Fara beint í efnið

Prentað þann 23. jan. 2022

Stofnreglugerð

646/2020

Reglugerð um skipulag og starfsemi Matvælastofnunar.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um skipulag og starfsemi Matvælastofnunar, sem starfar skv. ákvæðum laga nr. 30/2018 um Matvælastofnun, með síðari breytingum.

2. gr. Yfirstjórn og stjórnskipulag.

Matvælastofnun hefur aðsetur og aðalskrifstofu á Selfossi. Forstjóri fer með yfirstjórn stofnunarinnar, mótar stefnu í störfum hennar og ber ábyrgð á starfsemi og rekstri, sbr. 3. gr. laga nr. 30/2018 um Matvælastofnun. Ráðherra setur forstjóra erindisbréf. Forstjóri ákvarðar skiptingu stofnunarinnar í svið eða aðrar starfseiningar eftir viðfangsefnum.

Forstjóri ræður sviðsstjóra yfir hverju sviði, en í samræmi við 2. mgr. 3. gr. laga nr. 30/2018 skipar ráðherra þó sviðsstjóra þess sviðs sem fer með málefni dýrasjúkdóma og varna gegn þeim og dýravelferðar. Sá sviðsstjóri skal vera dýralæknir að mennt og nefnast yfirdýralæknir.

Forstjóra er heimilt að setja upp sérstaka starfseiningu sem fer með fjármálastjórnun, mannauðs- og gæðamál og miðlun upplýsinga. Þá starfar samstarfsráð við stofnunina, sbr. 4. gr. laga nr. 30/2018 um Matvælastofnun.

3. gr. Starfsemi og starfsstöðvar.

Hlutverk stofnunarinnar er skilgreint í 2. gr. laga nr. 30/2018 um Matvælastofnun. Forstjóri ákvarðar hvernig einstökum viðfangsefnum stofnunarinnar er skipt milli sviða og annarra starfseininga í samræmi við skipurit hennar.

Í samræmi við 3. gr. laga nr. 30/2018 um Matvælastofnun starfrækir stofnunin umdæmisstofur sem sinna eftirlitsstörfum og öðrum störfum á verksviði hennar. Þær skulu vera í fjórum umdæmum, sem eru Suðvesturland, Suðausturland, Norðvesturland og Norðausturland. Forstjóri ákveður staðsetningu umdæmisstofa, en mörk milli umdæma skulu skilgreind af Matvælastofnun og samþykkt af ráðherra. Forstjóri ræður dýralækni til að veita hverri umdæmisstofu forstöðu.

Matvælastofnun starfrækir einnig landamærastöðvar eftir þörfum til að hafa eftirlit með innflutningi búfjárafurða, sjávarafurða og lifandi ferskvatns- og sjávardýra, auk tiltekinna matvæla og fóðurs sem ekki eru af dýrauppruna, frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Stöðvarnar skulu uppfylla kröfur um húsnæði, tæki, búnað og aðstöðu til að sinna opinberu landamæraeftirliti í samræmi við kröfur EES-samningsins og íslenskra reglna þar um.

4. gr. Áætlanir og skýrslugerð.

Matvælastofnun skal gera árlega áætlun um störf sín og skal hún kynnt samstarfsráði Matvælastofnunar, ásamt nýjum áherslum og fyrirhuguðum breytingum í starfsemi stofnunarinnar. Þá skal stofnunin birta árlega skýrslu um starfsemi sína og setja stefnu um starfsemi og meginverkefni í samræmi við lög um opinber fjármál.

5. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 3. gr. laga nr. 30/2018 um Matvælastofnun. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 1/2008 um skipulag og starfsemi Matvælastofnunar.

Ákvæði til bráðabirgða.

Fækkun umdæma Matvælastofnunar úr sex samkvæmt reglugerð nr. 1/2008 um skipulag og starfsemi Matvælastofnunar, í fjögur samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar, skal lokið eigi síðar en á árinu 2021.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 12. júní 2020.

Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Ása Þórhildur Þórðardóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.