Fara beint í efnið

Prentað þann 24. nóv. 2024

Breytingareglugerð

890/2017

Reglugerð um (1.) breytingu á reglugerð nr. 460/2015, um baðstaði í náttúrunni.

1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. reglugerðarinnar:

  1. Við bætist eftirfarandi skilgreining í viðeigandi stafrófsröð, svohljóðandi:
    Afþreyingarlaug: Laug sem er frá grunni hlaðin og/eða steypt úr föstu efni, þ.e. botn og hliðar, og kalt vatn, affallsvatn frá hitaveitu eða jarðhitavatn er leitt í laugina úr nálægum hver eða afrennsli frá virkjun þó að undangenginni kælingu. Heilnæmi vatnsins er stjórnað með tíðri endurnýjun vatnsins og aðgangsstýringu, svo sem takmörkun á fjölda gesta í laug.
  2. Eftirfarandi skilgreining orðast svo:
    Baðstaður í náttúrunni: Náttúrulaug, afþreyingarlaug eða baðströnd sem eru notuð til baða af almenningi og vatn er ómeðhöndlað af sótthreinsiefnum, geislun eða á annan hátt. Til baðstaðar telst einnig búnings- og salernisaðstaða og önnur aðstaða fyrir baðgesti sé hún til staðar.

2. gr.

Við 4. gr. reglugerðarinnar bætist ný málsgrein sem orðast svo:

Afþreyingarlaugar skulu falla í 1. eða 2. flokk og eru því starfsleyfisskyldar.

3. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. reglugerðarinnar:

  1. 3. mgr. orðast svo:
    Til að tryggja heilnæmi og gæði baðvatns er rekstraraðila eða heilbrigðisnefnd heimilt að takmarka gestafjölda í afþreyingarlaugum hafi gerlafjöldi í baðvatni mælst ítrekað yfir hámarksgildum.
  2. Við bætist ný mgr., 4. mgr., sem orðast svo:
    Þrátt fyrir að óheimilt sé að nota sótthreinsiefni á baðstöðum í náttúrunni getur heilbrigðisnefnd heimilað eða fyrirskipað sótthreinsun á baðstöðum í 1. og 2. flokki, með geislun eða öðrum hætti án efnanotkunar, til að draga úr gróðurmyndun í keri og/eða til að sótthreinsa vatnið/kerið hafi gerlafjöldi í baðvatninu mælst endurtekið yfir hámarksgildum. Þar sem hægt er að tæma afþreyingarlaug er heilbrigðisnefnd heimilt að krefjast notkunar á sótthreinsandi efni, m.a. klór, til að hreinsa laugina, þ.e. yfirborðsfleti hennar. Gæta verður þess að afvirkja sótthreinsandi efni áður en vatni er hleypt aftur í laug, að sótthreinsun lokinni.

4. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á viðauka I við reglugerðina:

  1. Við skýringu 1) við töflu í viðauka I bætist: Taka skal sýnin á mismunandi tímum, t.d. mánaðarlega.
  2. 2. tölul. um baðstaði í náttúrunni í 1. flokki orðast svo:
    Þegar fleiri en 500/250 saurkólígerlar/100 ml eða 100/200 i.enterococci/100 ml eru í sýni er þörf á sérstakri sýnatöku til að meta p.aeruginosa/100 ml gildi. Ef gildi þess er 1 eða yfir er þörf á að grípa til viðeigandi ráðstafana í samræmi við ákvæði 10. og 11. gr. reglugerðarinnar.
  3. 2. tölul. um baðstaði í náttúrunni í 2. flokki orðast svo:
    Þegar fleiri en 1000/500 saurkólígerlar/100 ml eða 400/200 i.enterococci/100 ml eru í sýni er þörf á sérstakri sýnatöku til að meta p.aeruginosa/100 ml gildi. Ef gildi þess er 1 eða yfir er þörf á að grípa til viðeigandi ráðstafana í samræmi við ákvæði 10. og 11. gr. reglugerðarinnar.

5. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 15. tölul. 4. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, sbr. 3. mgr. 43. gr. laganna, og öðlast þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 6. október 2017.

Björt Ólafsdóttir.

Sigríður Auður Arnardóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.