Prentað þann 11. des. 2024
958/2005
Reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda.
1. gr. Almennt.
Stjórnartíðindi skulu gefin út rafrænt og þau birt á veffanginu www.stjornartidindi.is. Á þetta við um allar deildir Stjórnartíðinda.
Réttaráhrif birtingar í Stjórnartíðindum, sbr. 8. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15 10. mars 2005, skulu bundin við rafræna útgáfu á vef Stjórnartíðinda.
Ráðherra getur, ef brýna nauðsyn ber til, ákveðið að réttaráhrif birtingar miðist við prentaða útgáfu Stjórnartíðinda, og skal slík ákvörðun birt þar.
2. gr. Öryggi og áreiðanleiki birtra upplýsinga.
Til að tryggja öryggi og áreiðanleika birtra upplýsinga, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, skal útgefandi gæta þess að:
- birt efni sé frá réttum og þar til bærum aðilum,
- upplýsingar séu, svo sem kostur er, varðar gegn skemmdum, þjófnaði, eldi, náttúruhamförum og þess háttar atburðum,
- upplýsingar séu, svo sem kostur er, varðar gegn rafrænum árásum,
- alltaf séu til áreiðanleg og örugglega varðveitt afrit af birtu efni og hugbúnaðarkerfum.
Kerfisbundnar öryggisráðstafanir skulu gerðar reglulega til að tryggja áreiðanleika birtra upplýsinga og að tryggja að skilyrðum 1. mgr. verði að öðru leyti fullnægt eftir því sem kostur er.
3. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 3. mgr. 6. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15 10. mars 2005, öðlast þegar gildi.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 8. nóvember 2005.
Björn Bjarnason.
Ragna Árnadóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.