Fara beint í efnið

Prentað þann 28. jan. 2022

Stofnreglugerð

975/2004

Reglugerð um vinnu- og hvíldartíma skipverja á íslenskum fiskiskipum.

1. gr. Markmið og gildissvið.

Í reglugerð þessari er mælt fyrir um lágmarkskröfur um öryggi og heilsuvernd skipverja á íslenskum fiskiskipum í tengslum við skipulag vinnutíma.

Reglugerð þessi gildir um skipverja á fiskiskipum.

2. gr. Skilgreiningar.

Eigi má hafa yngri mann, karl eða konu, en 15 ára við vinnu á fiskiskipi. Um vinnu skipverja sem ekki hafa náð 18 ára aldri fer eftir ákvæðum reglugerðar um vinnu barna og unglinga, nr. 426/1999.

Í reglugerð þessari merkja eftirfarandi hugtök:

 1. Vinnutími: Sá tími sem starfsmaður er við störf, til taks fyrir atvinnurekandann og innir af hendi störf sín eða skyldur.
 2. Fiskiskip: Hvert það skip, skrásett sem fiskiskip, sem notað er til fiskveiða eða annarra veiða úr lífríki sjávar.
 3. Hvíldartími: Tími sem telst ekki til vinnutíma.
 4. Næturvinna: Vinna á tímabilinu milli kl. 00.00 og 07.00.
 5. Skipverji sem vinnur næturvinnu:

  1. annars vegar skipverji sem að jafnaði vinnur að minnsta kosti þrjár klukkustundir af daglegum vinnutíma að næturlagi; og
  2. hins vegar skipverji sem ætlast er til að inni af hendi að lágmarki 25% af sínum árlega vinnutíma að næturlagi.
 6. Vaktavinna: Vinna sem skipt er niður samkvæmt fyrirfram ákveðnu fyrirkomulagi þar sem starfsmaður vinnur á mismunandi vöktum á tilteknu tímabili sem mælt er í dögum eða vikum.
 7. Vaktavinnuskipverji: Skipverji sem tekur þátt í vaktavinnu.

3. gr. Vinnu- og hvíldartími.

Sérhver skipverji skal eiga rétt á nægilegri hvíld og skal hámarksfjöldi vinnustunda á viku takmarkaður við 48 klukkustundir að meðaltali reiknað yfir viðmiðunartímabil sem ekki er lengra en 12 mánuðir. Mörk vinnu- eða hvíldartíma skulu vera annaðhvort:

 1. vinnutími sem ekki má vera lengri en 14 klst. á hverju 24 klst. tímabili og 72 klst. á hverju 7 daga tímabili, eða
 2. hvíldartími sem skal að lágmarki vera 10 klst. á hverju 24 klst. tímabili og 77 klst. á hverju 168 klst. tímabili.

Hvíldartíma má skipta í tvö tímabil og skal annað vara að lágmarki í 6 klst. Tímabilið milli tveggja hvíldartíma má ekki vera lengra en 14 klst.

Skipstjóri getur krafist þess að skipverjar vinni þann fjölda vinnustunda, sem nauðsynlegur er fyrir öryggi skipsins, allra um borð, búnaðar eða farms, eða til að koma til hjálpar öðrum skipum eða mönnum í sjávarháska.

4. gr. Árlegt orlof.

Allir skipverjar skulu eiga rétt á að minnsta kosti fjögurra vikna árlegu orlofi á launum, eða hlutfalli þar af fyrir starfstíma sem er skemmri en ár, í samræmi við viðmiðunarreglur um rétt til, og veitingu slíks orlofs sem mælt er fyrir um í lögum.

Greiðsla má ekki koma í stað árlegs lágmarksorlofs á launum, nema þegar um starfslok er að ræða.

5. gr. Heilbrigðiseftirlit og tilfærsla skipverja sem vinna næturvinnu yfir í dagvinnu.

Skipverjar sem vinna næturvinnu skulu eiga kost á heilsufarsskoðun áður en þeir eru ráðnir til starfa, meðan þeir eru í starfi og þegar við á eftir að þeir eru hættir störfum, enda séu starfsskilyrði þeirra slík að heilsutjón geti hlotist af og ástæða til þess að ætla að á þann hátt megi koma í veg fyrir eða hefta atvinnusjúkdóma og atvinnutengda sjúkdóma. Útgerðarmaður greiðir kostnað af læknisskoðun.

Skipverjar sem vinna næturvinnu og eiga við heilsufarsvandamál að stríða sem sannanlega verða rakin til vinnutíma skulu þegar kostur er færðir til í dagvinnustörf sem henta þeim.

6. gr. Eftirlit.

Siglingastofnun Íslands, getur hvenær sem er krafist nauðsynlegra upplýsinga til að hafa eftirlit með hvort ákvæðum reglugerðarinnar er fylgt.

7. gr. Öryggis- og heilsuvernd.

Við skipulag vinnunnar skal gæta að öryggi og heilbrigði skipverja sé í samræmi við reglugerðir þar um.

Þeir skipverjar sem stunda næturvinnu og vaktavinnu skulu njóta öryggis- og heilsuverndar sem hæfir eðli starfsins.

Öll viðeigandi verndar- og forvarnarþjónusta og aðbúnaður er varðar öryggi og heilsufar þeirra skipverja sem vinna næturvinnu og vaktavinnu skal samsvara þeim sem gilda um aðra starfsmenn og að þessi aðstaða sé alltaf til reiðu.

8. gr. Vinnumynstur.

Vinnuveitandi sem skipuleggur vinnu eftir ákveðnu mynstri skal taka tillit til þeirrar meginreglu að aðlaga á vinnuna að starfsmanninum, einkum með það í huga að lina áhrif einhæfra starfa og starfa sem unnin eru með fyrirfram ákveðnum hraða, og eftir því um hvaða störf er að ræða, til öryggis- og heilbrigðiskrafna, sérstaklega hvað varðar hlé í vinnutíma.

9. gr. Undanþágur.

Heimilt er með kjarasamningum að víkja frá ákvæðum 1.-3. mgr. 3. gr. Frávik geta verið vegna hlutlægra eða tæknilegra ástæðna eða ástæðna er varða skipulag vinnunnar. Frávik skulu, að því marki sem unnt er, vera í samræmi við almennar meginreglur um verndun öryggis og heilbrigðis sjómanna, en heimilt er að draga frá þann tíma sem frí er veitt.

10. gr. Refsingar.

Um brot gegn reglugerð þessari fer eftir ákvæðum V. kafla sjómannalaga, nr. 35/1985, með síðari breytingum.

11. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt ákvæðum 8. og 64. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi. Hún er sett til innleiðingar á tilskipun ráðsins 93/104/EB frá 23. nóvember 1993 um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma þannig að hún taki til þeirra geira og þeirrar starfsemi sem fellur utan gildissviðs þeirrar tilskipunar, ásamt síðari breytingum með tilskipun 2000/34/EB, hvað skipulag á vinnutíma á fiskiskipum varðar sem tekin var upp í XVIII viðauka við EES samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar nr. 58/2002. Birtist í EES viðbæti nr. 6 30.01.2003 á bls. 216.

Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um vinnu- og hvíldartíma skipverja á íslenskum fiskiskipum, nr. 208/2004.

Samgönguráðuneytinu, 16. nóvember 2004.

Sturla Böðvarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.