Fara beint í efnið

Prentað þann 19. jan. 2022

Stofnreglugerð

770/2008

Reglugerð um fjareftirlit.

1. gr.

Reglugerð þessi tekur til allra íslenskra fiskiskipa sem hafa leyfi Fiskistofu til að stunda fiskveiðar í atvinnuskyni innan og utan lögsögu Íslands.

2. gr.

Öll skip sem stunda fiskveiðar sbr. 1. gr. skulu búin fjarskiptabúnaði, sem sendir með sjálfvirkum hætti á að minnsta kosti klukkustundar fresti til sameiginlegrar eftirlitsstöðvar Landhelgisgæslu og Fiskistofu upplýsingar um staðsetningu, stefnu og hraða viðkomandi skips. Óheimilt er að hefja veiðiferð fyrr en eftirlitsstöðin staðfestir að ofangreindur búnaður sé um borð og starfi eðlilega. Skulu sendingar samkvæmt ofangreindu hefjast þegar viðkomandi skip lætur úr höfn og skal þeim ekki ljúka fyrr en skipið kemur til hafnar að nýju til löndunar afla. Skipstjóri skal tilkynna eftirlitsstöðinni handvirkt þegar haldið er úr og þegar komið er til hafnar.

3. gr.

Ef búnaður til sjálfvirkra sendinga samkv. 2. gr. bilar meðan á veiðiferð stendur, skal tilkynna eftirlitsstöðinni það án tafar. Jafnframt skal gert við búnaðinn svo fljótt sem mögulegt er, þó ekki síðar en að 30 dögum liðnum. Óheimilt er að láta úr höfn ef eftirlitsbúnaðurinn er bilaður nema með sérstöku leyfi eftirlitsstöðvarinnar. Þar til búnaðurinn er kominn í lag skal með öðrum hætti senda eftirlitsstöðinni upplýsingar um staðsetningu, stefnu og hraða skipsins á 6 klukkustunda fresti.

4. gr.

Brot á reglugerð þessari skulu varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 116, 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum og lögum nr. 151, 27. desember 1996, um veiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum.

5. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 4. mgr. 18. gr. laga nr. 116, 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum og lögum nr. 151, 27. desember 1996, um veiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum, til þess að öðlast þegar gildi og komi til framkvæmda 1. september 2008 og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 17. júlí 2008.

Einar K. Guðfinnsson.

Steinar I. Matthíasson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.