Fara beint í efnið

Prentað þann 27. jan. 2022

Stofnreglugerð

773/2006

Reglugerð um leyfi til að stunda dýralækningar á Íslandi fyrir dýralækna sem hlotið hafa menntun í ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

1. gr.

Reglugerð þessi fjallar um leyfi til að stunda dýralækningar á Íslandi fyrir dýralækna, sem eru menntaðir í ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES), ásamt skilyrðum fyrir slíkri leyfisveitingu.

2. gr.

Ríkisborgarar frá EES sem hlotið hafa menntun í ríkjum innan svæðisins og uppfylla skilyrði um leyfi til að stunda dýralækningar í einhverju þessara ríkja, geta fengið leyfi til að stunda dýralækningar á Íslandi, sæki þeir um það til landbúnaðarráðherra, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr. Sérfræðititla eða aðra fagtitla sem viðkomandi hefur öðlast í heimalandi sínu eða síðasta búseturíki og sem hægt er að túlka sem sérfræðititil, má einungis nota að fengnu leyfi landbúnaðarráðherra.

Landbúnaðarstofnun skal upplýsa umsækjanda um íslenska dýralæknalöggjöf, sem lýtur að dýralækningum, svo og um námskeið sem standa til boða í íslensku.

3. gr.

Umsækjandi um leyfi til að stunda dýralækningar skv. 2. gr. þessarar reglugerðar skal leggja fram til landbúnaðarráðherra prófskírteini, vottorð eða annað skírteini sem sýnir fram á að viðkomandi sé dýralæknir samkvæmt 1. gr. tilskipunar 78/1027/EBE og viðauka við reglugerð þessa. Tilskipun 78/1027/EBE er birt sem fylgiskjal I með reglugerð þessari.

Hafi prófskírteini eða vottorð samkvæmt 1. mgr. verið gefið út fyrir gildistöku tilskipunar 78/1026/EBE í því landi sem nám var stundað eða ef það staðfestir dýralæknismenntun sem hófst fyrir þann tíma, skal leggja fram staðfestingu frá lögbæru yfirvaldi viðkomandi námsríkis að skilyrði 1. gr. tilskipunar 78/1027/EBE séu uppfyllt.

4. gr.

Umsækjendur sem leggja fram prófskírteini, vottorð eða annað skírteini sem gefið er út í aðildarríki á EES vegna menntunar sem samræmist ekki viðauka við reglugerð þessa, skal leggja fram vottorð frá lögbæru yfirvaldi í viðkomandi ríki þess efnis:

 1. að prófskírteini, vottorð eða annað skírteini sé gefið út sem staðfesting á menntun sem lokið er og uppfyllir skilyrði tilskipunar 78/1027/EBE, sbr. einnig 2. gr. tilskipunar 78/1026/EBE, sem birt er með áorðnum breytingum sem fylgiskjal II með reglugerð þessari, og
 2. að viðkomandi ríki telji menntunina sambærilega því sem fram kemur í viðauka.

5. gr.

Umsækjandi sem leggur fram prófskírteini, vottorð eða annað skírteini sem gefið er út í aðildarríki á EES vegna menntunar sem uppfyllir ekki lágmarksskilyrði sem fram koma í 1. gr. tilskipunar 78/1027/EBE, en sem annaðhvort er:

 1. gefið út áður en reglugerð þessi tók gildi, eða
 2. varðar dýralæknismenntun sem hófst fyrir þann tíma,

skal einnig leggja fram vottorð sem staðfestir að umsækjandinn hafi sannanlega stundað dýralækningar í a.m.k. þrjú ár samfellt á síðustu fimm árum áður en vottorðið var gefið út.

6. gr.

Vegna dýralæknismenntunar á Ítalíu sem hófst fyrir 1. janúar 1985, skal prófskírteinum, vottorðum eða öðrum skírteinum fylgja annaðhvort:

 1. vottorð sem staðfestir að umsækjandinn hafi sannanlega stundað dýralækningar í a.m.k. þrjú ár samfellt á síðustu fimm árum áður en vottorðið var gefið út, eða
 2. staðfestingu lögbærra yfirvalda á því að menntunin uppfylli skilyrði tilskipunar 78/1027/EBE.

7. gr.

Vegna dýralæknismenntunar í fyrrum Alþýðulýðveldinu Þýskalandi sem uppfyllir ekki lágmarksskilyrði sem fram koma í 1. gr. tilskipunar 78/1027/EBE, skal prófskírteinum, vottorðum eða öðrum skírteinum fylgja staðfesting þess efnis:

 1. að menntunin hafi hafist fyrir sameiningu Þýskalands,
 2. að menntunin veiti rétt til að stunda dýralækningar í öllu Þýskalandi líkt og skírteini sem gefin eru út af lögbærum þýskum yfirvöldum, og
 3. að umsækjandinn hafi sannanlega stundað dýralækningar í a.m.k. þrjú ár samfellt á síðustu fimm árum áður en vottorðið var gefið út.

8. gr.

Ríkisborgarar frá aðildarríkjum á EES, sem uppfylla skilyrði 6. gr. laga nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr og hafa stundað dýralækningar í heimalandi sínu eða síðasta búseturíki hafa rétt til þess að stunda dýralækningar tímabundið á Íslandi, að hámarki 12 mánuði.

Áður en slíkar dýralækningar mega hefjast, skal viðkomandi dýralæknir tilkynna Landbúnaðarstofnun um tegund dýralæknisþjónustunnar og hversu lengi hún muni vara. Tilkynningunni skal fylgja vottorð um að viðkomandi uppfylli leyfisskilyrði til að stunda dýralækningar sbr. 4. gr., og skal vottorðið ekki vera eldra en 12 mánaða. Tilkynningin getur varðað mismunandi tegundir dýralæknisþjónustu innan sama svæðis í allt að eitt ár.

Ef um bráðatilfelli er að ræða og ekki gefst tóm til að senda slíka tilkynningu áður en meðhöndlunin á sér stað, skal viðkomandi dýralæknir senda tilkynningu til Landbúnaðarstofnunar strax að lokinni meðhöndlun.

Dýralæknir má ekki kaupa, selja eða ávísa lyfseðilsskyldum lyfjum eða gefa út dýralæknisvottorð áður en tilkynning skv. 2. eða 3. mgr. hefur borist Landbúnaðarstofnun.

9. gr.

Landbúnaðarráðherra ákveður hvort leyfi til dýralækninga skv. 2. gr. reglugerðar þessarar verður gefið út. Afgreiða skal umsókn um slíkt leyfi innan þriggja mánaða nema um sé að ræða tilvik sem nefnd eru í 10. gr. tilskipunar 78/1026/EBE.

Áður en ákvörðun um leyfisumsókn er tekin skal afla umsagnar Landbúnaðarstofnunar.

Landbúnaðarstofnun skal upplýsa viðkomandi yfirvald í því eða þeim ríkjum, þar sem viðkomandi hefur starfað sem dýralæknir, um útgáfu starfsleyfis til handa umsækjanda á Íslandi.

10. gr.

Landbúnaðarstofnun skal tilkynna yfirvöldum í heimaríki dýralæknisins um:

 1. viðurlög við alvarlegu misferli í störfum sínum sem dýralæknir á Íslandi;
 2. innköllun starfsleyfis sem dýralæknir;
 3. leyfissviptingar eða dómsmál sem tengjast leyfinu.

11. gr.

Landbúnaðarstofnun skal tilkynna lögbæru yfirvaldi í heimaríki dýralæknis á EES innan þriggja mánaða frá móttöku upplýsinga um að dýralæknir hafi sætt refsingu.

12. gr.

Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt 19. gr. laga nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr.

13. gr.

Höfð var hliðsjón af ákvæðum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Byggt er á tilskipun 78/1026/EBE og 78/1027/EBE, með áorðnum breytingum, síðast með tilskipun 2001/19/EB, sem öðlast gildi hér á landi með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 84/2002.

Vísað er til VII. viðauka samningsins, kafla C, 12. tl., vegna tilskipunar 78/1026/EEC, um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi í dýralækningum, að meðtöldum ráðstöfunum er auðvelda að staðfesturéttar og réttar til að veita þjónustu sé neytt. Einnig er vísað til kafla C, 13. tl., vegna tilskipunar 78/1027/EEC, um samræmingu á ákvæðum er varða starfsemi dýralækna og sett eru með lögum eða stjórnsýslufyrirmælum.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 17. gr. laga nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, sbr. einnig ákvæði 6. gr. laganna og tekur þegar gildi.

Landbúnaðarráðuneytinu, 30. ágúst 2006.

F. h. r.

Ólafur Friðriksson.

Baldur P. Erlingsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.