Fara beint í efnið

Prentað þann 27. nóv. 2021

Stofnreglugerð

896/2006

Reglugerð um Þjóðminjasafn Íslands.

I. KAFLI Skipulag og starfsemi Þjóðminjasafns Íslands.

1. gr.

Þjóðminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði þjóðminjavörslu. Hlutverk þess er að stuðla sem best að varðveislu menningarminja þjóðarinnar, rannsóknum á þeim og kynningu.

Þjóðminjasafn Íslands annast framkvæmd þjóðminjavörslu í landinu ásamt Fornleifavernd ríkisins og Húsafriðunarnefnd. Það vinnur að stefnumörkun um þjóðminjavörsluna á sínu sviði og fer með önnur verkefni sem safninu eru falin í þjóðminjalögum og safnalögum.

Yfirstjórn Þjóðminjasafns Íslands er í höndum menntamálaráðherra.

Þjóðminjavörður er forstöðumaður Þjóðminjasafns Íslands og ákveður skipulag þess.

2. gr.

Í samræmi við 1. og 2. mgr. 1. gr. annast Þjóðminjasafn Íslands söfnun, skráningu, forvörslu, rannsóknir, útgáfu og sýningar á menningarsögulegum munum, þ.m.t. jarðfundnum gripum, þjóðháttum og hvers konar myndefni og veitir faglega leiðsögn þar að lútandi. Þjóðminjasafnið er leiðandi safn í geymslumálum og fyrirbyggjandi forvörslu á landsvísu.

Þjóðminjasafnið skal marka sérstaka söfnunar-, varðveislu- og rannsóknarstefnu fyrir allar tegundir þjóðminja sem því er ætlað að varðveita og rannsaka, skv. þjóðminjalögum og safnalögum. Í Þjóðminjasafni Íslands eru Ljósmyndasafn Íslands, munasafn, þjóðháttasafn og húsasafn.

3. gr.

Jarðfundnir forngripir, lausafundir eða gripir sem finnast við fornleifarannsóknir, eru eign íslenska ríkisins og varðveitast í Þjóðminjasafni Íslands eða hlutaðeigandi byggða- eða minjasafni.

Kvikmyndir í eigu Þjóðminjasafns Íslands skal geyma á Kvikmyndasafni Íslands, að uppfylltum kröfum Þjóðminjasafnsins um aðbúnað og aðgang að safnmunum.

Hús í umsjá Þjóðminjasafns Íslands eru hluti af safnkosti þess. Í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands eru allar þær byggingar, sem Þjóðminjasafnið hefur tekið til varðveislu vegna menningarsögulegs gildis þeirra. Þjóðminjasafni Íslands er heimilt að fela öðrum varðveislu, rekstur og viðhald þeirra með sérstökum samningi. Viðgerðir gripa og fastra húsgagna sem varðveittir eru í húsum húsasafnsins skulu fara fram á vegum Þjóðminjasafnsins.

4. gr.

Þjóðminjasafn Íslands mótar stefnu um það hvaða safngripi má lána til sýninga utan húsakynna safnins og hjá öðrum stofnunum sem kunna að falast eftir láni gripa til sýninga. Sérfræðingar safnsins meta hverju sinni hvort lánsstaðurinn uppfyllir kröfur safnsins um umhverfi og öryggi gripa áður en lán er heimilað. Þjóðminjavörður getur heimilað langtímalán jarðfundinna gripa til safna sem uppfylla kröfur um aðbúnað. Þjóðminjasafn Íslands gerir lista yfir þá safngripi sem teljast þjóðargersemar og eru þeir undanskildir öllum útlánum.

Safngripir, þ.m.t. frummyndir í eigu Þjóðminjasafns skulu ekki lánaðir út nema í sérstökum tilvikum, og þá í samræmi við útlánareglur sem safnið setur sér. Þjóðminjasafn Íslands annast eftirtökur frummynda og ljósmyndun safngripa til notkunar utan safnsins og setur notendum skilmála um nýtingu myndanna.

5. gr.

Bóka- og heimildasafn Þjóðminjasafns Íslands er sérfræðisafn. Safninu er ætlað að afla rita er snerta starfsemi og verksvið Þjóðminjasafns. Heimildir, skráningar- og rannsóknagögn Þjóðminjasafnsins um safnkost, viðgerðarverkefni og rannsóknir eru varðveitt í safninu.

6. gr.

Þjóðminjasafn Íslands miðlar rannsóknum á menningararfi íslensku þjóðarinnar m.a. með fjölbreyttu sýningarstarfi. Safnið skal halda opinni grunnsýningu þar sem gerð er grein fyrir menningarsögu þjóðarinnar frá landnámi til vorra daga og miðlar rannsóknarniðurstöðum á því sviði. Þjóðminjasafn Íslands skal jafnframt halda sérsýningar sem taka til ákveðinna þátta menningarsögunnar, kynna rannsóknir og skapa vettvang fyrir stefnumót vísinda og lista.

7. gr.

Þjóðminjasafn Íslands heldur uppi og stuðlar að skipulegu fræðslustarfi fyrir nemendur á öllum skólastigum og mótar kennsluefni tengt safnkosti Þjóðminjasafns Íslands. Þjóðminjasafn tekur þátt í kennslu í þeim þáttum menningarsögu, sem falla undir starfssvið þess, innan Háskóla Íslands eða á öðrum vettvangi eftir því sem kostur er. Þjóðminjasafn getur annast námskeiðahald á einstökum fræðasviðum er undir það heyra og fullorðinsfræðslu tengda safnkosti þess.

8. gr.

Þjóðminjasafn Íslands þjónar eftir megni söfnum og öðrum þeim er leita eftir ráðgjöf og fræðslu um hvaðeina er lýtur að menningarminjum þjóðarinnar og heyrir undir starfssvið þess.

II. KAFLI Rannsóknarstaða tengd nafni dr. Kristjáns Eldjárns.

9. gr.

Við Þjóðminjasafn Íslands skal vera sérstök rannsóknarstaða, tengd nafni dr. Kristjáns Eldjárns, fyrrum þjóðminjavarðar og forseta Íslands. Staðan er ætluð fræðimönnum, er sinna rannsóknum á sviði íslenskrar menningarsögu sem fellur undir starfssvið Þjóðminjasafns Íslands.

Þjóðminjavörður ræður í stöðuna til allt að tveggja ára. Þjóðminjavörður ákvarðar um launakjör fræðimannsins, innan marka kjarasamninga og fjárheimilda.

Fræðimaður skilar áfanga- eða rannsóknarskýrslum árlega. Skal stefnt að því, að niðurstöður rannsókna hans meðan hann gegndi stöðunni birtist á viðurkenndum vísindalegum vettvangi að ráðningartíma loknum. Skulu þær rannsóknarniðurstöður jafnframt varðveittar í Þjóðminjasafni Íslands, eins þótt óbirtar séu.

III. KAFLI Gildistaka

10. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 29. gr. þjóðminjalaga nr. 107/2001 og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um þjóðminjavörslu nr. 334/1998.

Menntamálaráðuneytinu, 20. október 2006.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Guðmundur Árnason.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.