Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 21. jan. 2022

Reglugerð með breytingum síðast breytt 2. feb. 2021

870/2013

Reglugerð um söfnun gagna um framleiðslu, innflutning, geymslu og sölu á eldsneyti og eftirlit með orkuhlutdeild endurnýjanlegs eldsneytis í heildarsölu til samgangna á landi.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að varðveita gögn um orkulindir og aðrar jarðrænar auðlindir, nýtingu þeirra og orku- og auðlindabúskap landsmanna og miðla þeim upplýsingum til stjórnvalda og almennings. Markmið reglugerðarinnar er einnig að stuðla að auknum hlut endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum á land og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með hagkvæmum og skilvirkum hætti.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um gagnaöflun varðandi orku, orkulindir og aðrar jarðrænar auðlindir, nýtingu þeirra og orkubúskap almennings, varðveislu þeirra og miðlun upplýsinga til stjórnvalda og almennings.

Reglugerðin gildir um eftirlit með að söluaðilar eldsneytis uppfylli skilyrði sem sett eru um orkuhlutdeild endurnýjanlegs eldsneytis í heildarsölu til samgangna á landi samkvæmt lögum nr. 40/2013 um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi.

3. gr. Skilgreiningar.

Eldsneyti til samgangna á landi: Endurnýjanlegt eldsneyti sem notað er sem eldsneyti á ökutæki og annað eldsneyti sem ber veggjöld skv. lögum nr. 87/2004 um olíugjald og kílómetragjald eða lögum nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Endurnýjanlegt eldsneyti: Eldsneyti sem er unnið úr endurnýjanlegum orkugjöfum.

Endurnýjanlegir orkugjafar: Orkugjafar sem ekki eru jarðefnaeldsneyti heldur eru af endurnýjanlegum uppruna, hvort heldur er af lífrænum eða ólífrænum, þ.e. vatnsorka, vatnsvarmaorka, jarðvarmi, vindorka, sólarorka, sjávarorka, lífmassi, hauggas, lífgas og gas frá skólphreinsistöðvum.

Leifar: Hvers kyns efni eða hlutir sem verða afgangs að loknu framleiðsluferli, þegar meginmarkmið framleiðslunnar er ekki að framleiða viðkomandi efni eða hlut.

Lífeldsneyti: Endurnýjanlegt eldsneyti sem er unnið úr lífmassa.

Lífmassi: Lífbrjótanlegur hluti afurða. Úrgangur og leifar af lífrænum uppruna frá landbúnaði, skógrækt og tengdum iðnaði, fiskveiðum og fiskeldi ásamt lífrænum hluta úrgangs frá iðnaði og heimilum.

Losun gróðurhúsalofttegunda: Það magn gróðurhúsalofttegunda sem losnar í andrúmsloftið á lífsferli eldsneytis frá framleiðslu til og með notkun.

Massajöfnunarkerfi: Aðferðarfræði sem heldur bókhald yfir magn efnis og byggir á lögmáli um varðveislu massa.

Orkugildi eldsneytis: Orka í rúmmálseiningu vökva eða gass. Orkueiningar í skilningi þessarar reglugerðar eru megajúl (MJ). Orkugildi skal reiknað miðað við rúmmál bensíns, gasolíu og fljótandi endurnýjanlegs eldsneytis við 15°C og er gefið í einingunum megajúl á lítra (MJ/l). Orkugildi gastegunda skal reiknað miðað við rúmmál gastegundarinnar við 0°C og 1 atm og er gefið í einingunum megajúl á rúmmetra (MJ/m³).

Sjálfbærniviðmið: Skilyrði sem eldsneyti þarf að uppfylla til að mega teljast endurnýjanlegt og framleitt með sjálfbærum hætti. Viðmið þessi eru sett í reglugerð nr. 750/2013.

Söluaðilar eldsneytis: Aðilar sem selja eldsneyti til samgangna á landi.

Upprunavottorð endurnýjanlegs eldsneytis: Staðfesting á að eldsneyti sé framleitt úr endurnýjanlegum orkugjöfum og framleiðslan sé sjálfbær í skilningi laga nr. 40/2013 um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi og tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/28/EB frá 23. apríl 2009 um að hvetja til notkunar orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Útgáfa upprunavottorðs vegna lífeldsneytis er háð því að lífeldsneytið sé framleitt með sjálfbærum hætti.

Úrgangur: Hvers kyns efni eða hlutir sem einstaklingar eða lögaðilar ákveða að losa sig við eða er gert að losa sig við á tiltekinn hátt sem ekki er unnt að nýta til manneldis eða sem dýrafóður, svo sem úr lífrænum úrgangi, húsasorpi í föstu formi, sellulósa og lignósellulósa.

Viðurkenndir útgefendur upprunavottorða: Alþjóðleg kerfi sem viðurkennd eru af Eftirlitsstofnun EFTA eða framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að gefa út upprunavottorð fyrir endurnýjanlegt eldsneyti.

4. gr. Framkvæmd.

Orkustofnun annast framkvæmd reglugerðar þessarar. Orkustofnun er heimilt að krefjast gagna sem varða nýtingu á jarðrænum auðlindum, orkuframleiðslu og orkunotkun, þ.m.t. gagna um framleiðslu, innflutning, geymslu og sölu á öllum tegundum eldsneytis. Skylt er þeim sem stunda atvinnurekstur er varðar framangreint að afhenda stofnuninni gögn samkvæmt reglugerð þessari. Orkustofnun annast gerð skriflegra leiðbeininga með nánari skýringum á flokkun eldsneytis og viðmiðunargildum orku samkvæmt viðauka 1.

Orkustofnun er heimilt að krefjast gagna sem sýna fram á að söluaðilar eldsneytis uppfylli skilyrði um lágmarksorkuhlutdeild endurnýjanlegs eldsneytis samkvæmt 3. gr. laga nr. 40/2013. Eins er stofnuninni heimilt að krefjast gagna sem sýna fram á að endurnýjanlegt eldsneyti sem selt er til samgangna á landi uppfylli sjálfbærniviðmið samkvæmt 4. gr. laga nr. 40/2013 sem er nánar lýst í reglugerð nr. 750/2013.

5. gr. Gagnaskil.

Eftirtöldum gögnum ber söluaðilum eldsneytis að skila fyrir 1. mars ár hvert til Orkustofnunar vegna næstliðins almanaksárs:

 1. Sölutölum eldsneytis eftir notkunarflokkum, notkunarstað (innanlands, millilanda), tegund eldsneytis og uppruna, sem skilgreindir eru í leiðbeiningum Orkustofnunar. Gera skal grein fyrir óvissu í tölum.
 2. Upplýsingum um birgðastöðu í upphafi og við lok árs.
 3. Upplýsingum um rýrnun: Gera skal grein fyrir þeirri rýrnun sem orðið hefur á birgðum á því ári sem tölurnar ná til.
 4. Gögnum sem sýna fram á að sjálfbærniviðmið fyrir endurnýjanlegt eldsneyti sem notað er til samgangna á landi séu uppfyllt, sbr. 6. og 7. gr.

Eftirtöldum gögnum ber framleiðendum eldsneytis að skila fyrir 1. mars ár hvert til Orkustofnunar vegna næstliðins almanaksárs:

 1. Framleiðslutölum eldsneytis eftir notkunarflokkum, sem skilgreindir eru í leiðbeiningum Orkustofnunar.
 2. Hráefni sem notað er til framleiðslu eldsneytis, magn, tegund og uppruni.
 3. Framleiðslugetu og stofnár framleiðslueiningar eldsneytis.

Eftirfarandi gögnum ber söluaðilum eldsneytis að skila til Orkustofnunar fyrir 25. hvers mánaðar fyrir næstliðinn mánuð:

 1. Heildarsölu eldsneytis eftir tegund. Greina skal sérstaklega frá eldsneyti seldu til samgangna á landi og millilandanotkunar.
 2. Upplýsingum um innkaup, innflutning og birgðastöðu.
 3. Upplýsingum um rýrnun. Gera skal grein fyrir þeirri rýrnun sem orðið hefur á birgðum í þeim mánuði sem tölurnar ná til.

Upplýsingar um sölutölur, birgðir og rýrnun skulu gefnar í tonnum. Fyrir hverja eldsneytistegund skal jafnframt gefa upp eðlisþyngd í kílógrömmum á lítra, orkuinnihald í megajúlum á kílógramm og brennisteinsinnihald sem hlutfall af massa.

6. gr. Skilyrði til gagna vegna sjálfbærniviðmiða og lágmarksorkugildi.

Endurnýjanlegt eldsneyti til samgangna á landi skal uppfylla sjálfbærniviðmið reglugerðar nr. 750/2013. Söluaðilar eldsneytis skulu leggja fram gögn sem sýna fram á að endurnýjanlegt eldsneyti uppfylli sjálfbærniviðmið. Þessi gögn eru upprunavottorð frá viðurkenndum útgefendum eða önnur sambærileg gögn sem sýna fram á að sjálfbærniviðmið séu uppfyllt og endurskoðuð af óháðum skoðunarmanni.

Gögn sem um getur í 1. mgr. skulu innihalda upplýsingar um fylgni við sjálfbærniviðmið samkvæmt reglugerð nr. 750/2013, viðeigandi upplýsingar um ráðstafanir sem gerðar eru til að vernda jarðveg, vatn og andrúmsloft, til að endurheimta land og til að koma í veg fyrir óhóflega vatnsnotkun á svæðum þar sem vatn er af skornum skammti. Reikniaðferðir og gildi til útreiknings á losun gróðurhúsalofttegunda vegna lífeldsneytis skulu vera í samræmi við viðauka 1 og 2 við reglugerð nr. 750/2013.

Söluaðilar eldsneytis skulu nota massajöfnunarkerfi fyrir endurnýjanlegt eldsneyti sem:

 1. gerir kleift að blanda saman sendingum af hráefni eða lífeldsneyti með ólíka sjálfbærnieiginleika,
 2. gerir kröfu um að upplýsingar um sjálfbærnieiginleika og stærð sendinganna, sem um getur í a-lið, fylgi blöndunni áfram, og
 3. tryggir að sjálfbærnieiginleikar eldsneytisblöndu tapist ekki þrátt fyrir að eldsneyti með ólíka sjálfbærnieiginleika sé blandað saman eða hluti af eldsneytisblöndu sé tekinn frá.

Orkustofnun gefur út nánari leiðbeiningar um massajöfnunarkerfi sem söluaðilar eldsneytis geta haft til hliðsjónar

Við útreikning á lágmarksorkugildi samkvæmt lögum nr. 40/2013 skal notast við viðmiðunargildi orkuinnihalds í viðauka 1.

Orkustofnun getur farið fram á að skilað sé til stofnunarinnar undirliggjandi gögnum sem notuð eru til að sýna fram á að sjálfbærniviðmið og lágmarksorkugildi sé uppfyllt.

7. gr. Sannprófun gagna fyrir endurnýjanlegt eldsneyti.

Önnur gögn en upprunavottorð sem sýna eiga fram á að endurnýjanlegt eldsneyti uppfylli sjálfbærniviðmið samkvæmt reglugerð nr. 750/2013 skulu vera árituð af óháðum skoðunarmanni sem staðfestir með undirritun sinni að framlagðar upplýsingar séu réttar. Þessi staðfesting skal framkvæmd af aðila sem hefur yfir að ráða þekkingu á sviði framleiðslu- og umhverfismála viðkomandi fyrirtækis þ.m.t. mikilvægum umhverfisþáttum í starfseminni. Hann skal enn fremur vera óháður og hlutlaus.

Staðfesting gagna um sjálfbærniviðmið felst í staðfestingu á því að reikniaðferðir og tölur sem gefnar eru upp séu réttar og í samræmi við fjárhagsbókhald fyrirtækisins og þær tölur sem sendar eru Orkustofnun. Skoðunarmaður skal gera grein fyrir mati sínu á gögnum og reikniaðferðum og staðfesta að þau séu rétt með undirritun sinni.

8. gr. Skil á gögnum.

Gögnum skal skilað til Orkustofnunar á því formi sem stofnunin ákveður. Sé gögnum ekki skilað innan tilgreinds frests skv. 5. gr. er Orkustofnun heimilt að leggja dagsektir á viðkomandi fyrirtæki eða stofnun. Dagsektir geta numið 10.000-100.000 kr. á dag. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Ákvarðanir um að leggja á dagsektir eru aðfararhæfar. Innheimtar dagsektir skulu renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna.

9. gr. Sektarákvæði.

Hafi söluaðili ekki náð að uppfylla skilyrði 3. gr. laga nr. 40/2013 um lágmarksorkugildi skal Orkustofnun leggja á hann sekt. Sektin skal nema 4 kr. á hvert MJ sem vantar til að skilyrðin séu uppfyllt.

Ef upprunavottorð eða önnur gögn sem framvísað er af söluaðila eldsneytis nægja ekki til þess að skilyrði 4. gr. laga nr. 40/2013 teljist uppfyllt skal Orkustofnun senda söluaðila áskorun um að bæta þar úr innan þriggja vikna ellegar teljist eldsneytið ekki vera endurnýjanlegt eldsneyti.

Sé sekt ekki greidd innan mánaðar frá því að Orkustofnun tilkynnir aðila um ákvörðunina skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar í samræmi við 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtu. Ákvarðanir Orkustofnunar um sektir eru aðfararhæfar.

Ákvörðun Orkustofnunar um sektir má skjóta til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Málskot til úrskurðarnefndar frestar aðför. Úrskurðir úrskurðarnefndar um sektir eru aðfararhæfir. Að öðru leyti en hér segir gilda lög um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

10. gr. Birting.

Orkustofnun skal gefa út yfirlit um heildarsölu eldsneytis og notkun endurnýjanlegs eldsneytis eigi síðar en fjórum mánuðum eftir að almanaksárinu lýkur.

11. gr. Innleiðing EES-gerða.

Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/28/EB frá 23. apríl 2009 um að hvetja til notkunar orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum og niðurfellingu tilskipana 2001/77/EB og 2003/30/EB eins og hún var tekin upp í samninginn um evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 162/2011 þann 19. desember 2011.

12. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 5. mgr. 2. gr. laga nr. 87/2003, um Orkustofnun, og 4. og 7. gr. laga nr. 40/2013, um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi og kemur í stað reglugerðar nr. 365/2008, um söfnun gagna um innflutning, geymslu og sölu á eldsneyti.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.