Fara beint í efnið

Prentað þann 24. jan. 2022

Stofnreglugerð

700/2019

Reglugerð um Náttúruhamfaratryggingu Íslands.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um vátryggingar hjá Náttúruhamfaratryggingu Íslands gegn beinu tjóni af völdum náttúruhamfara.

2. gr. Áhætta sem vátryggt er gegn.

Þær náttúruhamfarir sem vátryggt er gegn með náttúruhamfaratryggingu, sbr. 4. gr. laga nr. 55/1992, um Náttúruhamfaratrygginu Íslands, eru:

 1. Eldgos, þ.e. þegar hraun, aska eða gjóska veldur skemmdum eða eyðileggingu á vátryggðum eignum.
 2. Jarðskjálfti sem veldur skemmdum eða eyðileggingu á vátryggðum eignum.
 3. Skriðufall, þ.e. þegar skriða úr fjalli eða hlíð fellur skyndilega á vátryggðar eignir með þeim afleiðingum að þær skemmast eða eyðileggjast.
 4. Snjóflóð, þ.e. þegar snjóskriða fellur skyndilega úr fjalli eða hlíð á vátryggða eign með þeim afleiðingum að hún skemmist eða eyðileggst. Það telst ekki snjóflóð þegar eignir sligast eða brotna undan snjó sem safnast á eða að þeim vegna snjókomu, skafrennings eða foks.
 5. Vatnsflóð, þ.e. þegar flóð verða vegna þess að ár eða lækir sem renna að staðaldri flæða skyndilega yfir bakka sína eða flóðbylgjur frá sjó eða vötnum ganga skyndilega á land og valda skemmdum eða eyðileggingu á vátryggðum eignum. Það er einnig vatnsflóð þegar skyndileg flóð koma frá jökli vegna bráðnunar íss. Flóð vegna úrkomu og leysingavatns sem falla ekki undir 1. málsl. teljast ekki vatnsflóð. Sama á við um flóð, sem að einhverju eða öllu leyti verða af mannavöldum, t.d. þegar vatnsgeymar, stíflugarðar eða önnur mannvirki bresta af öðrum ástæðum en náttúruhamförum.

Skemmist vátryggðar eignir í eldsvoða, sem beinlínis verður rakinn til einhverra ofangreindra náttúruhamfara, skal Náttúruhamfaratrygging Íslands greiða bætur fyrir tjónið.

3. gr. Lausafé sem skylt er að vátryggja.

Eftirtalið lausafé er skylt að vátryggja, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 55/1992, um Náttúruhamfaratryggingu Íslands:

 1. Lausafé sem er brunatryggt hjá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi hér á landi, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna og eignir sem eru tryggðar skv. 8. tölul. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi.
 2. Lausafé sem er vátryggt með almennri samsettri vátryggingu sem inniheldur brunatryggingu og flokkast undir eignatryggingar skv. 5. tölul. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna.
 3. Lausafé sem stjórn Náttúruhamfaratryggingar Íslands hefur samþykkt sérstaklega að sé vátryggt, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna.

4. gr. Mannvirki sem skylt er að vátryggja.

Skylt er að vátryggja eftirtalin mannvirki, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 55/1992, um Náttúruhamfaratryggingu Íslands:

 1. Hitaveitur í eigu sveitarfélaga eða ríkissjóðs ásamt dreifikerfi þeirra fyrir heitt vatn eða gufu, þar á meðal lagnir í jörðu, þó ekki borholur eða neinn þann búnað eða lagnir sem í þeim er. Vátryggja skal dælur ofanjarðar, dælustöðvar, vatnsgeyma, svo og stöðvar til hitunar með jarðhita eða öðrum orkugjöfum.
 2. Vatnsveitur í eigu sveitarfélaga eða ríkissjóðs, þar á meðal lagnir í jörðu og safnkerfi, þó ekki borholur eða djúpbrunna eða neinn þann búnað eða lagnir sem í þeim er. Vátryggja skal dælur ofanjarðar, dælustöðvar og vatnsgeyma.
 3. Skolpveitur í eigu sveitarfélaga eða ríkissjóðs, þar á meðal dælu- og hreinsunarstöðvar.
 4. Varanleg hafnarmannvirki í eigu sveitarfélaga eða ríkissjóðs, þ.e. bryggjur, hafnarbakka, fasta hafnarkrana, fastan ljósabúnað, raflagnir, ljósastaura, tengikassa, vatns- og fráveitulagnir, polla og bundið slitlag á hafnarbakka, en ekki krana á spori, hjólum eða beltum eða önnur laus tæki og lausan búnað, sem tilheyrir höfnum. Eigi skal vátryggja aðra hafnarbakka en þá, sem klæddir eru þili úr stáli eða tré, hlaðnir úr tilhöggnu grjóti eða gerðir úr steinsteypu eða öðru sambærilegu varanlegu efni. Til hafnarmannvirkja teljast ekki svæði, sem eru lengra en 30 m frá viðlegukanti. Brimbrjóta, grjótgarða, grjóthlífar eða önnur mannvirki til varnar bryggjum, hafnarbökkum eða tilheyrandi eignum skal ekki vátryggja.
 5. Varanlegar brýr 50 m og lengri, hvort sem þær eru í eigu sveitarfélags, ríkissjóðs eða einkaeigu. Vegir að og frá brúm teljast ekki hluti þeirra og ekki heldur varnargarðar.
 6. Raforkuvirki í eigu sveitarfélaga eða ríkissjóðs, þar á meðal dreifikerfi, stíflur veitumannvirki og götuljós.
 7. Síma- og fjarskiptamannvirki í eigu sveitarfélaga eða ríkissjóðs, þar á meðal dreifikerfi og tengibúnað sem þeim tengist, tölvu- og gagnaver og lagnir, þ.m.t. ljósleiðara.
 8. Skíðalyftur.

Mannvirki samkvæmt þessari grein teljast í eigu sveitarfélags eða ríkisjóðs ef þau eru í eigu félags sem er í meirihluta í eigu sveitarfélags eða ríkissjóðs.

Náttúruhamfaratrygging Íslands getur heimilað að mannvirki samkvæmt þessari grein, sem enn eru í smíðum, séu vátryggð.

5. gr. Breytingar á vátryggingarsamningum.

Nú er vátryggingaratburður hafin eða yfirvofandi, og er þá óheimilt að gera nýja vátryggingarsamninga eða breyta eldri samningum um eignir á þeim stað eða svæði, sem í hættu er.

6. gr. Vátryggingafjárhæð mannvirkja.

Mannvirki skv. 4. gr. skulu vátryggð fyrir áætlað endurstofnverð (endurbyggingarverð) að viðbættum 10% niðurrifskostnaði af endurstofnverði. Endurstofnverð er endurbyggingarkostnaður sambærilegra mannvirkja miðað við byggingarefni og byggingaraðferðir sem tíðkast hverju sinni. Miða skal við nýbyggingarkostnað sambærilegra eigna og taka tillit til nýjustu tækniþekkingar, verkþekkingar og efniskostnaðar. Eftirfarandi þættir eru innifaldir í endurstofnverði:

 1. Efni. Miðað er við innkaupsverð að teknu tilliti til flutnings innan svæðis og eðlilegrar rýrnunar.
 2. Vinnuliðir þ.e. launagreiðslur samkvæmt viðurkenndum launatöxtum ásamt launatengdum gjöldum miðað við meðalaðstæður á vinnumarkaði.
 3. Vélaliðir sem eru verðlagðir nægilega hátt til að standa undir afskriftum, rekstri og eðlilegri ávöxtun.
 4. Aðstaða á byggingarstað. Meðal annars vinnuskúrar, plön og byggingakranar.
 5. Hönnun arkitekta og verkfræðinga.
 6. Eftirlit á byggingartíma.
 7. Stjórnunarkostnaður verktaka og verkkaupa.
 8. Tryggingar á byggingartíma.
 9. Fjármagnskostnaður á byggingartíma.
 10. Virðisaukaskattur.

Eigendur mannvirkja skv. 4. gr. skulu senda Náttúruhamfaratryggingu Íslands skrá yfir öll mannvirki þeirra fyrir 1. mars ár hvert ásamt áætlun um endurstofnverð þeirra miðað við verðlag 1. janúar sama ár. Eigandi mannvirkis ber ábyrgð á því að endurstofnverð mannvirkis sé rétt á hverjum tíma.

Eigendum mannvirkja er skylt að tilkynna Náttúruhamfaratryggingu Íslands þegar ný mannvirki skv. 4. gr. eru tekin í notkun og jafnframt að tilkynna nýtt og breytt endurstofnverð. Vátrygging mannvirkis tekur gildi þegar Náttúruhamfaratrygging Íslands hefur sannanlega móttekið tilkynningu þess efnis og skrá um endurstofnverð þess. Sama á við þegar um er að ræða breytingar eða endurbætur á eldri mannvirkjum. Við eigendaskipti skal ekki fella niður vátryggingu nema fyrir liggi staðfesting á nýrri vátryggingu.

Ef eigandi mannvirkis uppfærir ekki vátryggingarfjárhæðir milli ára, skal miða uppfærslu endurstofnverðs við byggingarvísitölu. Ef ástæða er til að ætla að áætlun sé óraunhæf eða eigandi mannvirkis hefur vanrækt að láta í té upplýsingar um eignir, sem skylt er að vátryggja, getur Náttúruhamfaratrygging Íslands kvatt til tvo sérfróða og óvilhalla menn til að meta eignirnar og endurstofnverð þeirra og er niðurstaðan bindandi sem vátryggingarfjárhæð. Sé endurstofnverð byggt á óraunhæfri áætlun eða eigandi vanrækir upplýsingagjöf skal hann bera kostnað af matinu.

7. gr. Upplýsingar um iðgjöld.

Vátryggingafélög, er brunatryggja eignir, sem vátryggðar eru hjá Náttúruhamfaratryggingu Íslands skv. 1. mgr. 5. gr., sbr. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 55/1992, um Náttúruhamfaratryggingu Íslands, skulu mánaðarlega gefa stofnuninni skýrslu um innheimt iðgjöld í næstliðnum mánuði og greiða náttúruhamfaratryggingariðgjöldin eigi síðar en 15. þess mánaðar.

Ef iðgjald er í vanskilum skal vátryggingafélag innheimta dráttarvexti eftir ákvæðum vaxtalaga.

Nú greiðir vátryggingafélag ekki iðgjöld eða dráttarvexti skv. framangreindu og skal félagið þá greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð í samræmi við ákvæði vaxtalaga. Vátryggingafélög skulu árlega senda Náttúruhamfaratryggingu Íslands sundurliðaða skýrslu um vátryggingarfjárhæðir, iðgjöld og dráttarvexti. Skýrslan skal vera í því formi, sem stofnunin ákveður.

8. gr. Gjalddagi iðgjalda.

Gjalddagi iðgjalda sem Náttúruhamfaratrygging Íslands innheimtir sjálf skal vera 1. apríl ár hvert.

Ef iðgjald er ekki greitt innan fjögurra vikna frá gjalddaga skal skuldari greiða dráttarvexti frá gjalddaga samkvæmt ákvæðum vaxtalaga.

9. gr. Tilkvaddir matsmenn.

Þegar vátryggingaratburður hefur orðið skal Náttúruhamfaratrygging Íslands gera ráðstafanir til að skoða og meta tjón og getur hún til þess, eftir atvikum kvatt til hæfan og óvilhallan matsmann eða -menn.

Náttúruhamfaratrygging Íslands getur eftir atvikum óskað þess að tjón skuli metið af dómkvöddum matsmanni eða -mönnum. Um kostnað af mati dómkvaddra manna fer eftir almennum reglum.

Ætíð skal gefa vátryggðum kost á að vera viðstaddur skoðun og koma sjónarmiðum sínum á framfæri við matsmann eða -menn.

Matsmaður eða -menn skulu skila skriflegri matsgerð og ljúka störfum svo fljótt sem kostur er.

10. gr. Ákvörðun bóta.

Við ákvörðun bóta skal fara eftir meginreglum vátryggingaréttar, sbr. m.a. eftirfarandi reglur:

 1. Vátryggingin greiðir einungis bætur fyrir beint tjón á vátryggðu lausafé, húseignum og mannvirkjum skv. 5. gr. laga nr. 55/1992, um Náttúruhamfaratryggingu Íslands. Vátryggingin bætir hvorki afleitt tjón svo sem rekstrartap, né tjón, sem hlýst af því, að eign varð ekki notuð á þeim tíma eða með þeim hætti, sem ráðgert hafði verið, auk annars óbeins tjóns.
 2. Vátryggingarfjárhæð veitir ekki sönnun fyrir verðmæti eignar sem vátryggð er skv. 5. gr. laga nr. 55/1992. Hún er þó ávallt hámark þeirrar ábyrgðar, sem miða skal við, þegar bætur eru ákveðnar.
 3. Verðmæti vátryggðra eigna skv. 5. gr. laga nr. 55/1992 skal ákveðið með hliðsjón af því hvert var raunverulegt verðmæti þeirra á verðlagi, þegar vátryggingaratburður varð. Skal þá tekið tillit til verðrýrnunar vegna aldurs, notkunar, minnkaðs notagildis eða annarra ástæðna. Verðmæti vátryggðs lausafjár skv. 3. gr. sem fylgir almennu heimilishaldi, svo sem húsgagna, heimilistækja, lausra gólfteppa, fatnaðar, bóka og líns, miðast við nývirði, það er þá upphæð er þurft hefði til kaupa á hlutum þeim er fórust eða skemmdust á því verðlagi sem síðast var á slíkum hlutum áður en tjónið varð að frádreginni hæfilegri fjárhæð vegna verðrýrnunar sökum minnkaðs notagildis eða annarra atvika.
 4. Bætur fyrir vörur, sem vátryggður hefur framleitt til sölu verðleggjast á kostnaðarverði. Bætur fyrir vörur í framleiðslu verðleggjast samkvæmt innkaupsverði á hráefni að viðbættum áföllnum kostnaði. Innkaupsverð og kostnaður miðast við verðlag á tjónsdegi.
 5. Við ákvörðun bóta vegna eigna skv. 5. gr. laga nr. 55/1992 þegar um tjón að hluta er að ræða ákvarðast bætur eftir því hvað kostar að gera við hið skemmda svo það verði eins eða sem næst því eins og fyrir vátryggingaratburðinn, að teknu tilliti til 1. mgr. 3. tölul. Bætur sem þannig eru ákvarðaðar geta aldrei orðið hærri en mismunur á verðmæti hlutar fyrir tjónið og verðmæti hans eftir tjónið. Tjónþoli skal varðveita skemmda eign eða hlut eftir því sem kostur er, þar til hann fær tjónið bætt. Tjónþoli skal gefa Náttúruhamfaratryggingu Íslands kost á að skoða og meta tjónið áður en viðgerð hefst eða skemmdum eignum eða lausafé er ráðstafað. Fargi tjónþoli skemmdum eignum eða lausafé getur það varðað lækkun eða missi bóta eftir lögum um vátryggingasamninga. Við ákvörðun bóta vegna eigna skv. 5. gr. laga nr. 55/1992, þegar eignin eyðileggst algerlega, skal meta hvort vátryggingafjárhæð skv. 2. tölul. sé í samræmi við raunverulegt verðmæti eignar á tjónsdegi, skv. 3. tölul.
 6. Ef vátryggður hlutur er meira virði en vátryggingarfjárhæðinni nemur bætist tjónið hlutfallslega þannig:

Tjónsfjárhæð x vátryggingarfjárhæð / raunverulegt verðmæti = bætur.

Eigin áhætta vátryggðs dregst frá bótafjárhæð þeirri, sem þannig er fengin.

11. gr. Afmörkun eigin áhættu.

Við greiðslu bóta skal eigin áhætta vátryggðs, skv. 10. gr. laga nr. 55/1992, um Náttúruhamfaratryggingu Íslands ákvörðuð þannig:

 1. Lausafé skv. 1. mgr. 5. gr. laganna: Vátryggður ber eigin áhættu af hverju tjóni í lausafjártryggingu. Eigin áhætta miðast við hvert vátryggingarskírteini.
 2. Húseign skv. 1. mgr. 5. gr. laganna: Vátryggður ber eigin áhættu af heildartjóni húseigna á hverju fasteignanúmeri. Í fjöleignarhúsum skiptist tjón á sameign á fasteignanúmer í samræmi við eignarhluta þeirra.
 3. Mannvirki, skv. 2. mgr. 5. gr. laganna: Vátryggður ber eigin áhættu af tjóni á hverju mannvirki sem skylt er að vátryggja.

12. gr.

Reglugerð þessi er sett skv. heimild í 4. gr., 4. mgr. 5. gr., 3. mgr. 11. gr., 5. mgr. 15. gr. og 26. gr. laga nr. 55/1992, um Náttúruhamfaratryggingu Íslands, og öðlast þegar gildi. Fellur þá úr gildi reglugerð nr. 642/2017, um Viðlagatryggingu Íslands.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 9. júlí 2019.

F. h. r.
Guðrún Þorleifsdóttir.

Sóley Ragnarsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.