Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 30. nóv. 2021

Reglugerð með breytingum síðast breytt 29. júlí 2021

650/2006

Reglugerð um framkvæmd verndunar vatnasviðs og lífríkis Þingvallavatns.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er:

að stuðla að verndun vatnasviðs og lífríkis Þingvallavatns með markmið sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi,

að tryggja að innan verndarsvæðisins verði yfirborðsvatni eða grunnvatni ekki spillt eða það mengað, svo sem vegna jarðrasks, byggingar mannvirkja, búsetu, borunar eftir vatni, töku jarðefna, vinnslu auðlinda úr jörðu og ræktunarframkvæmda eða vegna flutninga og meðhöndlunar eiturefna og hættulegra efna,

að tryggja að tegundum, búsvæðum, vistgerðum og líffræðilegri fjölbreytni Þingvallavatns verði ekki spillt og að lífríki þess fái eftir því sem kostur er að þróast eftir eigin lögmálum.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um athafnir og framkvæmdir sem áhrif geta haft á vatnsgæði á verndarsvæði Þingvallavatns, sbr. 2. gr. laga um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess, sbr. fylgiskjal 1 eða lífríki Þingvallavatns.

Um vatnsvernd innan þjóðgarðsins á Þingvöllum, eins og mörk hans eru ákveðin í lögum, gilda jafnframt ákvæði laga um þjóðgarðinn.

3. gr. Skilgreiningar.

Merking hugtaka í reglugerð þessari er sem hér segir:

Áburður; lífræn eða ólífræn efni af náttúrulegum uppruna eða tilbúinn áburður sem er settur í jarðveg til að bæta í hann ákveðnum frumefnum eða lífrænum efnum sem eru mikilvæg fyrir vöxt plantna. Má þar nefna tilbúinn áburð með köfnunarefnissamböndum, fosfór og kalíum og auk þess búfjáráburð, seyru frá fiskeldisstöðvum og skólphreinsistöðvum sem m.a. er borin á land til þess að auka gróðurvöxt.

Búsvæði; þeir staðir eða svæði þar sem tiltekin tegund þrífst.

Fiskeldi; geymsla, gæsla og fóðrun vatnafiska og annarra vatnadýra, klak- og seiðaeldi, hvort sem er í söltu eða ósöltu vatni.

Fiskrækt; hvers konar aðgerðir sem ætla má að skapi eða auki fisk í veiðivatni.

Frístundabyggð; byggð sem ekki er ætluð til heilsársbúsetu. Til svæða fyrir frístundabyggð teljast einnig svæði fyrir fjallaskála, gangnamannaskála og neyðarskýli.

Grunnvatn; vatn sem er neðanjarðar í samfelldu lagi, kyrrstætt eða rennandi og fyllir að jafnaði allt samtengt holrúm í viðkomandi jarðlagi.

Eiturefni og hættuleg efni; efni sem getur valdið dauða, bráðum eða langvarandi skaða á heilsu við innöndun, inntöku eða í snertingu við húð, er eldnærandi, eld- eða sprengifimt eða getur valdið tjóni á umhverfi sbr. reglugerð um flokkun, merkingu og meðferð eiturefna, hættulegra efna og vörutegunda, sem innihalda slík efni, ásamt síðari breytingum.

Líffræðileg fjölbreytni; breytileiki meðal lífvera frá öllum uppsprettum, þar með talin vistkerfi á landi, í sjó og vötnum og þau vistfræðilegu kerfi sem þær eru hluti af: skilgreiningin nær til fjölbreytni innan tegunda, milli tegunda og í vistkerfum.

Losun; þegar efnum og efnasamböndum er veitt í fráveitur og viðtaka. Bein losun er losun efna í vatn, oftast frá stakri uppsprettu, án þess að þau síist í gegnum jarðveg, þéttan jarðgrunn eða berggrunn.

Óbein losun; þegar efni eða gerlar berast frá dreifðum uppsprettum, eða er hætt við að geti borist, í vatn eftir síun í gegnum jarðveg, þéttan jarðgrunn eða berggrunn.

Ræktunarframkvæmdir; allar framkvæmdir eða aðgerðir sem eru viðhafðar til að rækta plöntur eða dýr á landi og í vatni, svo sem skógrækt, trjárækt, túnrækt, sáning, plöntun eða áburðardreifing, annarskonar fjölgun plöntutegunda, fiskrækt eða ræktun annarra dýrategunda.

Vatnsgæði; efni og eðlisfræðilegt ástand vatns og ástand lífríkis í vatninu.

Verndarsvæði; er verndarsvæði Þingvallavatns eins og það er skilgreint í 2. gr. laga um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess.

Vistgerð; staðir eða svæði með ákveðnum einkennum, t.d. hvað varðar gróður og dýralíf, jarðveg, vatn og loftslag.

Yfirborðsvatn; er kyrrstætt eða rennandi vatn á yfirborði jarðar, straumvötn, stöðuvötn, jöklar, og strandsjór.

Þéttbýli; þyrping húsa þar sem búa a.m.k. 50 manns og fjarlægð milli húsa fer að jafnaði ekki yfir 200 metra.

Þauleldi; eldi búfjár og annarra lífvera sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum.

4. gr. Meginreglur.

Innan verndarsvæðis Þingvallavatns er óheimilt að gera nokkuð það sem getur spillt vatni eða mengað, hvort sem um er að ræða yfirborðsvatn eða grunnvatn.

Innan verndarsvæðisins er óheimilt að gera nokkuð það sem getur haft neikvæð áhrif á lífríki Þingvallavatns og vatnasviðs þess og óheimilt er að raska búsvæðum og hrygningarstöðvum bleikjuafbrigða og urriðastofna sem nú lifa í vatninu.

Óheimilt er að skipuleggja iðnaðarsvæði, þéttbýli og búskap með þauleldi og annað það sem spillt getur vatni eða lífríki Þingvallavatns.

Við skipulag frístundabyggðar, útivistar og umferðar skal þess gætt að mengunarhætta og röskun lífríkis Þingvallavatns verði sem minnst.

5. gr. Flokkun vatns á verndarsvæði Þingvallavatns.

Þingvallavatn og vatn á verndarsvæði Þingvallavatns er viðkvæmur viðtaki og skal falla í flokk A sem ósnortið vatn sbr. reglugerð um varnir gegn mengun vatns.

6. gr. Verndun vatnsgæða.

Ráðstafanir á verndarsvæði Þingvallavatns til að viðhalda vatnsgæðum skulu ávallt miðast við þær kröfur sem gilda um að viðhalda eða eftir atvikum bæta ástand vatns.

Óheimilt er að geyma eiturefni og hættuleg efni þ.m.t. olíur og bensín, innan verndarsvæðis Þingvallavatns sem spillt geta vatnsgæðum þess, sbr. þó 21. gr. reglugerðar.

Óheimilt er að veita leyfi vegna framkvæmda á verndarsvæðinu þ.m.t. jarðrask, byggingu mannvirkja, borun eftir vatni, nám jarðefna, vinnslu auðlinda úr jörðu eða ræktunarframkvæmdir þar sem hætta er á að slíkt geti mengað, spillt vatnsgæðum eða breytt vatnshæð.

7. gr. Losun í vatn.

Bein losun áburðar í yfirborðsvatn er óheimil.

Öll losun efna hvort sem um er að ræða beina eða óbeina losun sem tilgreind eru í fylgiskjali 2, sem og losun eiturefna og hættulegra efna er óheimil á verndarsvæði.

8. gr. Notkun áburðar.

Skylt er að fara að starfsreglum um góða búskaparhætti, sbr. reglugerð um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnureksti við geymslu og notkun áburðar á verndarsvæði Þingvallavatns.

Ekki er heimilt að dreifa áburði á frosna jörð.

Ekki er heimilt að nota tilbúinn áburð á verndarsvæðinu s.s. við frístundabyggð og útivistarsvæði. Þetta á ekki við um hefðbundinn búskap eða uppgræðsluaðgerðir sem stuðla að því að endurheimta náttúrulegar vistgerðir svæðisins.

Óheimilt er að nota lífrænan áburð frá þauleldi og seyru frá skólphreinsistöðvum á verndarsvæðinu.

9. gr. Bygging mannvirkja, jarðrask, taka jarðefna o.fl.

Byggingar- og framkvæmdaleyfi, vegna framkvæmda innan verndarsvæðisins, sem gefin eru út af sveitarstjórn skulu eftir því sem nauðsyn krefur innihalda skilyrði til verndunar lífríkis og viðhalds vatnsgæða. Leita skal umsagnar Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefndar Suðurlands áður en leyfi er veitt til stærri framkvæmda á verndarsvæðinu, í samræmi við leiðbeiningar Umhverfisstofnunar. Byggingarfulltrúi hefur í samráði við heilbrigðisnefnd Suðurlands eftirlit með að settum skilyrðum sé fylgt.

10. gr. Viðhald bygginga o.fl.

Við viðhald bygginga, girðinga, raflína o.þ.h. skal gætt sérstakrar varúðar við notkun hættulegra efna, s.s. fúavarnarefna, olíu o.þ.h.

11. gr. Flutningur báta og neta.

Bátar og net sem flutt eru milli vatnasvæða skulu þvegin og þurrkuð áður en þau eru notuð í Þingvallavatni.

12. gr. Ræktunarframkvæmdir.

Óheimilt er að gera nokkuð það sem getur raskað lífríki Þingvallavatns.

Óheimilt er að dreifa eða sleppa lífverum í Þingvallavatn sbr. þó 3. mgr.

Óheimilt er að stunda fiskrækt í Þingvallavatni. Umhverfisráðherra getur þó veitt leyfi til að stunda fiskrækt vegna ytri aðstæðna ef náttúrulegir fiskistofnar eru í hættu. Heimilt er að veita leyfi til að rækta viðkomandi stofn sem er í útrýmingarhættu og skal sleppt á viðkomandi búsvæði. Skal gæta þess að nota nægan fjölda klakfiska til að tryggja erfðafræðilegan fjölbreytileika. Áður en umhverfisráðherra veitir leyfi skal leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Veiðimálastofnunar, Landbúnaðarstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Þingvallanefndar.

Óheimilt er að sleppa seiðum af öðrum fiskistofnum en þeim sem eru náttúrulegir á verndarsvæðinu.

Óheimilt er að gera nokkuð það sem getur haft áhrif á náttúrulega fiskistofna eða erfðamengi þeirra s.s. með kynbótum eða blöndum milli stofna. Jafnframt er óheimilt að flytja náttúrulega stofna fiska til innan verndarsvæðisins.

Óheimilt er að stunda fiskeldi í Þingvallavatni.

13. gr. Lagning og viðhald vega.

Áður en lagning bundins slitlags á verndarsvæðinu fer fram skal framkvæmdaraðili útbúa verklagsreglur sem miða að því að lágmarka mengun og skulu þær vera samþykktar af Umhverfisstofnun.

Notkun á vegsalti og öðrum hálkuhamlandi efnum eða rykbindandi efnum er háð samþykki heilbrigðisnefndar Suðurlands.

14. gr. Vöruflutningar um verndarsvæðið.

Þungaflutningar með vörufarma eru óheimilir um verndarsvæði Þingvallavatns, nema þegar um er að ræða flutninga vegna þjónustu á svæðinu.

Óheimilt er að flytja úrgang um svæðið, nema í þeim tilgangi að flytja úrgang sem verður til á svæðinu til viðurkenndrar móttökustöðvar.

Óheimilt er að flytja eiturefni og hættuleg efni um verndarsvæðið nema þau séu ætluð til notkunar á svæðinu svo sem vegna búrekstrar og leyfilegrar atvinnustarfsemi.

Umhverfisráðuneytið getur ef nauðsyn ber til í einstökum tilvikum veitt heimild til flutninga í gegnum svæðið.

15. gr. Frárennsli og fráveitur.

Hreinsa skal skólp samkvæmt ákvæðum reglugerðar um fráveitur og skólp og fyrirmælum heilbrigðisnefndar Suðurlands. Taka skal mið af aðstæðum á hverjum stað m.t.t. verndunar vatnasviðs og lífríkis vatnsins, svo sem landgerð og nálægð við vatnið. Heilbrigðisnefnd Suðurlands skal samþykkja nýjar og endurbættar fráveitur og búnað sem notaður er við meðhöndlun og hreinsun og losun skólps sem beita má á svæðinu, m.a. frá einstökum frístundahúsum og öðrum húsum. Heilbrigðisnefnd Suðurlands birtir á vefsvæði sínu leiðbeiningar um frágang fráveitukerfa og fráveitutækni sem beita má á svæðinu og leiðbeiningar til eigenda frístundahúsa sem þeim ber að fara eftir.

Um fráveitu frá starfsleyfisskyldum atvinnurekstri fer samkvæmt starfsleyfi. Taka skal mið af vernd svæðisins og að þau mengunarefni í skólpi sem Þingvallavatn er talið viðkvæmt fyrir séu hreinsuð ítarlega.

16. gr. Atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.

Óheimilt er að hefja nýjan atvinnurekstur á verndarsvæðinu sem er starfsleyfisskyldur skv. reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun.

Umhverfisráðherra getur veitt undanþágu frá 1. mgr. að fenginni umsögn Þingvallanefndar, Umhverfisstofnunar, sveitarstjórnar, heilbrigðisnefndar Suðurlands, eða annarra aðila eftir eðli starfsemi. Í skriflegri umsókn um undanþágu skal gerð grein fyrir fyrirhugaðri starfsemi og sýnt fram á að hún spilli ekki vatni á verndarsvæðinu eða lífríki Þingvallavatns.

17. gr. Takmörkun á notkun blýs - Veiðitæki.

Óheimilt er að nota veiðitæki í Þingvallavatni sem innihalda blý, þ.m.t. blýsökkur. Þó er heimilt að nota net með blýteinum við hefðbundinn búskap. Jafnframt er öll önnur notkun blýs sem valdið getur mengun óheimil í Þingvallavatni, þ.m.t. til þyngingar við köfun í Þingvallavatni nema blýið sé húðað.

18. gr. Flokkun vatns.

Heilbrigðisnefnd Suðurlands skal gera grein fyrir flokkun vatns sbr. reglugerð um varnir gegn mengun vatns á verndarsvæðinu miðað við fyrirliggjandi gögn.

Þingvallavatn telst viðkvæmt fyrir köfnunarefnismengun sbr. reglugerð um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnureksti.

19. gr. Vöktun vatnsgæða.

Umhverfisstofnun fer með vöktun vatnsgæða skv. lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Leiði eftirlit eða vöktun í ljós að ástand vatns á verndarsvæðinu eða lífríki Þingvallavatns fari hrakandi skal heilbrigðisnefnd Suðurlands grípa til aðgerða sem miða að því að viðhalda vatnsgæðum.

20. gr. Aðgerðaráætlun.

Heilbrigðisnefnd Suðurlands í samráði við sveitarstjórnir á verndarsvæðinu skulu gera aðgerðaráætlun fyrir verndun vatns sem umhverfisráðherra samþykkir að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar. Aðgerðaráætlun skal innihalda:

  1. viðbragðsáætlun vegna hugsanlegra mengunaróhappa,
  2. fyrirmæli um frágang fráveitukerfa og fráveitutækni sem má beita á svæðinu.
  3. leiðbeiningar um meðferð áburðar á verndarsvæðinu,
  4. leiðbeiningar um notkun umhverfisvænna efna m.a. varðandi notkun viðarvarnarefna og sæfiefna,
  5. annað sem máli skiptir varðandi vatnsverndun á verndarsvæðinu.

Kynna skal aðgerðaráætlunina og leiðbeiningar fyrir hagsmunaaðilum með áherslu á að koma upplýsingum til ábúenda, frístundahúsaeigenda og aðila í þjónustustarfsemi.

21. gr. Neyslugeymar.

Einungis er heimilt að hafa neyslugeyma fyrir olíu og eiturefni og hættuleg efni sem ætluð eru til notkunar innan svæðisins t.d. vegna landbúnaðar og fyrirtækja með starfsleyfi á verndarsvæðinu. Geymarnir skulu vera samkvæmt fullnægjandi mengunarvarnakröfum og allur frágangur miðaður við að mæta óhöppum við áfyllingu. Afla skal leyfis heilbrigðisnefndar Suðurlands fyrir byggingu og notkun olíugeyma og geyma fyrir eiturefni og hættuleg efni. Í leyfi skal setja kröfur um lekavarnir, um eftirlit með lekavarnabúnaði og viðbrögð við óhöppum.

22. gr. Eftirlit.

Heilbrigðisnefnd Suðurlands fer með eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar nema annað sé tekið fram í einstökum ákvæðum hennar.

23. gr. Viðurlög.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

24. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 1. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2005, um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess. Reglugerðin er jafnframt sett með stoð í lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Frestur er til 1. janúar 2011 til að uppfylla skilyrði 15. gr. um frárennsli og fráveitur vegna starfsleyfisskyldrar starfsemi frá húsnæði sem þegar hafa verið byggð eða voru í byggingu á verndarsvæðinu 27. júlí 2006.

Vegna frístundabyggðar með þéttleika sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna, skal gera kostnaðar- og framkvæmdaáætlun vegna sameiginlegrar fráveitu og skólphreinsistöðvar fyrir 1. janúar 2012. Framkvæmdum vegna þessa skal vera lokið 31. desember 2017.

Vegna einstakra húsa, þ.m.t. íbúðarhúsa og frístundahúsa, sem þegar hafa verið byggð eða voru í byggingu á verndarsvæðinu 27. júlí 2006 skal við endurnýjun eða endurbætur á fráveitum uppfylla skilyrði 15. gr. Frá og með 1. janúar 2020 skulu öll hús uppfylla ákvæði reglugerðar, enda voru þau hús tengd viðunandi hreinsun samkvæmt reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp 27. júlí 2006.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.