Fara beint í efnið

Prentað þann 20. jan. 2022

Stofnreglugerð

705/2009

Reglugerð um asbestúrgang.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að koma í veg fyrir heilsutjón og mengun af völdum niðurrifs asbests og meðhöndlunar asbestsúrgangs.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til meðhöndlunar asbestsúrgangs, þar með talið förgunar á asbesti og vörum úr asbesti.

Um meðhöndlun asbests á vinnustöðum gilda lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum auk reglugerðar um bann við notkun asbests á vinnustöðum.

3. gr. Skilgreiningar.

Með asbesti er átt við eftirfarandi þráðlaga, kristölluð sílikatsambönd, bæði sem hreint asbest og í blöndu af öðrum efnum:

CAS nr. (Chemical Abstracts Service)
Krýsótíl (hvítt asbest) 12001-29-5
Krókídólít (blátt asbest) 12001-28-4
Amósít (brúnt asbest) 12172-73-5
Aktínólít 77536-66-4
Antófyllít 77536-67-5
Tremólít 77536-68-6

Um skilgreiningar á hugtökunum endurvinnsla, förgun, meðhöndlun, móttökustöð og úrgangur er vísað til skilgreininga á þeim í lögum um meðhöndlun úrgangs.

4. gr. Starfsleyfisskylda.

Starfsemi sem felur í sér endurvinnslu á vörum sem innihalda asbest er óheimil.

Atvinnurekstur sem gæti haft í för með sér losun asbests út í umhverfið, þar með talið niðurrif bygginga, byggingahluta eða búnaðar, er starfsleyfisskyldur, sbr. reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Heilbrigðisnefnd viðkomandi sveitarfélags veitir starfsleyfi fyrir slíka starfsemi.

Niðurrif bygginga, byggingahluta, véla eða annars búnaðar sem inniheldur asbest er háð samþykki Vinnueftirlits ríkisins, sbr. reglugerð um bann við notkun asbests á vinnustöðum.

5. gr. Meðhöndlun úrgangs.

Eigi má farga asbesti nema að fengnu leyfi heilbrigðisnefndar viðkomandi sveitarfélags að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar. Asbestúrgangur skal fluttur til förgunar á viðurkennda móttökustöð. Við urðun asbestsúrgangs skal fylgja fyrirmælum í lið 2.3.3. í II. viðauka reglugerðar um urðun úrgangs.

Tryggja skal að við flutning og losun úrgangs sem inniheldur asbest sé engum asbesttrefjum eða asbestryki hleypt út í andrúmsloftið. Jafnframt skal þess gætt að vökva, sem kann að innihalda asbesttrefjar, verði fargað þannig að asbesttrefjar berist ekki út í andrúmsloftið.

Þegar úrgangur sem inniheldur asbest er urðaður skal tryggja að hann sé meðhöndlaður, pakkaður og þakinn þannig að komið sé í veg fyrir að asbestagnir berist út í umhverfið.

6. gr. Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða varða brot á reglugerð þessari fangelsi allt að fjórum árum. Tilraun til brots gegn reglugerð þessari varðar refsingu sem fullframið brot, sbr. III. kafla almennra hegningarlaga. Sama gildir um hlutdeild í broti.

Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Einnig má, með sama skilorði, gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa gerast sekir um brot.

7. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og að höfðu samráði við félags- og tryggingamálaráðuneytið hvað snertir afskipti Vinnueftirlits ríkisins.

Reglugerðin er sett til innleiðingar á tilskipun ráðsins 87/217/EBE um að koma í veg fyrir og draga úr asbestmengun í umhverfinu, sem vísað er til í 18. tl., XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytinu, 27. júlí 2009.

F. h. r.
Sigríður Auður Arnardóttir.

Sigurbjörg Sæmundsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.