Fara beint í efnið

Prentað þann 18. des. 2024

Stofnreglugerð

643/2018

Reglugerð um undirbúning, gerð og eftirfylgni samninga um framkvæmdir, rekstur og afmörkuð verkefni.

I. KAFLI Markmið og gildissvið.

1. gr. Markmið og tilgangur.

Tilgangur reglugerðar þessarar er að skýra hlutverk og ábyrgð þeirra sem vinna að undirbúningi, gerð og eftirfylgni samninga um framkvæmdir, rekstur og afmörkuð verkefni sem einstök ráðuneyti og ríkisstofnanir gera til lengri tíma en eins árs í senn.

Markmið reglugerðarinnar er að treysta faglega málsmeðferð, samræmd vinnubrögð, hagkvæmni og gæði við undirbúning, gerð, framkvæmd, eftirlit og endurnýjun samninga skv. 1. mgr. þessarar greinar í samræmi við lög um opinber fjármál, nr. 123/2015.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi og sú málsmeðferð sem mælt er fyrir um gildir um samninga um framkvæmdir, rekstur og afmörkuð verkefni sem ráðuneyti og ríkisstofnanir sem falla undir A-hluta ríkissjóðs gera til lengri tíma en eins árs samkvæmt heimild í 40. gr. laga um opinber fjármál.

Samningur sem ekki fellur undir gildissvið reglugerðar þessarar á grundvelli tímalengdar hans fellur undir gildissvið hennar sé tekin ákvörðun um að endurnýja hann eða framlengja og samanlögð tímalengd er lengri en eitt ár.

3. gr. Orðskýringar.

Frumathugun: Frumathugun er ítarleg greining á því tilefni eða þeim þörfum sem fyrirhugað er að leysa með samningnum ásamt þeim kostum sem til greina koma við úrlausn þess.

Rekstrarverkefni: Með rekstrarverkefni í reglugerð þessari er átt við afmarkaða rekstrarþætti, þjónustu, eða í einstaka tilvikum rekstur stofnunar í heild sinni, og kveðið er á um í lögum að ríkið skuli veita og standa undir kostnaði af, eða eru liðir í því að ríkisaðili geti rækt hlutverk sitt.

Framkvæmdarverkefni: Með framkvæmdarverkefni er átt við verkefni þar sem stór eða stærsti hluti tiltekinna kaupa felst í því að verksali innir af hendi ákveðnar verklegar framkvæmdir. Um opinberar framkvæmdir gilda lög nr. 84/2001, um skipan opinberra framkvæmda.

Afmarkað verkefni: Með afmörkuðu verkefni er átt við verkefni sem hvorki telst hefðbundið rekstrarverkefni né framkvæmdarverkefni. Undir afmarkað verkefni fellur jafnframt einhliða styrkur eða framlag sem einstakir ráðherrar veita til reksturs verkefna eða starfsemi, sbr. 6. gr. reglugerðar þessarar.

Verkkaupi: Aðili sem kaupir verk eða þjónustu samkvæmt samningi um rekstrarverkefni eða samningi um framkvæmdir. Verkkaupi getur verið tiltekin ríkisstofnun eða ráðuneyti.

Verksali: Aðili sem tekur að sér að vinna verk eða veita þjónustu samkvæmt samningi um rekstrarverkefni eða samningi um framkvæmdir. Verksali getur verið ríkisstofnun, sveitarfélag, sjálfseignarstofnun eða einkaaðili.

II. KAFLI Tilgreining samninga.

4. gr. Samningar um framkvæmdir, rekstur og afmörkuð verkefni.

Ríkisaðilum í A-hluta er heimilt að fengnu samþykki fjármála- og efnahagsráðherra og hlutaðeigandi ráðherra að gera samninga um framkvæmdir, rekstur og önnur afmörkuð verkefni til lengri tíma en eins árs en þó eigi lengur en til fimm ára.

Séu gerðar kröfur um að verksali ráðist í kostnaðarsamar fjárfestingar til að uppfylla samningsskilyrði er heimilt að semja til lengri tíma en fimm ára enda liggi fyrir samþykki Alþingis fyrir slíkum samningum í heimildagrein fjárlaga eða í sérlögum.

5. gr. Samningar án atbeina ráðherra.

Ríkisaðilum í A-hluta er heimilt án atbeina hlutaðeigandi ráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra að gera samninga um rekstrarverkefni eða afmörkuð verkefni enda fari samanlögð árleg fjárskuldbinding hlutaðeigandi ríkisaðila vegna samninga samkvæmt þessari grein ekki umfram 15% af árlegri fjárveitingu til ríkisaðila eða veltu þeirra ríkisaðila sem fjármagnaðar eru með eigin tekjum.

Undir þessa grein falla einkum smærri verkefni sem ríkisaðilar gera til lengri tíma en eins árs og snúa að daglegum rekstri og skrifstofuhaldi ríkisaðilans sjálfs.

Sú málsmeðferð og tímalengd samninga sem mælt er fyrir um að öðru leyti í reglugerð þessari gildir eftir sem við á um verkefni samkvæmt þessari grein.

6. gr. Samningar ráðuneyta um styrki og framlög til lengri tíma en eins árs.

Sé óhjákvæmilegt að gera fjárhagslega skuldbindandi samning um einhliða styrk eða framlag til lengri tíma en eins árs í senn, skulu áform einstakra ráðuneyta um slíkar fjárskuldbindingar fyrirfram samþykkt af fjármála- og efnahagsráðherra.

Hlutaðeigandi ráðuneyti skal í upphafi hvers árs, eða þegar tilefni gefst til, senda fjármála- og efnahagsráðherra áform um slíka samninga í formi yfirlits og greinargerðar þar sem fram kemur rökstuðningur ráðuneytis fyrir nauðsyn þess að styrkur eða framlag sé til lengri tíma eins árs. Í greinargerð skal jafnframt koma fram hvernig hlutaðeigandi ráðuneyti hyggst tryggja að viðkomandi skuldbinding rúmist innan fjárheimilda viðeigandi málefnasviða og málaflokka og hvort þeir séu í samræmi við forsendur og stefnumörkun sem liggur til grundvallar í fjármálaáætlun.

Fallist fjármála- og efnahagsráðuneytið á áformin og telji að þessi skilyrði séu uppfyllt er hlutaðeigandi ráðuneyti heimilt að hefja undirbúning og gerð slíkra samninga á grundvelli reglna sem almennt gilda um veitingu styrkja og framlaga, sbr. einnig 14. gr. reglugerðar þessarar.

III. KAFLI Undirbúningur verkefna.

7. gr. Frumathugun.

Frumathugun er grundvöllur ákvarðanatöku um gerð samnings um rekstrar- og framkvæmdarverkefni samkvæmt reglugerð þessari.

Frumathugun er ítarleg greining á því tilefni eða þeim þörfum sem fyrirhugað er að leysa með samningnum ásamt þeim kostum sem til greina koma við úrlausn þess. Í frumathugun skal gerð grein fyrir markmiðum með samningsgerðinni ásamt umfjöllun um hagkvæmni verkefnisins, áætlaðan kostnað og fjármögnun þess yfir samningstímann.

Sé gert ráð fyrir að samningur verði til lengri tíma en 5 ára, sbr. 2. mgr. 4. gr., skal frumathugun fylgja ítarlegur rökstuðningur um tímalengd hans, auk þess sem farið skal fram á að aflað verði fyrirfram heimildar Alþingis fyrir samningsgerðinni í samræmi við 2. mgr. 40. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015. Í frumathugun vegna slíkra verkefna skal jafnframt meta hvort hagkvæmt sé að tvískipta verkefninu þannig að gerður sé lengri samningur um fjárfestingarþátt verkefnisins en þjónustuþátt þess.

Fari frumathugun fram á vegum ríkisstofnunar vegna reksturs eða verkefna á hennar vegum skal stofnunin senda hana til samþykktar hjá hlutaðeigandi ráðuneyti.

Hlutaðeigandi ráðuneyti skal meta hvort fyrirhuguð samningsgerð á grundvelli frumathugunarinnar sé í samræmi við gildandi stefnumörkun þess málefnasviðs eða málaflokks sem verkefnið heyrir undir. Fallist hlutaðeigandi ráðuneyti á frumathugunina og forsendur hennar eða hafi sjálft séð um gerð frumathugunar skal ráðuneytið senda hana til fjármála- og efnahagsráðuneytis til meðferðar.

Í greinargerð með frumathugun skal koma fram hvernig hlutaðeigandi ráðuneyti hyggst tryggja að samningurinn rúmist innan fjárheimildar viðeigandi málefnasviðs og málaflokks og hvort hann sé í samræmi við forsendur og stefnumörkun sem liggur til grundvallar í fjármálaáætlun.

8. gr. Undirbúningur samningsgerðar.

Fallist fjármála- og efnahagsráðuneytið á frumathugunina og telur að skilyrði reglugerðar þessarar séu uppfyllt heimilar ráðuneytið að áfram verði unnið að undirbúningi samnings á grundvelli frumathugunar.

Óheimilt er að hefja samninga við verksala eða bjóða út rekstrarverkefni sem falla undir gildissviðs reglugerðar þessarar fyrr en frumathugun er lokið og hefur verið samþykkt af hlutaðeigandi ráðuneyti og formleg heimild hefur fengist frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.

9. gr. Val á samningsaðila.

Við val á samningsaðila samkvæmt reglugerð þessari gilda, eftir því sem við á, lög um opinber innkaup, eða stjórnsýslulög eigi lög um opinber innkaup ekki við. Í lögum um opinber innkaup er kveðið á um skyldu ríkisaðila til að bjóða út tiltekna þjónustu og verk yfir ákveðinni viðmiðunarfjárhæð enda sé ekki að finna í lögunum sérstaka undanþágu frá slíkri skyldu.

Við mat á áætluðum kostnaði skal ávallt telja með allan kostnað við verkefnið að frátöldum virðisaukaskatti miðað við gildistíma samningsins. Óheimilt er að gera fleiri samninga um sama eða sambærilegt verk eða verkefni við sama aðila eða nota sérstakar aðferðir við útreikning á kostnaði í því skyni að komast hjá þeirri málsmeðferð sem greinir í lögum um opinber innkaup og reglugerð þessari. Við innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum skal verkkaupi horfa til annarra innkaupaleiða sem mælt er fyrir um í lögum um opinber innkaup eins og örútboða eða innkaupa samkvæmt rammasamningum. Ávallt skal gæta hagkvæmni og gera verðsamanburð meðal sem flestra verksala.

Val á samningsaðila samkvæmt reglugerð þessari skal eins og við verður komið reyna að styrkja og viðhalda samkeppni og byggi upp markaði þar sem þeir eru ekki til staðar.

10. gr. Ákvarðanir um réttindi og skyldur manna.

Öðrum en til þess bæru stjórnvaldi verður ekki með samningi falið vald til að taka ákvarðanir um réttindi og skyldur manna nema samkvæmt sérstakri heimild í lögum.

Í þeim tilvikum þar sem heimilt er að verksali taki að sér að annast stjórnsýslu skal taka fram í samningi að ákvæði stjórnsýslulaga og upplýsingalaga sem og almennar reglur stjórnsýsluréttar gildi um stjórnsýsluþátt verkefnisins.

IV. KAFLI Efni samnings.

11. gr. Skilgreining verkefnis.

Í samningi skal gera ítarlega grein fyrir þeim markmiðum og ávinningi sem stefnt er að með gerð samningsins og tengsl hans við stefnumörkun á hlutaðeigandi málefnasviði.

Skilgreina þarf verkefnið og áætlað umfang, gæði og árangur þeirrar þjónustu sem verksala er ætlað að veita samkvæmt samningnum og gera grein fyrir þeim atriðum sem verkkaupi leggur sérstaka áherslu á við veitingu hennar. Þá skal skilgreina þá mælikvarða sem lagðir verða til grundvallar við framkvæmd verkefnisins og við úttekt samningsins. Sé samningur byggður á tilteknum meginforsendum skal gera grein fyrir þeim og hvaða áhrif breytingar á þeim forsendum hafi á samninginn, efndir hans og greiðslur samkvæmt honum.

Í samningi skal koma fram hverjir eigi rétt á umræddri þjónustu ef hún er veitt þriðja aðila án milligöngu verkkaupa og hvaða skilyrðum þeir þurfa að fullnægja.

12. gr. Kröfur til verksala.

Í samningi skal koma fram hver fari með yfirstjórn verkefnisins fyrir hönd verksala.

Gera skal grein fyrir þeim almennu eða sérstöku kröfum sem verkkaupi gerir til verksala í tengslum við veitingu þjónustunnar eða verkefnisins út samningstímann, m.a. um starfs- og rekstrarleyfi eða önnur opinber leyfi.

Fjárhagsstaða verksala skal vera það trygg að hann geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart verkkaupa. Geri verkkaupi sérstakar kröfur um fjárhagslegt bolmagn verksala á meðan á veitingu þjónustunnar eða verkefnisins stendur skal gera grein fyrir þeim og eftir atvikum skilyrðum um ábyrgðir eða tryggingar sem talið er rétt að hafa á samningstímanum.

Sé verksali einkaaðili eða sjálfseignarstofnun skal í samningi koma fram að heimilt sé að krefja hann um ársreikning, sbr. lög um ársreikninga, nr. 3/2006 með síðari breytingum.

Sé verksali sjálfseignarstofnun skal í samningi kveðið á um að meðferð mála varðandi samningsgerð og lánveitingar slíkra félaga skuli fara eftir sambærilegum reglum og kveðið er á um í 72. og 104. gr. hlutafélagalaga, nr. 2/1995.

13. gr. Kostnaður og greiðslur.

Í samningi skal gera grein fyrir heildarfjárskuldbindingum verkkaupa á samningstímanum ásamt einingaverði og áætluðum árlegum greiðslum til verksala. Fram skal koma að fjárhagsleg ábyrgð ríkisins vegna rekstrarverkefnisins takmarkist við fjárhæðir í samningi.

Sé gert ráð fyrir gjaldtökuheimildum í lögum í tengslum við verkefnið sem veita á með samningi skal í samningi gera grein fyrir heimild eða skyldu verksala til innheimtu gjaldanna og hvernig fara skuli með tekjur vegna þeirra. Sama gildir ef verkefnið er þess eðlis að verksali hafi heimild til gjaldtöku af notendum þjónustunnar eða verkefnisins án sérstakrar heimildar í lögum.

Gera skal grein fyrir því hvort greiðslur samkvæmt samningi fylgi verðlagsbreytingum og hvort gert sé ráð fyrir að samningsaðilum sé heimilt að óska leiðréttinga eða breytinga á greiðslum á samningstímanum og á hvaða forsendum slíkar leiðréttingar eða breytingar byggjast.

14. gr. Fyrirvarar í samningi.

Þegar um er að ræða verkefni þar sem ekki eru gerðar kröfur um kostnaðarsamar stofnkostnaðarfjárfestingar skulu fjárhæðir í samningum settar fram með fyrirvara um að lækki fjárheimildir í fjárlögum til viðkomandi málefnasviðs og málaflokks, sem hafi í för með sér breytta fjárveitingu til verkefnisins, beri samningsaðilum að taka upp viðræður um aðlögun verkefnisins að breyttri fjárveitingu.

Í samningi um rekstrarverkefni skal jafnframt taka fram að séu gerðar almennar aðhaldskröfur af hálfu ríkisins til tiltekinna málefnasviða á vegum þess sé heimilt að gera sömu kröfur til aðhalds í rekstri verkefna sem falla undir þá málaflokka hjá samningsaðila.

15. gr. Eigna-, afnota- og hugverkaréttindi.

Sé gert ráð fyrir að fara þurfi í umfangsmiklar stofnkostnaðarfjárfestingar skal í samningi gera grein fyrir hvernig fari um slíkar fjárfestingar við lok samnings.

Í samningi skal kveða á um rétt verkkaupa við lok samnings til áframhaldandi nýtingar, breytingar og aðlögunar á skrám, gögnum og hugverkum sem verða til við framkvæmd verkefnisins.

16. gr. Framsal samnings.

Í samningi skal taka fram hvort verksala sé heimilt að framselja öðrum aðila samninginn eða hvort verkkaupi setji sérstakar hömlur við slíku framsali.

Hafi val á viðsemjanda í upphafi byggst á hæfni, þekkingu eða reynslu, er meginreglan sú að slíkir samningar verða ekki framseldir.

Sé gert ráð fyrir framsali samnings skal áskilja samþykki verkkaupa áður en það tekur gildi.

17. gr. Samningstími.

Í samningi skal gera grein fyrir gildistíma hans í árum eða mánuðum. Samningstími skal lengstur vera fimm ár. Þó er heimilt að semja til lengri tíma, að fengnu samþykki Alþingis, ef verkkaupi gerir kröfu um að verksali komi sér upp kostnaðarsamri aðstöðu eða búnaði vegna verkefnisins.

Uppsagnarfrestur samnings skal stystur vera þrír mánuðir.

18. gr. Eftirlit með samningi.

Verkkaupi hefur eftirlit með framkvæmd samnings en getur falið það öðrum sé það tilgreint í samningi. Verkkaupi skal í samningi áskilja sér rétt til að kanna aðstæður á vegum verksala þar sem verkefnið er unnið og til að hafa aðgang að nauðsynlegum upplýsingum og gögnum um framkvæmd þess.

Í samningi skal tiltaka þær upplýsingar sem ætlast er til að verksali afli og skrái vegna verkefnisins og hvaða skýrslum honum beri ótilkvaddur að skila verkkaupa, a.m.k. árlega.

Í samningi skal auk þess vísað til heimildar Ríkisendurskoðunar til að krefjast tiltekinna reikningsskila af viðsemjendum ríkisins og þá skyldu sem á þeim hvílir til að afhenda Ríkisendurskoðun gögn sé eftir því leitað, sbr. lög um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016.

19. gr. Meðferð ágreiningsmála.

Í samningi skal kveðið á um meðferð ágreinings og þeim úrræðum sem gert er ráð fyrir vegna brota á samningsbundnum skyldum.

Sé um að ræða sérstaklega viðkvæma starfsemi skal skoða hvort rétt sé í samningi að gera ráð fyrir tímabundinni eða varanlegri yfirtöku verkefnis eða hluta verkefnis við vanefndir verksala á samningi.

20. gr. Samningslok - endurnýjun samnings.

Við lok samnings skal fara fram sérstök úttekt á vegum verkkaupa á framkvæmd samningsins þar sem metið skal hvernig til hafi tekist á samningstímanum.

Í úttektinni skal lagt heildstætt mat á árangur af framkvæmd verkefnisins á grundvelli þeirra mælikvarða um umfang, gæði og árangur sem skilgreindir eru í samningnum auk mats á hagkvæmni þess að framkvæma verkefnið með þessum tiltekna hætti.

Óheimilt er að endurnýja eða framlengja samning nema að úttekt á eldri samningi liggi fyrir. Slík úttekt skal lögð til grundvallar þegar tekin er ákvörðun um framhald verkefnis og áður en samningur er endurnýjaður.

V. KAFLI Hlutverk og ábyrgð.

21. gr. Verkkaupi.

Verkkaupi ber ábyrgð á undirbúningi og gerð samningsins og eftirliti með honum á samningstímanum. Hann sér um samskipti við verksala og hlutaðeigandi ráðuneyti á samningstímanum og ber ábyrgð á þeim skyldum sem hann hefur gengist undir með samningnum,
þ.á m. skilvísum greiðslum til verksala fyrir það verkefni sem samningur fjallar um.

22. gr. Verksali.

Verksali ber ábyrgð á framkvæmd samningsins með því að veita verkkaupa tiltekna þjónustu í því magni og af þeim gæðum svo og samkvæmt þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um. Hann skal einnig afhenda verksala þær upplýsingar og gögn sem samningurinn mælir fyrir um.

23. gr. Hlutaðeigandi ráðuneyti.

Hafi tiltekin ríkisstofnun séð um gerð frumathugunar skal hlutaðeigandi ráðuneyti taka afstöðu til efnis hennar og umfangs. Fallist ráðuneytið á frumathugunina ásamt þeim fjárhagslegu skuldbindingum sem verkefnið hefur í för með sér skal það koma henni til fjármála- og efnahagsráðuneytis ásamt formlegri ósk um heimild til samningsgerðar á grundvelli 7. gr. reglugerðar þessarar.

Fallist hlutaðeigandi ráðuneyti ekki á frumathugunina eða hinar fjárhagslegu forsendur sem að baki henni liggja hafnar það beiðni stofnunar með rökstuðningi.

Ráðuneyti skal, þegar óskað er heimildar til samningsgerðar, láta fjármála- og efnahagsráðuneytinu í té sérstaka greinargerð með frumathuguninni. Í greinargerðinni skal fjallað um tilefni og markmið samningsgerðarinnar, hvenær gert er ráð fyrir að útgjaldabreytingar falli til, samræmi samningsgerðar við forsendur fjármálaáætlunar og samræmi við fjárheimildir málefnasviðs og málaflokks í gildandi fjárlögum og fjármálaáætlun. Þá skal stuttlega gerð grein fyrir mati ráðuneytisins á því hvaða áhrif samningsgerðin hafi á forgangsröðun, stefnumótun og starfsemi innan málefnasviðsins.

Fallist fjármála- og efnahagsráðuneytið á hinar fjárhagslegu forsendur frumathugunar og veiti formlega heimild til að halda áfram undirbúningi rekstrarverkefnis ber hlutaðeigandi ráðuneyti og verkkaupi ábyrgð á því að aðferðir við val á samningsaðila, efni og framkvæmd þjónustusamnings sé í samræmi við gildandi lög og reglur og stefnu hlutaðeigandi málefnasviðs og málaflokks.

Raskist áætlun um kostnað, umfang eða verkframvindu eftir að heimild fjármála- og efnahagsráðuneytis var veitt til undirbúnings skal hlutaðeigandi ráðuneyti tilkynna fjármála- og efnahagsráðuneytinu það svo fljótt sem verða má enda hafi breytingin í för með sér útgjaldaaukningu. Hlutaðeigandi ráðuneyti skal jafnframt gera fjármála- og efnahagsráðuneyti grein fyrir hvaða áhrif slík umframútgjöld hafi á fjármögnun verkefnisins, sbr. 3. mgr. þessarar greinar.

Hlutaðeigandi ráðuneyti ber ábyrgð á að koma endanlegum samningi til fjármála- og efnahagsráðuneytis til samþykktar. Í samningi skal vera ákvæði um að hann sé undirritaður með fyrirvara um samþykki fjármála- og efnahagsráðuneytis.

Hlutaðeigandi ráðuneyti skal halda skrá um gerða samninga þar sem fram kemur árlegur kostnaður sem hlýst af þeim út samningstímann.

24. gr. Fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið fjallar um frumathugun um rekstrarverkefni eða framkvæmdarverkefni ásamt meðfylgjandi greinargerð og úttekt á eldri samningum sé um endurnýjun að ræða.

Rúmist útgjöld samnings ekki innan fjárheimilda þess málefnasviðs og málaflokks sem verkefnið fellur undir, tekur fjármála- og efnahagsráðuneytið afstöðu til þeirra breytinga sem lagðar eru til í greinargerð ráðuneytis um fjármögnun verkefnisins. Fallist það ekki á þær breytingar á fjármögnun verkefnisins sem lagðar eru til frestast samningsgerð þar til gerðar hafa verið viðeigandi ráðstafanir til að útgjöld vegna samningsins samræmist forsendum fjármálaáætlunar og fjárlaga.

Séu útgjöld og áhrif samningsins ljós og í samræmi við forsendur fjármálaáætlunar, þróun fjárheimilda og önnur hlutlæg markmið þeim tengdum eða hlutaðeigandi ráðuneyti breytir forgangsröðun verkefna sinna þannig að verkefnið rúmist innan fjárheimilda og áætlana veitir fjármála- og efnahagsráðuneytið formlega heimild til frekari undirbúnings samningsgerðar.

Telji fjármála- og efnahagsráðuneytið ekki efni til að veita slíka heimild eða setur tiltekin skilyrði fyrir áframhaldi verkefnisins skal slík ákvörðun send hlutaðeigandi ráðuneyti ásamt rökstuðningi fyrir þeirri niðurstöðu.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið samþykkir samninga eftir að þeir hafa verið undirritaðir af verkkaupa, verksala og hlutaðeigandi ráðuneyti enda séu þeir gerðir á grundvelli fyrri heimildar ráðuneytisins og innan ramma fjárheimilda. Samþykki fjármála- og efnahagsráðuneytis á samningi hefur ekki í för með sér aðild ráðuneytisins að samningnum né fyrirheit um auknar fjárheimildir til þess málaflokks sem verkefnið fellur undir.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur almennt eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar og getur í því skyni kallað eftir upplýsingum og gögnum frá ráðuneytum og stofnunum um einstök verkefni sem falla undir gildisvið hennar.

25. gr. Ríkiskaup.

Ríkiskaup annast innkaup fyrir ríkistofnanir og ríkisfyrirtæki, lætur í té aðstoð og leiðbeiningar og beitir sér fyrir samræmdum innkaupum og samningsgerð vegna rekstrarverkefna sem heyra undir reglugerð þessa. Stofnunin gerir rammasamninga fyrir hönd ríkisins og annast útboð á vegum ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja vegna innkaupa yfir viðmiðunarmörkum.

Sé eftir því leitað veitir Ríkiskaup fjármála- og efnahagsráðuneytinu umsögn um aðferðir við val á samningsaðila og um form og efni einstakra samninga á grundvelli reglugerðar þessarar.

Komi á samningstímanum upp ágreiningur um túlkun eða skilning á samningi og þeim skyldum sem hann mælir fyrir um veitir Ríkiskaup hlutaðeigandi ráðuneyti og verkkaupa ráðgjöf við lausn hans sé eftir því leitað.

VI. KAFLI Gildistaka.

26. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 67. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015 og öðlast þegar gildi.

Með reglugerð þessari fellur úr gildi reglugerð um samninga um rekstrarverkefni sem ráðuneyti og ríkisstofnanir gera til lengri tíma en eins árs, nr. 343/2006.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 1. júní 2018.

Bjarni Benediktsson.

Guðmundur Árnason.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.