Fara beint í efnið

Prentað þann 27. jan. 2022

Stofnreglugerð

940/2016

Reglugerð um mælingar á fiskilestum.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Íslensk skip sem stunda veiðar á samningssvæði NAFO utan lögsögu ríkja á samningssvæði NEAFC og í lögsögu Jan Mayen og Noregs skulu frá gildistöku reglugerðar þessarar fullnægja reglum þeim sem í henni eru settar um mælingar fiskilesta og skráningu þeirra upplýsinga. Sé síðar í reglugerð áskilið að við tilteknar veiðar eða leyfi liggi fyrir mæling á fiskilestum og skráningu þeirra upplýsinga, skal farið að ákvæðum reglugerðar þessarar.

2. gr.

Fiskilestir skipa skulu mældar sérstaklega og um borð í hverju skipi skulu vera teikningar af og lýsingar á lestum þess, þar sem fram kemur heildarrúmmál hverrar lestar.

3. gr.

Um borð í fiskiskipum þar sem afla er dælt beint í lestar, t.d. í kælitanka, skulu vera skjöl sem sýna hvert rúmmál lestanna er með 10 sentimetra millibili frá ákveðnum og merktum viðmiðunarstað.

4. gr.

Upplýsingar sem fram koma á skjölum og teikningum skv. 2. og 3. gr. skulu vera á íslensku og ensku og staðfestar af Samgöngustofu. Staðfesting Samgöngustofu skal ekki vera eldri en fimm ára en þó ekki eldri en tveggja ára stundi skip veiðar á samningssvæði NAFO. Séu breytingar gerðar á lestum skips skal endurnýja skjöl og teikningar, sbr. 2. og 3. gr.

5. gr.

Starfsmenn Fiskistofu, Landhelgisgæslu, Samgöngustofu og eftirlitsaðilar sem vinna að eftirliti með alþjóðlegum samningum, sem Ísland er aðili að, hafa rétt til að kanna skjöl og teikningar um mælingar á fiskilestum.

6. gr.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

7. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands til þess að öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 150/1998, um mælingar á fiskilestum.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 27. október 2016.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Hinrik Greipsson.

Erna Jónsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.