Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 21. des. 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 15. sept. 2023

1001/2011

Reglugerð um landsskipulagsstefnu.

I. KAFLI Landsskipulagsstefna.

1. gr. Markmið.

Markmið landsskipulagsstefnu er að setja fram leiðarljós um landnotkun, nýtingu lands og landgæða sem tryggir öryggi og heildarhagsmuni við gerð skipulagsáætlana og stuðlar að sjálfbærri þróun og skilvirkri áætlanagerð. Þá er landsskipulagsstefnu ætlað að stuðla að samræmingu í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga um landnotkun og nýtingu lands.

Landsskipulagsstefna skal taka mið af fyrirliggjandi stefnumótandi áætlunum opinberra aðila sem varða landnotkun og stöðu og þróun skipulagsmála í landinu. Hún skal jafnframt byggja á markmiðum skipulagslaga og stefnu stjórnvalda um sjálfbæra þróun. Þá skal landsskipulagsstefna eftir því sem við á hafa hliðsjón af svæðis- og aðalskipulagsáætlunum sveitarfélaga.

II. KAFLI Stjórnvöld, ráðgjafarnefnd og samráðsvettvangur.

2. gr. Tillaga til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu.

Innviðaráðherra leggur fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu til tólf ára innan tveggja ára frá alþingiskosningum. Ráðherra felur Skipulagsstofnun að vinna tillögu að landsskipulagsstefnu eins og er nánar kveðið á um í reglugerð þessari.

3. gr. Skipun ráðgjafarnefndar.

Áður en vinna hefst við gerð landsskipulagsstefnu hverju sinni skal innviðaráðherra skipa sérstaka ráðgjafarnefnd um gerð landsskipulagsstefnu.

Fjöldi fulltrúa í ráðgjafarnefndinni skal vera sjö talsins. Ráðherra getur engu að síður ákveðið að skipa fleiri fulltrúa í nefndina enda leiði það af eðli máls að samráð og ráðgjöf nefndarinnar verði ekki fullnægjandi einungis með sjö fulltrúa miðað við aðstæður allar. Ráðherra skipar stýrihóp sem fer með samskipti ráðuneytisins við ráðgjafarnefndina. Um tilnefningar í ráðgjafarnefndina fer samkvæmt ákvörðun ráðherra hverju sinni.

4. gr. Hlutverk ráðgjafarnefndar.

Ráðgjafarnefndin skal vera ráðherra og Skipulagsstofnun til ráðgjafar og samráðs við undirbúning landsskipulagsstefnu. Ráðgjafarnefndinni er ætlað að veita faglega ráðgjöf við mótun landsskipulagsstefnu og að koma með tillögur um samþættingu við áætlanir í ólíkum málaflokkum sem varða landnotkun á landsvísu. Komi í ljós verulegt ósamræmi milli áætlana við samþættingu þeirra skal Skipulagsstofnun óska eftir því að ráðgjafarnefndin fjalli sérstaklega um málið.

Ráðgjafarnefndin skal vera Skipulagsstofnun til ráðgjafar við gerð lýsingar landsskipulagsstefnu. Þá skal ráðgjafarnefndin vera Skipulagsstofnun til ráðgjafar um vinnslu landsskipulagsstefnu. Slík ráðgjöf tekur m.a. til áherslna landsskipulagsstefnu, samþættingar ólíkra áætlana, kynningar- og samráðsmála vegna vinnu við landsskipulagsstefnu, umhverfismats og framsetningar landsskipulagsstefnu.

Innviðaráðherra skal leita álits ráðgjafarnefndarinnar ef hann telur þörf á að breyta tillögu Skipulagsstofnunar að landsskipulagsstefnu.

5. gr. Störf og starfshættir ráðgjafarnefndar.

Formaður boðar fundi ráðgjafarnefndar. Skipulagsstofnun annast daglegan rekstur og umsýslu ráðgjafarnefndar og skal fulltrúi Skipulagsstofnunar sitja fundi nefndarinnar.

Starfi ráðgjafarnefndarinnar lýkur þegar þingsályktun um landsskipulagsstefnu hefur verið samþykkt á Alþingi.

6. gr. Samráðsvettvangur.

Þegar vinna við landsskipulagsstefnu hefst hverju sinni, skal Skipulagsstofnun koma á fót sérstökum samráðsvettvangi vegna mótunar landsskipulagsstefnu. Þar skulu m.a. vera fulltrúar sveitarfélaga og samtaka þeirra, fulltrúar opinberra stofnanna, fyrirtækja sem sinna uppbyggingu og rekstri grunngerðar svo sem samgangna og orkuflutninga og samtaka á sviði atvinnuvega og náttúru- og umhverfisverndar.

Skipulagsstofnun óskar eftir tilnefningum aðila til að starfa á samráðsvettvanginum. Aðrir en þeir sem tilgreindir eru í 1. mgr. geta óskað eftir því við Skipulagsstofnun að fá aðild að samráðsvettvanginum.

Við mótun landsskipulagsstefnu skal Skipulagsstofnun leita eftir ábendingum og tillögum frá samráðsvettvanginum og leggja fram hugmyndir sínar til kynningar og umræðu.

Starf samráðsvettvangsins getur eftir atvikum farið fram á fundum og málþingum sem Skipulagsstofnun boðar til, sem og á netinu og með álitsumleitan.

Tilnefningaraðilar standa straum af kostnaði við þátttöku sinna fulltrúa í samráðsvettvanginum.

III. KAFLI Viðfangsefni landsskipulagsstefnu.

7. gr. Um viðfangsefni landsskipulagsstefnu.

Í landsskipulagsstefnu skal lýsa áherslum ríkisins um skipulagsmál og gera grein fyrir tengslum þeirra við stefnu stjórnvalda í málaflokkum sem varðar landnotkun, svo sem um byggðamál, náttúruvernd, orkumál og samgöngur.

Í landsskipulagsstefnu er sett fram:

  1. Yfirlit um stefnu stjórnvalda í einstökum málaflokkum sem varða landnotkun, sbr. 8. gr.
  2. Greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála, sbr. 9. gr.
  3. Samræmd stefna ríkisins um skipulagsmál, sbr. 10. gr.
  4. Stefna um skipulagsmál miðhálendisins, sbr. 11. gr.

Landsskipulagsstefna skal taka til 12 ára tímabils og getur náð til landsins alls, einstakra landshluta eða efnahagslögsögunnar.

Umhverfiráðherra felur Skipulagsstofnun að hefja vinnu við gerð landsskipulagsstefnu og setur fram hverjar áherslur landsskipulagsstefnu skuli vera. Áherslur geta varðað ákveðin þemu, tiltekna landshluta eða landgerðir, svo sem, Suðvesturland, strandsvæði og óbyggðir, gæði byggðar, menningarlandslag, loftslagsmál, vernd náttúru og menningarminja, náttúruvá og samspil landnotkunar og samgangna eða samspil landnotkunar og lýðheilsu.

Tillaga að nýrri landsskipulagsstefnu felur í sér endurskoðun á gildandi landsskipulagsstefnu þegar þörf er á ásamt greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála í landinu.Við endurskoðun landsskipulagsstefnu skal Skipulagsstofnun hafa hliðsjón af niðurstöðum vöktunar á samræmdri stefnu ríkisins, sbr. 13. gr.

8. gr. Yfirlit yfir stefnu stjórnvalda í einstökum málaflokkum sem varða landnotkun.

Í landsskipulagsstefnu skal taka saman og setja fram yfirlit um stefnumörkun og helstu áætlanir sem fyrir liggja í einstökum málaflokkum á landsvísu og varða landnotkun og skipulagsgerð sveitarfélaga. Þetta yfirlit skal vera sveitarfélögum til leiðbeiningar við skipulagsgerð. Einnig skal það lagt til grundvallar við mótun stefnu um skipulagsmál.

Yfirlitið getur varðað stefnu stjórnvalda um sjálfbæra þróun, loftslagsmál, byggðamál, ferðaþjónustu, landbúnað, náttúruvernd, orkumál og samgöngur.

Skipulagsstofnun skal hafa aðgang að áætlunum annarra opinberra aðila í einstökum málaflokkum sem varða landnotkun.

9. gr. Greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála.

Í landsskipulagsstefnu skal taka saman og setja fram greinargerð yfir stöðu og þróun skipulagsmála í landinu. Í henni skal vera tölulegt yfirlit yfir stöðu og þróun í einstökum landshlutum, svo sem tölur yfir íbúaþróun, húsbyggingar, landnotkun og umferð. Einnig skal vera yfirlit yfir áætlaða þróun og uppbyggingu samkvæmt skipulagsáætlunum sveitarfélaga og spám um mannfjöldaþróun.

Greinargerðin skal lögð til grundvallar við mótun stefnu um skipulagsmál og vera sveitarfélögum til leiðbeiningar við skipulagsgerð.

10. gr. Samræmd stefna ríkisins um skipulagsmál.

Í landsskipulagsstefnu skulu settar fram áherslur um skipulagsmál sem varða almannahagsmuni og byggðaþróun og landnotkun á landsvísu. Í henni koma fram leiðarljós í skipulagsmálum fyrir landið í heild, til leiðbeiningar við gerð skipulagsáætlana sveitarfélaga. Þá skal í landsskipulagsstefnu samþætta áætlanir opinberra aðila m.a. um samgöngur, byggðamál, náttúruvernd, orkunýtingu, húsnæðismál og aðra málaflokka sem varða landnotkun. Landsskipulagsstefna getur varðað m.a. byggðaþróun, búsetumynstur og landnotkun, gæði umhverfis, náttúru- og menningarminjar, náttúruauðlindir og nýtingu þeirra, samgöngur og veitur, náttúruvá, loftslagsmál með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

11. gr. Stefna um skipulagsmál miðhálendisins.

Í landsskipulagsstefnu skal ávallt setja fram stefnu um skipulagsmál miðhálendisins. Þar er samræmd stefna um skipulagsmál sérstaklega útfærð fyrir miðhálendi Íslands.

Við mörkun fyrstu landsskipulagsstefnu fyrir miðhálendið skal höfð hliðsjón af vinnu samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins, sbr. svæðisskipulag miðhálendis Íslands frá 10. maí 1999 með síðari breytingum.

IV. KAFLI Framsetning og umhverfismat landsskipulagsstefnu.

12. gr. Lýsing landsskipulagsstefnu.

Þegar vinna Skipulagsstofnunar við gerð landsskipulagsstefnu hefst skal Skipulagsstofnun taka saman lýsingu á verkefninu. Þar skal gera grein fyrir þeim áherslum sem innviðaráðherra hefur lagt fyrir vinnuna og hvernig fyrirhugað er að standa að greiningu á stöðu skipulagsmála og greiningu fyrirliggjandi stefnumörkunar og áætlana. Þá skal gera grein fyrir því hvernig fyrirhugað er að standa að mótun landsskipulagsstefnunnar, umhverfismati og kynningu og samráði í vinnunni. Sérstaklega skal gera grein fyrir því hvernig fyrirhugað er að fjalla um skipulagsmál á miðhálendinu.

13. gr. Framsetning landsskipulagsstefnu.

Landsskipulagsstefna skal sett fram í greinargerð sem hefur að geyma þá þætti sem lýst er í 7. gr. Þar skal jafnframt gera grein fyrir kynningu og samráði við gerð landsskipulagsstefnunnar. Þá skal þar gera grein fyrir umhverfismati landsskipulagsstefnunnar í samræmi við lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006, sbr. 18. gr.

Greinargerðin skal vera fylgiskjal með þingsályktunartillögu um landsskipulagsstefnu þar sem sett er fram samræmd stefna ríkisins um skipulagsmál og stefna um skipulagsmál á miðhálendinu. Í tillögu að landsskipulagsstefnu skal setja fram áætlun um vöktun Skipulagsstofnunar á samræmdri stefnu ríkisins um skipulagsmál og gera grein fyrir vöktun þeirra áætlana sem gerð er grein fyrir í yfirliti yfir stefnu stjórnvalda í einstökum málaflokkum sem varða landnotkun.

Landsskipulagsstefna er sett fram á uppdráttum, þegar við á. Uppdrættir skulu marka almennar meginlínur í byggðaþróun og landnotkun, en varða almennt ekki staðbundnar ákvarðanir um landnotkun og einstakar framkvæmdir. Þeir geta t.d. tekið til meginþátta grunnnets samgöngu- og veitukerfis og meginstefnu í byggðaþróun, orkunýtingu og náttúruvernd.

V. KAFLI Kynning og samráð við gerð landsskipulagsstefnu.

14. gr. Almennt um kynningu og samráð.

Skipulagsstofnun skal móta landsskipulagsstefnu í virku samráði við sveitarfélög og samtök þeirra, opinberar stofnanir og hagsmunasamtök sbr. 6. gr. Jafnframt skal tryggja að almenningur eigi þess kost að fylgjast með mótun landsskipulagsstefnu og koma á framfæri ábendingum og athugasemdum í vinnuferlinu.

15. gr. Vefsetur.

Skipulagsstofnun skal á hverjum tíma sjá til þess að nýjar og uppfærðar upplýsingar séu aðgengilegar á vefsetri um landsskipulagsstefnu. Þar skal ávallt vera aðgengileg gildandi landsskipulagsstefna, þ.m.t. upplýsingar um stöðu og þróun skipulagsmála og upplýsingar um áætlanir í mismunandi málaflokkum sem varða landnotkun á landsvísu. Þar skulu einnig vera upplýsingar um samráðsvettvang vegna landsskipulagsstefnu og nýjustu upplýsingar um vinnu að nýrri landsskipulagsstefnu á hverjum tíma.

Á vefsetri um landsskipulagsstefnu skal vera möguleiki til að koma á framfæri ábendingum, athugasemdum og spurningum varðandi gildandi landsskipulagsstefnu og mótun nýrrar landsskipulagsstefnu.

16. gr. Kynning á lýsingu landsskipulagsstefnu.

Í upphafi vinnu við gerð landsskipulagsstefnu skal Skipulagsstofnun taka saman lýsingu á verkefninu og skal hún unnin í samráði við ráðgjafarnefnd. Kynna skal lýsinguna samráðsvettvangi og skal þátttakendum gefinn kostur á að koma á framfæri áliti sínu. Þá skal Skipulagsstofnun kynna lýsinguna með auglýsingu sem vísar á vefsetur og gefa almenningi kost á að koma á framfæri ábendingum og athugasemdum við lýsinguna að lágmarki innan þriggja vikna frá birtingu auglýsingar.

Skipulagsstofnun skal birta yfirlit yfir framkomnar ábendingar og athugasemdir við lýsinguna á vefsetrinu og jafnframt gera grein fyrir hvernig fyrirhugað er að vinna úr þeim við frekari mótun landsskipulagsstefnunnar. Þar skal jafnframt gerð grein fyrir umsögn stofnunarinnar um framkomnar athugasemdir.

17. gr. Auglýsing tillögu að landsskipulagsstefnu.

Þegar endanleg tillaga Skipulagsstofnunar að landsskipulagsstefnu liggur fyrir kynnir stofnunin hana opinberlega ásamt umhverfismati. Áður en tillagan er auglýst skal Skipulagsstofnun hafa kynnt hana ráðgjafarnefnd og samráðsvettvangi.

Tillagan ásamt umhverfismati skal auglýst í dagblaði sem gefið er út á landsvísu og Lögbirtingablaðinu og jafnframt kynnt á vefsetri um landsskipulagsstefnu.

Í auglýsingu skal tilgreina hvar tillagan er aðgengileg og skal öllum gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana innan ákveðins frests sem skal ekki vera skemmri en átta vikur frá birtingu auglýsingar. Tekið skal fram í auglýsingu hvert skuli skila athugasemdum. Tillagan skal jafnframt send til umsagnar sveitarfélaga, hlutaðeigandi opinberra aðila og hagsmunasamtaka.

18. gr. Umhverfismat landsskipulagsstefnu.

Meta skal umhverfisáhrif af landsskipulagsstefnu í samræmi við kröfur laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006.

Í lýsingu landsskipulagsstefnu skal gera grein fyrir fyrirhuguðu umfangi og nákvæmni umhverfismatsins. Skipulagsstofnun skal kynna umhverfisráðuneyti og Umhverfisstofnun sérstaklega þann þátt lýsingarinnar.

Með landsskipulagsstefnu skal lögð fram umhverfisskýrsla í samræmi við 6. gr. laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006. Á kynningartíma tillögu að landsskipulagsstefnu og umhverfisskýrslu, skulu tillagan og umhverfisskýrsla sérstaklega kynnt umhverfisráðuneyti og Umhverfisstofnun.

Við afgreiðslu tilllögu að landsskipulagsstefnu að loknum kynningartíma skal Skipulagsstofnun gæta þess að hliðsjón sé höfð af umhverfismati tillögunnar.

VI. KAFLI Afgreiðsla og áhrif.

19. gr. Afgreiðsla.

Eftir að kynningartíma tillögu að landsskipulagsstefnu og umhverfismati, þegar við á, lýkur, skal Skipulagsstofnun fjalla um þær umsagnir og athugasemdir sem bárust á kynningartíma og taka saman umsögn um hvernig höfð hefur verið hliðsjón af þeim.

Skipulagsstofnun skal gera þeim aðilum sem gerðu umsagnir og athugasemdir við tillögu að landsskipulagsstefnu á kynningartíma tillögunnar grein fyrir umsögn sinni um þær. Að því loknu skilar Skipulagsstofnun tillögu að landsskipulagsstefnu til innviðaráðherra.

Innviðaráðherra tekur tillögu Skipulagsstofnunar að landsskipulagsstefnu ásamt greinargerð stofnunarinnar um afgreiðslu tillögunnar til skoðunar og gengur frá tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og ráðgjafarnefnd.

Innviðaráðherra leggur tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu fram á Alþingi. Landsskipulagsstefna tekur gildi þegar Alþingi hefur fjallað um tillöguna og samþykkt hana.

20. gr. Áhrif landsskipulagsstefnu.

Landsskipulagsstefna felur í sér stefnu ríkisins í skipulagsmálum og almenn sjónarmið til leiðbeiningar við skipulagsgerð sveitarfélaga. Hún felur almennt ekki í sér fyrirmæli um nákvæma útfærslu landnotkunar nema að um hana sé fjallað í fyrirliggjandi áætlunum opinberra aðila.

Landsskipulagsstefna getur jafnframt falið í sér tillögur um tilteknar breytingar á áætlunum í einstökum málaflokkum sem varða landnotkun, komi í ljós við gerð landsskipulagsstefnu að verulegt ósamræmi sé milli fyrirliggjandi áætlana.

Sveitarfélög skulu taka mið af landsskipulagsstefnu við gerð svæðis- og aðalskipulagsáætlana eða breytinga á þeim og, eftir því sem við á, samræma þær landsskipulagsstefnu innan fjögurra ára frá samþykkt hennar. Í því felst að samræma og útfæra landsskipulagsstefnu í skipulagsáætlunum.

Telji sveitarstjórn að ekki beri að taka mið af samþykktri landsskipulagsstefnu við gerð svæðis- og aðalskipulagsáætlana, skal hún gera rökstudda grein fyrir því og skal rökstuðningurinn fylgja með tillögu að skipulagsáætlun þegar hún er send Skipulagsstofnun.

21. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 2. mgr. 45. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og öðlast þegar gildi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.