Fara beint í efnið

Prentað þann 22. des. 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 2. mars 2023

930/2020

Reglugerð um veiðar á Austur-Atlantshafs bláuggatúnfiski.

1. gr. Gildissvið, afli.

Ákvæði reglugerðar þessarar taka til veiða á Austur-Atlantshafs bláuggatúnfiski (hér nefndur bláuggatúnfiskur) á samningssvæði Atlantshafs túnfiskveiðiráðsins (ICCAT), þar með talið hafsvæði utan lögsögu ríkja og innan lögsögu þar sem íslensk skip hafa rétt til veiða samkvæmt samningum eða sérstökum veiðileyfum.

Á árinu 2020 er íslenskum skipum heimilt að veiða alls 180 tonn af bláuggatúnfiski miðað við afla upp úr sjó.

2. gr. Leyfi til veiða.

Allar beinar veiðar á bláuggatúnfiski eru óheimilar nema að fengnu leyfi Fiskistofu. Heimilt er að setja nánari skilyrði um veiðarnar í leyfi þessi til samræmis við reglur Atlantshafs túnfiskveiðiráðsins.

3. gr. Bláuggatúnfiskur sem meðafli og tilkynningaskylda.

Íslensk fiskiskip sem ekki hafa leyfi til beinna veiða á bláuggatúnfiski skulu sleppa öllum lífvænlegum túnfiski sem kemur í veiðarfæri. Að öðrum kosti skal aflanum landað. Sama gildir um þau skip sem leyfi hafa til beinna veiða, eftir að heildarafla bláuggatúnfisks á árinu er náð. Skipum sem fá afla af bláuggatúnfiski er skylt að tilkynna hann til Fiskistofu áður en honum er landað.

4. gr. Ólögmætur sjávarafli.

Afli umfram leyfilegan afla bláuggatúnfisks á árinu skal seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafurðir. Afli sætir álagningu gjalds samkvæmt ákvæðum laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla.

5. gr. Merkingar.

Öllum bláuggatúnfiski sem veiddur er af íslenskum skipum sem og öllum bláuggatúnfiski sem fluttur er inn til Íslands eða seldur er á íslenskum markaði skal fylgja sérstakt rafrænt rekjanleikavottorð (e. bluefin tuna catch document, e-BCD) sem Fiskistofa gefur út.

Öllum bláuggatúnfiski sem endurútfluttur er frá Íslandi skal fylgja sérstakt rafrænt endurútflutningsvottorð (e. bluefin tuna re-export certificate, e-BFTRC) sem Fiskistofa gefur út.

Óheimilt er að flytja inn, landa, selja eða flytja út túnfisk sem ekki fylgir rafrænt rekjanleikavottorð.

6. gr. Viðurlög.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum III. kafla laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og ákvæðum laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

7. gr. Lagaheimild.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og ákvæðum laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Reglugerð þessi er sett til samræmis við skuldbindingar Íslands vegna aðildar að ICCAT og ber að túlka með hliðsjón af þeim skuldbindingum sem fylgja aðildinni.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 11. september 2020.

Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Arnór Snæbjörnsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.