Fara beint í efnið

Prentað þann 21. des. 2024

Stofnreglugerð

890/2021

Reglugerð um styrki vegna jöfnunar á flutningskostnaði olíuvara.

1. gr. Gildissvið.

Í reglugerð þessari er kveðið á um afgreiðslu flutningsjöfnunarstyrkja á grundvelli laga um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011, með síðari breytingum.

Á grundvelli laganna veitir Byggðastofnun styrki vegna jöfnunar á flutningskostnaði olíuvara til söluaðila sem starfrækja sölustaði á svæðum sem búa við skerta samkeppnisstöðu vegna landfræðilegra og lýðfræðilegra aðstæðna, skv. ákvæðum laga um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011.

2. gr. Flokkar olíuvara.

Veita skal styrki vegna olíuvara, ásamt tilheyrandi íblöndunarefnum, sem skiptast í eftirfarandi flokka:

Flokkur 1, bensín: Olíuvörur sem eru ætlaðar til notkunar sem eldsneyti fyrir vélknúin ökutæki.
Flokkur 2, gasolía: Gasolía sem er ætluð til notkunar fyrir vélknúin ökutæki, iðnað, til húshitunar og þess háttar.
Flokkur 3, gasolíutegundir fyrir skip og báta: Gasolíutegundir sem eru ætlaðar fyrir skip og báta.

Þrátt fyrir að eftirfarandi olíuvörur kunni að falla í ofangreinda flokka, eru þær ekki styrkhæfar:

a. Olíuvörur sem eru ætlaðar til útflutnings, svo sem til millilandasiglinga og erlendra skipa.
b. Olíuvörur sem ætlaðar eru flugvélum, svo sem flugvélabensín og flugvélaeldsneyti.

3. gr. Gögn sem skulu fylgja umsókn.

Umsóknum um flutningsjöfnunarstyrki skulu fylgja eftirfarandi upplýsingar:

  1. Nafn, kennitala og lögheimili söluaðila.
  2. Upplýsingar um selt magn af hverjum flokki olíuvara á þeim sölustað sem sótt er um, sem nauðsynlegar eru til að ákvarða upphæð styrks.
  3. Staðfesting á að styrkþegi skuldi ekki skatta eða gjöld til ríkis eða sveitarfélaga hér á landi. á að styrkþegi hafi ekki verið úrskurðaður gjaldþrota á næstliðnum fimm árum frá dagsetningu umsóknar.

4. gr. Framkvæmd styrkveitinga.

Byggðastofnun skal auglýsa fyrirhugaða styrkveitingu í upphafi árs og fyrirhugaða heildarfjárhæð styrkveitingar. Umsóknum um styrk vegna jöfnunar á flutningskostnaði olíuvara skal skila til Byggðastofnunar fyrir 1. maí ár hvert vegna næsta almanaksárs á undan.

Byggðastofnun leggur mat á umsóknir og getur kallað eftir gögnum umfram þeirra sem getið er um í 3. gr. og eru nauðsynleg til að reikna út og staðfesta styrkveitingu.

Styrkur er greiddur út eftir að umsókn um styrk hefur verið samþykkt. Umsækjendur bera ábyrgð á því að þær upplýsingar sem fram koma í umsókn séu réttar og skulu staðfesta að selt magn olíu á viðkomandi sölustað falli ekki undir þær tegundir olíuvara sem ekki eru styrkhæfar, skv. 2. gr.

Byggðastofnun er heimilt að halda eftir hluta af heildarúthlutun styrkja, m.a. ef ágreiningur er um tiltekna styrkveitingu, þangað til leyst er úr ágreiningi.

Byggðastofnun er heimilt að hafna umsókn um styrkveitingu í heild eða að hluta ef gögn sem skulu berast með umsókn skv. 3. gr. eru ekki fullnægjandi til að ákvarða styrk, umsækjandi er í vanskilum með skatta og gjöld eða umsækjandi hafi verið úrskurðaður til gjaldþrotaskipta eða af öðrum réttmætum ástæðum.

Styrkveiting er í formi fjárgreiðslu og fer fyrsta styrkveiting fram á árinu 2022 vegna ársins 2021.

5. gr. Úthlutunarregla.

Úthlutun styrkja skal ákvörðuð í samræmi við þá heildarfjárhæð sem fyrirhugað er að veita til jöfnunar á flutningskostnaði olíuvara í fjárlögum ár hvert, að undanskildu fjármagni vegna umsýslukostnaðar Byggðastofnunar, selt magn olíuvara í hverjum flokki á viðkomandi sölustað og byggðastuðul svæðis þar sem sölustaður er staðsettur.

Veita skal 30% af þeirri fjárhæð sem fyrirhugað er að úthluta til flutningsjöfnunarstyrkja ár hvert í flokk 3, 45% í flokk 2 og 25% í flokk 1, sbr. 2. gr.

Reikna skal fyrir hvern sölustað hlutfallstölu sem ákvarðar hversu hátt hlutfall af heildarstyrk í viðkomandi flokki verði úthlutað vegna sölu olíuvara á tilteknum sölustað. Talan ræðst af hlutfalli af seldu magni olíuvara sölustaðar í viðkomandi flokki, sbr. 2. mgr., af því heildarmagni olíuvara sem sótt er um fyrir í sama flokki og að teknu tilliti til vægis byggðastuðuls sölustaðarins, sbr. 6. gr.

Sölustaður olíuvara er sá staður þar sem afhending olíuvara fer fram með varanlegum hætti, svo sem af bensín- eða olíudælu sem ekki er færanleg. Heimilt er að veita styrki þegar afhending olíuvara fer fram með færanlegum hætti, svo sem af bifreið, skipi eða tanki. Skal þá miða við byggðastuðul þess sölustaðar sem er næstur afhendingarstað.

Einn sölustaður getur ekki fengið hærri flutningsjöfnunarstyrk en sem nemur 10% af heildarfjárhæð fyrirhugaðrar styrkveitingar í tilteknum viðmiðunarflokki olíuvara. Sú umfram fjárhæð sem hefði komið til úthlutunar til þeirra sölustaða sem hafa fengið 10% af heildarfjárhæð styrkveitinga, kemur aftur til úthlutunar til annarra sölustaða með sama hætti og segir í 3. mgr., nema ekki skal telja með sölustaði sem þegar hafa fengið hámarksúthlutun. Ef einn sölustaður reiknast með samtals hærra en 10% af heildarstyrk í seinni úthlutun, skal aftur koma til endurúthlutunar þeirra fjármuna sem eru eftirstæðir. Endurtaka skal úthlutanir vegna fjármuna sem reiknast hærra hlutfall en 10% af heildarstyrk á tiltekinn sölustað eða sölustaði, þangað til enginn sölustaður fær meira en 10% af heildarúthlutun styrks.

Ef allir sölustaðir fá meira en 10% af heildarstyrk í viðkomandi viðmiðunarflokki, svo sem vegna fárra umsækjanda, kemur ekki til endurúthlutunar heldur skal umfram fjárhæð sem hefði komið til úthlutunar skiptast á milli annarra viðmiðunarflokka olíuvara. Ef allir sölustaðir í öllum viðmiðunarflokkum reiknast með hærri flutningsjöfnunarstyrk en sem nemur 10% af heildarstyrk sem veittur er í hverjum viðmiðunarflokki skulu eftirstæðar styrkveitingar koma til úthlutunar árið á eftir.

6. gr. Byggðastuðlar.

Byggðastuðlar skv. 2. mgr. 7. gr. laga um svæðisbundna flutningsjöfnun eru svohljóðandi:

  1. Byggðastuðullinn 0: Ekki skal veita styrki vegna sölu olívara á svæðum sem eru innan við 3 km frá þjóðvegi 1 eða í þéttbýliskjarna með fleiri en 2.000 íbúa. Þá skal ekki veita styrki vegna sölu olíuvara innan allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi eða frá og með sveitarfélögunum Akraneskaupstað, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppi og Borgarbyggð í vestri til og með sveitarfélaginu Skaftárhreppi í austri.
  2. Byggðastuðullinn 0,5: Sala olíuvara innan byggðarlaganna eða sveitarfélaganna Fáskrúðsfjörður, Eskifjörður, Norðfjörður, Reyðarfjörður, Seyðisfjörður, Hvammstangi, Fjallabyggð, Dalvík, Höfn í Hornafirði, Stykkishólmur, Snæfellsbær og Grundarfjörður hefur byggðastuðulinn 0,5.
  3. Byggðastuðullinn 1: Sala olíuvara innan svæða sem ekki er getið um í a, b, og d. lið ákvæðisins og eru í meira en 3 km fjarlægð frá þjóðvegi 1 og/eða í þéttbýliskjarna þar sem búa færri en 2.000 íbúar, auk sala olíuvara innan byggðarlagsins Djúpavogs, hefur byggðastuðulinn 1.
  4. Byggðastuðullinn 1,5: Sala olíuvara innan byggðarlaganna eða sveitarfélaganna Breiðdalsvík, Stöðvarfjörður, Borgarfjörður eystri, Vopnafjarðarhreppur, Langanesbyggð, Norðurþing austan Tjörness, Grímsey, Hrísey, Strandabyggð, Kaldrananeshreppur, Árneshreppur, Dýrafjörður og Tálknafjarðarhreppur hefur byggðastuðulinn 1,5.

Miðað skal við staðarmörk sveitarfélaga eins og þau voru ákveðin við gildistöku reglugerðarinnar.

7. gr. Heimild og gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er á grundvelli 7. gr. laga um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011, öðlast þegar gildi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 13. júlí 2021.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.