoðanir á skipum og búnaði þeirra með síðari breytingum.

Skráð vélarafl frístundafiskiskipa skal ekki vera meira 100 kW.

Frístundafiskiskip geta verið hvort heldur er opnir bátar eða þilfarsskip.

4. gr. Farsvið frístundafiskiskips.

Farsvið frístundafiskiskipa takmarkast við strandsiglingar og það hafsvæði þar sem fullnægjandi móttökuskilyrði eru fyrir lögboðinn fjarskiptabúnað og AIS vöktunarbúnað skipanna. Þar sem móttökuskilyrði fjarskipta- og vöktunarbúnaðar sætir takmörkunum vegna fjarskiptaskilyrða eða vegna þess fjarskipta- og vöktunarbúnaðar sem skipin eru búin, skal útgerð skips sjá til þess að slík svæði séu undanþegin farsviði frístundafiskiskipa til að tryggja að ávallt séu skilyrði fyrir beinu fjarskipta- og vöktunarsambandi á milli frístundafiskiskips og lands.

Farsvið opinna frístundafiskiskipa skal takmarkast við hafsvæði allt að 5 mílur frá landi.

Rekstur opinna frístundafiskiskipa skal takmarkaður við tímabilið frá 1. apríl til 1. október.

Siglingastofnun getur sett nánari skilyrði að því er varðar farsvið frístundafiskiskipa með tilliti til árstíma, birtuskilyrða, sjólags og takmarkana í getu eða kröfur til þess sem gegnir stöðu skipstjóra til að annast um öryggi skipsins og þeirra sem um borð eru.

5. gr. Smíði og björgunar- og öryggisbúnaður frístundafiskiskipa.

Frístundafiskiskip skulu að því er varðar smíði og búnað fullnægja þeim ákvæðum reglugerðar nr. 592/1994 um smíði og búnað báta með mestu lengd allt að 15 metrum með síðari breytingum sem lúta að vinnubátum. Siglingastofnun er heimilt að veita almennar undanþágur frá einstökum ákvæðum reglugerðarinnar ef ákvæði þeirra teljast óþarflega íþyngjandi með hliðsjón af stærð og gerð skipsins og takmörkunum í farsviði viðkomandi skips.

Um öryggis- og björgunarbúnað frístundafiskiskipa skulu gilda þau ákvæði reglugerðar nr. 189/1994 um björgunar- og öryggisbúnað íslenskra skipa sem eiga við um fiskiskip. Þó er ekki skylt að um borð í frístundafiskiskipum séu flotvinnubúningar sem kveðið er á um í þeim reglum þegar farsvið frístundafiskveiðiskips er bundið við hafsvæði sem takmarkast við 3 sjómílur frá landi.

Um fjarskiptabúnað frístundafiskiskipa skulu gilda ákvæði reglugerðar nr. 53/2000 um fjarskiptabúnað og fjarskipti íslenskra skipa sem eiga við um fiskiskip.

Frístundafiskiskip má nota sem fiskiskip þann hluta ársins sem það er ekki notað sem frístundafiskiskip enda fullnægi skipið að öllu öðru leyti þeim kröfum sem gerðar eru til fiskiskipa.

6. gr. Bátaleiga.

Sá sem ber ábyrgð á rekstri frístundafiskiskips skal vera handhafi starfsleyfis til reksturs frístundafiskiskips sem Siglingastofnun gefur út. Í umsókn um starfsleyfi skulu koma fram upplýsingar um eftirfarandi:

  1. Nafn umsækjanda og fyrirhugaðs rekstraraðila.
  2. Starfsstað og nafn tengiliðs.
  3. Umfang starfsemi sem greinir frá fjölda báta.
  4. Félag það sem annast reksturinn, rekstraraðila og stjórn félags.
  5. Það öryggisstjórnunarkerfi sem fyrirtækið hefur komið upp og efni þess.
  6. Menntun og þjálfun starfsmanna.
  7. Þá almennu fræðslu, sem veitt er skipstjóra skipanna áður en þeir hefja siglingar, um skipin, búnað þeirra og notkun.
  8. Eftirlit rekstraraðila með bátunum og möguleika rekstraraðila til íhlutunar eða aðstoðar ef þeir sem stjórna bátunum lenda í erfiðleikum.
  9. Viðbragðsáætlanir og upplýsingar um þá aðstoð sem gera má ráð fyrir að unnt sé að veita með skjótum hætti við að leita og bjarga þeim sem kynnu að vera í neyð.
  10. Tilhögun eftirlits með skipunum á milli einstakra ferða og áður en ný áhöfn kemur um borð.

Rekstur bátaleigu skal lúta öryggisstjórnunarkerfi sem bátaleigan setur sér og sem Siglingastofnun samþykkir.

Bátaleiga skal vekja athygli skipstjóra á þeim skyldum sem skipstjóri ber samkvæmt íslenskum lögum og um skyldu hans til þess að fara að settum reglum og fyrirmælum.

Bátaleiga skal tryggja stöðuga vaktstöðu á staðnum til að fylgjast með skipinu og ferðum þess, aðstoða þá sem um borð eru eftir föngum og geta brugðist við ef neyðarástand skapast.

Bátaleiga skal geta verið í stöðugu fjarskiptasambandi við skipið hvenær sem er.

Bátaleiga skal í hverri viku yfirfara bol skipsins, vélbúnað, rafbúnað og stjórnbúnað til að sannreyna að bolurinn og búnaðurinn séu í fullkomnu lagi og starfi eðlilega.

Bátaleiga skal sjá til þessa að þeim sem falin er stjórn frístundafiskiskips sé handhafi viðeigandi lögboðinna skírteina og sé í því ástandi að hann geti annast öryggi skipsins og þeirra sem þar eru með fullnægjandi hætti. Skal rekstraraðili meina þeim sem er undir áhrifum efna eða lyfja að annast stjórn skipsins. Sama gildir um þann sem sökum skorts á nauðsynlegri hvíld eða veikinda er ekki talinn fær um að fullnægja kröfum um fullnægjandi heilsufar til að geta gegnt stöðu skipstjóra. Brot á lögum og reglum skal rekstraraðili tilkynna til lögreglu.

Bátaleiga skal varðveita gögn er lúta að skírteini skipstjóra og skírteinisútgáfu til ekki skemmri tíma en eins árs, nema slys eða óhöpp kalli á lengri geymslu þeirra skjala.

7. gr. Skipstjórnarskírteini og skyldur skipstjóra.

Sá sem er lögmætur handhafi skemmtibátaskírteinis til strand- eða úthafssiglinga eða handhafi annars sambærilegs erlends skírteinis að mati Siglingastofnunar Íslands hefur rétt til að annast stjórn frístundafiskiskips, enda hafi hann jafnframt fengið fullnægjandi kennslu á skipið skv. 8. gr.

Skipstjóri ber fulla ábyrgð á notkun frístundafiskiskips. Hann skal haga siglingu skips í samræmi við aðstæður og skal sjá til þess að öllum viðeigandi varúðarráðstöfunum sé beitt. Skipstjóri skal fara að öllu að fyrirmælum bátaleigu. Hvert úthald skal ekki vara lengur en 14 klst. á hverju 24 klst. tímabili.

8. gr. Kennsla bátaleigu á skipstjórn.

Skipstjóri frístundafiskiskips skal áður en lagt er úr höfn fá haldbæra fræðslu frá starfsmanni bátaleigu, sem er a.m.k. handhafi skipstjórnarskírteinis smáskipa (<12 m að skráningarlengd), og tilsögn í notkun og stjórn þess skips sem um ræðir, t.d. um björgunar- og öryggisbúnað þess, stjórnbúnað, siglingatæki, staðsetningartæki, fjarskiptatæki og notkun AIS- eða STK-búnaðar eftir því sem við á, siglingakort, sendingu neyðarkalls og viðbrögð við neyðaraðstæðum. Starfsmaðurinn skal jafnframt kanna hvort skipstjórinn hafi þekkingu á helstu undirstöðuatriðum siglingafræði og siglingareglna.

Auk þess er nauðsynlegt að aðrir í áhöfn fái fræðslu í notkun björgunar- og öryggisbúnaðar, sendingu neyðarkalls og viðbrögð við neyðaraðstæðum.

Um fiskveiðar og meðferð afla fer eftir lögum þar um og reglum sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið setur. Bátaleiga skal kynna efni þeirra fyrir áhöfn frístundafiskiskipa.

9. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 7. gr. a í lögum um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, nr. 30/2007, með síðari breytingum og staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.