Fara beint í efnið

Prentað þann 21. nóv. 2024

Stofnreglugerð

944/2020

Reglugerð um skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Markmið.

Markmið þessarar reglugerðar er að mæla fyrir um skilyrði þess að fá útgefið skipstjórnarskírteini og vélstjórnarskírteini á fiskiskip, varðskip og önnur skip til samræmis við ákvæði laga um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

Markmið þessarar reglugerðar er einnig að mæla fyrir um skilyrði þess að fá útgefið skemmtibátaskírteini.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi og viðaukar hennar gilda um áhafnir íslenskra skipa sem skráð eru hér á landi samkvæmt lögum um skráningu skipa, annarra en farþegaskipa og flutningaskipa.

Reglugerð þessi og viðaukar hennar gilda einnig um stjórnendur skemmtibáta innan íslenskrar landhelgi. Undanþegnir ákvæðum reglugerðarinnar eru þó stjórnendur erlendra skemmtibáta, sem hafa tímabundna viðkomu innan landhelgi Íslands og sem hafa fengið viðeigandi leyfi íslenskra tollyfirvalda til að vera í förum innan landhelgi, að því tilskildu að þeir dvelji ekki lengur innan landhelginnar en sem nemur 9 mánuðum á hverju 12 mánaða tímabili.

3. gr. Orðskýringar.

Að því marki sem orð eru ekki skýrð í lögum nr. 30/2007 er merking orða í þessari reglugerð sem hér segir:

  1. Framhaldsskóli og fræðslustofnun er aðili sem annast fræðslu og hefur til þess viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðuneytis.
  2. Þjálfunarbók er bók sem gefin er út eða viðurkennd af Samgöngustofu þar sem tilgreind eru þau verkefni sem að viðkomandi þarf að leysa og skal fullnægjandi framkvæmd þeirra staðfest af yfirmanni eftir því sem við á.
  3. Þjónustusamningur er samningur milli útgerðar og þjónustuaðila í landi um viðhald vélbúnaðar skips sem er 15 metrar og styttra að skráningarlengd og með vélarafl 250-750 kW. Þjónustusamningur skal staðfestur af Samgöngustofu sem setur nánari reglur um skilyrði hans, gildistíma og brottfall, t.d. ef skip er selt, þjónustuaðili hættir starfsemi eða flytur starfsemina annað en þjónustusamningur gerir ráð fyrir.

II. KAFLI Nám og réttindi.

4. gr. Menntun og þjálfun.

Samgöngustofa, eða annar viðurkenndur aðili sem ráðuneyti samgöngumála og menntamála tilnefna, skal hafa eftirlit með og votta að nám við þá skóla uppfylli kröfur alþjóðasamþykktar um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna (STCW) eða viðeigandi kröfur samkvæmt lögum um framhaldsskóla. Skólar skulu sækja um vottun til Samgöngustofu. Slík vottun skal gilda til allt að 5 ára í senn. Að þeim tíma liðnum skulu viðkomandi skólar endurnýja umsóknir sínar um vottun og leggja fram öll tilskilin gögn því til staðfestingar að skólinn fullnægi viðeigandi kröfum eða viðmiðum alþjóðasamþykktarinnar. Sé það mat Samgöngustofu eða þeirrar stofnunar sem tilnefnd er skv. 1. mgr. að viðkomandi skóli fullnægi ekki þeim kröfum eða viðmiðum sem settar eru í alþjóðasamþykktinni er stofnuninni skylt að fella áður útgefna vottun úr gildi svo lengi sem slíkt ástand varir.

Nám og kennsla í þeim skólum sem annast menntun og þjálfun áhafna skipa sem uppfyllir kröfur alþjóðasamþykktarinnar skal vera samkvæmt viðurkenndu gæðastjórnunarkerfi. Þessum skólum er heimilt að meta fyrra nám til lægri réttindastiga sem veitt var af skólum sem uppfylla ekki þau skilyrði.

Framhaldsskólar skv. lögum um framhaldsskóla geta boðið upp á smáskipanám skv. 6. og 12. gr. þessarar reglugerðar, enda hafi þeir yfir að ráða kennsluaðstöðu, tækjabúnaði til að bjóða upp á slíkt nám og kennara og leiðbeinendur sem hafa fullnægjandi fagmenntun og heimildir til þess að gegna stöðu kennara eða leiðbeinanda að fenginni staðfestingu Samgöngustofu áður en nám hefst. Um inntökuskilyrði í smáskipanám, námstilhögun og námsmat fer eftir lögum um framhaldsskóla. Samgöngustofa getur veitt fræðslustofnunum, sem ekki teljast framhaldsskólar, heimild til að bjóða upp á smáskipanám uppfylli þær ofannefndar kröfur. Samgöngustofa hefur eftirlit með að smáskipanám uppfylli kröfur námskrár. Námskröfur til smáskipanáms skv. 6. og 12. gr. skulu tilgreindar í námskrá sem ráðuneyti menntamála tekur saman að höfðu samráði við ráðuneyti samgöngumála og Samgöngustofu. Námskráin skal birt á þann hátt sem ráðuneyti menntamála ákveður.

Um Slysavarnaskóla sjómanna gilda lög nr. 33/1991, með síðari breytingum, og staðfestir ráðherra samgöngumála námskrá skólans.

5. gr. Skipstjórnar- og vélstjórnarskírteini á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum.

Til að fá útgefið skipstjórnar- og/eða vélstjórnarskírteini samkvæmt 8. gr. laga um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa skal umsækjandi hafa fullnægt ákvæðum þessarar reglugerðar um aldur, menntun, siglingatíma og heilbrigði.

Sá einn sem er lögmætur handhafi skipstjórnar- og/eða vélstjórnarskírteinis samkvæmt 8. gr. laga um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, hefur rétt til að starfa við skipstjórn/vélstjórn um borð í fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum með þeim takmörkunum sem ráðast af gildistíma skírteinis eins og nánar er kveðið á um í greinum 6 til 16.

6. gr. Smáskip: Nám - skipstjórn - vélstjórn og mönnun.

Sá sem lokið hefur smáskipanámi til skipstjórnar á skipum 15 metrar og styttri hefur öðlast rétt til að fá útgefið skírteini sem skipstjóri/stýrimaður á skipum 15 metrar og styttri að skráningarlengd í strandsiglingum, eftir 12 mánaða siglingatíma enda hafi hann lokið öryggisfræðslunámi smáskipa hjá Slysavarnaskóla sjómanna eða öðrum viðurkenndum þjálfunaraðila og viðurkenndu námskeiði í skyndihjálp (Smáskipaskírteini: SS15).

Sá sem er handhafi skipstjórnarskírteinis skv. 1. mgr. getur annast vélstjórn á smáskipum sé hann handhafi skírteinis smáskipavélavarðar skv. 12. gr., ef útivistartími er styttri en 14 klst. og fylgt sé ákvæðum sjómannalaga og reglugerðum settum skv. þeim um vinnu- og hvíldartíma sjómanna.

Ekki er skylt að smáskipavélavörður sé í áhöfn skips ef gerður hefur verið þjónustusamningur við þjónustuaðila um viðhald vélbúnaðar skipsins og sá samningur er staðfestur af Samgöngustofu, sbr. c-lið 3. gr. og 6. mgr. II. viðauka þessarar reglugerðar, ef útivistartími er styttri en 14 klst. og fylgt sé ákvæðum sjómannalaga og reglugerðum settum skv. þeim um vinnu- og hvíldartíma sjómanna.

7. gr. Skipstjórnarnám A.

Sá sem lokið hefur skipstjórnarnámi A hefur öðlast rétt til að fá útgefið skírteini sem:

  1. Skipstjóri á skipum 15 metrar og styttri að skráningarlengd í strandsiglingum, eftir 12 mánaða siglingatíma (Smáskipaskírteini: SS15).
  2. Undirstýrimaður á skipum styttri en 45 metrar að skráningarlengd í innanlandssiglingum eftir 18 mánaða siglingatíma (Skírteini: AB).
  3. Stýrimaður á skipum styttri en 24 metrar að skráningarlengd í innanlandssiglingum eftir 18 mánaða siglingatíma (Skírteini: AC).
  4. Skipstjóri á skipum styttri en 24 metrar að skráningarlengd í innanlandssiglingum eftir 12 mánaða siglingatíma sem stýrimaður eða a.m.k. 12 mánaða siglingatíma sem skipstjóri á skipum 15 metrar og styttri að skráningarlengd (Skírteini: AD).

8. gr. Skipstjórnarnám B.

Sá sem lokið hefur skipstjórnarnámi B hefur öðlast rétt til að fá útgefið skírteini sem:

  1. Yfirstýrimaður/stýrimaður á skipum styttri en 45 metrar að skráningarlengd í innanlandssiglingum eftir 18 mánaða siglingatíma (Skírteini: BA).
  2. Skipstjóri á skipum styttri en 45 metrar að skráningarlengd í innanlandssiglingum eftir 12 mánaða siglingatíma sem stýrimaður á skipum styttri en 45 metrar eða 12 mánaða siglingatíma sem skipstjóri á skipum styttri en 24 metrar að skráningarlengd (Skírteini: BC).
  3. Undirstýrimaður á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum að ótakmarkaðri stærð og farsviði eftir 18 mánaða siglingatíma (Skírteini: BB).

Bóklegt nám til skipstjórnarnáms B skal fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru til bóknáms til að öðlast skírteini STCW II/3 (500 BT) samkvæmt alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna (STCW).

9. gr. Skipstjórnarnám C.

Sá sem lokið hefur skipstjórnarnámi C hefur öðlast rétt til að fá útgefið skírteini sem:

  1. Yfirstýrimaður á fiskiskipum og öðrum skipum af ótakmarkaðri stærð og farsviði eftir 12 mánaða siglingatíma sem stýrimaður eða skipstjóri á skipum 24 metrar og lengri að skráningarlengd (Skírteini: CA).
  2. Skipstjóri á skipum af ótakmarkaðri stærð og farsviði eftir 12 mánaða siglingatíma sem yfirstýrimaður á skipum lengri en 45 metrar að skráningarlengd eða 12 mánuði sem skipstjóri á skipum lengri en 24 metrar að skráningarlengd (Skírteini: CB).

Bóklegt nám til skipstjórnarnáms C skal fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru til bóknáms til að öðlast skírteini STCW II/2 (3000 BT) samkvæmt alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna (STCW).

10. gr. Skipstjórnarnám D.

Sá sem lokið hefur skipstjórnarnámi D hefur öðlast rétt til að fá útgefið skírteini sem yfirstýrimaður á varðskipum af ótakmarkaðri stærð og farsviði eftir 12 mánaða siglingatíma sem stýrimaður á skipum sem eru 500 BT eða stærri (Skírteini: DA).

Bóklegt nám til skipstjórnarnáms D skal fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru til bóknáms til að öðlast skírteini STCW II/2 samkvæmt alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna (STCW).

11. gr. Skipstjórnarnám E.

Sá sem lokið hefur skipstjórnarnámi E hefur öðlast rétt til að fá útgefið skírteini sem skipherra á varðskipum af ótakmarkaðri stærð og farsviði eftir 36 mánuði sem stýrimaður á skipum sem eru 500 BT eða stærri og þar af a.m.k. 6 mánuði sem yfirstýrimaður á varðskipi (Skírteini: EA).

12. gr. Smáskipavélavarðarnám.

Sá sem lokið hefur smáskipavélavarðarnámi eða sveinsprófi í vélvirkjun hefur öðlast rétt til að fá útgefið skírteini sem smáskipavélavörður á skipum 15 metrar og styttri að skráningarlengd í strandsiglingum og með vélarafl 750 kW eða minna, endahafi hann lokið öryggisfræðslunámi smáskipa hjá Slysavarnaskóla sjómanna eða öðrum viðurkenndum þjálfunaraðila og viðurkenndu námskeiði í skyndihjálp (Skírteini: SSV).

Sá sem er handhafi skírteinis skv. 1. mgr., og hefur jafnframt lokið viðbótarnámi skv. námskrá, öðlast rétt til að starfa sem vélavörður á skipi með vélarafl 750 kW og minna (Skírteini: VV). Að loknum 4ra mánaða siglingatíma sem vélavörður öðlast hann rétt til að starfa sem yfirvélstjóri á skipi styttra en 24 metra að skráningarlengd og með vélarafl 750 kW og minna (Skírteini VVY1).

13. gr. Vélstjórnarnám A.

Sá sem lokið hefur vélstjórnarnámi A hefur öðlast rétt til að fá útgefið skírteini sem:

  1. Smáskipavélavörður á skipi 15 metrar og styttra að skráningarlengd í strandsiglingum og með vélarafl 750 kW eða minna (Skírteini: SSV).
  2. Vélavörður á skipi með vélarafl 750 kW og minna (Skírteini: VV).
  3. Yfirvélstjóri á skipi styttra en 24 metrar að skráningarlengd og með vélarafl 750 kW og minna að loknum 4ra mánaða siglingatíma sem vélavörður (Skírteini: VVY1).
  4. Yfirvélstjóri á skipi með vélarafl 750 kW og minna að loknum 9 mánaða siglingatíma sem vélavörður (Skírteini: VS.III).

14. gr. Vélstjórnarnám B.

Sá sem lokið hefur vélstjórnarnámi B hefur öðlast rétt til að fá útgefið skírteini sem:

  1. Vélavörður (Skírteini: VV).
  2. Yfirvélstjóri á skipi með vélarafl 750 kW og minna að loknum 8 mánaða siglingatíma sem vélavörður (Skírteini: VS.III).
  3. 1. vélstjóri á skipi með 1500 kW vélarafl og minna og undirvélstjóri á skipi með 3000 kW vélarafli og minna, að loknum 12 mánaða siglingatíma sem vélavörður eða vélstjóri á skipi, þar af a.m.k. 3 mánuði sem vélstjóri (Skírteini: VS.II).
  4. Yfirvélstjóri á skipi með 1500 kW vélarafl og minna og undirvélstjóri ótakmarkað að loknum 18 mánaða siglingatíma sem vélstjóri eða vélavörður á skipi, þar af 9 mánuði sem vélstjóri (Skírteini: VS.I).

15. gr. Vélstjórnarnám C.

Sá sem lokið hefur vélstjórnarnámi C hefur að öðrum skilyrðum uppfylltum öðlast rétt til að fá útgefið skírteini sem:

  1. Vélavörður (Skírteini: VV).
  2. Undirvélstjóri á skipi með minna en 3000 kW vélarafl og 1. vélstjóri á skipi með 1500 kW vélarafl og minna að loknum 1 mánaðar siglingatíma (Skírteini: VS.II).
  3. Yfirvélstjóri á skipi með 750 kW vélarafl og minna að loknum 3 mánaða siglingatíma sem vélavörður eða vélstjóri (Skírteini:VS.III).
  4. Yfirvélstjóri á skipi með 1500 kW vélarafl og minna og undirvélstjóri ótakmarkað að loknum 9 mánaða siglingatíma sem vélstjóri (Skírteini: VS.I).
  5. 1. vélstjóri á skipi með minna en 3000 kW vélarafl að loknum 12 mánaða siglingatíma sem vélstjóri (Skírteini: VF.IV).
  6. Yfirvélstjóri á skipi með minna en 3000 kW vélarafl að loknum 12 mánaða siglingatíma sem vélstjóri, eftir að hafa öðlast rétt til að vera 1. vélstjóri á skipi með minna en 3000 kW vélarafl (Skírteini: VF.III).

Til þess að fá útgefið atvinnuskírteini skv. e- og f-lið, skulu viðkomandi jafnframt hafa lokið:

  1. viðurkenndri verkstæðisþjálfun í landi eða um borð í skipi og tíminn skráður í þjálfunarbók, eða
  2. sveinsprófi í viðurkenndri málmiðnaðargrein.

Bóklegt nám til vélstjórnarnáms C skal fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru til bóknáms til að öðlast skírteini STCW III/3 samkvæmt alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna (STCW).

16. gr. Vélstjórnarnám D.

Sá sem lokið hefur vélstjórnarnámi D - vélfræðingur, hefur að öðrum skilyrðum uppfylltum öðlast rétt til að fá útgefið skírteini sem:

  1. Yfirvélstjóri á skipi með 750 kW vélarafl og minna að loknum 1 mánaðar siglingatíma (Skírteini: VS.III).
  2. Undirvélstjóri á skipi með minna en 3000 kW vélarafl og 1. vélstjóri á skipi með 1500 kW vélarafl og minna að loknum 1 mánaðar siglingatíma (Skírteini: VS.II).
  3. Yfirvélstjóri á skipi með 1500 kW vélarafl og minna og undirvélstjóri ótakmarkað að loknum 9 mánaða siglingatíma sem vélstjóri (Skírteini: VS.I).
  4. 1. vélstjóri á skipi með ótakmarkað vélarafl og yfirvélstjóri á skipi með minna en 3000 kW vélarafl, að loknum 12 mánaða siglingatíma sem vélstjóri (Skírteini: VF.II).
  5. Yfirvélstjóri á skipi með ótakmarkað vélarafl, að loknum 24 mánaða siglingatíma sem vélstjóri, eftir að hafa öðlast rétt til að vera 1. vélstjóri á skipi með ótakmarkað vélarafl (Skírteini: VF.I).

Til þess að fá útgefið atvinnuskírteini skv. d- og e-lið skulu viðkomandi jafnframt hafa lokið:

  1. viðurkenndri verkstæðisþjálfun í landi eða um borð í skipi og tíminn skráður í þjálfunarbók, eða
  2. sveinsprófi í viðurkenndri málmiðnaðargrein.

Bóklegt nám til vélstjórnarnáms D skal fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru til bóknáms til að öðlast skírteini STCW III/2 samkvæmt alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna (STCW).

17. gr. Skemmtibátar.

Um skírteini til skipstjórnar skemmtibáta fer eftir 7. gr. laga nr. 30/2007.

Samgöngustofa gefur út skemmtibátaskírteini og skulu þau gefin út á íslensku og ensku. Um form og efni slíks skírteinis skal farið eftir reglum sem gilda um alþjóðleg skemmtibátaskírteini (ICC-skírteini).

Hver sá sem stjórnar skemmtibát sem er 6 metrar að skráningarlengd og lengri, en styttri en 24 metrar skal vera lögmætur handhafi skemmtibátaskírteinis fyrir þá tegund skemmtibáts sem um ræðir og það farsvið sem siglt er um.

Í skírteininu skal tilgreina þá tegund skemmtibáts og það farsvið sem skírteinið gildir fyrir.

Skemmtibátaskírteini skulu gefin út fyrir eftirfarandi tegundir:

  1. Seglskip.
  2. Vélskip.

Skemmtibátaskírteini skulu gefin út fyrir eftirfarandi farsvið:

  1. Strandsigling og sigling á takmörkuðu farsviði.
  2. Sigling á ám, vötnum og vatnaleiðum innan Evrópu.
  3. Ótakmarkað farsvið, þ.e. úthafssiglingar.

Til að öðlast skemmtibátaskírteini skal umsækjandi hafa náð 16 ára aldri, staðist bóklegt og verklegt próf til mismunandi gerða skemmtibáta og farsviða. Umsækjandi um skemmtibátaskírteini skal vera íslenskur ríkisborgari eða með heimilisfesti á Íslandi. Hann skal leggja fram vottorð læknis um andlega og líkamlega heilsu þess efnis að hann geti sinnt skipstjórn skemmtibáts af öryggi, að teknu sérstöku tilliti til heyrnar og sjónar.

Hver sá sem stjórnar skemmtibát sem er 24 metrar að lengd eða lengri skal uppfylla sömu kröfur og gerðar eru til skipstjóra á fiskiskipum og öðrum skipum af sömu stærð.

Á skemmtibátum sem eru 24 metrar að skráningarlengd og lengri og með vélarafl 750 kW og minna skal vera maður sem lokið hefur smáskipavélavarðarnámi skv. 12. gr. Á skemmtibátum sem eru 24 metrar að skráningarlengd og lengri og með vélarafl meira en 750 kW skal vera vélstjóri sem lokið hefur námi til 750 kW atvinnuskírteinis.

Sá sem er lögmætur handhafi atvinnuskírteinis til skipstjórnar hefur rétt til að stjórna skemmtibát í strandsiglingum. Sá sem er lögmætur handhafi atvinnuskírteinis til skipstjórnar á skipum án takmarkana í farsviði hefur rétt til að stjórna skemmtibát í úthafssiglingum.

Sá sem lokið hefur bóklegum hluta skipstjórnarnáms hefur rétt til þess að fá útgefið skemmtibátaskírteini standist viðkomandi verklegt próf til mismunandi gerða skemmtibáta og farsviða að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Sá sem er handhafi alþjóðlegs skemmtibátaskírteinis (ICC-skírteini) eða annars sambærilegs erlends skírteinis að mati Samgöngustofu hefur heimild til að stjórna skemmtibátum í samræmi við þá tegund skemmtibáts og það farsvið sem hið erlenda skírteini veitir réttindi til. Ef um er að ræða skírteini sem telst sambærilegt við alþjóðlegt skemmtibátaskírteini, skal Samgöngustofa árita skírteinið til staðfestingar á heimild viðkomandi til að stjórna skemmtibátum. Ekki er heimilt að gefa út íslenskt skemmtibátaskírteini á grundvelli erlends skírteinis nema að fyrir liggi staðfesting þess efnis að nám til öflunar hins erlenda skírteinis sé sambærilegt við það nám sem tilgreint er í námskrá til skemmtibátaskírteinis.

18. gr. Siglingatími.

Siglingatími er viðurkenndur starfstími um borð í skipi. Starfstími reiknast frá þeim degi sem viðkomandi er skráður til starfa um borð í skipi til þess dags er hann er afskráður.

Umsækjanda skírteinis er skylt að færa sönnur á siglingatíma sem hann telur sig hafa að baki. Unnt er að færa sönnur á siglingatíma með staðfestingu úr lögskráningarkerfi sjómanna eða rétt útfylltri sjóferðabók.

Umsækjandi skírteinis sem kveðst hafa að baki siglingatíma á skipi sem ekki er skráð á Íslandi skal færa sönnur á þann siglingatíma með sjóferðabók eða á annan fullnægjandi hátt að mati Samgöngustofu. Ef vafi leikur á um réttmæti þeirrar sönnunar skal Samgöngustofa í því tilviki skera úr um siglingatíma.

19. gr. Útreikningur og mat siglingatíma.

Við útreikning á siglingatíma skal miða við að einn dagur samsvari 8 klukkustunda vinnuframlagi. Séu vaktir staðnar lengur en 8 klukkustundir á 24 klukkustunda tímabili er heimilt að margfalda dagafjölda skv. sjóferðabók eða lögskráningarkerfi sjómanna með stuðlinum 1,5 enda sé vinnuframlag skipverja á 24 klukkustunda tímabili a.m.k. 12 tímar eða meira.

Við mat á siglingatíma til vélstjórnarréttinda er heimilt að taka tillit til starfsreynslu við vélstjórn. Til siglingatíma vélstjóra má einnig telja störf við vélarupptekt um borð í skipi, í vélsmiðju eða annarri sambærilegri málmiðnaðargrein og önnur lögskráð störf í vélarrúmi skipa. Við frumútgáfu atvinnuskírteinis skal þessi tími þó aldrei verða lengri en sem nemur ¼ hluta tilskilins siglingatíma til viðkomandi vélstjórnarréttinda.

Við endurnýjun atvinnuskírteinis er heimilt við mat á siglingatíma að taka að fullu tilliti til starfstíma við kennslu í vélstjórnargreinum, kennslu í öryggismálum sjómanna, vélarupptektir og eftirlitsstörf með vélbúnaði skipa.

Við mat á siglingatíma til skipstjórnarréttinda er heimilt að taka að fullu tillit til starfstíma við kennslu í skipstjórnargreinum, kennslu í öryggismálum sjómanna og eftirlit með skipum. Þrátt fyrir kröfur um siglingatíma vegna útgáfu skipstjórnar-/vélstjórnarskírteina, er heimilt að stytta siglingatíma til viðbótar um allt að helming, ef viðkomandi hefur lokið viðurkenndri þjálfun skv. þjálfunarbók.

20. gr. Fjarskiptastörf.

Sá sem fullnægir ákvæðum alþjóðasamþykktar um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna (STCW) hefur rétt á að fá útgefið skírteini fjarskiptamanns.

Á hafsvæði STK og A1 skal sá sem er ábyrgur fyrir GMDSS-fjarskiptum vera handhafi takmarkaðs skírteinis fjarskiptamanns (ROC, Restricted Operator's Certificate).

Á hafsvæðum A2, A3 og A4 skal sá sem er ábyrgur fyrir fjarskiptum vera handhafi almenns skírteinis fjarskiptamanns (GOC, General Operator's Certificate).

Menntunarkröfur til þeirra sem annast fjarskipti skulu vera í samræmi við ályktun IMO A 703 (17), grein S47 í alþjóðaradíóreglugerðinni og III. kafla alþjóðasamþykktarinnar.

III. KAFLI Skírteini.

21. gr. Skírteini.

Um útgáfu skírteina fer eftir ákvæðum 5., 6. og 8. gr. laga nr. 30/2007.

Sérhver umsækjandi skírteinis skal eftir því sem við á fullnægja ákvæðum þessarar reglugerðar um aldur, menntun og siglingatíma. Sérhver umsækjandi skírteinis skal jafnframt fullnægja ákvæðum I. viðauka um sjón, heyrn og aðrar heilbrigðiskröfur.

22. gr. Útgáfa skírteina.

Samgöngustofa gefur út skírteini skv. ákvæðum reglugerðar þessarar.

Við frumútgáfu skírteinis samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar skal ganga úr skugga um að umsækjandi fullnægi skilyrðum um skírteini. Lögð skulu fram gögn er sýna fram á að skilyrðum laganna og reglugerðar þessarar um útgáfu skírteina sé fullnægt. Samgöngustofu er heimilt að hafna skírteinum og gögnum ef vafi leikur á um gildi þeirra.

Samgöngustofa, eða Póst- og fjarskiptastofnun í hennar umboði, gefur út skírteini sem krafist er til fjarskiptamanna skv. 6. gr. í samræmi við alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna (STCW), alþjóðaradíóreglugerðina og reglugerð um fjarskiptastörf á skipum og fjarskiptabúnað skipa, sbr. 15. gr. reglugerðar um fjarskiptabúnað og fjarskipti íslenskra skipa nr. 53/2000.

23. gr. Gildistími og endurnýjun skírteina.

Um gildistíma og endurnýjun skírteina fer eftir ákvæðum 9. gr. laga nr. 30/2007.

Skírteini skulu gilda í allt að 5 ár þegar skírteini til tiltekinna réttinda er gefið út í fyrsta sinn. Samgöngustofu er heimilt að gefa út skírteini til skemmri tíma ef skilyrðum um útgáfu skírteina til 5 ára er ekki fullnægt. Heimilt er vegna sérstakra aðstæðna að gefa út bráðabirgðaskírteini sem gildir allt að 60 dögum.

Skírteini til skipstjórnar og vélstjórnar á skipum öðrum en skemmtibátum skulu endurnýjuð til 5 ára í senn. Heimilt er að endurnýja skírteini sem ekki falla undir alþjóðasamþykktina til allt að 10 ára í senn. Lögð skulu fram þau gögn er sýna fram á að skilyrðum laganna og reglugerðar þessarar um útgáfu skírteina sé fullnægt. Samgöngustofu er heimilt að hafna skírteinum og gögnum ef vafi leikur á um gildi þeirra eða þegar í ljós kemur að skírteini hafa verið gefin út fyrir mistök eða á röngum forsendum.

Skilyrði þess að heimilt sé að endurnýja skírteini er að umsækjandi hafi ekki verið sviptur réttindum sínum og að hann hafi að baki siglingatíma í stöðu sem skírteini veitir honum rétt til í a.m.k. eitt ár á síðustu fimm árum eða verið í starfi sem samsvarar viðkomandi skírteini og telst að minnsta kosti sambærilegt við þann siglingatíma sem krafist er eða með því að:

  1. standast viðurkennt próf eða ljúka á fullnægjandi hátt viðurkenndu námskeiði eða;
  2. hafa a.m.k. þriggja mánaða siglingatíma í næstu lægri stöðu sem hann á tilkall til samkvæmt skírteini sínu.

Enginn getur fengið endurnýjun skírteinis til skipstjórnar og vélstjórnar nema sá sem fær er um að gegna starfinu af heilsufarsástæðum samkvæmt I. viðauka þessarar reglugerðar.

24. gr. Viðurkenning erlendra skírteina.

Um viðurkenningu og áritun erlendra skírteina fer eftir ákvæðum 10. gr. laga nr. 30/2007. Umsóknir um áritun alþjóðlegra skírteina (STCW) og endurnýjun áritunar skulu sendar Samgöngustofu á þar til gerðu eyðublaði, ásamt þeim gögnum sem stofnunin áskilur. Sá sem sækir um áritun skírteinis til starfa á íslenskum skipum sem reglugerð þessi nær til skal framvísa erlendu skírteini sínu og færa sönnur á að hann fullnægi ákvæðum um heilbrigði, sjón og heyrn skv. I. viðauka. Sá sem framvísar erlendu skírteini skal að jafnaði ekki öðlast meiri réttindi til starfa á íslenskum skipum en hann hafði í því ríki sem gaf skírteinið út.

Sé umsækjandi ekki handhafi alþjóðlegs skírteinis (STCW) skal hann m.a. leggja fram gögn sem staðfesta að námið fullnægi þeim kröfum sem fram koma í 22. gr. reglugerðar þessarar. Samgöngustofa metur hvort nám sem skírteinishafi hefur sannanlega lokið við svari til þess náms sem krafist er. Samgöngustofu er heimilt að leita umsagnar sérfróðra aðila um hæfi umsækjanda til þeirra réttinda sem sótt er um. Þá er stofnuninni heimilt að hafna skírteinum og gögnum, ef vafi leikur á gildi þeirra.

Teljist sá sem framvísar erlendu skírteini til atvinnuréttinda fullnægja skilyrðum laganna og þessarar reglugerðar skal Samgöngustofa gefa út áritun.

Gildistími áritana skal að jafnaði vera til þess dags sem hið erlenda skírteini fellur úr gildi en þó aldrei til lengri tíma en 5 ára frá því hið erlenda skírteini var gefið út. Samgöngustofa hefur heimild til að gefa út áritun til skemmri tíma ef skilyrðum um gildistíma er ekki að fullu fullnægt.

25. gr. Refsiákvæði.

Um brot á reglugerð þessari fer eftir ákvæðum 20. gr. laga um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

26. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, nr. 30/2007 með síðari breytingum, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt fellur gildi reglugerð um skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum, nr. 175/2008 með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

Fram til 1. janúar 2021 hefur sá sem er handhafi skírteinis til skipstjórnarstarfa á skipum sem eru styttri en 12 metrar að skráningarlengd í strandsiglingum skv. reglugerð nr. 175/2008, rétt til að fá útgefið skírteini til skipstjórnarstarfa á skipum sem eru 15 metrar og styttri að skráningarlengd, enda hafi hann þegar umsókn er lögð fram verið lögskráður sem skipstjóri í a.m.k. 12 mánuði, uppfylli að öðru leyti kröfur laga og reglugerða um aldur, menntun og heilbrigði, hafi lokið öryggisfræðslunámi smáskipa og viðurkenndu námskeiði í skyndihjálp.

Sá sem er handhafi skipstjórnarskírteinis (< 12 metrar) og hefur verið lögskráður sem skipstjóri í a.m.k. 12 mánuði fyrir 1. janúar 2021, en ekki lagt fram umsókn til Samgöngustofu um aukin skipstjórnarréttindi fyrir 1. janúar 2021, skal halda skipstjórnarréttindum sínum óbreyttum, þ.e. 12 metra skipstjórnarréttindi í strandsiglingum, en þarf að endurnýja skírteini sitt að gildistíma liðnum eða sækja viðbótarnám til aukinna skipstjórnarréttinda (≤ 15 metrar).

Sá sem er handhafi skipstjórnarskírteinis (< 12 metrar) og hefur ekki verið lögskráður sem skipstjóri í a.m.k. 12 mánuði fyrir 1. janúar 2021, skal halda skipstjórnarréttindum (< 12 metrar) sínum óbreyttum, en þarf að endurnýja skírteini sitt að gildistíma liðnum eða sækja viðbótarnám til aukinna skipstjórnarréttinda (≤ 15 metrar).

Sá sem hefur lokið smáskipanámi til 12 metra skipstjórnarréttinda fyrir 1. september 2020, en ekki náð tilskildum siglingatíma getur fengið útgefið skipstjórnarskírteini (< 12 metrar) þegar tilskildum siglingatíma er náð, en þó ekki lengur en til 31. desember 2022. Að öðrum kosti verður viðkomandi að sækja viðbótarnám til aukinna skipstjórnarréttinda (≤ 15 metrar).

Eftir 1. september 2020 verður aðeins boðið upp á smáskipanám til 15 metra skipstjórnarréttinda á grundvelli nýrrar námskrár, sbr. 6. gr. reglugerðarinnar og verður prófskírteini þess náms grundvöllur atvinnuskírteinis til skipstjórnar (< 15 metrar) auk annarra krafna reglugerðarinnar.

Eftir 1. september 2020 verða skírteini smáskipavélavarðar (< 12 metrar og < 750 kW) á fiskiskip og önnur skip miðuð við < 15 metra og < 750 kW. Lögskráningarkerfi sjómanna verður breytt þannig að handhafar þessara skírteina fást lögskráðir á fiskiskip og önnur skip sem eru < 15 metrar og < 750 kW. Ekki þarf að sækja um ný atvinnuskírteini vegna þessa, en áletrun nýrra skírteina verður breytt þegar þau koma til endurnýjunar hjá Samgöngustofu eftir gildistöku þessarar reglugerðar. Við endurnýjun skírteinanna þarf umsækjandi að sýna fram á að hafa lokið öryggisfræðslunámi smáskipa hjá Slysavarnaskóla sjómanna eða öðrum viðurkenndum þjálfunaraðila og viðurkenndu námskeiði í skyndihjálp, sbr. 12. gr. reglugerðarinnar. Eftir 1. september 2020 verður aðeins boðið upp á nám til réttinda smáskipavélavarðar (< 15 metrar og < 750 kW) á grundvelli nýrrar námskrár, sbr. 12. gr. reglugerðarinnar, og verður prófskírteini þess náms grundvöllur atvinnuskírteinis smáskipavélavarðar (< 15 metrar og < 750 kW) auk annarra krafna reglugerðarinnar.

Sá sem við gildistöku reglugerðar þessarar er lögmætur handhafi 30 brúttórúmlesta atvinnuskírteinis til skipstjórnar á rétt á að fá útgefið skírteini samkvæmt reglugerð þessari til að vera skipstjóri á skipi sem er 15 metrar og styttra að skráningarlengd í strandsiglingum, enda uppfylli hann kröfur þessarar reglugerðar. Sá sem við gildistöku reglugerðar þessarar er lögmætur handhafi 30 brúttórúmlesta atvinnuskírteinis til skipstjórnar og hefur starfað á skipum sem eru undir 30 brúttórúmlestum, en yfir 15 metrum að skráningarlengd, á rétt á að fá útgefið skírteini til þess að gegna sama starfi á því skipi og skipi sem eins háttar um, enda uppfylli hann kröfur þessarar reglugerðar.

Sá sem við gildistöku reglugerðar þessarar er lögmætur handhafi skipstjórnarskírteinis til að gegna stöðu skipstjóra/stýrimanns á sjókvíavinnuskipi sem er 15 metrar og styttra að skráningarlengd (SBVSS) á rétt á að fá útgefið skírteini samkvæmt reglugerð þessari til að vera skipstjóri á skipum sem eru 15 metrar og styttri í strandsiglingum, enda uppfylli hann kröfur þessarar reglugerðar.

Sá sem við gildistöku reglugerðar þessarar er lögmætur handhafi vélstjórnarskírteinis til að gegna stöðu vélavarðar á sjókvíavinnuskipi sem er 15 metrar og styttra að skráningarlengd og með vélarafl < 750 kW (SBVSV) á rétt á að fá útgefið skírteini samkvæmt reglugerð þessari til að vera smáskipavélavörður (< 15 metrar og < 750 kW), enda uppfylli hann kröfur þessarar reglugerðar.

Sá sem við gildistöku reglugerðar þessarar er lögmætur handhafi vélstjórnarskírteinis til að gegna stöðu yfirvélstjóra á skipi með vélarafl 375 kW og minna (VVY) á rétt á að fá útgefið atvinnuskírteini til að vera yfirvélstjóri á skipi styttra en 24 metrar að skráningarlengd og með vélarafl 750 kW og minna (VVY1), enda uppfylli hann kröfur þessarar reglugerðar. Sá sem við gildistöku reglugerðar þessarar er lögmætur handhafi vélstjórnarskírteinis til að gegna stöðu yfirvélstjóra á skipi með vélarafl 375 kW og minna (VVY) og hefur starfað á skipum sem eru 24 metrar að skráningarlengd eða lengri og með vélarafl 375 kW og minna, á rétt á að fá útgefið skírteini til þess að gegna sama starfi á því skipi og skipi sem eins háttar um, enda uppfylli hann kröfur þessarar reglugerðar.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 14. september 2020.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.