Prentað þann 26. des. 2024
830/2014
Reglugerð um skilyrði fyrir sérstakri málsmeðferð umsókna um hæli – flýtimeðferð.
Efnisyfirlit
- 1. gr. Gildissvið.
- 2. gr. Nánar um flýtimeðferð.
- 3. gr. Flýtimeðferð þegar líkur eru á samþykki umsóknar.
- 4. gr. Flýtimeðferð þegar sérstakar ástæður er varða umsækjanda mæla með því.
- 5. gr. Flýtimeðferð þegar umsókn um hæli er bersýnilega tilhæfulaus.
- 6. gr. Flýtimeðferð þegar umsækjandi um hæli gefur ófullkomnar eða misvísandi upplýsingar eða þegar þær upplýsingar gefa ekki tilefni til að ætla að ákvæði 44. gr. útlendingalaga eigi við.
- 7. gr. Flýtimeðferð þegar um endurtekna umsókn er að ræða eftir synjun hælisumsóknar eða þegar umsókn hefur verið dregin til baka.
- 8. gr. Flýtimeðferð þegar víst má telja að umsókn um hæli sé lögð fram í því skyni að tefja framkvæmd ákvörðunar um brottvísun.
- 9. gr. Gildistaka.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um umsóknir um hæli sem teknar eru til efnismeðferðar og sæta sérstakri málsmeðferð, þ.e. flýtimeðferð.
Umsókn um hæli í máli sem tekið er til efnismeðferðar getur sætt flýtimeðferð, m.a. þegar:
- líkur eru á að umsókn um hæli verði samþykkt eða þegar sérstakar ástæður er varða umsækjanda mæla með því, þ.m.t. ef um fylgdarlaust barn er að ræða eða einstakling sem hefur þörf á ríkri vernd eða aðstoð,
-
umsókn er bersýnilega tilhæfulaus, þ.e.:
- útlendingur hefur ríkisfang í ríki þar sem hann þarf ekki að óttast ofsóknir eða meðferð sem brýtur gegn 44. gr. útlendingalaga eða það sama á við um ríki þar sem ríkisfangslaus einstaklingur hefur áður haft reglulegt aðsetur, eða
- senda má útlending til ríkis þar sem hann þarf ekki að óttast ofsóknir eða meðferð sem brýtur gegn 44. gr. útlendingalaga,
- umsækjandi hefur gefið ófullkomnar eða misvísandi upplýsingar til stuðnings umsókn sinni eða þær upplýsingar sem umsækjandi hefur veitt gefa ekki tilefni til að ætla að 44. gr. útlendingalaga eigi við um hann,
- um endurtekna umsókn er að ræða eftir synjun hælisumsóknar eða umsókn hefur verið dregin til baka,
- víst má telja að umsókn sé í því skyni gerð að tefja framkvæmd ákvörðunar um brottvísun.
2. gr. Nánar um flýtimeðferð.
Í flýtimeðferð felst að ekki er talin þörf á fullri efnismeðferð umsóknar um hæli, afgreiðslu umsóknar er forgangsraðað á undan öðrum umsóknum um hæli og/eða frestir í málsmeðferðinni eru styttri en þegar mál hljóta fulla efnismeðferð, s.s. vegna gagnaöflunar.
Útlendingastofnun getur tekið viðtal við umsækjanda um hæli fljótlega eftir komu hans til landsins í því skyni að greina hvort umsókn hans skuli sæta flýtimeðferð.
Við mat á því hvort umsókn um hæli skuli sæta flýtimeðferð samkvæmt. 5.-8. gr. skal sérstaklega litið til þess hvort aðstæður umsækjanda mæli eindregið gegn slíkri málsmeðferð, svo sem þegar umsækjandi glímir við alvarlegan heilsubrest, andlegan eða líkamlegan, eða grunur leikur á að umsækjandi sé fórnarlamb mansals.
Útlendingastofnun tilkynnir umsækjanda um hæli hvort mál hans sæti flýtimeðferð og hvaða þýðingu það hafi fyrir umsækjanda, m.a. með tilliti til fresta og málshraða. Þá ber stofnuninni einnig að tilkynna umsækjanda verði breyting á tegund málsmeðferðar.
3. gr. Flýtimeðferð þegar líkur eru á samþykki umsóknar.
Við mat á því hvort líkur séu á að umsókn um hæli verði samþykkt skal m.a. litið til þess hvort umsækjandi um hæli komi frá ríki sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur gefið tilmæli um að borgarar þess lands skuli almennt njóta verndar á grundvelli flóttamannasamningsins.
4. gr. Flýtimeðferð þegar sérstakar ástæður er varða umsækjanda mæla með því.
Heimilt er að taka umsókn um hæli til flýtimeðferðar þegar sérstakar ástæður er varða umsækjanda mæla með því.
Sjónarmið sem líta skal til við mat á því hvort sérstakar ástæður er varða umsækjanda séu til staðar, er m.a. þegar:
- um fylgdarlaust barn er að ræða,
- heilsufarsástand umsækjanda mælir með því,
- umsækjandi telst vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, svo sem vegna kyns eða kynhneigðar, fötlunar eða aldurs, eða grunur leikur á um að umsækjandi sé fórnarlamb pyntinga,
- aðrar aðstæður er varða umsækjanda mæla með því.
Við mat á því hvort heilsufarsástand eða aðstæður umsækjanda gefi tilefni til þess að umsókn hans verði tekin til flýtimeðferðar, ber bæði að líta til andlegrar og líkamlegrar heilsu. Liggja þarf fyrir staðfesting frá heilbrigðisstarfsmanni eða öðrum viðeigandi fagaðila um heilsufarsástand og/eða aðstæður umsækjanda.
5. gr. Flýtimeðferð þegar umsókn um hæli er bersýnilega tilhæfulaus.
Heimilt er að taka umsókn um hæli til flýtimeðferðar þegar umsókn er bersýnilega tilhæfulaus, þ.e. þegar:
- útlendingur hefur ríkisfang í ríki þar sem hann þarf ekki að óttast ofsóknir eða meðferð sem brýtur gegn 44. gr. útlendingalaga, eða það sama á við um ríki þar sem ríkisfangslaus einstaklingur hefur áður haft reglulegt aðsetur, eða
- senda má útlending til ríkis þar sem hann þarf ekki að óttast ofsóknir eða meðferð sem brýtur gegn 44. gr. útlendingalaga.
Þegar útlendingur hefur ríkisfang, eða kemur frá ríki, þar sem hann þarf ekki að óttast ofsóknir eða meðferð sem brýtur gegn 44. gr. útlendingalaga, er Útlendingastofnun heimilt að líta svo á að útlendingur komi frá öruggu ríki. Við mat á því skal ávallt byggt á nýjustu upplýsingum um stöðu og aðstæður í ríkinu, t.d. skýrslna annarra ríkja, viðurkenndra alþjóðastofnana og mannréttindasamtaka. Við mat á því hvort útlendingur komi frá öruggu ríki skal jafnframt ávallt litið til einstaklingsbundinna aðstæðna viðkomandi umsækjanda um hæli sem geta haft áhrif á niðurstöðu málsins.
Í málum þeim sem greinir í a- og b-lið 1. mgr. er Útlendingastofnun heimilt að styðjast við lista yfir ríki sem almennt eru álitin örugg upprunaríki. Með öruggu upprunaríki er átt við ríki þar sem einstaklingar eiga almennt ekki á hættu að verða ofsóttir eða verða fyrir alvarlegum mannréttindabrotum. Útlendingastofnun er skylt að halda með skipulegum hætti utan um slíkan lista. Skal hann uppfærður reglulega og birtur á vef Útlendingastofnunar. Þrátt fyrir ákvæði þetta skal ávallt tryggt að heildarmat fari fram á einstaklingsbundnum aðstæðum umsækjanda.
Við mat á því hvort ríki telst öruggt skal m.a. líta til eftirtalinna sjónarmiða:
- hvort ríkið búi við stöðugt lýðræði,
- hvort ríkið hafi fullgilt helstu alþjóðlegu mannréttindasáttmála, þ. á m. mannréttindasáttmála Evrópu, og hvort þeim sé framfylgt,
- hvort dómskerfið í ríkinu sé sjálfstætt og óvilhallt og hvort réttlát málsmeðferð sé tryggð innan dómskerfisins,
- hvort alvarleg mannréttindabrot eigi sér stað í ríkinu.
6. gr. Flýtimeðferð þegar umsækjandi um hæli gefur ófullkomnar eða misvísandi upplýsingar eða þegar þær upplýsingar gefa ekki tilefni til að ætla að ákvæði 44. gr. útlendingalaga eigi við.
Heimilt er að taka umsókn um hæli til flýtimeðferðar þegar umsækjandi um hæli gefur ófullkomnar eða misvísandi upplýsingar til stuðnings umsókn sinni, t.d. í þeim tilgangi að villa um fyrir stjórnvöldum og/eða hindra fullnægjandi rannsókn málsins þannig að hafi neikvæð áhrif á niðurstöðu í málinu.
Heimilt er að taka umsókn um hæli til flýtimeðferðar þegar umsækjandi um hæli gefur upplýsingar til stuðnings umsókn sinni sem gefa ekki tilefni til að ætla að ákvæði 44. gr. útlendingalaga eigi við, svo sem þegar umsækjandi ber ekki við ofsóknum eða annarri ómannúðlegri meðferð. Dæmi um það getur verið þegar ástæður flótta eru eingöngu af efnahagslegum orsökum.
7. gr. Flýtimeðferð þegar um endurtekna umsókn er að ræða eftir synjun hælisumsóknar eða þegar umsókn hefur verið dregin til baka.
Heimilt er að taka umsókn um hæli til flýtimeðferðar þegar um endurtekna umsókn er að ræða eftir að hælisumsókn hefur verið synjað eða þegar umsókn um hæli hefur verið dregin til baka.
Við mat á þessu skal þó ávallt líta til þess hvort nýjar upplýsingar eða aðstæður hafa komið fram í málinu eftir að umsókn var synjað eða dregin til baka, sem áhrif geta haft á niðurstöðu málsins, s.s. ef umsækjandi hefur yfirgefið Ísland og farið til upprunaríkis en snýr til baka.
8. gr. Flýtimeðferð þegar víst má telja að umsókn um hæli sé lögð fram í því skyni að tefja framkvæmd ákvörðunar um brottvísun.
Heimilt er að taka umsókn um hæli til flýtimeðferðar þegar víst má telja að umsókn um hæli sé lögð fram í því skyni að tefja framkvæmd ákvörðunar um brottvísun. Sjónarmið sem líta skal til er að fyrir liggi ákvörðun um brottvísun sem birt var áður en umsókn um hæli var lögð fram.
Við mat á því hvort umsókn sæti flýtimeðferð samkvæmt ákvæði þessu skal ávallt hafa í huga meginreglu 45. gr. útlendingalaga um bann við því að vísa fólki brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu.
9. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 4. mgr. 50. gr. d í lögum um útlendinga, nr. 96/2002, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.
Innanríkisráðuneytinu, 3. september 2014.
Hanna Birna Kristjánsdóttir
innanríkisráðherra.
Ragnhildur Hjaltadóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.