Fara beint í efnið

Prentað þann 23. jan. 2022

Stofnreglugerð

848/2005

Reglugerð um þjóðgarðinn á Þingvöllum, verndun hans og meðferð.

1. gr. Tilgangur og gildissvið.

Tilgangur reglugerðar þessarar er að stuðla að varðveislu þjóðgarðsins á Þingvöllum, friðlýstum helgistað íslensku þjóðarinnar, verndun náttúru, lífríkis og sögulegra minja með það að markmiði að gæta ásýndar þjóðgarðsins og viðhalda þar upprunalegu náttúrufari.

Reglugerðinni er ennfremur ætlað að efla fræðslu ferðamanna, bæði innlendra og erlendra, um þjóðgarðinn, samspil sögu og náttúru.

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum hefur verið skráður á heimsminjaskrá UNESCO og hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu sem verndarsvæði vegna einstaks menningarlandslags.

2. gr. Þingvallanefnd.

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er undir stjórn Þingvallanefndar. Starfsstöð og varnarþing Þingvallanefndar er á Þingvöllum en Þingvallanefnd rekur einnig skrifstofu í Reykjavík.

Þingvallanefnd er stjórnsýslunefnd og heyrir undir forsætisráðuneyti og eru ákvarðanir hennar kæranlegar til ráðuneytisins. Þingvallanefnd er skipuð sjö mönnum kosnum af Alþingi og sjö mönnum til vara. Umboð þeirra varir þar til ný nefnd hefur verið kjörin. Forsætisráðherra skipar formann og varaformann úr hópi aðalmanna en nefndin skiptir að öðru leyti sjálf með sér verkum.

Formaður Þingvallanefndar boðar fundi eftir þörfum. Skylt er formanni að boða til fundar ef þjóðgarðsvörður eða þrír nefndarmenn óska þess. Formaður stýrir nefndarfundum. Nefndin skal funda að minnsta kosti ársfjórðungslega. Nefndin er ályktunarhæf þegar meirihluti nefndarmanna situr fund. Afl atkvæða ræður úrslitum. Verði atkvæði jöfn telst tillaga felld. Þóknun nefndarmanna ákveður forsætisráðherra.

Til að skuldbinda Þingvallanefnd þarf undirskrift formanns og þjóðgarðsvarðar.

3. gr. Hlutverk Þingvallanefndar.

Lögbundið hlutverk Þingvallanefndar er eftirfarandi:

 1. Að varðveita ásýnd þjóðgarðsins, viðhalda þar upprunalegu náttúrufari og dýralífi.
 2. Að stuðla að verndun Þingvallavatns og lífríkis þess.
 3. Að hafa eftirlit með framkvæmdum innan þjóðgarðsins.
 4. Að taka ákvarðanir um kaup eða eignarnám á einstökum fasteignum í samræmi við fjárheimildir.
 5. Að ráða þjóðgarðsvörð fyrir þjóðgarðinn.

Þingvallanefnd mótar starfsemi þjóðgarðsins í samræmi við lög um þjóðgarðinn og stöðu Þingvalla á heimsminjaskránni.

Þingvallanefnd markar almenna stefnu þjóðgarðsins til lengri tíma og tekur ákvarðanir um nýtingu og vernd hans.

4. gr. Þjóðgarðsvörður og aðrir starfsmenn.

Þingvallanefnd ræður þjóðgarðsvörð fyrir þjóðgarðinn á Þingvöllum. Þjóðgarðsvörður ber ábyrgð gangvart Þingvallanefnd. Nefndin gerir við hann ráðningarsamning í samráði við forsætisráðuneyti.

Þjóðgarðsvörður ræður starfsfólk þjóðgarðsins í samræmi við þarfir þjóðgarðsins og fjárheimildir á hverjum tíma. Hann leggur skipurit fyrir Þingvallanefnd til samþykktar.

Öll mál er varða lögbundið hlutverk Þingvallanefndar eða nýtingu þjóðgarðsins skal þjóðgarðsvörður bera undir Þingvallanefnd.

Þjóðgarðsvörður hefur umboð til þess að svara erindum sem varða málefni þar sem skýr stefna Þingvallanefndar hefur þegar verið mótuð.

Þjóðgarðsvörður undirbýr og situr fundi Þingvallanefndar og hefur þar málfrelsi og tillögurétt. Þjóðgarðsvörður færir efni funda og ákvarðanir nefndarinnar í gerðabók og sér til þess að ákvarðanir nefndarinnar nái fram að ganga.

5. gr. Hlutverk og starfsskyldur þjóðgarðsvarðar.

Hlutverk og starfsskyldur þjóðgarðsvarðar eru eftirfarandi:

 1. Hlutverk þjóðgarðsvarðar er að annast og bera ábyrgð á rekstri þjóðgarðsins á Þingvöllum.
 2. Þjóðgarðsvörður ber ábyrgð á fjárreiðum þjóðgarðsins og gerir fjárhags-, rekstrar- og framkvæmdaáætlanir fyrir þjóðgarðinn í upphafi hvers starfsárs. Allar áætlanir skulu lagðar fyrir Þingvallanefnd til samþykktar.
 3. Þjóðgarðsvörður fylgir fjárlagatillögum eftir til forsætisráðuneytis og kemur fram gagnvart ráðuneytinu varðandi einstök úrlausnarefni hverju sinni.
 4. Þjóðgarðsvörður er tengiliður á milli almennings, lóðarleiguhafa, ábúenda og Þingvallanefndar.
 5. Þjóðgarðsvörður er tengiliður á milli sveitarfélagsins Bláskógabyggðar og Þingvallanefndar.
 6. Þjóðgarðsvörður er tengiliður á milli Fornleifaverndar, Umhverfisstofnunar, Náttúruverndar og annarra stofnana sem gegna lögbundnu hlutverki í málefnum sem varða þjóðgarðinn.
 7. Þjóðgarðsvörður heldur utan um og skráir öll erindi sem berast Þingvallanefnd.
 8. Þjóðgarðsvörður annast samningagerð við lóðarleiguhafa og hefur eftirlit með innheimtu lóðarleigugjalda og eftirlit með því að lóðarleiguhafar efni skuldbindingar sínar samkvæmt lóðarleigusamningi. Þjóðgarðsvörður annast einnig innheimtu gjalda svo sem vegna tjaldsvæða og veiðileyfa.
 9. Þjóðgarðsvörður er ábyrgur fyrir þjónustu við ferðamenn og aðra gesti, sér um og skipuleggur fræðslustarf og gönguferðir fyrir gesti þjóðgarðsins. Þjóðgarðsvörður sér um gerð og viðhald göngustíga sem miða að því að tryggja öryggi og aðgengi gesta þjóðgarðsins.
 10. Þjóðgarðsvörður sinnir öðrum verkefnum sem Þingvallanefnd felur honum og falla innan starfssviðs hans, í samræmi við starfslýsingu í ráðningarsamningi.

6. gr. Tekjur Þingvallanefndar.

Tekjur Þingvallanefndar eru eftirfarandi:

 1. Fjárveiting úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum.
 2. Tekjur af lóðarleigu samkvæmt ákvæðum lóðarleigusamninga.
 3. Tekjur af rekstri þjónustumiðstöðvar í þjóðgarðinum og fræðslumiðstöðvar á Hakinu.
 4. Sala á fræðsluritum og kynningarefni um þjóðgarðinn á Þingvöllum.
 5. Gestagjöld fyrir veitta þjónustu, veiðileyfi og dvöl í þjóðgarðinum. Forsætisráðherra staðfestir reglur um gestagjöld samkvæmt tillögu Þingvallanefndar.
 6. Aðrar tekjur sem til kunna að falla.

Tekjur Þingvallanefndar renna óskiptar til lögbundins rekstrar þjóðgarðsins á Þingvöllum.

7. gr. Samskipti Þingvallanefndar og almennings.

Öllum erindum varðandi rekstur þjóðgarðsins skal beint til þjóðgarðsvarðar.

Tryggja skal gott aðgengi, hreinlætisaðstöðu og öryggi almennings í þjóðgarðinum. Samið skal kynningarefni um þjóðgarðinn og sögu hans. Skal kynningarefnið vera aðgengilegt almenningi á íslensku og ensku á heimasíðu Þingvallanefndar og einnig skal því dreift í prentuðu formi.

Aðstaða fyrir gesti þjóðgarðsins skal vera góð og aðgangur tryggður að markverðustu stöðum innan þjóðgarðsins. Merkja skal þessa staði bæði á íslensku og ensku. Fræðsla og kynning á helstu göngu- og reiðleiðum innan þjóðgarðsins skal vera í boði. Allir stígar skulu miða að því eins og kostur er að gera aðgang og aðgengi alls almennings sem best og tryggast án þess að skerða ásýnd þjóðgarðsins.

8. gr. Samskipti Þingvallanefndar og þeirra aðila sem hagsmuni eiga í þjóðgarðinum.

Erindi þeirra sem hagsmuni eiga í þjóðgarðinum, lóðarleiguhafa, ábúenda og annarra skulu send til þjóðgarðsvarðar sem svarar erindum fyrir hönd Þingvallanefndar.

Við gerð lóðarleigusamninga skal Þingvallanefnd mæla fyrir um forkaupsrétt ríkisins við sérhver aðilaskipti að beinum eða óbeinum eignarréttindum innan þjóðgarðsins.

9. gr. Samþykki Þingvallanefndar skv. 5. gr. laga nr. 47/2004.

Óheimilt er að gera nokkurt jarðrask eða reisa mannvirki innan þjóðgarðsins nema með skriflegu samþykki Þingvallanefndar og tekur bann þetta m.a. til húsbygginga, vegagerðar, lagningar raf- og símalína, borunar eftir vatni, töku jarðefna og vinnslu auðlinda úr jörðu og ræktunarframkvæmda.

Sé framkvæmd sem fellur undir 1. mgr. háð byggingarleyfi frá byggingar- og skipulagsyfirvöldum í Bláskógabyggð skal fyrst beina umsókn um byggingarleyfi til Bláskógabyggðar í tvíriti. Skipulags- og byggingaryfirvöld Bláskógabyggðar skulu í slíkum tilvikum leita eftir samþykki Þingvallanefndar skv. 1. mgr. áður en byggingarleyfi er veitt. Skulu þau synja útgáfu byggingarleyfis ef Þingvallanefnd veitir ekki samþykki sitt skv. 1. mgr.

Við mat á því hvort Þingvallanefnd veiti samþykki sitt skv. 1. mgr. skal nefndin hafa í huga umhverfissjónarmið, aðgengi almennings, jarðrask og upprunalegt náttúrufar. Þá skal framkvæmdin vera í samræmi við byggingarskilmála Þingvallanefndar á hverjum tíma og þau markmið um verndun þjóðgarðsins sem lýst er í lögum og reglugerð þessari.

10. gr. Framkvæmdir innan þjóðgarðsins á vegum Þingvallanefndar.

Þingvallanefnd skal afla samþykkis bygginga- og skipulagsyfirvalda Bláskógabyggðar fyrir öllum framkvæmdum á vegum nefndarinnar sem heyra undir ákvæði laga þar að lútandi.

11. gr. Jarðmyndanir, gróður, dýralíf og náttúruminjar.

Almenningi er ekki heimilt að gróðursetja í þjóðgarðinum. Ekki er heimilt að fjarlægja eða skemma gróður eða aðrar náttúruminjar í þjóðgarðinum. Ekki er heimilt að kveikja eld í þjóðgarðinum. Gæta skal þess jafnframt að raska ekki dýralífi innan þjóðgarðsins.

Innan þjóðgarðsins er óheimilt að gera nokkuð það sem getur spillt eða mengað vatn þar, bæði vatn á yfirborði og grunnvatn eða getur raskað búsvæðum eða hrygningarstöðvum bleikjuafbrigða og urriðastofna sem lifa í vatninu.

Þingvallanefnd er heimilt að gera ráðstafanir til að vernda fiskistofna í Öxará og Þingvallavatni.

Kvikmyndataka í þjóðgarðinum í atvinnuskyni er háð samþykki Þingvallanefndar eða þjóðgarðsvarðar í umboði hennar.

Öll umferð vélsleða og vélhjóla í þjóðgarðinum er bönnuð.

Öll köfun í gjám í þjóðgarðinum er bönnuð nema á þeim svæðum og árstíma sem Þingvallanefnd kveður sérstaklega á um. Skulu kafarar virða þær reglur sem Þingvallanefnd setur þar að lútandi.

Öll skotveiði er bönnuð í þjóðgarðinum en Þingvallanefnd er heimilt að gera ráðstafanir til eyðingar á dýrum eftir því sem þörf krefur vegna friðunar þjóðgarðsins.

Öll umferð olíuflutningabifreiða og/eða flutningur annarra hættulegra og mengandi efna er bannaður í þjóðgarðinum.

Við gróðursetningu trjáplantna og jurta innan þjóðgarðsins skal tekið mið af upprunalegum gróðri innan garðsins og getur Þingvallanefnd látið fjarlægja gróður, sé þessi regla ekki virt.

Takmarka má hundahald innan þjóðgarðsins.

Almenningur, hvort heldur sem er fótgangandi, á hestum eða akandi, skal fara eftir reglum Þingvallanefndar um umgengni og umferð í þjóðgarðinum á hverjum tíma.

Þingvallanefnd getur vikið frá bannákvæðum með sérstöku skriflegu samþykki.

12. gr. Viðurlög.

Brot á reglugerð þessari varðar sektum eða fangelsi ef sakir eru miklar. Mál út af brotum sæta meðferð opinberra mála.

13. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 7. gr. laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum nr. 47/2004, öðlast þegar gildi. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð um gestagjöld á Þingvöllum nr. 300/1996.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þingvallanefnd sem nú situr skal halda umboði sínu þar til ný nefnd hefur verið kjörin í samræmi við ákvæði 2. mgr. 2. gr.

Skylt er formanni Þingvallanefndar að boða til fundar ef þjóðgarðsvörður eða tveir nefndarmenn óska þess.

Þrátt fyrir ákvæði 13. gr. skal 2. ml. 2. mgr. 2. gr. ekki öðlast gildi fyrr en eftir næstu alþingiskosningar.

Forsætisráðuneytinu, 12. september 2005.

Halldór Ásgrímsson.

Bolli Þór Bollason.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.