Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

894/2009

Reglugerð um framkvæmd alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands.

1. gr. Yfirstjórn.

Utanríkisráðherra fer með yfirstjórn alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 121/2008 um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands.

2. gr. Samstarfsráð um alþjóðlega þróunarsamvinnu og þróunarsamvinnunefnd.

Samstarfsráð um alþjóðlega þróunarsamvinnu starfar skv. 4. gr. laga nr. 121/2008. Formaður ráðsins boðar til funda þess og ákveður dagskrá þeirra í samráði við utanríkisráðuneytið. Auk fulltrúa ráðsins sitja fulltrúar utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands fundi þess. Halda skal fundargerð yfir fundi ráðsins.

Þróunarsamvinnunefnd starfar skv. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 121/2008. Nefndin skal veita umsögn til Alþingis um drög að tillögu til þingsályktunar um áætlun stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu, sbr. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 121/2008. Fulltrúar í nefndinni skulu eiga sæti í samstarfsráði um alþjóðlega þróunarsamvinnu skv. 1. mgr. þessarar greinar, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 121/2008.

3. gr. Þróunarsamvinnustofnun Íslands.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands tekur þátt í alþjóðlegri þróunarsamvinnu samkvæmt lögum nr. 121/2008 í samræmi við markmið þeirra, sbr. 1. gr. laganna.

Kostnaður við starfsemi stofnunarinnar og verkefni hennar greiðist úr ríkissjóði.

Stofnunin lýtur yfirstjórn utanríkisráðuneytisins og er rekin á grundvelli 6. gr. laga nr. 121/2008.

4. gr. Hlutverk Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.

Helstu hlutverk stofnunarinnar eru eftirfarandi:

  1. Tvíhliða þróunarsamvinna Íslands í samræmi við áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu, sbr. 3. gr. laga nr. 121/2008.
  2. Þátttaka í starfi alþjóðlegra nefnda og stofnana á sviði þróunarsamvinnu sem utanríkisráðuneytið kann að fela stofnuninni.
  3. Skýrslugjöf og gerð sérfræðiálita til utanríkisráðuneytisins, m.a. í tengslum við skýrslu ráðherra til Alþingis.
  4. Kynning á þróunarsamvinnu og málefnum þróunarlanda með það fyrir augum að efla almenna þekkingu og skilning á alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Kynningarstarf skal unnið í samræmi við árlega kynningaráætlun sem unnin er í samráði við utanríkisráðuneytið.
  5. Önnur verkefni sem stofnuninni kunna að vera falin samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra hverju sinni.

5. gr. Framkvæmd þróunarsamvinnu.

Þróunarsamvinnu skal skipuleggja og framkvæma samkvæmt samræmdum verkferlum um tvíhliða og marghliða þróunarsamvinnu sem staðfestir eru af ráðherra.

Innan utanríkisráðuneytisins skal starfa sérstakur stýrihópur um þróunarsamvinnu sem er ráðuneytisstjóra til ráðgjafar um eftirlit með rekstri, faglegum afgreiðslumálum og skuldbindingum á sviði þróunarsamvinnu. Í stýrihóp skulu sitja sviðsstjóri og yfirmenn deilda þróunarsamvinnusviðs ráðuneytisins, framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og ráðuneytisstjóri sem jafnframt er formaður hópsins.

Við framkvæmd þróunarsamvinnu er Þróunarsamvinnustofnun Íslands heimilt að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi, starfa með öðrum veitendum þróunaraðstoðar og sinna skýrslugjöf og gerð sérfræðiálita sem tengjast þeirri framkvæmd. Stofnuninni er heimilt að gera samstarfssamninga við félagasamtök og aðra veitendur þróunaraðstoðar sem og samninga um útvistun verkefna. Við gerð slíkra samninga skal taka mið af lögum um opinber innkaup þegar það á við.

6. gr. Framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.

Utanríkisráðherra skipar framkvæmdastjóra stofnunarinnar skv. 4. mgr. 6. gr. laga nr. 121/2008 og setur honum erindisbréf.

Framkvæmdastjóri skal taka þátt í starfi utanríkisráðuneytisins um alþjóðlega þróunarsamvinnu eftir því sem ráðherra ákveður, þ.m.t. sitja í sérstökum stýrihóp um þróunarsamvinnu, sbr. 2. mgr. 5. gr. reglugerðar þessarar.

Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á daglegri framkvæmd og rekstri stofnunarinnar og því að reksturinn sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli sem og þær kröfur er leiða má af alþjóðlegum skuldbindingum Íslands.

Framkvæmdastjóri ákveður innra skipulag stofnunarinnar.

Að öðru leyti gilda lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, um framkvæmdastjóra og störf hans auk annarra sérreglna er leiða af eðli starfa hans.

7. gr. Starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.

Framkvæmdastjóri ræður starfsmenn stofnunarinnar og skal hún setja sér viðmið sem höfð skulu að leiðarljósi við val á starfsmönnum.

Framkvæmdastjóra stofnunarinnar er heimilt að veita starfsmönnum hennar launalaust leyfi svo þeir fái tímabundið gegnt störfum fyrir utanríkisráðuneytið. Með sama hætti má veita starfsmönnum ráðuneytisins launalaust leyfi svo þeir fái tímabundið gegnt störfum fyrir stofnunina. Ráðningar samkvæmt þessari málsgrein geta mest varað í fimm ár og eru undanþegnar auglýsingaskyldu, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 121/2008.

8. gr. Tímabundin ráðning til starfa í tengslum við verkefni erlendis.

Um tímabundnar ráðningar Þróunarsamvinnustofnunar Íslands til starfa við afmörkuð verkefni í þróunarsamvinnu erlendis fer skv. 7. gr. laga nr. 121/2008.

9. gr. Umdæmisskrifstofur Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.

Stofnunin getur rekið umdæmisskrifstofur í þeim samstarfslöndum sínum þar sem svæðisbundinni þróunarsamvinnu er sinnt. Forstöðumenn umdæmisskrifstofa eru umdæmisstjórar sem ráðnir eru skv. 7. gr. laga nr. 121/2008. Þeir koma fram sem fulltrúar stofnunarinnar gagnvart hlutaðeigandi stjórnvöldum í umdæmislöndum skrifstofunnar. Umdæmisstjórar bera ábyrgð gagnvart framkvæmdastjóra stofnunarinnar, sbr. þó 10. gr. reglugerðar þessarar.

10. gr. Umdæmisskrifstofur reknar sem sendiráð Íslands erlendis.

Hafi ráðherra ákveðið að umdæmisskrifstofa skuli taka stöðu sendiráðs getur hann falið umdæmisstjóra að gegna jafnframt og án sérstaks endurgjalds tímabundið starfi forstöðumanns sendiráðsins auk umdæmisstjórastarfsins samkvæmt lögum nr. 39/1971, um utanríkisþjónustu Íslands.

Í þeim tilvikum sem greinir í 1. mgr. skal forstöðumaður taka við fyrirmælum viðkomandi sendiherra og utanríkisráðuneytisins varðandi meðferð utanríkismála og gæslu hagsmuna Íslands erlendis, m.a. borgaraþjónustu og neyðaraðstoð sem veitt er íslenskum ríkisborgurum þegar þess er þörf.

Í þeim tilvikum þegar bein samskipti eru við utanríkisráðuneytið um afgreiðslu og meðferð mála samkvæmt þessari grein skal halda sendiherra upplýstum á öllum stigum.

Utanríkisráðuneytið veitir forstöðumanni og eftir atvikum öðru útsendu starfsfólki umdæmisskrifstofu sem tekur stöðu sendiráðs skv. 1. mgr. nauðsynlega fræðslu áður en störf hefjast í gistiríki svo þeim sé gert kleift að rækja með sem bestum hætti störf sín að þessu leyti.

Forstöðumaður og eftir atvikum aðrir starfsmenn umdæmisskrifstofu, sem tekið hefur stöðu sendiráðs skv. 1. mgr., fá diplómatísk vegabréf eða þjónustuvegabréf í samræmi við reglur um diplómatísk vegabréf og þjónustuvegabréf sem settar eru af utanríkisráðherra.

Forstöðumaður skal gæta trúnaðar um störf sín samkvæmt þessari grein.

Kostnaður við rekstur umdæmisskrifstofa samkvæmt þessari grein og launagreiðslur til forstöðumanna og annarra starfsmanna þeirra er greiddur af Þróunarsamvinnustofnun Íslands.

11. gr. Réttindi og skyldur starfsmanna.

Starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, aðrir en staðarráðnir, taka laun samkvæmt almennum reglum um laun starfsmanna ríkisins. Þeir starfsmenn, sem ráðnir eru til tímabundinna starfa erlendis skv. 7. gr. laga nr. 121/2008, skulu njóta sömu kjara og starfsmenn utanríkisráðuneytisins erlendis njóta skv. 13. gr. laga nr. 39/1971.

Um staðarráðna starfsmenn gilda lög og reglur viðkomandi ríkis og fara starfskjör þeirra eftir samkomulagi hverju sinni.

Að öðru leyti gilda lög nr. 70/1996 um starfsmenn stofnunarinnar og störf þeirra í hennar þágu.

12. gr. Lokaákvæði.

Reglugerð þessi, sem sett er skv. 4. mgr. 4. gr. og 5. mgr. 6. gr. laga nr. 121/2008, öðlast þegar gildi.

Um leið fellur úr gildi reglugerð nr. 86/1998.

Utanríkisráðuneytinu, 23. október 2009.

Össur Skarphéðinsson.

Einar Gunnarsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.