Fara beint í efnið

Prentað þann 22. des. 2024

Stofnreglugerð

711/2018

Reglugerð um veiðar á kúfskel.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Allar veiðar á kúfskel til manneldis í fiskveiðilandhelgi Íslands eru óheimilar nema að fengnu sérstöku leyfi Fiskistofu. Leyfi til kúfskelveiða skulu gefin út fyrir hvert fiskveiðiár. Krókaaflmarksbátum sem fá leyfi til kúfskelveiða til manneldis samkvæmt þessari grein er heimilt að veiða með plóg.

Með umsókn skal fylgja samningur um vinnslu á kúfskel í landi eða jafngild yfirlýsing þegar um eigin vinnslu er að ræða. Í báðum tilfellum þarf staðfesting frá MAST að fylgja um að viðkomandi vinnsla hafi gilt vinnsluleyfi frá MAST.

Ráðherra er heimilt að fela Fiskistofu að fella úr gildi öll leyfi til kúfskelveiða sé talin ástæða til að takmarka veiðarnar eða endurskipuleggja stjórnun þeirra.

2. gr.

Krókaaflmarksbátum er heimilt að veiða kúfskel til notkunar í beitu til eigin nota með plóg og fer um þær veiðar eftir reglugerð þessari eftir því sem við á.

3. gr.

Allar veiðar á kúfskel eru bannaðar innan einnar sjómílu fjarlægðar frá punkti 66°26´N, 15°52´V.

Veiðar á kúfskel til manneldis eru einungis heimilar á svæðum sem hafa verið heilnæmiskönnuð af Matvælastofnun (MAST).

4. gr.

Við vigtun og skráningu á kúfskel gilda ákvæði reglugerðar um vigtun og skráningu sjávarafla og reglugerðar um afladagbækur.

5. gr.

Fiskistofa skal veita áminningar og svipta skip leyfi til kúfskelsveiða, eða eftir atvikum leyfi til veiða í atvinnuskyni, vegna brota á ákvæðum leyfisbréfa eða reglugerð þessari eftir því sem nánar er fyrir mælt í lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum nr. 57/1996, um umgengi um nytjastofna sjávar.

6. gr.

Brot á ákvæðum leyfisbréfa eða reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, lögum nr. 56/1997, um umgengni um nytjastofna sjávar og lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

7. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar og lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 1011/2013, um veiðar á kúfskel.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 13. júlí 2018.

Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Erna Jónsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.