Fara beint í efnið

Prentað þann 22. jan. 2022

Stofnreglugerð

990/2008

Reglugerð um útstreymisbókhald.

1. gr. Hlutverk Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun gegnir hlutverki lögbærs yfirvalds sbr. 5., 7., 9. og 10. gr. og III. viðauka reglugerðar (EB) nr. 166/2006 um að koma á fót Evrópuskrá yfir losun og flutning mengunarefna og um breytingu á tilskipunum ráðsins 91/689/EBE og 96/61/EB.

2. gr. Skýrslugjöf.

Fyrirtækjum sem falla undir I. viðauka í reglugerð (EB) nr. 166/2006 ber að skila til Umhverfisstofnunar upplýsingum um losun mengandi efna frá hverri starfsstöð fyrirtækisins, þar sem losun efna frá starfsstöðinni er yfir þeim mörkum sem tilgreind eru í II. viðauka í reglugerð (EB) nr. 166/2006.

Upplýsingum samkvæmt 1. mgr. ber að skila fyrir 1. maí ár hvert fyrir næsta almanaksár á undan.

3. gr. Valdsvið og þvingunarúrræði.

Til að knýja á um ráðstafanir samkvæmt reglugerð þessari skal fylgja þeim þvingunarúrræðum sem mælt er fyrir um í IX. kafla reglugerðar nr. 786/1999 um mengunarvarnaeftirlit. Að öðru leyti gilda um valdsvið og þvingunarúrræði ákvæði VI. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum.

4. gr. Eftirlit.

Umhverfisstofnun fer með eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar.

5. gr. Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum.

Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann.

6. gr. Gildistaka tiltekinnar gerðar Evrópubandalagsins.

Eftirfarandi reglugerð sem vísað er til í I. kafla, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, skal öðlast gildi hér á landi með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XX. viðauka samningsins, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum samningsins:

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 166/2006 frá 18. janúar 2006 um að koma á fót Evrópuskrá yfir losun og flutning mengunarefna og um breytingu á tilskipunum ráðsins 91/689/EBE og 96/61/EB, sem vísað er til í tölulið 1f, I. kafla, II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 58/2007, þann 9. júní 2007. Ofangreind reglugerð Evrópuþingsins er birt í fylgiskjali með reglugerð þessari.

7. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum.

Reglugerðin öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 322/2002 um útstreymisbókhald.

Umhverfisráðuneytinu, 13. október 2008.

F. h. r.
Sigríður Auður Arnardóttir.

Sigurbjörg Sæmundsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.