Fara beint í efnið

Prentað þann 21. des. 2024

Stofnreglugerð

910/2014

Reglugerð um velferð hrossa.

I. KAFLI Tilgangur og skilgreiningar.

1. gr. Tilgangur.

Tilgangur reglugerðarinnar er að tryggja velferð og heilbrigði hrossa með góðri meðferð, umsjá og aðbúnaði. Leitast skal við að hross geti lifað í samræmi við sitt eðlilega atferli eins og framast er kostur. Í reglugerðinni koma fram lágmarkskröfur um einstök atriði.

2. gr. Skilgreiningar.

  1. Aðbúnaður: Húsakostur, hrossaskjól, gerði og girðingar.
  2. Hrossahald: Hvert það fyrirkomulag þar sem hross eru haldin, hvort sem það er í atvinnuskyni eða ekki.
  3. Endurhæfingarstöð: Staður þar sem hross hljóta skilgreinda þjálfun og meðhöndlun.
  4. Harðýðgi: Gróf valdbeiting, svo sem barsmíðar, þrengja að blóðrás til heila (hengja), snúa hross niður á eyrum, uppgefa hross til dæmis með bindingum eða gefa þeim rafstuð.
  5. Hestaleiga: Staður þar sem hross eru leigð til útreiða gegn gjaldi.
  6. Knapi: Hver sá sem ríður hrossi, vinnur með hross í hendi eða þjálfar með öðrum hætti.
  7. Meðferð: Öll umgengni manna við hross, svo sem við föngun og notkun til reiðar, burðar, dráttar, ræktunar eða annarrar framleiðslu/nýtingar auk aðferða við tamningu og þjálfun.
  8. Meðhöndlun: Aðgerð, önnur en læknis- eða skurðaðgerð, þar sem gripið er inn í líkama eða atferli dýra, svo sem fæðingarhjálp, járningar eða snyrting.
  9. Mél með tunguboga og vogarafli: Öll mél með stöngum og/eða keðju þar sem munnstykkið er þannig gert að hæðarmunur frá neðri kanti á endastykki upp í neðri kant á efsta hluta (miðhluta) er meiri en 0,5 sm.
  10. Reiðskóli: Staður þar sem fram fer kennsla í reiðmennsku gegn gjaldi.
  11. Stórmót: Landsmót hestamanna, Íslandsmót í hestaíþróttum og önnur sambærileg mót að umfangi.
  12. Sýning: Kynbótadómar, reiðsýningar, reiðhallasýningar, yfirlitssýningar og aðrar sambærilegar sýningar.
  13. Tamningastöð: Staður þar sem hross eru tamin eða þjálfuð gegn gjaldi.
  14. Tæknivædd þjálfunarstöð: Staður þar sem vélknúin tæki eru notuð við þjálfun hesta, s.s. hlaupabretti, vatnsbretti, hestasundlaugar, hringekjur, hristigólf og/eða önnur sérhæfð þjálfun fer fram sem krefst einstakrar aðstöðu, s.s. hestasundlaugar.
  15. Umsjá: Umönnun, fóðrun og varsla hrossa.
  16. Umráðamaður: Eigandi eða annar aðili, sem er ábyrgur fyrir umsjá hrossa.

II. KAFLI Úttekt og eftirlit.

3. gr. Opinbert eftirlit.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt reglugerð þessari. Matvælastofnun annast eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar og hefur eftirlit með að ákvæðum hennar sé fylgt.

Umráðamanni hrossa ber að tryggja gott aðgengi eftirlitsaðila að hrossum og þeim stöðum þar sem hross eru haldin.

4. gr. Úttekt.

Umráðamanni hrossahalds eða fyrirsvarsmanni starfsemi sem fellur undir viðauka I ber að tilkynna Matvælastofnun um fyrirhugaða starfsemi eigi síðar en 30 dögum áður en áætluð starfsemi hefst.

III. KAFLI Meðferð og umsjá.

5. gr. Geta, hæfni og ábyrgð.

Hver sá sem heldur hross skal hafa aflað sér grunnþekkingar á eðli þeirra og þörfum. Þeir sem reka tæknivæddar þjálfunarstöðvar fyrir hross og/eða starfsmenn þeirra skulu auk þess geta sýnt fram á þekkingu á þjálfunarlífeðlisfræði hrossa eða sambærilega menntun.

Endurhæfing hrossa vegna álagssjúkdóma eða annarra veikinda á endurhæfingarstöð skal eingöngu eiga sér stað að lokinni sjúkdómsgreiningu samkvæmt tilvísun frá dýralækni.

6. gr. Hreyfing og félagslegt atferli.

Húsvist og annað hrossahald skal taka mið af félagslegum og líkamlegum þörfum hrossa.

Innréttingar hesthúsa skulu tryggja hrossum næði til að hvílast og nærast án stöðugs áreitis og/eða yfirgangs frá öðrum hrossum. Innréttingar skulu ekki byrgja hrossum sýn til annarra hrossa á húsi. Óheimilt er að setja rafstreng á innréttingar í hesthúsum.

Hross á húsi skulu fá hreyfingu eða aðra útivist að lágmarki í eina klukkustund á dag, nema sjúkdómar eða veður hamli. Óheimilt er að hafa hross ein á húsi eða í beitarhólfum. Undanþegnar eru skammtímaráðstafanir, styttri en fimm dagar og tímabundin útiganga stóðhesta, allt að einn mánuður.

7. gr. Meðferð.

Bannað er að beita hross harðýðgi eða annarri illri meðferð.

8. gr. Notkun.

Knapi ber fulla ábyrgð á hrossum sem hann notar til reiðar eða annarrar vinnu. Eingöngu skal nota heilbrigð hross til reiðar, burðar eða dráttar. Álag á hross má aldrei vera meira en þrek þeirra og annað líkamlegt ástand leyfir. Koma skal í veg fyrir að hross ofkælist eftir notkun. Þess skal gætt að reiðtygi passi vel og notkun þeirra valdi ekki sárum eða öðrum skaða. Hross skulu járnuð ef hætta er á að hófar slitni til skaða við notkun eða rekstur.

Umráðamanni hestaleigu og reiðskóla ber að skrá tíðni og tímalengd notkunar á hverju hrossi. Dagbókin skal aðgengileg eftirlitsaðilum samkvæmt reglugerð þessari hvenær sem þurfa þykir.

9. gr. Tamning, þjálfun, keppni og sýningar.

Ekki má nota búnað eða aðferðir við tamningu, þjálfun, keppni eða sýningar sem valda hrossum skaða eða óþarfa ótta. Óheimilt er að þvinga hross í höfuðburð með búnaði sem gefur ekki eftir eða að uppgefa hross með bindingum eða öðrum þvingunum. Notkun á mélum með tunguboga og vogarafli er bönnuð á stórmótum, hvers kyns keppnum og sýningum.

Aðeins má nota heilbrigð hross í góðri þjálfun til keppni eða sýninga og ekki fylfullar hryssur sem gengnar eru með lengur en fjóra mánuði. Mótshaldara ber að skipuleggja dagskrá og fyrirkomulag móta með velferð hrossa í fyrirrúmi.

Mótshaldari ber ábyrgð á að hljóðstyrkur tónlistar á keppnis- eða sýningarsvæði hrossa fari ekki yfir mörk sem sett eru í c-lið II. viðauka.

Á stórmótum skulu mótshaldarar sjá til þess að öll hross undirgangist heilbrigðisskoðun skv. fyrirkomulagi sem samþykkt hefur verið af Matvælastofnun.

10. gr. Fóðrun, beit og brynning.

Hross skulu hafa aðgang að fóðri a.m.k. tvisvar á sólarhring og skal aðgangur að gróffóðri aldrei vera minni en sem svarar til 4 kg af þurru heyi, daglega, fyrir hvert hross.

Fóður skal að magni, gæðum og næringarinnihaldi fullnægja þörfum hrossa til vaxtar, viðhalds og notkunar. Hross skulu hafa aðgang að hreinu og ómenguðu drykkjarvatni eða snjó. Óheimilt er að hafa hross án vatns lengur en 6 klst. og án fóðurs lengur en 14 klst. Óheimilt er að hafa folaldshryssu án vatns eða fóðurs lengur en 2 klst. Forðast skal allar snöggar fóðurbreytingar og aðeins skal nota óskemmt fóður.

Hross skulu hafa aðgang að beit í a.m.k. tvo mánuði á tímabilinu 1. júní til 1. október. Hross á útigangi skulu hafa, jafnframt annarri fóðrun, aðgang að beit nema snjóalög hamli.

Hross skulu alla jafna ekki vera grennri en sem nemur reiðhestsholdum (holdastig 3). Að öðrum kosti skulu þau njóta hvíldar og/eða sérstakrar umsjár, fóðrun skal tafarlaust bætt og aðgangur að góðu skjóli tryggður. Holdastig undir 2 telst til illrar meðferðar. Gera skal ráðstafanir til að hross verði ekki feitari en sem nemur holdastigi 4,5 en þó skal gæta að skilyrðum 1., 2. og 3. mgr. um fóðrun. Við mat á holdafari hrossa skal farið eftir viðauka III, um holdastigun.

Koma skal í veg fyrir að undirlag vaðist upp þar sem hrossum er gefið utan dyra. Þar sem 40 hross eða fleiri eru fóðruð á útigangi skal flokka hrossin eftir fóðurþörfum og halda mismunandi hópum aðskildum. Fóðrun skal hagað þannig að öll hross í hverjum hópi komist að fóðrinu samtímis.

11. gr. Heilbrigði og forvarnir.

Umráðamaður skal fylgjast með holdafari og heilbrigði hrossa í hans umsjá og kalla til dýralækni ef með þarf. Hann skal koma í veg fyrir að ormasmit nái að magnast upp með beitarstýringu og/eða ormalyfjagjöf. Hann skal tryggja að hross líði ekki fyrir vanhirðu svo sem með því að halda hrossum hreinum, verja þau ytri óværu og hirða hófa. Hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að hross sé haldið alvarlegum eða áður óþekktum smitsjúkdómi er skylt að tilkynna það dýralækni eða Matvælastofnun þegar í stað. Dauð hross skal tafarlaust fjarlægja úr umhverfi lifandi hrossa.

12. gr. Eigið eftirlit.

Daglegt eftirlit skal hafa með hrossum sem haldin eru á húsi. Hafa skal vikulegt eftirlit með hrossum sem ganga úti á beit eða á gjöf. Undanþegin eru hross á afrétti á sprettutíma.

Stöðugt eftirlit skal vera með hrossum meðan á þjálfun þeirra stendur í vélknúnum tækjum eða í öðrum búnaði þar sem hross geta enga björg sér veitt, fari eitthvað úrskeiðis, s.s. í sundlaugum. Aukið eftirlit skal haft með nýfæddum, sjúkum og slösuðum dýrum og hryssum nálægt köstun sem og ef veður eða aðrar aðstæður krefjast. Umráðamaður stóðhests skal hafa daglegt eftirlit með stóðhestagirðingu. Umráðamaður ber ábyrgð á að hryssur og folöld sem verða fyrir áreiti eða slysum í girðingunni séu tekin frá.

13. gr. Aðgerðir.

Við sársaukafulla aðgerð skal ávallt deyfa eða svæfa hross og veita því verkjastillandi meðferð.

Ekki má framkvæma aðgerðir á hrossum, þ. á m. á tönnum þeirra, án læknisfræðilegrar ástæðu. Þó er heimilt að eyrnamarka hross, gelda hesta og fjarlægja úlfstennur að uppfylltum ákvæðum 1. mgr.

14. gr. Aflífun.

Heimilt er að aflífa hross með skoti í enni, í miðlínu 3-4 fingurbreiddum neðan við rót ennistopps, með skotvopni með lausu skoti. Einnig er heimilt að nota pinnabyssu með pinna sem gengur inn í heila. Strax í framhaldinu skal framkvæmd blóðtæming með skurði á báðar hálsæðar, mænustunga eða annað ferli sem hefur dauða í för með sér. Tryggja þarf að hrossið hafi misst meðvitund áður en blóðgun á sér stað.

Óheimilt er að aflífa hross með raflosti eða með blóðgun einni saman. Aðeins dýralæknum er heimilt að aflífa með lyfjum. Hverjum þeim sem hefur leyfi til að fara með skotvopn er heimilt að aflífa hross. Forðast skal að hross og önnur dýr verði þess vör.

Skylt er að aflífa alvarlega veik og/eða slösuð hross eins fljótt og auðið er ef meðhöndlun er ekki möguleg.

IV. KAFLI Aðbúnaður.

15. gr. Hesthús.

Stíur í hesthúsum skulu vera þannig að hross geti auðveldlega legið og snúið sér innan þeirra. Þær skulu uppfylla kröfur um lágmarksstærðir sem fram koma í a-lið viðauka II við reglugerð þessa.

Folaldshryssur og fylfullar hryssur, á síðustu fjórum mánuðum meðgöngu, má einungis halda í stíum sem að lágmarki eru 8 m² að flatarmáli og þar sem einstaklingsfóðrun er tryggð. Bása má einungis nota tímabundið og óheimilt er að hross sé bundið lengur en fimm daga samfellt, hvort heldur í stíu eða á bás. Steypt gólf í stíum og básum skulu klædd gúmmímottum eða öðru mjúku efni. Bil undir milligerði í stíum skal ekki vera meira en 4 sm.

Þar sem ekki er hreinsað daglega skal borið undir hrossin til að koma í veg fyrir bleytu og hálku og þannig viðhaldið að hross haldist hrein og þurr.

Á hesthúsum skulu vera gluggar sem tryggja að öll hross í húsinu njóti dagsbirtu. Önnur lýsing skal vera næg svo ávallt sé hægt að fylgjast með hrossunum.

Loftræsting skal vera góð og koma skal í veg fyrir dragsúg í húsum, en loftskipti skulu vera næg til að magn skaðlegra loftegunda sé að jafnaði innan viðurkenndra hættumarka sbr. b-lið viðauka II.

Hita- og rakastigi skal haldið jöfnu og innan þeirra marka sem tilgreind eru í b-lið viðauka II.

Óheimilt er að hafa hross í stöðugum hávaða og skal hljóðstyrkur í hesthúsi vera innan þeirra marka sem um getur í c-lið viðauka II við reglugerð þessa.

16. gr. Slysavarnir.

Innréttingar í hesthúsum, s.s. stíuveggir, gólf, jötur og brynningarskálar skulu þannig gerðar að ekki skapist hætta á að hross festi þar fætur eða höfuð. Gólf skulu vera með stömu yfirborði og ganga skal frá niðurföllum, taðþróm og haughúsum þannig að ekki skapist hætta á slysum. Frágangur dyra og ganga skal vera þannig að fljótlegt sé að rýma hesthús í neyðartilvikum. Eldvarnir skulu vera í samræmi við byggingarreglugerð og reglugerð um slökkvitæki.

Fóðurbætisgeymslur skulu tryggilega varðar fyrir aðgangi hrossa.

Girðingar skulu vera traustar og þannig gerðar að þær valdi ekki slysum. Forðast skal að nota ristahlið á girðingar umhverfis hrossahólf eða þar sem umferð hrossa er mikil. Um hrossagirðingar fer að öðru leyti eftir ákvæðum reglugerðar um girðingar.

17. gr. Gerði.

Hvert hross sem haldið er á húsi skal hafa að lágmarki 20 m² rými í útigerði en þó má gerði við hesthús aldrei vera minna en 100 m² og skemmsta hlið ekki minni en 5 metrar. Krafa um að hverju hesthúsplássi fylgi 20 m² rými í gerði, gildir um hesthús byggð eftir gildistöku reglugerðar þessarar. Undirlag í gerðum skal vera þannig að hross vilji og geti velt sér. Afrennsli skal vera gott þannig að ekki myndist svað í vætutíð og skipta skal um yfirborðslag eftir þörfum.

Hross sem haldin eru daglangt í gerðum eða öðrum beitarlausum hólfum þurfa sama rými og getið er í 1. mgr. og aðgang að vatni. Óheimilt er að nota gaddavír eða háspenntar rafgirðingar í gerði. Þó má nota þunnan rafmagnsborða staðsettan ofarlega í gerðum fyrir stóðhesta.

18. gr. Útigangur.

Þar sem hross eru höfð á útigangi skal, ef nauðsyn krefur, koma upp aðhaldi til að reka þau í, svo hægt sé að sinna eftirliti, umsjá og meðferð skv. 11. gr.

Hross sem ganga úti skulu geta leitað skjóls fyrir veðri og vindum. Þar sem fullnægjandi náttúrulegt skjól, svo sem skjólbelti, klettar og hæðir, eru ekki fyrir hendi skulu hross hafa aðgang að manngerðum skjólveggjum sem mynda skjól úr helstu áttum. Hver skjólveggur skal að lágmarki vera 2 metrar á hæð og svo langur að öll hross hjarðarinnar fái notið skjóls. Skjólveggir skulu byggðir þannig að þeir valdi ekki slysahættu né hræðslu hjá hrossum. Við eftirlit og mat á aðbúnaði hrossa á útigangi, svo sem hrossaskjól, skal litið heildstætt á þá þætti sem hafa áhrif á velferð hjarðarinnar svo sem fóðurástand, landgæði, skjól og veðurfar á svæðinu.

19. gr. Smitvarnir.

Hesthús og umhverfi þeirra skal vera þrifalegt. Í hesthúsum skal vera aðstaða til þrifa á fótabúnaði og höndum eða viðeigandi hlífðarfatnaður.

Á stórmótum skal liggja fyrir sértæk viðbragðsáætlun, samþykkt af Matvælastofnun, ef upp kemur grunur um smitsjúkdóm.

Þar sem hross eru þjálfuð á vatnsbrettum eða í sundlaugum skal gæta sérstakra smitvarna. Hindra skal að sjúkdómsvaldandi bakteríur vaxi í vatni sem notað er við slíka þjálfun með grófhreinsun vatnsins og klórun eða annarri efnameðhöndlun og halda yfir það dagbók. Í dagbókina skal einnig skrá hvaða hross eru þjálfuð með þessum hætti og heilbrigði þeirra. Dagbókin skal aðgengileg eftirlitsaðilum samkvæmt reglugerð þessari í allt að tvö ár.

V. KAFLI Refsiákvæði og gildistaka.

20. gr. Viðurlög.

Brot gegn reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 55/2013 um velferð dýra. Meðferð mála út af brotum á reglugerðinni fer samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

21. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 55/2013 um velferð dýra og lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, ásamt síðari breytingum. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Við gildistöku þessarar reglugerðar fellur úr gildi reglugerð nr. 160/2006 um aðbúnað, umhirðu og heilbrigðiseftirlit hrossa.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 16. október 2014.

Sigurður Ingi Jóhannsson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Rebekka Hilmarsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.