Prentað þann 2. jan. 2025
807/2011
Reglugerð um meðafla skipa sem stunda veiðar á Austur-Atlantshafs bláuggatúnfiski.
1. gr.
Skip sem stunda veiðar á Austur-Atlantshafs bláuggatúnfiski er skylt að sleppa lifandi afla eftirfarandi tegunda: sjávarskjaldbökum, sleggjuháfum (enska: hammerhead sharks, latína: spyrnidae), hvítuggaháfum (enska: oceanic whitetip sharks, latína: carcharihinus longimanus) og glyrnuskottháfum (enska: bigeye thresher sharks, latína: alopia supercilliosus).
Sé þess engin kostur að sleppa aflanum lifandi er skylt að koma með hann að landi. Halda skal aflanum aðskildum frá öðrum afla og skal skila honum til Hafrannsóknastofnunar þegar við löndun. Bannað er að selja eða fénýta á annan hátt afla þessara tegunda.
2. gr.
Skrá skal í afladagbók allan afla fyrrgreindra tegunda, hvort sem honum er sleppt lifandi eða skilað til Hafrannsóknastofnunar.
3. gr.
Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum III. kafla laga nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og ákvæðum laga nr. 116, 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.
4. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og ákvæðum laga nr. 116, 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 26. ágúst 2011.
F. h. r.
Jóhann Guðmundsson.
Brynhildur Benediktsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.