Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 5. des. 2021

Reglugerð með breytingum síðast breytt 30. júní 2009

690/2006

Reglugerð um skipulag vinnutíma farstarfsmanna.

I. KAFLI Markmið.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að mæla fyrir um skipulag vinnutíma farstarfsmanna í flutningum á vegum.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um farstarfsmenn í þjónustu flytjanda, sem stundar flutningastarfsemi á vegum sem reglugerð um aksturs- og hvíldartíma tekur til og er henni til fyllingar.

Ákvæði laga um hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum gilda um starfsmenn við flutninga sem falla utan gildissviðs reglugerðar þessarar.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi orða og orðasambanda sem hér segir:

Vinnutími farstarfsmanns: Tímabilið frá því að vinna hefst og þar til henni lýkur og farstarfsmaðurinn er á verkstöð sinni, tiltækur atvinnurekandanum og stundar starf sitt eða starfsemi, þ.e. sá tími sem fer í alla flutningastarfsemi á vegum, einkum:

 1. akstur,
 2. lestun og losun farms,
 3. aðstoð við farþega til að fara í og úr ökutæki,
 4. hreinsun og viðhald ökutækis og búnaðar þess,
 5. önnur vinna sem er ætlað að tryggja öryggi ökutækis, farms þess og farþega eða til að uppfylla lagalegar skyldur sem tengjast beinlínis tilteknum flutningi, þ.m.t. eftirlit með lestun og losun farms, formsatriði á sviði stjórnsýslu sem snúa að lögreglu, tolli, útlendingaeftirliti o.s.frv.,
 6. sá tími sem farstarfsmaður skal vera á vinnustað, reiðubúinn að hefja vinnu, t.d. þegar hann bíður eftir að geta lestað eða losað ökutæki.

Sá tími sem starfsmanni er ekki frjálst að ráðstafa að eigin vild og þarf að vera á verkstöð sinni tilbúinn að hefja venjulega vinnu, með tiltekin verkefni sem tengjast vinnunni, einkum á tímabilum þegar beðið er eftir fermingu eða affermingu og ekki er fyrirséð hve lengi það varir, þ.e. annaðhvort fyrir brottför eða rétt áður en umrætt tímabil hefst nákvæmlega eða samkvæmt almennum skilyrðum, sem aðilar vinnumarkaðarins hafa samið um, eða samkvæmt skilmálum löggjafar aðildarríkjanna.

Vinnutími sjálfstætt starfandi ökumanns: Um sjálfstætt starfandi ökumann gildir sama skilgreiningin og um vinnutíma farstarfsmanns varðandi tímann frá því að vinna hefst og þar til henni lýkur og hinn sjálfstætt starfandi ökumaður er á verkstöð sinni, er tiltækur fyrir viðskiptavininn og stundar starf sitt eða starfsemi, aðra en almenna stjórnsýsluvinnu, sem ekki tengist beint hinum tiltekna flutningarekstri sem unnið er að.

Tiltækileiki:

 1. Önnur tímabil en þau sem tengjast vinnuhléum og hvíldartíma þegar þess er ekki krafist að farstarfsmaðurinn dvelji á verkstöð sinni en verður að vera tiltækur og svara útkalli til að hefja eða halda áfram akstri eða inna af hendi aðra vinnu. Einkum skal í þess háttar tiltækileika felast tímabil þegar farstarfsmaðurinn fylgir ökutæki, sem verið er að flytja með ferju eða lest, auk biðtíma við landamæri og af völdum umferðarbanns. Farstarfsmaður skal látinn vita af þessum tímabilum fyrirfram og fyrirsjáanlegri lengd þeirra, þ.e. annaðhvort fyrir brottför eða rétt áður en umrætt tímabil hefst, eða samkvæmt almennum skilyrðum, sem aðilar vinnumarkaðarins hafa samið um, eða samkvæmt skilmálum löggjafar aðildarríkjanna. Aðilar vinnumarkaðarins geta samið um fyrirkomulag upplýsingagjafar eða beitt ákvæði í lögum þar að lútandi.
 2. Að því er varðar farstarfsmenn í sömu áhöfn, sá tími sem setið er við hlið ökumanns eða legið í svefnaðstöðu á meðan ökutækið er á hreyfingu.

Verkstöð:

 1. staðsetning aðalstarfsstöðvar fyrirtækisins þar sem farstarfsmaður, sem sér um flutninga á vegum, sinnir skyldustörfum, auk þess ýmsar dótturstarfstöðvar, óháð því hvort þær eru á sama stað og aðalskrifstofan eða aðalstarfsstöðin,
 2. ökutækið sem farstarfsmaður, sem sér um flutninga á vegum notar þegar hann sinnir skyldustörfum sínum, og
 3. aðrir staðir þar sem starfsemi, sem tengist flutningum er sinnt.

Farstarfsmaður: Starfsmaður sem er hluti af ferðstarfshópnum, þ.m.t. lærlingur og nemi sem eru í þjónustu fyrirtækis sem stundar flutningaþjónustu á vegum fyrir farþega eða vörur gegn gjaldi eða á eigin vegum.

Farstarfsmaður sem sér um flutninga á vegum: Farstarfsmaður eða sjálfstætt starfandi ökumaður sem stundar þess háttar starfsemi.

Flytjandi: Skráður eigandi eða umráðamaður ökutækis eða sá sem hefur það að láni og notar það til farþega- eða vöruflutninga á vegum í atvinnuskyni og ekur því sjálfur eða ökumaður í hans þjónustu.

Sjálfstætt starfandi ökumaður: Hver sá sem hefur að aðalatvinnu að flytja farþega eða vörur á vegum gegn gjaldi, og uppfyllir kröfur til að stunda fyrrnefnda flutninga, sem á rétt á að vinna fyrir sjálfan sig og er ekki bundinn af ráðningarsamningi við atvinnurekanda eða annars konar stigskiptu samvinnufyrirkomulagi, sem er frjálst að skipuleggja viðkomandi starfsemi, byggir tekjur sínar beinlínis á hagnaðinum af henni og hefur frelsi til að mynda viðskiptasamband við marga viðskiptamenn, einn og sér eða í samstarfi við aðra sjálfstætt starfandi ökumenn. Sá sem ekki uppfyllir þessar viðmiðanir skal bera sömu skyldur og njóta sömu réttinda og kveðið er á um fyrir farstarfsmenn skv. reglugerð þessari.

Næturvinnutími: Tíminn frá miðnætti til kl. 07.00, að lágmarki fjórar klukkustundir.

Næturvinna: Vinna sem er unnin að nóttu til.

Vika: Sjö dagar sem hefjast á miðnætti aðfararnótt mánudags og lýkur kl. 24.00 næsta sunnudag.

II. KAFLI Vinnutími.

4. gr. Hámarksfjöldi vinnustunda á viku.

Meðalfjöldi vinnustunda á viku skal ekki vera meiri en 48 klst. Hámarksfjöldi vinnustunda á viku má verða 60 klst. ef meðalfjöldi vinnustunda á viku fer ekki yfir 48 klst. í fjóra mánuði.

Reglugerð um aksturs- og hvíldartíma ökumanna skal ganga framar þessum reglum að því er varðar ökumenn, að því tilskildu að viðkomandi vinni ekki meira en 48 klst. á viku að meðaltali á fjögurra mánaða tímabili.

Starfi farstarfsmaður hjá fleiri en einum flytjanda í tiltekinni viku, skal hver flytjandi óska eftir skriflegum upplýsingum um hve margar stundir farstarfsmaðurinn vinnur fyrir hvern flytjanda í vikunni. Ber farstarfsmanninum að láta þessar upplýsingar í té.

5. gr. Vinnuhlé.

Ökumaður skal taka sér hlé frá akstri í samræmi við ákvæði reglugerðar um aksturs- og hvíldartíma ökumanna.

Farstarfsmenn, aðrir en ökumaður, skulu taka sér hlé frá störfum eigi síðar en eftir 6 stunda vinnu. Sé heildarfjöldi vinnustunda 6-9 stundir skal hlé vera a.m.k. 30 mínútur en a.m.k. 45 mínútur ef heildarfjöldinn er meiri en 9 stundir. Hléi má skipta í tímabil sem ekki eru styttri en 15 mínútur.

6. gr. Hvíldartími.

Í reglugerð þessari gilda sömu reglur um hvíldartíma farstarfsmanna og eru í reglugerð um aksturs- og hvíldartíma ökumanna.

7. gr. Næturvinna.

Þegar unnin er næturvinna, skal fjöldi dagvinnustunda ekki fara yfir tíu stundir á hverjum sólarhring.

III. KAFLI Önnur ákvæði.

8. gr. Undanþágur.

Með almennum samningum eða samningum milli aðila vinnumarkaðarins má víkja frá ákvæðum 4. og 7. gr. af hlutlægum eða tæknilegum ástæðum er varða vinnufyrirkomulag. Sé það ekki unnt er heimilt að veita undanþágu með almennum lögum eða stjórnsýslufyrirmælum, að því tilskildu að samráð hafi verið haft milli aðila vinnumarkaðarins og að átak hafi verið gert til að hvetja til skoðanaskipta.

Viðmiðunartímbil við útreikning á undanþágu frá hámarksfjölda vinnustunda á viku, sbr. 4. gr. skal ekki vera lengra en sex mánuðir.

9. gr. Upplýsingar og skrár.

Farstarfsmönnum skal gerð grein fyrir kröfum sem varða skipulag vinnutíma sem koma fram í innri reglum flytjanda eða samningum milli aðila vinnumarkaðarins séu þeir til staðar.

Farstarfsmaður skal skrá vinnutíma sinn. Flytjandi bera ábyrgð á skráningu og skal geyma skrár í a.m.k. tvö ár frá því að viðkomandi tímabili lýkur. Sé þess óskað, skal flytjandi láta farstarfsmanni í té afrit af gögnum um unnar stundir.

Vinnutími ökumanns skal skráður með sama hætti og aksturs- og hvíldartími þeirra samkvæmt reglugerð um ökurita og notkun hans. Vinnutími annarra farstarfsmanna skal skráður með sama hætti eftir því sem unnt er en að öðrum kosti á skráningarskýrslu þar sem fram koma, eftir því sem við á, þær upplýsingar sem tilgreindar eru í 13. gr. reglugerðar um ökurita. Umferðarstofa skal útbúa eyðublað fyrir skráningarskýrslu.

10. gr. Hagstæðari ákvæði.

Heimilt er aðilum vinnumarkaðarins að semja um hagstæðari skilmála en fram koma í reglugerð þessari að því er varðar heilsuvernd og öryggi farstarfsmanna sem sjá um flutninga á vegum. Sama á við um setningu löggjafar sem veitir farstarfsmönnum aukin réttindi í störfum sínum.

11. gr. Refsiákvæði.

Brot á reglugerð þessari varða refsingu samkvæmt XIV. kafla umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum og reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim.

12. gr. Innleiðing.

Með reglugerð þessari er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2002/15/EB frá 11. mars 2002 um skipulag á vinnutíma farstarfsmanna sem sjá um flutninga á vegum sem vísað er til í tölulið 24d í XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2003, frá 31. júlí 2003 sem birtist í EES-viðbæti 39, bls. 16.

13. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 44. gr. b umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.