Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. jan. 2022

Reglugerð með breytingum síðast breytt 20. ágúst 2015

979/2013

Reglugerð um rekstrarsamhæfi rafræns gjaldtökukerfis innan Evrópska efnahagssvæðisins.

1. gr. Markmið og gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um aðferðir við rafræna innheimtu allra tegunda veggjalda íslensks vegakerfis, í borgum og á milli borga og bæja, á aðalvegum og smærri vegum og við ýmis mannvirki, s.s. göng, brýr og ferjur. Markmið hennar er að tryggja rekstrarsamhæfi rafrænna gjaldtökukerfa innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Undanþegið gildissviði reglugerðarinnar eru:

  1. gjaldtökukerfi þar sem engar rafrænar aðferðir við innheimtu gjaldtöku eru fyrir hendi,
  2. rafræn gjaldtökukerfi þar sem ekki er þörf á uppsetningu búnaðar um borð í ökutækjum,
  3. lítil, algerlega staðbundin gjaldtökukerfi, þar sem kostnaðurinn við að fara að kröfum þessarar reglugerðar væri í engu samræmi við ávinninginn sem af því hlytist.

2. gr. Tæknilegar lausnir.

Í öllum nýjum rafrænum gjaldtökukerfum skal styðjast við eina eða fleiri af eftirfarandi tækniaðferðum þegar gjaldtaka er rafræn:

  1. staðsetningu um gervihnött,
  2. farsímafjarskipti þar sem GSM-GPRS-staðallinn er notaður (tilvísun GSM TS 03.60/23.060),
  3. 5,8 GHz örbylgjutækni.

3. gr. Undantekning.

Þrátt fyrir skilyrði 2. gr. getur búnaður um borð í ökutækjum einnig verið sniðinn að öðrum tækniaðferðum með því skilyrði að það íþyngi ekki notendum frekar eða leiði til mismununar þeirra á milli. Þar sem við á er einnig heimilt að tengja búnað um borð í ökutæki við rafrænan ökurita þess.

4. gr. Tímaáætlun þjónustunnar.

Tryggja skal að rekstraraðilar og/eða útgefendur greiðslumiðla bjóði viðskiptavinum sínum rafræna gjaldtökuþjónustu fyrir öll ökutæki yfir 3,5 tonnum og öll ökutæki sem mega flytja fleiri en níu farþega (ökumaður + 8), og fyrir allar gerðir ökutækja eigi síðar en 6. október 2014.

Þar sem gjaldtökukerfi eru skal tryggja að hægt sé að nota rafræn gjaldtökukerfi fyrir a.m.k. 50% umferðar um hverja gjaldtökustöð.

Einnig er heimilt að nota akreinar sem notaðar eru fyrir rafræna gjaldtöku, til að innheimta gjald með öðrum aðferðum, að teknu tilhlýðilegu tilliti til öryggis.

5. gr. Persónuvernd.

Vinnsla persónuupplýsinga sem nauðsynlegar eru vegna starfrækslu rafrænna gjaldtökukerfa skal fara fram í samræmi við lög um persónuvernd nr. 77/2000.

6. gr. Rafræna gjaldtökukerfið

Hið evrópska rafræna gjaldtökukerfi er nánar útfært og skilgreint í ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/750/EB, sem innleidd er með reglugerð þessari, og vísast að því leyti til ákvæða hennar.

Um nánari réttindi og skyldur rekstraraðila gjaldtökukerfa, aðila sem annast innheimtu veggjalda og notenda vísast til ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar 2009/750/EB.

7. gr. Gildistaka o.fl.

Með reglugerð þessari er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/52/EB frá 29. apríl 2009 um rekstrarsamhæfi rafræns gjaldtökukerfis innan Evrópska efnahagssvæðisins sem vísað er til í XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 89/2006, þann 30. apríl 2013. Tilskipunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 52, 19. október 2006, bls. 22.

Með reglugerð þessari er innleidd ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/750/EB frá 6. október 2009 um skilgreiningu á rafrænu, evrópsku vegtollþjónustunni og tæknilegum þáttum hennar, sem vísað er til í XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 121/2013, þann 14. júní 2013. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi ESB nr. 67, 28.11.2013.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 17. gr. vegalaga nr. 80/2007 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.