Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. jan. 2022

Reglugerð með breytingum síðast breytt 19. nóv. 2015

774/2010

Reglugerð um héraðsvegi.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að stuðla að greiðum og öruggum samgöngum.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerðin gildir um kostnaðarhlutdeild fasteignareiganda vegna lagningar héraðsvegar samkvæmt vegalögum og málsmeðferð í tengslum við upptöku nýrra héraðsvega.

3. gr. Skilgreining héraðsvega.

Héraðsvegir eru vegir sem liggja að býlum, starfrækslu atvinnufyrirtækja, kirkjustöðum, opinberum skólum og öðrum opinberum stofnunum utan þéttbýlis, eru ákveðnir í staðfestu skipulagi og taldir upp í vegaskrá. Landeigandi skal þó kosta og vera veghaldari síðustu 50 m að framangreindum stöðum ef vegur endar þar.

 1. Með býli er átt við íbúðarhúsnæði þar sem er föst búseta og skráð lögheimili.
 2. Með starfrækslu atvinnufyrirtækja er átt við sjálfstæða starfsemi sem rekin er reglubundið, í nokkru umfangi og í hagnaðarskyni.
 3. Með kirkjustað er átt við sóknarkirkju eða samkomustað, opinbers og viðurkennds trúfélags hér á landi.
 4. Við skilgreiningu opinberra skóla og stofnana skal miða við hvort starfsemi sé ákveðin fjárveiting á fjárlögum.

4. gr. Vegaskrá.

Vegagerðin annast gerð og útgáfu vegaskrár og metur hvort vegur uppfylli skilyrði vegalaga um þjóðvegi. Teljist vegur uppfylla framangreind skilyrði skal hann skráður í vegaskrá.

Ef samþykkt er að taka veg í tölu héraðsvega skal sú ákvörðun taka gildi frá þeim degi er umsókn er samþykkt.

5. gr. Umsókn um nýjan héraðsveg.

Umsókn um nýjan héraðsveg skal beina til Vegagerðarinnar og skal hún uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 1. Umsókn skal vera skrifleg.
 2. Tilgreina skal nafn, kennitölu og heimilisfang umsækjanda.
 3. Lýsa þarf staðháttum, tilgreina staðsetningu.
 4. Gera skal ítarlega grein fyrir þörf á nýjum vegi.
 5. Rökstyðja skal hvort skilyrði þess að vegur teljist til héraðsvega skv. vegalögum séu uppfyllt.
 6. Umsókn skal fylgja staðfestur skipulagsuppdráttur af fyrirhugaðri legu vegar og eftir atvikum deiliskipulag mannvirkja sem ætlunin er að nýr vegur muni tengja.
 7. Hafi vegur áður verið þjóðvegur skal skýra frá ástæðum þess að vegur féll út af vegaskrá á sínum tíma.

6. gr. Niðurfelling héraðsvega.

Uppfylli vegur ekki lengur skilyrði vegalaga til að geta talist þjóðvegur skal Vegagerðin tilkynna aðilum að fyrirhugað sé að fella hann af vegaskrá frá og með næstu áramótum og þar með sé veghald hans ekki lengur á ábyrgð Vegagerðarinnar.

Aðilum skal tilkynnt skriflega þegar vegur, sem tengist fasteigninni, er felldur úr tölu þjóðvega. Í tilkynningu skal greina ástæður úrfellingar.

Ákvörðun samkvæmt þessari grein skal taka gildi um næstu áramót eftir að tilkynning samkvæmt 2. mgr. hefur verið send. Jafnframt skal afskrá veg úr vegaskrá frá sama tíma.

7. gr. Málsmeðferð.

Vegagerðin metur hvort beiðni falli undir ákvæði þessarar reglugerðar. Uppfylli beiðni ekki skilyrði hennar er synjun heimil.

Sé beiðni talin tæk til meðferðar skal leita umsagna annarra þeirra er hagsmuna eiga að gæta. Aðilum skal veittur 4 vikna frestur til að koma að athugasemdum. Að fresti liðnum skulu umsækjanda kynntar framkomnar athugasemdir og veittur 2 vikna frestur til athugasemda við þær. Að liðnum fresti skal tekin ákvörðun um beiðni að teknu tilliti til framkominna athugasemda.

Heimilt er að binda ákvörðun skilyrðum í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.

Ákvörðun skal tilkynnt umsækjanda og eftir atvikum öðrum hagsmunaaðilum skriflega.

Í tilkynningu til umsækjanda um að fallist hafi verið á beiðni, skal jafnframt tilgreina skilyrði, ef einhver eru, svo sem hvaða kostnað heimilt er að krefja umsækjanda um hlutdeild í. Að auki skal koma fram hvort fyrir liggur hvenær áætlað er að fjárveitingar fáist til verksins.

Þegar fjárveiting til lagningar vegar liggur fyrir er umsækjanda tilkynnt að ráðist verði í framkvæmdir gegn greiðslu helmings áætlaðs kostnaðar við verkið. Jafnframt getur Vegagerðin krafist þess að umsækjandi leggi fram tryggingu frá banka, tryggingafélagi eða öðru viðurkenndu fjármálafyrirtæki fyrir greiðslu hluta eða alls áætlaðs kostnaðar skv. 11. gr.

8. gr. Framkvæmdir hefjast strax.

Kjósi umsækjandi að hefja framkvæmdir strax er slíkt heimilt að fengnu samþykki frá Vegagerðinni og uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum er varða hönnun vegarins, byggingu hans og eftirlit.

Í þeim tilvikum sem greinir í 1. mgr. skal umsækjandi gera rökstudda kostnaðaráætlun í samráði við Vegagerðina.

Þegar verki er lokið og starfsmaður Vegagerðarinnar hefur gert á því úttekt, getur umsækjandi krafið Vegagerðina um endurgreiðslu helmings kostnaðar, sbr. 11. gr. á grundvelli sundurliðaðs reiknings, enda sé fjárveiting fyrir hendi.

Heimilt er að hafna endurgreiðslu kostnaðar komi í ljós að framkvæmdum hefur ekki verið hagað í samræmi við sett skilyrði.

9. gr. Framkvæmdir hafnar án samþykkis.

Hafi umsækjandi þegar hafið vegaframkvæmdir eða látið byggja veg, án leyfis og samráðs við Vegagerðina, er heimilt að hafna umsókninni þrátt fyrir að skilyrði vegalaga um héraðsvegi kunni að vera uppfyllt.

10. gr. Lega vegar og tæknileg útfærsla.

Lega vegar skal ákveðin samkvæmt staðfestum skipulagsuppdrætti. Vegagerðin ákveður tæknilega útfærslu og gerð vegar.

11. gr. Kostnaðarhlutdeild við lagningu nýrra héraðsvega.

Sé fallist á beiðni umsækjanda um lagningu nýs héraðsvegar skal skráður eigandi fasteignar greiða helming eftirfarandi kostnaðar við vegagerðina:

 1. Kostnað við kaup á landi undir veg.
 2. Hönnunarkostnað.
 3. Byggingarkostnað vegar.
 4. Kostnað vegna eftirlits með gerð vegar.

12. gr. Innheimta kostnaðar.

Eindagi greiðslu helmings kostnaðar sbr. 11. gr. skal vera að liðnum 4 vikum frá móttöku tilkynningar skv. 6. mgr. 7. gr. Vegagerðin getur heimilað umsækjanda að fresta greiðslu þar til lokauppgjör liggur fyrir að því tilskildu að trygging skv. 6. mgr. 7. gr. liggi fyrir.

Hafi kostnaðarhlutdeild ekki verið greidd á eindaga eða trygging ekki lögð fram innan sama tíma er Vegagerðinni heimilt að afturkalla ákvörðun um framkvæmd við héraðsveg.

Eigi síðar en þremur mánuðum eftir að verki lýkur skal umsækjanda og ábyrgðaraðila sent lokauppgjör vegna verksins sem byggt er á raunkostnaði verksins. Umsækjandi skal greiða að fullu kostnaðarhlutdeild samkvæmt lokauppgjöri innan mánaðar frá þeim tíma er lokauppgjör er sent til hans. Dráttarvextir reiknast frá eindaga í samræmi við ákvæði laga um vexti og verðtryggingu.

Reynist raunkostnaður lægri en áætlaður kostnaður sem greiddur hefur verið af umsækjanda skv. 1. mgr. skal umsækjanda endurgreiddur mismunurinn ásamt almennum vöxtum óverðtryggðra útlána skv. ákvörðun Seðlabanka Íslands, sbr. ákvæði laga um vexti og verðtryggingu frá greiðsludegi til þess dags er lokauppgjör er sent umsækjanda.

13. gr. Rangar og villandi upplýsingar. Endurkrafa kostnaðar.

Veiti umsækjandi rangar eða villandi upplýsingar um atvik eða aðstæður sem leiða til þess að tekin er ákvörðun um framkvæmd við héraðsveg skal umsækjandi endurgreiða allan þann kostnað sem Vegagerðin hefur haft vegna verksins, þ.m.t. allan kostnað sem tilgreindur er í 11. gr. Sama gildir ef umsækjandi í sama skyni gerir ráðstafanir sem bersýnilega eru til málamynda, s.s. með flutningi lögheimilis um skamman tíma án viðhlítandi skýringa.

Um atvik sem eru með þeim hætti að ætla má að um refsivert athæfi sé að ræða í tengslum við umsókn um héraðsveg, fer samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

14. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 20. og 58. gr. vegalaga nr. 80/2007 með síðari breytingum og tekur þegar gildi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.