Prentað þann 21. nóv. 2024
665/2014
Reglugerð um (2.) breytingu á reglugerð nr. 580/2012 um framleiðslu og markaðssetningu aðila undir smáræðismörkum á matvælum og afhendingu frumframleiðenda á litlu magni beint til neytenda og staðbundinna smásölufyrirtækja.
1. gr.
Við 2. gr. reglugerðarinnar bætist nýr töluliður sem orðast svo:
- Afhendingu veiðimanns á hreindýrakjöti af einu dýri beint til neytenda eða til smásölufyrirtækis sem afhendir beint til neytenda, sbr. 7. gr. a.
2. gr.
Við 3. gr. bætist eftirfarandi orðskýring:
Veiðileyfisnúmer: Númerað veiðileyfi sem hver hreindýraveiðimaður sem hefur fengið úthlutað leyfi til hreindýraveiða fær afhent frá Umhverfisstofnun.
3. gr.
Á eftir 7. gr. kemur ný grein, 7. gr. a, svohljóðandi:
Meðferð og ráðstöfun hreindýrakjöts.
Veiðimanni er heimilt að afhenda kjöt af einu hreindýri á ári beint til neytenda eða til smásölufyrirtækis sem afhendir beint til neytenda.
Eftir að hreindýr hefur verið fellt skal strax taka úr því öll innyfli og blóðtæma það. Kæling skal hefjast eins fljótt og kostur er og skal kjötið kælt þannig að hitastig kjötsins verði alls staðar 7°C eða lægra. Ekki þarf að grípa til sérstakrar kælingar ef veðurfarsskilyrði gera það óþarft.
Áður en dýrið er afhent skal það flegið. Veiðimanni er ekki heimilt að hluta það meira niður en í átta parta, þ.e. í fram- og afturparta, hrygg og síður. Óheimilt er að afhenda kjöt sem hefur verið úrbeinað eða meðhöndlað frekar. Veiðileyfisnúmer skal fylgja hverju dýri eða hluta dýrs og skal móttakandi hreindýrakjöts halda skrá yfir þau dýr eða hluta dýrs sem unnin eru eða seld.
Smásölufyrirtæki sem tekur á móti og selur hreindýrakjöt samkvæmt reglugerð þessari skal upplýsa kaupendur/neytendur um að kjötið komi beint frá veiðimanni án opinberrar skoðunar í starfsstöð.
4. gr.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 2. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 24. júní 2014.
F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,
Ólafur Friðriksson.
Ása Þórhildur Þórðardóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.