Fara beint í efnið

Prentað þann 30. nóv. 2021

Breytingareglugerð

841/2016

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 1040/2005, um framkvæmd raforkulaga, með síðari breytingum.

1. gr.

Við reglugerðina bætist ný grein, sem verður grein 16a og hljóðar svo:

Aðferðafræði við útreikning kerfisframlags vegna nýrra tenginga.

Krefjast skal kerfisframlags ef tenging nýrra virkjana eða stórnotenda við flutningskerfið veldur auknum tilkostnaði annarra notenda í kerfinu. Með sama hætti skal taka tillit til þess ef tenging leiðir til hagkvæmari uppbyggingar eða nýtingar flutningskerfisins.

Ný tenging telst valda auknum tilkostnaði eða leiða til hagkvæmni ef kostnaður vegna tengingar lendir utan annars eða beggja eftirfarandi skilyrða skv. a- og b-liðum:

  1. Ytri skilyrði skulu notuð til að meta hvort væntanlegar tekjur vegna nýrrar tengingar standi undir stofn- og rekstrarkostnaði. Ytri skilyrði eru reiknuð út frá hlutfalli fjárfestinga í eignastofni flutningsfyrirtækisins fyrir annars vegar innmötun og hins vegar útmötun og fara því eftir tegund viðskiptavinar eins og nánar skal kveðið á um í staðfestum reglum flutningsfyrirtækisins (netmála). Enn fremur er lagt mat á frekari styrkingu kerfis vegna nýrrar tengingar og tekið skal tillit til þess við mat á ytri skilyrðum. Vikmörk á ytri skilyrðum eru 1,5%. Ef niðurstaða útreikninga á kerfisframlagi fellur innan vikmarka er ekki krafist kerfisframlags, annars er krafist fulls kerfisframlags.
  2. Innri skilyrði skulu notuð til að meta hversu mikið tekjumörk á flutta einingu sveiflast vegna einstakra tenginga, að teknu tilliti til kerfisframlags. Ef niðurstaða útreikninga vegna nýrrar tengingar leiðir í ljós að hún leiðir til hækkunar tekjumarka á flutta einingu skal í slíkum tilvikum krafist kerfisframlags.

2. gr.

Við reglugerðina bætist ný grein, sem verður grein 16b og hljóðar svo:

Forsendur við útreikning kerfisframlags vegna nýrra tenginga.

Útreikningur kerfisframlags skal byggður á eftirfarandi forsendum, sem nánar skal útfæra í netmála flutningsfyrirtækisins:

  1. Gildandi ákvörðun Orkustofnunar um leyfða arðsemi flutningsfyrirtækisins þegar útreikningur er gerður.
  2. Meðaltali miðgengis Seðlabanka Íslands síðastliðna 6 mánuði í viðkomandi gjaldmiðli.
  3. Tímalengd núvirðisútreikninga til ákvörðunar á kerfisframlagi. Í tilviki stórnotenda er miðað við samningstíma, en í tilviki virkjana er miðað við afskriftartíma.
  4. Viðbótarrekstrarkostnaði flutningsfyrirtækisins vegna nýrrar tengingar, eins og hann er ákvarðaður af Orkustofnun hverju sinni.
  5. Áætluðum tekjum af tengingu samkvæmt gjaldskrá sem í gildi er þegar útreikningur fer fram.
  6. Hlutfallsskiptingu tekna, eins og hún er ákvörðuð í netmála flutningsfyrirtækisins.
  7. Áætluðum fjárfestingum og/eða framkvæmdakostnaði eins og kveðið er á um í netmála flutningsfyrirtækisins.

3. gr.

Við reglugerðina bætist ný grein, sem verður grein 16c og hljóðar svo:

Viðmiðun við útreikning kerfisframlags.

Flutningsfyrirtækinu er heimilt að miða við áætlun um hærra hlutfall tekna við útreikning kerfisframlags ef um er að ræða, annars vegar, fyrstu tengingu stórnotanda á nýju svæði sem skilgreint er sem iðnaðarsvæði fyrir fleiri en einn aðila, og hins vegar, ef tenging vinnsluaðila er sú fyrsta á nýju svæði sem skilgreint er sem virkjanaklasi fyrir einn eða fleiri virkjunarkosti samkvæmt nýtingarflokki áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða.

Í útreikningi kerfisframlags vegna síðari tenginga aðila á svæðum skv. 1. mgr. við flutningskerfið skal miðað við hefðbundna hlutfallsskiptingu tekna, sbr. 6. tölul. greinar 16b, þannig að ekki er tekið tillit til þess ef tenging leiðir til hagkvæmari uppbyggingar eða nýtingar.

Nánar skal kveðið á um skilyrði vegna útreiknings kerfisframlags, samanber greinar 16a, 16b og 16c, í reglum (netmála) sem flutningsfyrirtækið setur og ráðherra staðfestir, sbr. 6. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003.

4. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 10. mgr. 9. gr., 11. mgr. 12. gr. a og 1. mgr. 45. gr. raforkulaga nr. 65/2003, með síðari breytingum. Reglugerð þessi öðlast gildi 1. október 2016.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 22. september 2016.

Ragnheiður Elín Árnadóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Ingvi Már Pálsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.