Prentað þann 26. des. 2024
580/2017
Reglugerð um slysavarnir og öryggisbúnað í höfnum.
Efnisyfirlit
- 1. gr. Markmið.
- 2. gr. Gildissvið.
- 3. gr. Yfirstjórn.
- 4. gr. Öryggisbúnaður.
- 5. gr. Hönnun hafna og öryggi.
- 6. gr. Stigar, landgangar o.fl.
- 7. gr. Öryggisbúnaður, björgunartæki o.fl.
- 8. gr. Lýsing.
- 9. gr. Geymslustaðir og aðgengi að björgunartækjum.
- 10. gr. Bryggjukantar.
- 11. gr. Merking öryggisbúnaðar.
- 12. gr. Kranar.
- 13. gr. Umferð.
- 14. gr. Þjálfun og eftirlit hafnarstarfsmanna.
- 15. gr. Áætlanir.
- 16. gr. Eftirlit, frestir til úrbóta og jafngildi.
- 17. gr. Kæruheimild.
- 18. gr. Brot.
- 19. gr. Breytingar á reglugerð nr. 326/2004 um hafnamál.
- 20. gr. Gildistaka.
1. gr. Markmið.
Markmið þessarar reglugerðar er að stuðla að slysavörnum og öryggi í höfnum.
2. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi tekur til hafna sem falla undir 1. gr. hafnalaga nr. 61/2003.
3. gr. Yfirstjórn.
Ráðherra fer með yfirstjórn hafnamála, nema annað sé ákveðið í öðrum lögum. Samgöngustofa annast framkvæmd og eftirlit samkvæmt þessari reglugerð.
4. gr. Öryggisbúnaður.
Til öryggisbúnaðar teljast t.d. lausir og fastir stigar, handrið, girðingar og hlið, ljós á hafnarmannvirkjum, símar, bjarghringir, krókstjakar, björgunarlykkjur, björgunarnet og annar búnaður sem miðar að því að koma í veg fyrir slys og nota má til bjargar.
Með hafnaryfirvöldum er í þessari reglugerð átt við eiganda eða stjórn viðkomandi hafnar eða annan þann aðila sem fer með forræði hafnarinnar.
5. gr. Hönnun hafna og öryggi.
Við hönnun og byggingu hafnarmannvirkja skal gert ráð fyrir uppsetningu öryggisbúnaðar og mannvirki þannig hönnuð að þeim sem um hafnir fara og þar starfa sé sem minnst slysahætta búin. Samgöngustofa ákveður hvort nægjanlegt tillit sé tekið til slysavarna við hönnun og byggingu hafnarmannvirkja og hvað teljist fullnægjandi öryggisbúnaður á hverjum stað og hefur eftirlit með slysavörnum og öryggisbúnaði.
Hafnaryfirvöld skulu sjá til þess að öryggisbúnaði í höfnum sé ætíð vel við haldið og hann nothæfur.
6. gr. Stigar, landgangar o.fl.
Allar bryggjur skulu búnar greiðfærum stigum. Óheimilt er að setja fríholt, dekk, belgi eða aðra hluti fyrir stiga að hluta eða öllu leyti. Einnig er óheimilt að festa landfestar, keðjur eða annað í stiga, festingar þeirra eða handföng þeim tilheyrandi.
Á föstum bryggjum skulu stigar ná a.m.k. 1,5 m niður fyrir stórstraumsfjöruborð og vera rauðgulir á lit (sbr. skilgreiningu lita í 11. gr.) a.m.k. 2,0 m niður frá bryggjubrún. Þó er heimilt að mála flöt jafnbreiðan stiganum a.m.k. 2,0 m niður frá bryggjubrún á þilplötu innan við stigann í fyrrnefndum lit.
Við stiga á föstum bryggjum skulu vera rauðgul handföng á eða í bryggjukanti til að auðvelda uppgöngu yfir kantinn. Staðsetning stiga skal auðkennd með rauðgulum lit á bryggjukanti þannig að sjáist alls staðar af bryggjunni.
Bil milli stiga á föstum bryggjum skal að hámarki vera 15 m. Stigana skal staðsetja þannig að öryggi sé sem best tryggt. Við hvern fastan löndunarkrana skal vera stigi innan 4 m frá snúningsmiðju kranans. Ljós skal vera efst í hverjum stiga, nema á flotbryggjum. Lýsingu á bryggjum skal hagað þannig að stigarnir sjáist greinilega, sbr. 8. gr.
Á flotbryggjum skulu stigar ná a.m.k. 1,0 m niður fyrir sjávarborð og annaðhvort almálaðir með rauðgulri málningu niður að sjávarborði eða staðsetning þeirra auðkennd með rauðgulum lit á a.m.k. 8 x 28 cm stórum fleti utan á bryggjubrún. Ef handrið stiga á flotbryggju nær ekki upp fyrir bryggjubrún skulu vera rauðgul handföng ofan á bryggjubrúninni til að auðvelda uppgöngu.
Á hvorri hlið flotbryggju allt að 20 m að lengd skal vera a.m.k. einn stigi sem næst miðju bryggjunnar. Auk þess skal vera einn stigi fyrir hverja byrjaða 15 m til viðbótar ef lengd bryggjunnar er meiri en 20 metrar. Bil milli stiga skal að hámarki vera 15 m á hvorri hlið flotbryggju. Stigana skal staðsetja þannig að öryggi sé sem best tryggt. Ávallt skal vera a.m.k. einn stigi á þeim endagafli flotbryggju sem fjær er landi. Á flotbryggjum með útstandandi fingrum (pöllum) sem mynda bátalægi skal vera a.m.k. einn stigi á flotbryggjunni í hverju bili milli fingra.
Flotbryggjur skulu hafa landfastan landgang með a.m.k. 100 cm háu handriði á báðum hliðum með hnélista í 50 cm hæð eða öðru sambærilega þéttu milliverki. Sambærileg handrið og hnélisti eða milliverk skulu vera á landstöpli fyrir landgang að flotbryggju. Heimilt er að hafa fastan stiga í stað landgangs ef flotbryggja fylgir sjávarföllum í stýringum þannig að bil á milli hennar og hafnarkants verði ekki meira en 30 cm.
7. gr. Öryggisbúnaður, björgunartæki o.fl.
Á hverri fastri bryggju með samfelldri viðlegu allt að 100 m að lengd skal vera a.m.k. eitt sett björgunartækja sem samanstendur af einum bjarghring, einum krókstjaka a.m.k. 6 m löngum og einni björgunarlykkju. Auk þess skal vera eitt sett slíkra björgunartækja fyrir hverja byrjaða 100 m til viðbótar ef lengd samfelldrar viðlegu er meiri en 100 m. Á fastri bryggju sem stendur í sjó fram með tveimur langhliðum telst aðeins önnur (lengri) hlið bryggjunnar til viðlegulengdar nema ef bryggjan er breiðari en 50 m, þá teljast allir kantar hennar til viðlegulengdar. Staðsetning björgunartækja skal vera sem næst miðsvæðis á þeim hluta viðlegu sem þau eru ætluð fyrir.
Ef umferð um bryggju er hindruð með læsanlegu hliði eða girðingu teljast svæði aðskilin eins og um fleiri bryggjur væri að ræða.
Fyrir hverja flotbryggju skal vera a.m.k. einn bjarghringur, einn krókstjaki a.m.k. 3 m langur og ein björgunarlykkja, staðsett innan 25 m frá landenda landgangs ef björgunartækin eru ekki á bryggjunni eða landgangi hennar.
Í stað björgunarlykkju er heimilt að nota björgunarnet eða annan sambærilegan viðurkenndan búnað. Krókstjakar skulu auðkenndir með rauðgulum lit sem skal þekja samtals a.m.k. þriðjung af lengd stjakans.
Þar sem farþegar fara í og úr skipi við fasta bryggju skal vera a.m.k. eitt sett björgunartækja, sbr. 1. mgr., á bryggjunni innan 25 m frá landgangi skipsins.
Þar sem farþegar fara í og úr skipi við flotbryggju skulu björgunartæki fyrir viðkomandi flotbryggju, sbr. 3. mgr., vera staðsett innan 5 m frá landenda landgangs bryggjunnar ef björgunartækin eru ekki á bryggjunni eða landgangi hennar.
8. gr. Lýsing.
Á hafnarsvæðum skal lýsingu þannig háttað að vinnu- og umferðaröryggi sé tryggt. Á vinnusvæðum t.d. þar sem lestun og losun fer fram og skipafarþegar fara um skal lýsing vera með 30 lux lágmarksljósstyrk. Lýsing á öðrum vinnusvæðum, t.d. gámasvæðum skal vera með 10 lux lágmarksljósstyrk og ljósstyrkur annars staðar á hafnarsvæðinu skal vera 5 lux að lágmarki. Tölur fyrir lágmarksljósstyrk skv. þessari grein eru meðaltalstölur.
Lýsingu skal mæla þar sem vinna fer fram í þeim fleti sem unnið er á.
Ljósum skal þannig fyrirkomið að lýsing trufli ekki sjófarendur.
9. gr. Geymslustaðir og aðgengi að björgunartækjum.
Björgunartæki sem getið er í 7. gr. skulu geymd á aðgengilegum og upplýstum stöðum, greinilega merktum með rauðgulum ferhyrndum fleti a.m.k. 1 m² að flatarmáli og stystu hlið a.m.k. 30 cm að lengd. Ekki þarf þó að merkja geymslustað björgunartækja flotbryggju með rauðgulum fleti ef þau eru geymd á bryggjunni, landgangi hennar eða innan 5 m frá landenda landgangsins. Þá er nægjanlegt að hafa festingar og geymslubúnað í rauðgulum lit. Ef björgunartæki eru á færanlegum öryggisstöndum (búkkum) nægir að hafa undirstöðuna í rauðgulum lit.
Geymslustaðir björgunartækja skulu vera vel sýnilegir alls staðar frá þeirri viðlegu sem þeir tilheyra. Óheimilt er að hindra aðgengi að björgunartækjum eða skyggja á þau og geymslustaði þeirra með vörum, fiskikörum, gámum, ökutækjum eða öðrum hlutum.
10. gr. Bryggjukantar.
Á hafnarsvæðum þar sem akfært er að sjó og fyrir verða bryggjur, viðlegur eða brattir kantar skulu gerðir minnst 20 cm háir kantbitar svo sterkbyggðir að þeir láti ekki undan ákeyrslu eða annar jafn sterkbyggður búnaður til að hindra útafakstur.
Bryggjukantar skulu málaðir að innanverðu með áberandi ljósgulum lit (sbr. skilgreiningu lita í 11. gr.) eða auðkenndir með gulum endurskinsmerkjum a.m.k. 7 x 50 cm að stærð sem komið er fyrir með 50 cm millibili milli merkja.
11. gr. Merking öryggisbúnaðar.
Allur öryggisbúnaður hafna skal merktur með samræmdum hætti. Bryggjukantar skulu vera málaðir í ljósgulum lit (RAL1026) eða merktir með gulum endurskinsmerkjum, sbr. 2. mgr. 10. gr. Merkingar geymslustaða björgunartækja, stigar, staðsetning stiga, handföng við stiga og krókstjakar auk festinga, geymslubúnaðar og öryggisstandar fyrir öryggisbúnað skulu vera í rauðgulum lit (RAL2004). Sé ekki kostur á að nota liti samkvæmt þessari málsgrein skal nota liti sem líkasta þeim.
Hindranir skulu málaðar með svörtum og gulum skáröndum. Stöðluð merki sem sett eru upp til frekara öryggis beri eigin lit.
12. gr. Kranar.
Löndunarkranar og hafnarkranar skulu vera skráðir lögum samkvæmt og skal um búnað þeirra og notkun fara eftir fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins.
Á bryggjubrún við löndunarkrana skal vera a.m.k. 1,5 m langt handrið, a.m.k. 100 cm hátt með hnélista í 50 cm hæð eða öðru sambærilega þéttu milliverki. Ef krani stendur á upphækkuðum stöpli sem stjórnandi hans stendur á skal vera sambærilegt handrið á brúnum stöpulsins.
13. gr. Umferð.
Hafnaryfirvöldum er heimilt í öryggisskyni að loka hafnarsvæðum fyrir allri óviðkomandi umferð. Hafnaryfirvöld skulu, eftir því sem við á, leita eftir samstarfi við viðkomandi lögregluyfirvöld um eftirlit með umferð á hafnarsvæðum.
Umferð um hafnarsvæði skal skipulögð þannig að sem minnst slysahætta stafi af henni fyrir þá sem um hafnir fara og þar starfa. Ökuleiðir skulu vera nægjanlega breiðar og greiðfærar og gönguleiðir yfir þær greinilega merktar.
Við op og gryfjur sem eru dýpri en 50 cm skal vera 100 cm hátt handrið með hnélista í 50 cm hæð. Við op, göt, jarðsig og aðra staði þar sem fallhætta hefur myndast vegna skemmda eða framkvæmda skal setja viðeigandi varnaðarmerki og hindranir þar til viðgerðum eða framkvæmdum er lokið.
Gáma, veiðarfæri, fiskikör, vörubretti, aðrar vörur eða búnað má ekki geyma á bryggju eða hafnarbakka nær brún sjávarmegin en 2 metra.
14. gr. Þjálfun og eftirlit hafnarstarfsmanna.
Hafnaryfirvöldum ber skylda til að sjá um að starfsmenn hafnar hafi hlotið kennslu og þjálfun í notkun þeirra björgunar- og öryggistækja sem eru á hafnarsvæðinu og geti lagt fram gögn því til staðfestingar.
15. gr. Áætlanir.
Hafnaryfirvöld skulu skipuleggja innra eftirlit með öllum þáttum þessarar reglugerðar í samráði við Samgöngustofu. Samgöngustofa ákveður tíðni innra eftirlits miðað við aðstæður. Starfsmenn Samgöngustofu skulu sannreyna virkni innra eftirlits hverrar hafnar einu sinni á ári eða oftar ef þörf þykir.
16. gr. Eftirlit, frestir til úrbóta og jafngildi.
Samgöngustofa hefur eftirlit með því að hafnaryfirvöld uppfylli skyldur sínar samkvæmt þessari reglugerð.
Samgöngustofa getur veitt hafnaryfirvöldum hæfilegan frest til úrbóta, enda verði það ekki talið rýra öryggi viðkomandi hafnar.
Samgöngustofa getur heimilað annað fyrirkomulag en leiðir af þessari reglugerð enda hafi hafnaryfirvöld sýnt fram á að slíkt fyrirkomulag sé að minnsta kosti jafn gagnlegt og það sem krafist er samkvæmt reglugerðinni.
17. gr. Kæruheimild.
Ákvarðanir Samgöngustofu á grundvelli þessarar reglugerðar eru kæranlegar til ráðuneytisins samkvæmt 18. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála. Um meðferð slíkra mála fer eftir stjórnsýslulögum.
18. gr. Brot.
Brot gegn ákvæðum þessarar reglugerðar varða refsingu samkvæmt 28. gr. hafnalaga nr. 61/2003.
19. gr. Breytingar á reglugerð nr. 326/2004 um hafnamál.
VI. kafli reglugerðarinnar fellur brott.
Við 11. gr. reglugerðarinnar bætist nýr töluliður, sem verður 6. töluliður, svohljóðandi:
6. Stofnkostnaður við slysavarnir sem tengjast hafnarmannvirkjum sem njóta ríkisstyrks er styrkhæfur. Vegagerðin ákveður hvað teljast styrkhæfar slysavarnir á hverjum stað.
20. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 2. mgr. 6. gr. hafnalaga nr. 61/2003 og 5. mgr. 2. gr. laga nr. 119/2012 um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 14. júní 2017.
Jón Gunnarsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.