Fara beint í efnið

Prentað þann 2. des. 2021

Breytingareglugerð

779/2007

Reglugerð um breytingu á reglugerð um fis nr. 780/2006.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

1. gr. orðist svo:

Fis (microlight) er loftfar sem hefur ekki fleiri en tvö sæti og hefur ofrishraða í lendingarham (VSO) að hámarki 35 hnúta (65 km/klst.) sýndan hraða leiðréttan (CAS) og:

sem landfis (landplane) með einu sæti og tómaþunga ekki hærri en 210 kg og hámarksflugtaksmassa ekki hærri en 300 kg eða
sem landfis með tveimur sætum og tómaþunga ekki hærri en 300 kg og hámarksflugtaksmassa ekki hærri en 450 kg eða
sem láðs og lagar fis (amphibian) eða fis á flotum (floatplane) með einu sæti og tómaþunga sem er ekki hærri en 240 kg og hámarksflugtaksmassa sem er ekki hærri en 330 kg eða
sem láðs og lagarfis eða fis á flotum með tveimur sætum og tómaþunga sem er ekki hærri en 345 kg og hámarksflugtaksmassa sem er ekki hærri en 495 kg, að því tilskyldu að hægt sé að nota fisið bæði sem fis á flotum og sem landfis þannig að það sé innan marka beggja flokka hvað varðar hámarksflugtaksmassa, eins og við á.

Heimilt er að draga þyngd neyðarbúnaðar frá ofangreindum viðmiðunarþyngdum að því tilskyldu að hámarksflugtaksmassi verði aldrei meiri en sá hámarksflugtaksmassi sem framleiðandi loftfars gefur upp fyrir loftfarið. Neyðarbúnaður telst vera: neyðarfallhlíf, slökkvitæki, björgunarvesti, sjúkrakassi, neyðarsendir, neyðarteppi og aukatalstöð.

Sýnt skal fram á að gerðir hafi verið jafnvægisútreikningar vegna ísetningar alls búnaðar.

Hreyfillaust loftfar sem er léttara en 70 kg telst til fisa án hreyfils. Hreyfilknúið loftfar sem er léttara en 70 kg og flugtak er af fæti telst til fisa án hreyfils. Fallhlífar (parachutes) teljast ekki til fisa.

2. gr.

1. mgr. 3. gr. orðist svo:

Til þess að starfrækja fis innan íslenskrar lofthelgi skal stjórnandi hreyfilknúsins fiss hafa:

 1. heimild flugmálastjórnar Íslands til starfrækslu og skal skrá hreyfilknúið fis í fisskrá flugmálastjórnar eða
 2. heimild viðurkennds fisfélags og skrá hreyfilknúið fis í fisskrá slíks félags.

3. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr.:

 1. 1. málsliður 1. mgr. orðist svo:

  Öll hreyfilknúin fis sem starfrækt eru innan íslenskrar lofthelgi skulu skráð í fisskrá Flugmálastjórnar Íslands eða fisskrá viðurkennds fisfélags.
 2. 3. málsliður 1. mgr. orðist svo:

  Umsókn skal geyma skýrslur sem nauðsynlegar eru til skrásetningar, þ.m.t. viðhaldsáætlun, og henni skulu fylgja skilríki fyri rþví að umsækjandi sé eigandi fissins, hvernær og af hverjum það er smíðað ásamt gögnum um flughæfni fiss og yfirlýsingu um lögbundnar vátryggingar.
 3. 1. málsliður 2. mgr. orðist svo:

  Hreyfilknúið fis skal bera fast skrásetningarmerki.

4. gr.

7. gr. orðist svo:

Aðeins má starfrækja hreyfilknúið fis sem hefur gilt flughæfnisskírteini. Gildistími flughæfnisskírteinis skal að hámarki vera 1. ár.

Við umsókn flughæfnisskírteinis skulu eftirfarandi upplýsingar fylgja:

 1. Skýrsla skoðunarmanns á fisinu.
 2. Greinargóð lýsing á fisinu.

Flughæfnisskírteini fellur úr gildi þegar:

 1. Eigendaskipti verða á fisinu.
 2. Fisið skemmist eða bilar verulega.
 3. Fisinu er breytt eða eiginleikum þess breytt.
 4. Ef Flugmálastjórn Íslands eða viðurkennt fisfélag kveður á um að fisið sé ekki lengur öryggt til starfrækslu.
 5. Ef lögbundnar vátryggingar falla úr gildi.
 6. Ef fisinu hefur ekki verið haldið við skv. viðhaldsáætlun.

Flugmálastjórn Íslands eða fisfélagi skal heimilt að setja sérstök skilyrði um starfrækslu fiss í flughæfnisskírteini fissins.

5. gr.

2. mgr. 9. gr. orðist svo:

Flugmálastjórn Íslands eða aðili sem stofnunin tilnefnir eða viðurkennt fisfélag hefur eftirlit með því að skráð hreyfilknúin fis séu flughæf og annast eftirlit og skoðun eftir því sem þörf krefur. Flugmálastjórn Íslands skal ætíð heimill aðgangur að fisi, viðhaldsaðstöðu þess og viðurkenndu fisfélagi eða samtökum til að rannsaka fis og skjöl er það varðar.

6. gr.

12. gr. orðist svo:

Brot á reglugerð þessari varða refsingu samkvæmt 141. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir ásamt síðari breytingum.

7. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með vísan til 2. mgr. 12. gr., 7. mgr. 28. gr., 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi.

Samgönguráðuneytinu, 6. júlí 2007.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.