Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. jan. 2022

Reglugerð með breytingum síðast breytt 6. mars 2014

664/2012

Reglugerð um Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn o.fl.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi fjallar um Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn (RAMÝ), starfssvið hennar og hlutverk, starfssvið og starfsskyldur forstöðumanns og skipan og hlutverk fagráðs Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn.

2. gr. Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn.

Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn er sjálfstæð ríkisstofnun undir yfirstjórn umhverfisráðherra.

Umhverfisráðherra skipar forstöðumann náttúrurannsóknastöðvarinnar til fimm ára í senn. Skal hann hafa háskólamenntun í náttúrufræðum sem nýtist honum í starfi.

Forstöðumaður mótar stefnu stofnunarinnar, fer með daglega stjórnun og ræður aðra starfsmenn. Forstöðumaður ber ábyrgð á fjárhagslegum rekstri stofnunarinnar.

3. gr. Hlutverk og markmið náttúrurannsóknastöðvarinnar.

Hlutverk Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn er að stunda rannsóknir á náttúru og lífríki Mývatns- og Laxársvæðisins, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Stofnuninni er einnig heimilt að vinna að rannsóknum utan Mývatns- og Laxársvæðisins, enda fáist með þeim gagnlegur samanburður við náttúru þess og verndun svæðisins.

Meginmarkmið náttúrurannsóknastöðvarinnar er að afla vísindalegrar þekkingar sem nýtist við verndun svæðisins í víðum skilningi. Í því felst að fá yfirlit yfir náttúru svæðisins og breytingar á henni, rannsaka orsakasamhengi í vistkerfi Mývatns og Laxár og kanna áhrif af umsvifum manna.

Náttúrurannsóknatstöðin gerir rannsóknaáætlun til fjögurra ára í senn. Skal hún birta skrá um rannsóknir og athuganir á svæðinu og leitast við að safna saman þeim gögnum sem skráin tiltekur. Skal stofnunin þá beita sér fyrir því að niðurstöður rannsókna séu gefnar út og kynntar hlutaðeigandi aðilum.

Náttúrurannsóknastöðin birtir á hverju ári skýrslu um starfsemi sína.

4. gr. Fagráð.

Umhverfisráðherra skipar fagráð náttúrurannsóknastöðvarinnar til 5 ára í senn samkvæmt tilnefningum Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Veiðimálastofnunar og forstöðumanns náttúrurannsóknastöðvarinnar, en sá aðili skal þó starfa utan náttúrurannsóknastöðvarinnar. Þeir sem tilnefndir eru skulu vera sérfræðingar á þeim sviðum sem náttúrurannsóknastöðin starfar á. Að auki skal fulltrúi sveitarfélaga á svæðinu eiga sæti í fagráðinu.

Fagráðið skal vera forstöðumanni náttúrurannsóknastöðvarinnar til ráðgjafar um vísindastarf stofnunarinnar, rannsóknastefnu, upplýsingagjöf til heimamanna og almenings og fagleg tengsl við aðrar stofnanir sem stunda rannsóknir á vatnasviði Mývatns og Laxár í samræmi við lög. Fagráðið skiptir með sér verkum. Forstöðumaður boðar ráðið til funda eftir því sem þurfa þykir, eigi sjaldnar en árlega, og situr fundi þess.

5. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett skv. 7. og 8. gr. laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu og öðlast gildi við birtingu.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.