Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 23. jan. 2022

Reglugerð með breytingum síðast breytt 7. jan. 2012

585/2011

Reglugerð um viðurkenningu á menntun og starfsreynslu til starfa í löggiltri iðn hér á landi.

1. gr. Markmið.

Einstaklingi, sem hefur aflað sér iðnmenntunar og áskilinnar starfsreynslu á því sviði sem menntunin nær til í einu af aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, er heimilt að stunda það starf hér á landi með sömu réttindum og skyldum og íslenskir ríkisborgarar. Sækja þarf um viðurkenningu til að gegna starfi til mennta- og menningarmálaráðuneytis. Við afgreiðslu umsóknar skal gengið úr skugga um að umsækjandi uppfylli skilyrði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB, eins og nánar er kveðið á um í reglugerð þessari.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir þegar lagt er mat á hvort ríkisborgari á Evrópska efnahagsvæðinu uppfyllir skilyrði um menntun og starfsreynslu til þess að gegna starfi í löggiltri iðn hér á landi.

Reglugerðin á einnig við þegar aðili óskar eftir að veita þjónustu á sviði sem fellur innan löggiltrar iðngreinar.

Heimilt er að beita ákvæðum reglugerðarinnar gagnvart ríkisborgurum annarra ríkja en aðildarríkja samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

3. gr. Réttur til starfa í iðngrein.

Ríkisborgarar eða lögaðilar aðildarríkja að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið hafa rétt til að starfa í iðnaði hér á landi á grundvelli skuldbindinga Íslands samkvæmt tilskipun 2005/36/EB, sem felur í sér viðurkenningu á menntun og starfsreynslu í iðnaði í öðru EES-ríki. Ekki felst í réttinum heimild til að kalla sig meistara eða svein án nánari tilgreiningar. Þá felst heldur ekki í réttinum sú heimild sem meistarar hafa til að veita löggiltri iðngrein forstöðu, taka nema eða vinna störf sem sérstaka löggildingu þarf til, nema slíkt felist í hverju einstöku tilviki í skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum. Mennta- og menningarmálaráðuneyti leggur mat á hvort framangreindar heimildir eigi við í hverju tilviki um sig.

4. gr. Umsókn vegna staðfesturéttar.

Sá sem óskar eftir að starfa á sviði löggiltrar iðngreinar hér á landi á grundvelli erlendrar starfsmenntunar sækir um viðurkenningu á menntun sinni og starfsreynslu til ráðuneytisins. Með umsókn skal leggja fram afrit af prófskírteini frá heimalandinu ásamt þýðingu þess þar sem fram kemur lengd náms og inntak, t.d. með upptalningu námsgreina. Þá skulu fylgja staðfestar upplýsingar um reynslu umsækjanda af starfi í þeirri starfsgrein sem hann hyggst stunda og staðfesting á réttindum viðkomandi í heimalandinu þegar svo ber undir. Umsækjandi skal staðfesta ríkisfang sitt með framlagningu vegabréfs.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti getur falið til þess bærum fræðsluaðila að liðsinna umsækjendum við að undirbúa umsóknina, og jafnframt að veita umsögn um erindið, sbr. 6. gr.

5. gr. Umsókn um leyfi til að veita þjónustu.

Sá sem óskar eftir að veita þjónustu á sviði löggiltrar iðngreinar hér á landi skal leggja fram umsókn þar að lútandi með líkum hætti og greinir í 4. gr. Skal hann gefa skriflega yfirlýsingu til mennta- og menningarmálaráðuneytis í samræmi við 5. gr. laga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 26/2010. Að öðru leyti gilda ákvæði þeirrar lagagreinar um afgreiðslu erinda er falla undir þessa grein.

6. gr. Umsagnir fræðsluaðila.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti skal afla umsagnar til þess bærra fræðsluaðila á viðkomandi sviði um þau gögn sem umsækjandi leggur fram með umsókn, m.a. til þess að ganga úr skugga um að starfið er um ræðir sé hið sama og óskað er eftir að stunda hér á landi. Ennfremur lýtur umsögn að því hvort iðnmenntun og starfsreynsla umsækjanda samsvari þeim kröfum sem skilgreindar eru í 17.-19. gr. tilskipunar 2005/36/EB, sbr. 1. gr. reglugerðar þessarar, og geta numið allt að þriggja ára námi í skóla auk þriggja ára starfsreynslu þegar lengd viðkomandi menntunar hér á landi er fjögur ár.

Ef ekki reynist unnt að afgreiða umsókn á grundvelli þeirra viðmiða skal lagt mat á hvort umsókn geti fallið undir almennt kerfi til viðurkenningar á vitnisburði um nám samkvæmt 10. gr. reglugerðar um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 879/2010.

Frestur til að veita umsögn skal vera eins skammur og auðið er, og ekki lengri en sex vikur.

7. gr. Uppbótarráðstafanir.

Heimilt er að krefjast þess að umsækjandi ljúki allt að þriggja ára aðlögunartíma eða taki hæfnispróf ef:

  1. sá námstími sem hann leggur fram vitnisburð um að hafa lokið er a.m.k. einu ári styttri en krafist er hér á landi,
  2. inntak þess náms sem hann hefur stundað, og sem sá vitnisburður um formlega menntun og hæfi tekur til, er verulega frábrugðið inntaki þess náms sem krafist er hér á landi,
  3. starfið sem er lögverndað á Íslandi nær til einnar eða fleiri tegunda lögverndaðrar atvinnustarfsemi sem er ekki að finna í samsvarandi starfi í heimalandi umsækjanda og sá munur birtist í sérstöku námi sem krafist er hér og er að inntaki verulega frábrugðið námi umsækjanda.

Umsækjanda skal veittur réttur til að velja milli aðlögunartíma og hæfnisprófs.

8. gr. Staðfesting sýslumanns.

Þegar umsögn mennta- og menningarmálaráðuneytis liggur fyrir staðfestir sýslumaður í því umdæmi er umsækjandi býr réttmæti framlagðra gagna og gefur út sérstakt leyfisbréf. Í leyfisbréfi komi a.m.k. fram: viðurkenning samkvæmt 2. gr. iðnaðarlaga á rétti til starfa hér á landi í tilgreindri iðngrein, nafn og kennitala rétthafa, útgáfustaður, útgáfudagur og undirskrift. Binda má viðurkenningu skilyrðum, m.a. takmarka hana til tiltekins tíma, ef þurfa þykir vegna nánari athugunar, eða gera fyrirvara um endurskoðun vegna nýrra upplýsinga.

9. gr. Afmörkuð viðurkenning.

Veita má afmarkaða viðurkenningu ef sú menntun og starfsreynsla sem umsækjandi hefur aflað sér samkvæmt framlögðum gögnum tekur aðeins til afmarkaðs sviðs löggiltrar iðnar hér á landi. Í slíkum tilvikum skal mennta- og menningarmálaráðuneyti gera nákvæma grein fyrir því hvað upp á vantar til þess að unnt verði að veita fulla viðurkenningu, m.a. með vísun til námsþáttalýsingar eða tilgreindra verkþátta.

10. gr. Vottorð um ástundun starfs.

Sýslumenn eða eftir atvikum önnur lögbær stjórnvöld skulu gefa þeim er leita starfsréttinda í öðru EES-ríki á grundvelli framangreindrar EB-gerðar tilskilin vottorð um það í hvaða iðngrein viðkomandi hafi starfað og hversu lengi. Er vottorð eru gefin skal leitast við að hafa hliðsjón af viðurkenndri lýsingu á viðkomandi iðngrein í EES-ríkinu sem ætlunin er að starfa í.

11. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 9. gr. laga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 26/2010, og öðlast þegar gildi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.