Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 27. jan. 2022

Reglugerð með breytingum síðast breytt 1. des. 2021

914/2009

Reglugerð um hlífðarbúnað slökkviliðsmanna.

1. gr. Markmið.

Markmið með reglugerð þessari er að tryggja öryggi slökkviliðsmanna og þeirra sem skipaðir eru í slökkvilið skv. 1. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir.

2. gr. Skilgreiningar.

Hlífðarbúnaður: Allur búnaður sem ver slökkviliðsmann við störf sín, s.s. hjálmar, hlífðarhettur, hlífðarfatnaður, hanskar og skór.
Endingartími búnaðar: Sá tími sem framleiðandi ætlar að búnaðurinn endist og haldi fullu öryggi.

3. gr. Kröfur til gæða búnaðar.

Allur hlífðarbúnaður skal að lágmarki uppfylla ákvæði þeirra ÍST EN staðla sem taldir eru upp í viðauka við reglugerð þessa. Sé keyptur hlífðarbúnaður sem framleiddur er eftir öðrum stöðlum skal búnaðurinn einnig uppfylla ÍST EN staðlana. Ætíð skal miða við nýjustu útgáfu staðalsins.

Hafi verið gefinn út samhæfður staðall fyrir hlífðarbúnað skal sá búnaður vera CE-merktur og uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 728/2018 um gerð persónuhlífa.

4. gr. Annar fatnaður.

Allur fatnaður sem slökkviliðsmaður klæðist undir hlífðarbúnaði skal vera úr efnum sem ekki bráðna við hita s.s. bómull eða ull.

5. gr. Kröfur til seljanda hlífðarbúnaðar.

Seljandi hlífðarbúnaðar fyrir slökkviliðsmenn skal ábyrgjast að hlífðarbúnaðurinn fullnægi öryggiskröfum á Evrópska efnahagssvæðinu í samræmi við fyrirsjáanlega og eðlilega notkun búnaðarins.

Hafi hlífðarbúnaður ekki fullgilda viðurkenningu á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 2. mgr. 3. gr., skal sá sem framleiðir, flytur inn eða selur hlífðarbúnaðinn leita viðurkenningar hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun áður en búnaðurinn er settur á markað hér á landi. Kostnaður vegna beiðni um viðurkenningu skal borinn af þeim sem óskar viðurkenningar.

Telji Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að búnaðurinn fullnægi ekki kröfum skv. 1. mgr. er stofnuninni heimilt að banna sölu hans.

6. gr. Upplýsingar um hlífðarbúnað.

Með öllum hlífðarbúnaði sem seldur er skulu fylgja greinargóðar upplýsingar á íslensku um notkunarsvið hans, viðhald, þrif á búnaðinum og um ætlaðan endingartíma.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal gefa út leiðbeiningar um hvernig meta skuli skemmdir á hlífðarbúnaði.

7. gr. Breytingar á hlífðarbúnaði.

Óheimilt er að gera þær breytingar á hlífðarbúnaði sem skert geta notagildi eða öryggi hans.

8. gr. Hlífðarbúnaður tekinn úr notkun.

Hlífðarbúnaður sem ekki uppfyllir grunnkröfur reglugerðar nr. 728/2018 um gerð persónuhlífa skal tekinn úr notkun.

Hlífðarbúnaður sem hefur orðið fyrir skemmdum sem geta haft áhrif á öryggi slökkviliðsmanns skal tafarlaust tekinn úr umferð.

Taka skal úr umferð hlífðarbúnað sem kominn er fram yfir ætlaðan endingartíma.

9. gr. Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum þessarar reglugerðar varða refsingum samkvæmt 34. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir.

10. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem er sett samkvæmt heimild í 39. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 186/1984 um hlífðarbúnað slökkviliðsmanna, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

Hlífðarbúnaður sem er í notkun við gildistöku reglugerðar þessarar og uppfyllir ekki ákvæði hennar skal tekinn úr notkun eigi síðar en 1. september 2010. Þetta gildir þó ekki ef 2. mgr. 8. gr. á við um búnaðinn.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.